Sætkartöflusúpa Heiðrúnar

Ég elska heitar og heimagerðar súpur. Fékk þessa fínu súpu hjá Heiðrúnu minni á Þórshöfn í sumar. Prófaði að elda hana hér í borginni en átti ekki alveg allt sem átti að vera en kona bjargar sér og nennir ekki útí búð eftir e-u smáræði. Súpan endaði svona:

1-2 sætar kartöflur, 1 l vatn, 1-2 laukar, 3-4 hvítlauksrif, 1 rauð paprika og/eða hálft epli, 1 msk grænmetiskraftur, salt og pipar, safi úr sítrónu eða límónu, duglega cummin, chiliduft og smá kanill

Sætu er flysjaðar, brytjaðar og soðnar í vatni þar til þær eru mjúkar. Vatninu hellt af. Hitt grænmetið steikt á pönnu í kryddinu. Allt sett saman og 1 l af vatni bætt í. Malla bara nógu lengi og mauka síðan með töfrasprota – það geri ég annars aldrei við súpur en þessi er góð svona mjúk og kremuð. Bæta svo við rjóma/hafrarjóma. Skreyta með steinselju og rjómataumi ef vill. Gott að hafa kaldhefað brauð með, það fékk ég hjá frænku! Brauðið á líka rætur til Þórshafnar, sjá hér söguna af því.

SVEFN

eftir Vilhjálm frá Skáholti

Hann kom svo þreyttur, þetta var um kvöld,
er þögull skugginn gamalt húsið vafði,
því það var haust, og mjöllin, mjöllin hvít
sinn mjúka feld á gluggann okkar lagði.

Svo var hans auglit dularfullt og dimmt,
sem dáinn vœri endur fyrir löngu,
án festu og kjarks sem þjáðum hug er hent,
að hafa með á lífsins píslargöngu.


Hann missti eitthvað innst úr hjartarót,
sem öllum stundum lífið hetju geymir,
Og sefur enn svo undur rótt sem fyr,
og allt er hljótt í kringum mann sem dreymir.


Hann, þessi maður, átti yfir fjöll
að arka um nóttu fyrir þjáða lýði,
en hversu bljúgur svefninn seig á brá,
var sorgleg upþgjöf manns i þeirra striði.


Sjá, langt i burtu, bak við myrkvuð fjöll
hans biða hjörtu stöðugt þjáð, og sakna.
Og hvað mun þá um þau sem biða hans,
ef þessi maður skyldi aldrei vakna?

Vinnan, 1948

Að burðast með sögu sína

Titill skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti, frá árinu 2015, gefur til kynna eitthvað afdrifaríkt. Hann er lokahrinan, þegar uppsafnaðir kraftar brjótast út, eftir hann er allt breytt, kannski horfið eða hrunið. Eins og í tilfelli Sögu en hún rankar við sér eftir heiftarlegt flogakast og man sáralítið út lífi sínu. Hún fetar sig hikandi í gegnum óminnið og kemst brátt að því að hún er nýskilin við rithöfundinn Berg og þau eiga einn son, Ívar. Hún hefur alist upp við drykkju og ofbeldi föður síns sem steyptu fjölskyldunni í ógæfu. Síðan þá grúfir sorgin yfir og aldrei grær um heilt; ótti, meðvirkni og bæling hvíla á öllum eins og mara. Kvikmynd eftir bókinni er komin í bíó.

Sjúk sambönd

Í slíkum fjölskyldum verða til sjúk sambönd milli fólks.  Duldar reglur verða til um hlutverk hvers og eins, hvað má segja og hvað ekki í brengluðu samskiptamynstri sem allir mótast af. Auður hefur áður fjallað um þetta efni af raunsæi, innsæi og list, s.s. í Fólkinu í kjallaranum (2004) og Ósjálfrátt (2012).

