Ég held ég hafi stundum fallið í trans

Viðtal við Höllu Kjartansdóttur, 17. okt. 2021

Steinunn Inga átti spjall við Höllu Kjartansdóttur um bókmenntir, kennslu og þolinmæðisverk þýðandans. Halla hefur þýtt úr sænsku, norsku, dönsku og ítölsku, m.a. bækur eftir stórstjörnur eins og Stieg Larson og Elenu Ferrante.

Við komum okkur fyrir í garðstólum í 101 síðla sumars. Þetta er einn af þessum örfáu sólardögum, kaffið rýkur í rósóttum bollum, notaleg borgarstemning liggur í loftinu. Steinunn Inga lætur spurningarnar dynja og ekki stendur á svörum hjá Höllu. Hún er kvik og fjörug og stutt í smitandi hlátur.

Hver er Halla, hvaðan kemur hún? Og hvert stefnir hún? Hverjar eru áherslur þínar í lífinu? Hvað hefur á daga þína drifið sl tvö ár?

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og ólst upp fyrst á Freyjugötu og síðan í Álfheimum. Gekk í Vogaskóla, síðan í MS og svo Í HÍ. Er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum. Ég er önnur í röð fimm systra, alin upp á menningarheimili þar sem bækur voru upp um alla veggi, einn vefstóll, ein prjónavél og eitt píanó og hannyrðir mömmu flæðandi um borð, bekki og gólf. Foreldrar mínir eru Gíslrún Sigurbjörnsdóttir fyrrum handavinnukennari og Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður og sagnfræðingur, bæði komin vel á níræðisaldur í dag.

Mig dreymdi um að verða leikkona sem barn en niðurstaðan varð kennarastarfið og svo bættist þýðendastarfið við, svolítill leikari leynist í hvorutveggja ef að er gáð, túlkun, miðlun, sviðssetning og endalaus vinna með texta, og svo blundar í mér skúffuskáld… Ég hef þó alltaf glímt við lágt sjálfsmat. Eftir fimmtugt fór ég að sækja í mig veðrið með það. Ég stefni almennt að auknum þroska sem manneskja og að ná sátt við sjálfa mig og stóra samhengið sem lífið er. Markmið mín eru að ná betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og muna að gleðiefnin í lífinu eru litlu hlutirnir eins og kaffibollinn á morgnana og brosið í augum barnabarnanna. Þau störf sem ég hef unnið hafa haft tilhneigingu til að verða frekari til fjörsins en ég sjálf, ég get ekki verið hversdagsmanneskja, læt verkefnin gleypa mig og kann ekki að verja mig fyrir álagi. Síðastliðin tvö ár hafa verið afskaplega frek í þeim skilningi og verkefni á færibandi drifið á daga mína.

Ég vinn ekki eingöngu við þýðingar þótt ég hafi átt mér þann draum þegar ég sagði upp fastri stöðu við íslenskukennslu í framhaldsskóla fyrir sex árum síðan eftir nærri 25 ára farsælan starfsferil. Ég vinn núna svolítið við íslenskukennslu og svolítið á bókasafni í Myndlistaskólanum í Reykjavík, mátulega lítið þó til að geta unnið við þýðingar þegar verkefni bjóðast þar. Nægjusemin kemur sér vel þegar maður er einn á frílansbáti en frekjuleysið síður.

Hvað er heillandi við kennarastarfið / þýðandastarfið?

Ertu frílans?

Það sem heillar mig við kennarastarfið er sköpunin í sjálfri kennslunni, töfrarnir sem verða í kennslustofunni, hugmyndirnar sem vakna, samskiptin sem geta verið svo frjó og skapandi þegar nemendur uppgötva nýja hluti eða þora að fara óvenjulegar leiðir í náminu, að geta hjálpað þeim áleiðis og hvatt þau. Ég ber mikla virðingu fyrir nemendum mínum og finnst þau oft kenna mér meira en ég þeim, ég reyni að hlúa að þeim, nálgast þau meira á einstaklingsgrunni núorðið og gef þeim meira frelsi, af því að ég kenni svo litlum hópi. Ég átti val á sínum tíma um að verða fræðimaður eða kennari. Ég valdi hið síðara af því að útopnan í kennslu átti betur við mig þegar ég var yngri en grúskið í holu minni á betur við mig núna. Ætli þýðendastarfið sé ekki einhver millivegur fyrir mig.

Ertu fræðikona líka?

Áhugasvið mitt í háskólanum var á tímabili þjóðfræði en svo leiddist ég út í að skrifa meistararitgerð um Gunnar Gunnarsson og tengsl hans við trú í víðum skilningi þess orðs. Sú ritgerð kom út í ritröðinni Studia Islandica fyrir 25 árum en þar með lauk líka fræðaferli mínum, sjálfsefinn var verri í fræðasamhenginu en á öðrum sviðum lífsins – leyfði menntaskólakennslunni að gleypa mig með húð og hári.

