Eiginmaður óskast

 

Líf einhleypra kvenna á vinnumarkaðnum er mjög spennandi sjónvarpsefni. Allmargar sápuþáttaraðir í sjónvarpinu snúast um konur og ástamál þeirra. Sú mynd sem þar er dregin upp er frekar einsleit. Söguhetjurnar búa oftast einar, eru yfirleitt barnlausar en eiga eitt eða fleiri sambönd að baki (hafa brennt sig á ástinni). Þær eru fallegar og vel vaxnar, oft á aldrinum 27-34 ára: hafa menntað sig og eru í góðu starfi en eru ekki of gamlar fyrir barneignir. En þrátt fyrir velgengni og glæst yfirborð er líf þessara kvenna ekki fullnað, það vantar karlmann inn í það. Þættirnir snúast því oft um leit að kærasta eða mannsefni, væntingar og vonbrigði af nýjum kynnum. Þær er orðnar leiðar á einlífinu og farnar að leita að lífsförunaut eða jafnvel óttast að þær gangi aldrei út.

Svo virðist sem kvenlögfræðingar höfði mest til þáttagerðarmanna – og sápuáhorfenda sem vel að merkja eru flestir konur. Hin sívinsæla Ally McBeal á Stöð tvö er ágætt dæmi, svo og konurnar í The Practice á Skjá einum. Lögfræðingsstarfinu fylgir jú virðing samfélagsins þar sem það byggir á kaldri skynsemi og rökhyggju (karllegum eiginleikum) en ekki tilfinningum (kvenlegir eiginleikar) – en kannski er það bara dragtin sem laðar: sambland hins karllega og kvenlega. Kvenlögfræðingurinn hefur náð umtalsverðum starfsframa og komið sér vel fyrir en það veitir henni hvorki fullnægju eða hamingju til lengdar. Myndarlegir karlmenn veita t.d. Ally McBeal ómælda athygli, bjóða henni út að borða og færa henni gjafir en hana er farið að langa svo mikið í alvörusamband – að deila lífinu með þeim rétta – að jaðrar við örvæntingu.

Það eru ýmis tilbrigði við þetta stef. Í Judging Amy búa þrjár kynslóðir kvenna undir sama þaki og dóttir Amyar dómara sést stundum eiga hugljúfar og lærdómsríkar samræður við móður sína á kvöldin. Hjá Amy er framinn í góðum höndum en ástamálin ganga brösulega. Hún er sjaldan tilhöfð, oftast í dómaraskikkjunni eða í hversdagslegum fötum enda búin að uppfylla móðurhlutverkið og enginn eiginmaður er sjónmáli. Beðmál í borginni eru enn eitt tilbrigðið. Þar segir frá fjórum konum í New York sem eru hver annarri fallegri, greindari og hæfileikaríkari. Ein er fræg fyrir skapandi skrif sín um beðmál en í lífi hennar eru þau ansi flókin (Carrie), önnur er forstjóri og reynir að komast yfir sem flesta karla (Samantha), sú þriðja er lögfræðingur og meðeigandi í stöndugu fyrirtæki (Miranda). Loks er það hin rómantíska Charlotte sem vinnur í listagalleríi og á þann draum heitastan að upplifa gamaldags hjónabandsdraum með demantshring á fingri. Þær eru allar frjálsar, fjárhagslega sjálfstæðar og lifa fjörugu kynlífi. Draumsýn þeirra er að finna ástina, hinn fullkomna karlmann, og lifa hamingjusamar upp frá því. Sá draumur virðist ekki ætla að rætast í bráð. Nýlega hóf Ríkissjónvarpið endursýningu á fyrstu þáttum Beðmálanna, áður en Marlboro og fatahönnuðirnir komust með puttana í fjármögnun þeirra, og sést þar vel að lítið hefur þeim stöllum miðað áfram.

Konur í kvöldsápum eru gáfaðar og glæsilegar, vinmargar og vel efnum búnar. Þær eru virkir gerendur í eigin lífi og engum háðar. En þrátt fyrir þetta upplifa þær sig í einhverju ófullnægjandi millibilsástandi og bíða þess með vaxandi óþreyju að komast í hefðbundið kynhlutverk aldanna sem mæður og eiginkonur. Eina mótvægið við þessa klisjulegu mynd af konum er breski skemmtiþátturinn Út í hött (Smack the Pony) á RÚV. Þar gera konur stólpagrín að sjálfum sér sem ástsjúkum konum í karlaleit og framakonum í vinnunni. Endalaus viðleitni þeirra til að vera gáfuð kyntákn er dregin sundur og saman í háði og engu/engri er hlíft.

Í gær, 8. mars, var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í hinum vestræna heimi hafa konur barist ötullega fyrir réttindum sínum alla síðustu öld og orðið nokkuð ágengt. Hlutdeild kvenna á vinnumarkaði þykir nú alveg sjálfsögð. Þær fá bara aðeins minni laun en karlar og bera áfram hitann og þungann af heimili og börnum. Eftir langan vinnudag, barnastúss, matseld og þvotta, hefst útsending sápuþáttaraðanna á öllum stöðvum. Þá er ljúft að geta hent sér í sófann, gengið á vit ungu og einhleypu kvennanna í sjónvarpinu og látið sig dreyma um ástina.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 9. mars 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s