Þegar Saga kemur til baka úr floginu og hefur glutrað niður reglunum og mynstrinu sem hafa stjórnað samskiptum í fjölskyldunni fer allt á hvolf. Viðbrögð hennar t.d. við  hvarfi móðu sinnar sem Saga upplifði sem barn eru önnur en hinir eiga að venjast sem veldur tortryggni en skapar um leið mögulegt svigrúm fyrir lausnir og uppgjör.

Saga hefur alltaf upplifað sjálfa sig sem fyndna og klára konu sem hristir af sér vandamálin (110) og krækir framhjá öllu því óþægilega en eftir skjálftann er hún vanmáttug og ráðalaus og líður eins og líf hennar hafi verið fáránlegt. Hún hefur algjörlega misst fótanna og finnst hún vera að sligast undan þunga eigin tilveru (226). Sjálf vill hún ekki brjótast úr hlutverki sínu og raska venjum fjölskyldunnar, hún reynir að leyna minnisleysinu fyrir sínum nánustu og breiða yfir misfellurnar af gömlum vana, sem skapar skrautlega atburðarás.

Syndir feðranna

Sagt er að syndir feðranna komi niður á börnunum og það gera þær svo sannarlega hér. Pabbi Sögu var yfirgefinn, ástlaus og vanræktur í æsku og bar þess aldrei bætur. Mamma hennar átti þunglyndan og fálátan föður og móður sem drekkti sér í vinnu og stjórnaði með augnaráðinu einu saman. Marvaðinn er troðinn endalaust í límkenndu minni aldanna og spurt er hvort nokkurrar undankomu sé auðið (177). Saga sjálf á í flóknu ástar-/haturssambandi við foreldra sína sem eru sligaðir af áralangri þöggun og bælingu og hvað bíður Ívars litla ef vítahringurinn er ekki rofinn? Hún þurfti svo sannaralega á því að halda að missa minnið til þess að muna (225).

Drekinn

Í verkinu eru margir þræðir spunnir. Einn þeirra er hlutverk mannsheilans við varðveislu minninga. Svokallaður dreki (hippocampus) er talinn sjá um að flokka minningar í eins konar gagnabanka en þegar Saga reynir að sækja upplýsingar þangað og púsla tilverunni saman á ný valda erfiðu minningarnar hræðilegum höfuðverk, fortíðin bankar upp á og sýnir enga miskunn enda löngu komið að skuldadögum.

Í skáldsögu Stine Pilgaard sem heitir Mamma segir (2012) er fengist við höfnun, uppeldi og ástarsorg og meginuppistaða hennar er langir og ljóðrænir kaflar um drekann (í líki sæhests) og hlutverk hans í minningasafninu. Skemmtileg tilviljun. Það verður sífellt áleitnara í samtímaskáldskap að fjalla um minni og minningar, grafast fyrir um fortíðina, uppeldið og áhrif þess á sjálfsmynd og tilvist manneskjunnar.

Gömul reiði

Annar þráður verksins er flogaveikin sem er lýst sem árásarmanni og nauðgara, sem liggur í leyni og getur ruðst fram hvenær sem er til að taka stjórn og koma fram vilja sínum. Og ástin er enn eitt umfjöllunarefnið, en gengur hún ekki út á að safna góðum minningum og skapa nýjar? Eða gengur hún út á erfiðar minningar sem fólk á sameiginlegar? Gömul reiði er versti óvinur ástarinnar og það sannast í samskiptum Sögu og Bergs , sjúklegur ótti hennar um soninn á rætur að rekja til fjölskylduhörmunganna sem hún upplifði sem barn og hafa aldrei verið gerðar upp. Saga er stjórnsöm og bitur og pirrast endalaust á manninum sínum sem á endanum gefst upp á henni.  Eftir stóra skjálftann man Saga aðeins góðu stundirnar með Bergi en það er sorglega augljóst að arfurinn úr uppeldinu hefur fylgt henni og eyðilagt sambandið.