Það er mikil dulúð yfir starfi þýðandans. Hvernig ber hann sig að? Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

Öll dulúð verður að vera óskilgreind svo ég reyni ekki að lýsa henni, ég skil stundum ekki sjálf hvernig ég fór að þegar ég horfi á bækurnar sem ég hef þýtt og ég get varla opnað þær eftir að þær eru komnar út. Ég held ég hafi stundum fallið í trans.

Annars snýst þetta um bullandi vinnu með kveikt á öllum batteríum í málstöðinni, og stundum gleymast fæturnir alveg þegar maður loksins stendur upp, og þá er eins og hálsinn sé stífur frá herðum upp í hvirfil. Allir dagar eru vinnudagar hjá frílans þýðanda, helgar og kvöld ef því er að skipta, en það geta líka komið góðar pásur inn á milli. Ef ég er komin í stuð með bók verð ég helst að þýða í löngum lotum, og best er að fara eitthvert í einangrun með tölvuna. Kúpla sig út úr lífinu. Þá gerast hlutirnir, en slíkur lúxus er ekki alltaf í boði. Venjulegur vinnudagur við þýðingar er að sitja við frá morgni til miðnættis ef ég fæ frið til þess.

Velur þú sjálf hvaða bækur þú vilt þýða? Úr hvaða tungumálum þá? Hvar lærðir þú norðurlandamál og ítölsku?

Ég hef aldrei gengið á milli forlaga með óskalista yfir bækur sem mig langar til að þýða. Ég hef verið svo heppin að forlögin hafa vitað af mér síðan ég fékk mitt fyrsta stóra tækifæri fyrir 20 árum síðan þegar ég þýddi Líflækninn eftir Per Olov Enquist en þá hafði ég búið í Svíþjóð í 4 ár og lært sænskuna þannig, að vísu ekki í skóla. Ég vann líka eitt sumar um tvítugt á sænskum spítala og lærði ákveðinn grunn þar og svo er mamma fædd í Svíþjóð og ég heyrði sænskuna í æsku hjá afa og ömmu og mömmu í gestaboðum. Sænskan lá því vel við höggi og svo hafa hin Norðurlandamálin flotið með af og til enda stutt á milli, sérstaklega ritmálsins.

Ég er afskaplega þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið en hef aldrei verið með neitt plan, bara verið beðin um hitt og þetta, og þá verð ég bara að mæta hverju verkefni með opnum huga, en ég hef líka hafnað verkefnum. Ég kem úr máladeild í menntaskóla og franskan og latínan sem ég lærði þar hjálpuðu mér þegar ég fór á miðjum sextugsaldri til Sikileyjar að læra grunn í ítölsku. Það átti bara að vera ,,grár fiðringur“ eða flipp hjá mér og svo ætlaði ég að snúa aftur fílefld á minn gamla vinnustað. En þegar til kom var ég komin með blý í fæturna, ég gat mig hvergi hrært. Ég var orðin ástfangin af tungumálinu. Svo það varð logandi ögrun fyrir mig að bjóða henni upp í dans eftir að hafa lifað og hrærst við að miðla íslenskum fræðum og bókmenntum í áratugi. Undirvitundin hafði greinilega planað þetta fyrir mig.

Hver var fyrsta bókin sem þú þýddir og hvernig gekk það, hverjar voru aðstæður þínar þá?

Fyrsta bókin var eiginlega alveg ótrúlegt tækifæri fyrir mig. Ég var rétt skriðin yfir fertugt, 3ja barna móðir í fullri kennslu á því tímabili og hafði engin áform um að gerast þýðandi. Hafði nóg á minni könnu. Mér fannst þetta samt ögrandi verkefni, og innst inni vissi ég að þetta ætti vel við mig. Bókin var engin önnur en Livläkarens besök eftir eitt merkasta skáld Svía á seinni hluta 20. aldar, Per Olov Enquist, ég þýddi hana árið 2001 en hún kom út 2002. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég fékk tækifærið í gegnum þáverandi eiginmann, Pál Valsson, sem þá starfaði á ritstjórn eins virtasta bókaforlags landsins, Mál og menningu. Ég fann líka mikinn velvilja frá útgáfustjóranum þar, Halldóri Guðmundssyni. Það var ómetanlegt að finna, enda voru þýðendur fyrst og fremst karlar, ef það var eitthvað annað en ástarsögur eða barnabækur. Átti ég svo bara að klifra? Þykjast vera jafnoki? Gera orðið að mínu?

Já, hiklaust! Það er það sem við þurfum! – Þú hlýtur að hafa gríðarlega einbeitingu og sterka málvitund. Lestu mikið og þá hvað helst?

