Til varnar gagnrýninni  

Nú er mikið rætt í fjölmiðlum um hlutverk gagnrýnenda. Merkismenn eins og Arnar Eggert Thoroddssen, Þröstur Helgason og Jón Kalman hafa lagt orð í belg á síðum Morgunblaðsins og fjallað um kreppu gagnrýnandans frá ýmsum sjónarhornum. Fjölmargir skrifa gagnrýni hér á landi og dagblöðin eru iðin við að birta dóma eða umfjöllun um listir og bókmenntir; í t.d. Morgunblaðinu eru jafnan óralangir dómar um hina og þessa tónleika, leiksýningar og myndlistarsýningar um land allt. Allmargir skrifa um bókmenntir en þeim skrifum er nú aðallega legið á hálsi fyrir að vera slagorðakennd og klisjuleg, eingöngu innantómar upphrópanir, miðjumoð og lítt rökstutt lof eða last sem stjórnast af auglýsingamennsku og stöðnun. Gagnrýnin á gagnrýnina kemur frá gagnrýndendum sjálfum, rithöfundum og ritstjórum fjölmiðlanna – lesendur hafa lítið kvartað. Hlutverk bókagagnrýnanda hlýtur að felast í því að fjalla um skáldverk sem reyndur lesandi, segja álit sitt, bjóða upp á  túlkunarmöguleika, greina kost og löst o.s. frv. Hann velur ekki fyrir fólk hvað það á að lesa / kaupa og hvað ekki. Gagnrýnanda er treyst til að fjalla um bókina af þekkingu og innsæi og ber vitaskuld fulla ábyrgð á skoðun sinni en hann er einn lesenda og bókadómur lýsir ekki öðru en smekk, túlkun og lestrarreynslu hans sjálfs.

Í  blöðunum birtast bókadómarnir á færibandi yfir jólamánuðina. Í Morgunblaðinu er þeim þjappað saman í eitt grátt bókablað á viku en í DV eru þeir á sama stað alla vikuna, skemmtilega uppsettir og oft skreyttir litmyndum. Í Kastljósinu sitja þáttastjórnandi og bókmenntafræðingur saman yfir nokkrum bókum og ræða örstutt saman „enda tíminn að hlaupa frá þeim“ og sú umræða endar í fáránlegri hnotskurn, stimpli eða brennimarki sem bókin ber að eilífu. Eða hvað? Er það svo að bækurnar sem fá góða dóma séu endilega þær sömu og mest eru seldar og lesnar og bækur sem fá vondan eða engan dóm liggi óbættar hjá garði? Hvað segja útlánstölur bókasafnanna? Er sleggjudómur endilega dauðadómur? Má ekki gera ráð fyrir að hinn almenni lesandi hafi dómgreind til að meta slíkt sjálfur?

Vissulega má til sanns vegar færa að form bókadóma í fjölmiðlum nútímans sé stirðnað eins og gagnrýnendur gagnrýnendanna hafa bent á. Þar mætti áreiðanlega stokka spilin og gefa upp á nýtt. En kreppa tungumálsins hrjáir gagnrýnendur eins og annað fólk og óvíst hvort annað form breytti þar nokkru um. Sú var tíðin að Kolbrún Bergþórsdóttir, Illugi Jökulsson og Jón Viðar Jónsson gagnrýndu af gríðarlegri hörku og stimpluðu stjörnur og hauskúpur í erg og gríð. Nú eru þau öll komin hinumegin við borðið og Kolbrún m.a.s. orðin búktalari fyrir Jón Baldvin og segist aldrei ætla að gagnrýna meir. Hvað varð um verkin sem þau lofuðu eða löstuðu? Lifðu þau eða dóu? Gagnrýnendur hafa vissulega áhrif og völd en það nær ekki yfir dómgreind almenns lesanda. Það má aldrei gleymast að listin stendur hvorki né fellur með upphrópunum í dægurmiðlum, heldur í nið tímans. Þegar upp er staðið eru það viðtökur lesenda um borg og bí sem ráða mestu um framhaldslíf jólabóka og bókmennta yfirleitt. Kjarni málsins sá að þrátt fyrir alla lummulegu ritdómana sem hellast inn í bókaflóðið er það viðtakandinn – hinn almenni lesandi – sem er Gagnrýnandinn eftir allt saman.

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 18. desember 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s