Stóri skjálfti kraumar af sárum tilfinningum sem umlykja orð og athafnir persónanna sem eru vanar að dylja það sem þeim býr í brjósti. Við vinarþel gjósa þær og streyma fram, það lætur engan ósnortinn:

…Það skiptir ekki máli héðan í frá. Þú gerðir það sem þú gast.

Hún horfir vantrúuð á mig.

Ég er viss um það, segi ég.

Þú getur ekki verið viss, segir hún og kæfir grát í fæðingu.

Þú passaðir mig alltaf, bæti ég við, sjálfri mér að óvörum og finn þakklæti leysa upp kökkinn í hálsinum. Ekki gleyma því!

Hún brosir feimnislega meyr en það þyrmir jafnóðum yfir hana.

(203)

Gjöf og gjald

Minnisleysi getur verið bæði gjöf og gjald, í gleymskunni er maður alltaf nýr og ferskur og eins og laus undan oki en um leið einhvern veginn úr samhengi og týndur. Það er ögrandi viðfangsefni í skáldskap að koma hlutlaus að málum og hafa annað sjónarhorn og minningar en aðrir og ekki síður að velta upp spurningum um hvernig mörkum minninga og ímyndunar er háttað.

„Nú veit ég að allt sem ég hef gleymt hefur gert mig að mér, ég er summan af eigin gleymsku. Og ég held áfram að gleyma, það styttist í að ég gleymi sjálfri mér. En óminnið getur aldrei eytt því sem gerðist, atburður lifir í eftiröldum sínum og ást sem eitt sinn var, hún var, og það sem var, það verður. Söknuðurinn er sönnun þess. Þá hlýtur veröld mín að vera eitthvað meira en skáldskapur…? (230)

Sagan stefnir að óumflýjanlegu uppgjöri sem sviðsett er með áhrifamiklum réttarhöldum. Sögulokin eru opin til túlkunar, stefnir í Sögulok. Stóri skjálfti er vel skrifuð saga um áleitið efni, um raunverulegt vandamál, upplausn og lífsháska. Erum við ekki öll að burðast með okkar eigin sögu, áföll og fjölskyldudrama, í leit að merkingu og sátt í trylltum heimi?

(Á smekklegri bókarkápunni sem Lubbi hannar er heilalínurit höfundarins sem minnir helst á plötuumslag Joy Division, Unknown Pleasures, söngvari þeirrar hljómsveitar var flogaveikur…)

Birt fyrst í Kvennablaðinu.


Frægðarturnar minninganna

„Það var þegar heill hópur af Reykjavíkurstrákum voru að skrifa bækur um reynslu sína af því að vera sendir í sveit, endalausar karlasögur fóðraðar með sjálfsánægjunni af því að vera strákar úr sveitaborginni Reykjavík, mættir galvaskir á ritvöllinn til að byggja sér frægðarturna úr minningum sínum af skrýtnu sveitafólki og hvernig þeir hefðu nú orðið að státnum, stæltum og vel gefnum karlmönnum af þrældómnum í sveitinni hjá hyskinu sem þar bjó. Það var þá sem mér datt í hug að gaman væri að skrifa bók um hvernig það var að vera sveitastelpa, lét þó aldrei verða af því.“

Þórhildur Ólafsdóttir, Efndir (50)

Ástarljóð til fyrrverandi

Myndlistarkonan og þýðandinn Guðrún Svava Svavarsdóttir (f. 1944) sendi árið 1982 frá sér ljóðabókina Þegar þú ert ekki, en þema hennar og umfjöllunarefni er skilnaður við skáldið Þorstein frá Hamri. Ljóðabókin er fallega upp sett, á sérlega fallegum pappír, hún er þrungin söknuði og skreytt sársaukafullum myndum höfundar.

