Breskar náttúru- og dýralífsmyndir hafa löngum verið vinsælt sjónvarpsefni enda jafnan metnaðarfull hágæðaframleiðsla. Hugdjarfir þáttagerðarmenn og hámenntaðir líffræðingar hafa lagt á sig erfið ferðalög til heitra landa, hlaðnir filmum og myndavélum, til að geta grafið sig í einskonar neðanjarðarbyrgi vikum og mánuðum saman eða komið sér fyrir hátt uppi í tré til að taka myndir af framandi dýrum sem annaðhvort vita ekki af návist þeirra eða hafa vanist henni. David Attenborough er sennilega einn frægasti frumkvöðullinn á þessu sviði. Hann boðar að hver einasta lífvera sé undursamleg þar sem hann brýst fram úr skógarþykkninu móður og másandi, sólbrenndur á enninu og nýstraujuð khakískyrtan límist við hann.
Ríkissjónvarpið hefur oft tekið til sýninga vandaða BBC-fræðsluþætti í þessum dúr. Nú er þáttaröð um risaeðlurnar sem sýnd hefur verið á þriðjudagskvöldum nýlokið. Þetta eru einstaklega vandaðir þættir sem unnir eru með nýjustu tölvutækni – þeir eru svo tæknilegir að gerðir voru sérstakir þættir um gerð þáttanna. Stórvaxnar og grimmdarlegar risaeðlur spranga um sanda og skóga eins og ekkert sé, þyrla upp ryki, gusast í vatni og slíta í sig blóðug kjötstykki alveg eins og í alvöru dýralífsmynd. Forsögulegar skepnur hinna vönduðu tölvuteiknuðu sjónvarpsþátta eru einhvern veginn átakanlegri og sorglegri en raunverulegu dýrin sem fylgst er með í lífi og dauða í myndum Attenboroughs. Þær eru frummyndir, uppkast eða drög en sitthvað í hönnun þeirra frá hendi skaparans olli því að þær eru ekki meðal okkar í dag sem kunnugt er. Líf þeirra einkenndist af að berjast fyrir tilvist við aðstæður sem þær réðu ekki við og voru dæmdar til að tapa. Upp kemur sú spurning af hverju ráðist sé í svona þáttagerð sem er örugglega tímafrekari og kostnaðarsamari en ferðalög á heimaslóðir alvörudýra. Höfum við kannski séð öll núlifandi dýr? Eða erum við orðin leið á þeim? Eða vantar meiri tilþrif og tækni í venjulegar náttúrulífsmyndir?
Bygging náttúrulífsmynda og -þáttaraða er afar hefðbundin og risaeðluþættirnir eru engin undantekning. Oftast er fylgst með einu dýri eða einni fjölskyldu um nokkurra mánaða skeið. Sagan hefst í bernsku dýrsins, með eggi eða hvolpi sem foreldrar annast og vonast til að koma á legg. En frumskógalögmálið ræður og örlög systkina og jafnvel foreldranna eru þau að verða málsverður stærri og grimmari dýra. Áhorfendur fylgjast síðan með hegðun og atferli dýrsins útvalda, veiðum og mökun á grösugum sléttum, glímu við óblíð náttúruöfl og gjarnan er fjallað um þá hættu sem dýrategundinni stafar af manninum, grimmasta rándýri jarðarinnar. Rödd þularins er þægilega ópersónuleg, lífsreynd og lætur vel í eyrum en umfram allt sannfærandi og traust. Myndinni lýkur síðan annaðhvort á því að dýrið verður að lúta í gras fyrir óvinum sínum og hefur þar með gegnt hlutverki sínu sem hlekkur í fæðukeðjunni eða lifir af og stofnar eigin fjölskyldu. Hringrás lífsins heldur því stöðugt áfram og jafnvægi ríkir í náttúrunni. Hnarreist dýrin ber við sólarlagið á skjánum sem firrtur nútímamaðurinn situr við. Hann hefur fyrir löngu sagt sig úr lögum við náttúruna og horfir aðallega á hana í sjónvarpinu – orðinn sjálfur að einskonar átakanlegri og illa hannaðri risaeðlu sem er úr öllu samhengi við umhverfi sitt en ber aðeins dauðann og útrýminguna í sér.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 19. júní 2001