Það er þetta með að falla í trans. Fórnirnar kom niður á einkalífinu, ég neita því ekki. Ef klaustur væru ennþá í boði væri ég kannski þar. Ég get lokað mig af og hef alltaf haft mikla þörf fyrir það, löngu áður en ég fór að þýða. Ég nærist á einveru.

Málvitund mín byggir auðvitað á þeim grunni sem ég fékk í foreldrahúsum, þar var mikið lesið, ég las talsvert sem barn, það var mikið bókasafn á heimilinu, og bókum var haldið að okkur systrum. Ég byrjaði að lesa Laxness 13 ára og heillaðist bæði af Brekkukotsannál og Sölku Völku, þótt ég botnaði stundum ekki neitt í neinu. Svo fékk ég snemma áhuga á því að setja saman ferskeytlur, það voru svona rímþrautir sem pabbi hafði gaman af að láta mig glíma við, en hann kallaði mig líka stundum,,rassbögu“ og hló.

Þegar svo vinnan fór að snúast um að lesa bækur, að ekki sé talað um að þýða þær, þá fór ég að reyna að gera eitthvað annað í ,,frítímanum“ ef hann var þá einhver. Lestrarnæðið tengist vinnunni alfarið í mínu lífi og ef ég næ því að lesa af nautn en ekki vegna vinnunnar, þá eru jól. Ég gríp helst í ljóðabækur til að næra mig í vinnutörnum, það er svo mikil hvíld í því formi. Svo held ég að píanónámið sem ég stundaði sem barn og fram að 14 ára aldri hafi hjálpað málvitund minni. Að spila eftir nótum, ná fram réttum takti og hljómi eftir forskrift er ekki ólíkt því að þýða. Það er nefnilega ekki nóg að lesa, það þarf að geta spilað á þetta hljóðfæri sem tungumálið er, og miðlað því. Ég var líka söngelskt barn, var í kórum og hef alltaf átt mjög auðvelt með að læra texta, verið taktviss og lagviss. Þarna er einhver tenging. Svo er ég skúffuskáld.

Hversu frjálslega má þýða? Hvernig ætti að þýða td svona senu svo hún hljómi eðlilega á íslensku?

„John,“ she said, smiling. „It´s John, isn´t it?“

„Yes. It is.“

Fyrstu viðbrögð mín eru að segja PASS. Þetta er óþýðanlegt sem stakar línur á floti. En svo get ég reynt að spila út einhverjum spilum:

„John,“ sagði hún brosandi. „Þú ert John, ekki satt?“

„Jú, ég er John.“

Eða: „Jú, mikið rétt/Jú, sá er maðurinn/Jú, passar/ Jú, þú átt kollgátuna/ Jú, ég heiti John/Jú, ég er hann“ o.s.frv. o.s.frv.

Annars er þessi setning gott dæmi um hvað samhengi er nauðsynlegt þegar þýtt er til að þýðandi geti valið stíl eða málsnið við hæfi. ,,Þú átt kollgátuna“ er orðalag úr gömlu Kim-bókunum sem ég skóflaði í mig sem barn. Það er síður notað í dag. ,,Mikið rétt“ er hins vegar algengari frasi hjá þeim sem eru hátíðlegir í tali, kannski smá ,,ungra manna MR-keimur“ af því. Mér fyndist líka freistandi að bæta spurningarmerki við. ,,John?“ til að undirstrika spurnina í ávarpinu. Svo veit ég ekkert hvort það eru börn sem tala, eða fullorðnir eða í hvaða samhengi. Jafningjar? Hver er statusinn á milli persóna? Álitamálin eru endalaus, dulúðin í þýðingunni felst kannski í því að lesandi fær aldrei að vita hvaða krókaleiðir og skúmaskot þýðandi var búinn að fara í gegnum áður en hann fann lausnina.

Hvernig gengur að forðast að frummálið smitist yfir í þýðingarmálið? Manstu eftir dæmum?

Ég kalla það að „vinda frummálið úr“ þegar ég er að fara yfir próförk eða prófarkir. Það gengur misvel eftir því undir hvaða pressu maður vinnur. Ef maður hefur tíma til að lesa þýðinguna aftur og aftur, helst upphátt, þá vinst frummálið úr smámsaman. Það er eins og með þeytivinduna í þvottavélinni, ef hún er sett á fullt kemur plaggið næstum þurrt út. Ég held að lesendur séu betur til þess fallnir að sjá keiminn að frummálinu en þýðandinn sem aldrei les þýðingar sínar eftir á, einmitt af ótta við að keimurinn hafi setið eftir. Svo ég vil ekki finna dæmi eða muna þau. En oftast eru þetta algjör smáatriði, samtengingar, atviksorð, greinarmerki og slíkt sem geta skipt sköpum, líka orðaröð.

Hefur þú gert e-a alvarlega / skemmtilega þýðingarvillu…?!