Guðrún Svava hefur haldið námskeið og myndlistarsýningar, gert leikmyndir og myndskreytti m.a. Ljóðasafn Þorsteins frá Hamri 1984 og Urðargaldur 1987. Einnig myndskreytti hún Örvar-Odds sögu í útgáfu Þorsteins, Laxdælu í útgáfu Halldórs Laxness, þjóðsögur í útgáfu Hrings Jóhannessonar og Þorsteins, Búrið eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og tvær ljóðabækur Steinunnar Eyjólfsdóttur.

Yrkja mig frá angri

Um bókina, Þegar þú ert ekki, segir Guðrún Svava í viðtali í Helgarpóstinum, 17. desember 1982:

„Það er hægt að líkja þessu við að eignast barn í fyrsta sinn, Þarna er eitthvað nýtt að fæðast, sem maður hefur átt þátt í að gefa líf og það er mjög góð tilfinning“. Þannig lýsir Guðrún Svava Svavarsdóttir myndlistarmaður því hvernig það er að sjá sína fyrstu bók á prenti… Guðrún Svava segir, að samning bókarinnar hafi verið tilfinningaleg útrás fyrir hana. „Ég var að yrkja mig frá angri“, segir hún. Í bókinni tekur hún fyrir tilfinningar sínar og upplifun á tímabili í lífi sínu, þegar hún kemst að því, að maður hennar er í tygjum við aðra konu, og eftir að hann er farinn að heiman. Er hún ánægð með bókina? „Já, ég er ánægð með hana sem verk eða sem hlut. Hún er mjög nálægt því að vera eins og ég vildi hafa hana. Mér finnst þeir ekkert hafa til sparað hjá Iðunni og það hefur verið mjög skemmtilegt að vinna með þeim. Mér finnst þetta falleg lítil bók og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gera hana þannig“ segir Guðrún Svava.“

Ástarljóð til fyrrverandi

Í viðtali við Guðrúnu Svövu í Morgunblaðinu frá 8. október 1982 segir m.a.:

„Guðrún Svava býður upp á rótsterkt og gott ítalskt expressokaffi og við spyrjum hvort hún hafi fengist við skriftir áður. „Nei, ekkert komið nálægt því, orti að vísu eitthvað þegar ég var stelpa, eins og allir gera.“ Guðrún er þekktari fyrir myndverk sín en Ijóðagerð og hefur meðal annars unnið talsvert við leikhúsin, teiknað leikmyndir og búninga. „Þessi Ijóð fjalla um tilfinningar mínar í gegnum visst skeið í lífinu. Það má kannski segja að þetta séu ástarljóð til mannsins míns fyrrverandi, en Ijóðin eru ort á síðastliðnu ári.“ Guðrún segir að meðan hún hafi verið að ganga í gegnum mestu erfiðleikana í sambandi við sambúðarslit þeirra hjóna hafi hún ekkert getað unnið í myndlistinni en svo hafi þessi Ijóð brotist í gegn.

Konur gefa oft meira af sér

„Það er ekki nokkur vafi að þetta hefur hjálpað mér í gegnum erfiðan tíma. Þar sem þau fjalla um persónulega reynslu mína hafa sumir spurt hvers vegna ég haldi þessu ekki bara fyrir mig. En ég hef alltaf sem listamaður unnið mikið með tilfinningar, bæði mínar og minna nánustu þó ég hafi að þessu sinni breytt um form, og hef oft unnið myndverkin á táknrænni hátt. Ég held líka að þessi Ijóð eigi erindi til annarra sem standa í svipuðum sporum eða hafa lent í svipaðri lífsreynslu.“ Hún segir að sér finnist skilnaður vera allt of algengur þáttur í lífi okkar í dag ásamt allskyns framhjáhöldum og lausung. „Ég held að skilnaður sé oft mesta persónulega skipbrot sem nokkur getur orðið fyrir og oft miklu erfiðara fyrir konur að skilja en karla því þær hafa oft gefið miklu meira af sér í sambandinu.“

Fólk upptekið af að neyta

Og hún heldur áfram og segir að sér finnist fólk oft hömlulaust, bæði efnahagslega og tilfinningalega. „Fólk er of upptekið af því að neyta allra hluta, það heldur að það verði hamingjusamara ef það eignast nýjan bíl eða nýjan maka, en það er löngu vitað að það er ekki rétta leiðin. Það sem skiptir fólk mestu máli býr í því sjálfu, hæfileikinn til að elska og gefa eitthvað af sér. Það er margt svo mótsagnakennt í lífinu, menn virðast t.d. stundum halda að frelsi felist í því að gera allt sem manni dettur í hug, en ég held menn verði ekki frjálsir nema með því að temja sér ákveðinn sjálfsaga.“

Brot úr ljóðabókinni:

Hún benti á þig:

Ég vil hann.

Og ást mín varð gömul.

Það er þungbært –

að hafa í fimmtán ár

reynt að gæta þess að þú fengir frið til að skrifa

reynt að styrkja þig á erfiðum stundum

reynt að sjá til þesss að þú glataðir ekki alveg

börnunum þínum fimm –

að vera kastað burt einsog einskis nýtu húsgagni.

Aldrei framar mun ég treysta mönnunum

né hrífast af fegurð landsins.

Aldrei framar.

Birtist á skáld.is, 7. mars 2021

Endalaus hamingjugleði

Strendingar, skáldsaga eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur, kom út í lok síðasta árs. Ekki er titillinn sérlega lokkandi né eiturgul bókarkápan en innihaldið er þeim mun betra. Eins konar íslensk Bonusfamilje sest að á Stapaströnd, litlu plássi fyrir norðan, og ýmislegt gerist þar sem getur svo auðveldlega gerst í alvörunni. Þetta er raunsæ saga um líf fólks í samtímanum, drauma þess og ógnir, en venjulegt líf stendur alltaf tæpt og getur farið á hvolf af minnsta tilefni.

Eva Guðrún er harðjaxl – eða þykist vera það – með ríka réttlætiskennd. Hún rís gegn feðraveldi og kirkju í þorpinu og fær svo sannaralega að finna til tevatnsins – bókstaflega því hún er sett í kaffibann heilsu sinnar vegna. Maður hennar er Pétur, ekki sá klettur sem nafnið gefur til kynna, heldur sveimhugi með skáldagrillur sem getur auðveldlega kúplað sig frá öllu og lagst í freyðibað með hljóðbók. Hann á að baki slóð misheppnaðra tilrauna til að láta drauma sína rætast því hann skortir úthald og frumleika. Foreldrar hans voru klettar, þau Berg-ur og Stein-unn sem búa í sveitinni, en þeirra bíður bara glötun eins og alls sem þeirra kynslóð stendur fyrir. Silja er bráðum 15 ára dóttir Evu og á vonlausan pabba, hún spilar tölvuleiki og er skáld á kafi í öllu unglinga- og kærastatráma sem hugsast getur. Steinar er miðjubarnið, í fyrsta bekk og hegðun hans er viðfangsefni sálfræðinga. Tveir málleysingjar, Olla yngsta barn enn á brjósti og kötturinn Sahure/Mjálmar, hafa líka rödd í sögunni en raddirnar skiptast á, hver fjölskyldumeðlimur á sinn kafla, sitt málfar og sína sýn á hlutina. Líka afinn Bergur sem þjáist af alzheimer og flytur inn á fjölskylduna til að toppa allt.

Saman böðlast Eva og Pétur í gegnum áföllin sem á dynja og standa sterkari á eftir, svo virðist sem börnin muni líka komast nokkuð heil frá atburðunum sem setja allt á annan endann á því hálfa ári sem sögutíminn spannar. Strendingarnir eru eins og hver önnur íslensk nútímafjölskylda sem stendur frammi fyrir alls konar vandamálum. Sagan er vel skrifuð, skemmtilega margradda með húmorinn í botni og beinir líka spjótum að samfélagi okkar. Viðfangsefnið er harmur manna en ekki engla, hverful og brothætt tilveran er efni í hressilega sjónvarpsseríu.

„Ég hefði ekkert á móti því að öskra á einhvern, fyrst þessi heimsókn snerist svona í höndunum á mér. Kannski ég byrji á því að öskra á Steinar fyrir að ljúga og fyrir að hrekkja önnur börn, svo öskra ég á Silju að drulla sér úr tölvunni og hreyfa sig og læra heima og hætta að verja þennan aumingjapabba sinn, ég gæti öskrað á Pétur fyrir það hvað við erum glataðir foreldrar, fundið einhverja leið til að kenna honum alfarið um ástandið á Steinari, ég hlýt að geta það. Mögulega gæti ég öskrað á Ollu fyrir að vilja endalaust drekka alla helvítis nóttina. Að sjálfsögðu myndi ég öskra á tengdapabba að hætta að reyna að kyssa mig með stingandi broddunum sínum og ógeðslegu gömlukarlarakspíralyktinni.

Það verður gleði.

Það verður endalaus hamingjugleði.“

(177-8)

Birt á skáld.is, 13. febrúar 2021

„Vertu alltaf hress í huga“

Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem kallaði sig Erlu, var ómenntuð alþýðukona, öndvegis ljóðskáld og einnig þýðandi. Glataðu spælimenninir eftir Heinesen heitir í þýðingu Erlu Slagur vindhörpunnar (1956). Þessa bók þýddi einnig Þorgeir Þorgeirson árið 1984 en skáldsagan nefndist þá Glataðir snillingar. Einhver þarna úti sem hefur borið þýðingarnar saman? Af hverju valdi Þorgeir að endurþýða bókina? Er þýðing Erlu síðri?

„Þessi einstaka skáldkona þýddi líka mörg merkisverk úr ensku og Norðurlanda-málunum, og er hin undurfagra bók, Slagur Vindhörpunnar, eftir færeyska skáldið William Heinesen, eitt merkra þýðingarverka hennar og kom út hér á landi, árið 1956. Hvernig Erlu tókst að afkasta öllu þessu í erli daganna, ber glöggt vitni magnaðrar konu. Hún safnaði ljóðunum sínum árum saman og orðin vel fullorðin þegar fyrstu ljóðin tóku að birtast. En fallegt og glæsilegt ritsafn verka hennar, kom út árið 2013, útgefið af Félagi austfirskra ljóðaunnenda“ (Draumasetrið Skuggsjá).

Eitt af kvæðum Erlu hljómar svo:

Kvöld í sveit

Hofsá rennur hægt að sævi,

hvamminn fyllir nið.

Fuglakvak í kjarri rýfur

kvöldsins þögn og frið.

Kvæði eitt frá 1937 er mjög hressandi og flytur með sér baráttuanda:

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því, að þér á herðar

þyngri byrði’ ei varpað er

en þú hefir afl að bera.

Orka blundar næg í þér.

Móðir Erlu var skáldmælt og sjálf var hún móðir Þorsteins Valdimarssonar, skálds og kennara, sem kunnur var fyrir limrur sínar.

Allmikið af skemmtilegu og dýrmætu efni með rödd Erlu/Guðfinnu Þorsteinsdóttur

s.s. kvæði, rímur og þulur og frásagnir, er að finna á ísmús.

Birt á skáld.is, 26. apríl 2021

Sögur að handan

Trúir þú á framhaldslíf? Að tilgangur sé með þessu jarðlífi? Að til sé endurholdgun, karma, eilíft líf? Þá ættir þú að gefa gaum að bók sem ber heitið Smásögur að handan (2017) eftir Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.

Bókin inniheldur 10 smásögur sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um líf handan þessa heims. Höfundur er hugmyndaríkur og mikill húmoristi. Leonardo da Vinci flytur inn í raðhús á Selfossi og kynnust Emblu litlu, eigandi Galdrabókar Sæmundar fróða kynnist ástinni, hinn lífsleiði Drakúla greifi fer til geðlæknis og erkiengillinn Raziel sýnir enga miskunn. Í eilífðinni rætast draumar, kærleikur umlykur allt og „hvert andartak hefur eilífa vídd og við getum komið hingað aftur og aftur af fúsum og frjálsum vilja á hvaða öld sem er“ (53). Ingibjörg Elsa virk á samfélagsmiðlum og „heldur uppi heilbrigðu andófi á fésbókarsíðu sinni gegn allskyns skerðingu á almennu tjáningarfrelsi.“ Hún málaði sjálf dulúðuga mynd á bókarkápu.

Aftast í bókinni eru þakkir til Braga Jósefssonar og Guðbergs Bergssonar og Rithrings „því þar hófust smásagnaskrif mín og án Rithringsins hefði ég sennilega aldrei uppgötvað smásöguna sem mitt uppáhalds tjáningarform (113), segir Ingibjörg Elsa að lokum.

Birt á skáld.is, 9. júlí 2021

Til heiðurs Þóru skáldkonu

Þóra Jónsdóttir skáldkona er nýorðin 96 ára. Hún fæddist 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist þriggja ára með fjölskyldunni að Laxamýri í Þingeyjarsýslu þar sem hún ólst upp á mannmörgu heimili við hefðbundin sveitastörf. Skólagangan var stopul – farskóli frá tíu ára aldri – en hún lærði ung að lesa og féll ekki bók úr hendi upp frá því. Einkum vöktu ljóð áhuga hjá henni.

Þóra fór í Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal og þaðan í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi. Hún kenndi í Flensborgarskóla í Hafnarfirði einn vetur áður en hún hélt til Kaupmannahafnar ásamt eiginmanni sínum, Páli Flygenring ráðuneytisstjóra. Þar las hún tvo vetur bókmenntir við Kaupmannhafnarháskóla. Eftir að heim kom sinnti hún manni og þremur börnum næstu árin eins og þá tíðkaðist en lauk einnig vetrarnámi í Kennaraskóla íslands. Hún vann um árabil á Borgarbókasafni Reykjavíkur.

Ritstörf hóf hún seint eins og svo margar skáldkonur fyrri tíma, eða ekki fyrr en börn hennar voru komin á legg. Fyrsta bók hennar, Leit að tjaldstæði, kom út árið 1973 og fékk afar góða dóma. Alls hafa komið út eftir hana 16 bækur: ljóð, örsögur og ljóðaþýðingar, nú síðast örsagnasafnið Sólardansinn (2019). Hún hefur hlotið rithöfundarverðlaun Ríkisútvarpsins og viðurkenningu dómnefndar um verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir handrit að ljóðabókinni Far eftir hugsun. Ljóð eftir hana hafa verið þýdd á ensku, norsku, finnsku og japönsku. Safnrit með ljóðum hennar kom út hjá bókaforlaginu Sölku 2005 og ber titilinn Landið í brjóstinu.

Þóra hefur verið sílesandi ljóð alla ævi og er afar vel að sér í íslenskum og norrænum kveðskap. Á miðjum aldri hóf hún að mála bæði með vatnslitum og olíu og leitaði sér tilsagnar á því sviði, m.a. í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún er enn að lesa og mála þrátt fyrir sjóndepru sem hefur ágerst með aldrinum. Þóra er dóttir Elínar Vigfúsdóttur (1891-1986), kennara, ljóðskálds og húsmóður á Laxamýri (Mbl. 17. janúar 2020 Árnað heilla. Þóra Jónsdóttir ljóðskáld 95 ára).

Vinnubrögðum sínum við skáldskapinn lýsti Þóra í viðtali við Mbl., 5. desember 2019:

Þóra tekur daginn snemma og segir að sér verði mest úr verki við skáldskapinn á morgnana. „Ég er best upplögð um miðjan morgun, það finnst mér besti tíminn.“ Þegar andinn komi yfir hana sé hún fljót að koma hugsunum sínum á blað og sitji því ekki lengi við hverju sinni. „Þetta er allt saman svo stutt,“ segir hún og leggur áherslu að hún sé ekki sérstaklega vel skipulögð við skriftirnar, en það komi ekki að sök. „Ég verð 95 ára í janúar og sennilega læt ég ekki meira ritað mál frá mér.“

Umfjöllun um verk Þóru má sjá m.a. í nýjasta Skírni og hér. Ilmur Dögg Gísladóttir fjallaði ítarlega um ástarljóð Þóru í Lesbók Morgunblaðsins 2005 og Soffía Auður Birgisdóttir fjallaði um verk hennar í grein sinni Uppskerutími sem birtist á skáld.is í árslok 2019 og sagði m.a. um stöðu Þóru í íslenskri samtímaljóðagerð: „Ef allt hefði verið með felldu í bókmenntamati á síðari hluta tuttugustu aldar ætti ljóðskáldið Þóra Jónsdóttir öruggan sess meðal íslenskra módernista“. Um bók hennar Hversdagsgæfu (2010) sem inniheldur örsögur, segir Úlfhildur Dagsdóttir m.a.:

„Hún er eitt þeirra skálda sem ekki ber mikið á, og ekki mun þessi bók líkleg til að vekja á henni frekari athygli, en útgáfan er í alla staði hljóðlát, bókin lítil um sig og prósarnir fjarri öllum æsingi. Það þýðir þó ekki að bókin sé hljóðlát að gæðum, en sem fyrr búa texta Þóru yfir einkennilega heillandi yfirbragði, í raun öllu því sem gera ljóð góð (svo ég haldi mig við mína eigin bókaflokkun). Á margan hátt minna prósarnir í Hversdagsgæfu á þulukennd ljóð í einni af fyrri bókum höfundar, Línur í lófa (1991), en sú bók er nokkuð ólík öðrum verkum hennar. Ljóðin eru frásagnarkenndari og byggja á minningum úr æsku skáldkonunnar. Hér er einnig á ferð einhverskonar upprifjun, þó ekki sé endilega ljóst hvað sé skáldskapur eða hvað minningar (enda skiptir það engu máli).

Hversdagurinn er helsta viðfangsefnið með öllum sínum undrum, meðal annars hanska sem sögukona finnur og tyllir í gluggakistu, bara til að hitta þar stuttu síðar fyrir konu sem er ægiglöð yfir að hafa fundið hanskann sinn: „Ég samgleðst því að blár kvenhanski, nöturlegt tákn einsemdar og reiðileysis, hefur raðast snögglega á réttan stað í almyndina. Þetta örstykki í púsluspili tilverunnar.” Og þannig er bók Þóru, örstykki í púsluspili skáldskaparins, einmitt eitt þeirra stykkja sem heldur myndinni saman.“

Eitt ljóða Þóru dregur upp mynd af hlutskipti margra genginna skáldkvenna sem ekki er að finna á skald.is:

„Hún dó úr tæringu í baðstofu / frá manni og ungum börnum / mælti svo fyrir að ljóð sín yrðu brennd / Engin ljósmynd er til af henni / að eigin ákvörðun / Hún var talin skilningsgóð / á fagurfræðilega hluti / Hryggir trúðu henni fyrir sorgum“

(Lesnætur, 1995)

Að lokum er hér ljóð eftir Þóru úr bók hennar Leiðin heim (1975):

Ég, sem held um þetta stýri,

bið þig að stjórna vegferð minni.

Lát mig muna til þeirra

sem ferðast fótgangandi

og virða allra rétt.

Forða mér frá gálausum akstri annarra.

Lát ljós mín lýsa

án þess að blinda.

Megi ég velja rétta akrein á hringtorgum

og rata nýjar leiðir.

Gef oss

grænt ljós yfir gatnamót

og vísan áfangastað.

Birt á skáld.is, 9. febrúar 2021

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021