Ég hef stundum verið nálægt því að detta í pytt en þá koma yfirlesarar til sögunnar og kippa mér upp. Ég var einu sinni næstum búin að rugla morgunmat saman við hádegismat þegar ég var að þýða ,,frokost“ í danskri bók. Það er nefnilega hádegismatur á dönsku, en morgunmatur bæði á sænsku og norsku. Mér fannst persónurnar borða morgunmatinn ansi seint, satt að segja. Norðurlandamálin eru skeinuhætt hvert öðru, nefnilega. Lýsingarorðið ,,rar“ á norsku er furðulegur, eða einkennilegur en ,,rar“ á sænsku og dönsku er góður eða ljúfur.

Hálast á svellinu hefur mér orðið þegar ég þýddi fyrstu ítölsku bókina mína. Það vildi mér til happs að ég hafði ensku þýðinguna sem haldreipi á kantinum, en ég var svo þrjósk að ég kíkti helst ekki í hana fyrr en á lokametrunum, geymdi mér heilu efnisgreinarnar, þar til síðast og þá varð ég bara að kíkja á enskuna. Þá kom ýmislegt í ljós, sem ég segi engum, en vitaskuld var því bjargað, enginn verður óbarinn biskup og allt það. Ég man bara að einu sinni var ég hætt komin þegar ég var búin að þýða að ganga (camminare) á gangstíg (viale) sem að fara út að ganga í fjólubláu peysunni sinni (camica og violetto runnu einhvern veginn til í kollinum þegar ég fór að raða saman málsgreininni). Á ítölskunni þarf maður nefnilega að raða setningunum svo rækilega niður fyrir sér áður en maður íslenskar, vera viss um frumlagið og andlagið sem sagnmyndin vísar til. Svo man ég eftir því að ég var einu sinni orðin dauðþreytt, komið framyfir miðnætti og ég að þýða ,,Hugo har hatt en besvær natt“ og daginn eftir sá ég að ég hafði þýtt: Hugo er með hatt, nóttin var erfið. Maður hrekkur stundum úr gír, en gott að þá sé ekki orðið of seint að hlæja að mistökunum.

Pæling: Er þýðing sköpun eða endursköpun? Túlkun eða yfirfærsla..? Hvað með staðfærslu? Virkar hún? Þýðir þú nöfn á fyrirtækjum, verslun, hundategundum (gullinsækir?)…?

Þýðing er bæði sköpun og endursköpun. Hún er yfirfærsla úr einu tungumáli í annað en orðavalið er þýðandans og þar þarf að gæta þess að vera trúr frumtexta, að stíll, orðaval og blæbrigði haldist sem best, að taktur, tónblær og undirtexti komist til skila, og svo þarf texti að vera lipur og þjáll. Það þarf að vinda hann vel eins og ég kalla það, vinda frumtextann úr svo ekki verði smit á milli tungumála því það er alltaf lýti á þýddum texta ef hann ber þess merki að vera þýddur.

Það er allur gangur á því hvernig staðfærsla virkar, það er auðvelt að staðfæra, t.d. ef um hliðstæðar stofnanir eða fyrirtæki er að ræða, þetta eru þó alltaf vafamál sem þarf að skera úr í hverju tilviki fyrir sig og þarf alltaf að meta hvað passar. Tegundaheiti hunda er eitt af þessum álitamálum en lendingin hefur hingað til verið sú að nota þau heiti sem algengast er að nota í talmáli. Ég myndi hiksta á ,,gullinsækir“ bæði sem þýðandi og lesandi, stundum verður tilgerðarlegt að vera of stífur á að reyna að staðfæra. En ég veit að ég reyndi staðfærslu þegar ég þýddi Stieg Larsson, þ.e. að þýða nöfn á fyrirtækjum og stofnunum, og hafa síðan skammstafanir á þeim í samræmi við það. Ég myndi líklega ekki gera það með sama hætti í dag.

Er hægt að finna eina sanna merkingu milli tungumála? Ertu alltaf með viðtakandann í huga eða höfundinn? Eða eitthvað annað?

Það er alltaf hægt að komast mjög nærri kjarnanum í merkingunni þó óhjákvæmilega tapist alltaf eitthvað í þýðingu vegna þess að málheimur frummálsins er annar en þess máls sem þýtt er á, vísanir í hefðir og siðvenjur og sögulegar skírskotanir geta farið forgörðum, merkingarsvið einstakra orða drífa mislangt yfir í þýðingu, þýddu orðin ná því ekki að lýsa upp allt það svið sem frummálið felur í sér. Þetta er galdur tungumálsins og hann verður aldrei fangaður alveg til fulls. Ég reyni alltaf að lýsa upp öll þessi skúmaskot og þjóna þessum tveimur herrum, höfundi og lesanda, frummáli og þýddu máli, sjálf með tunguna tvíklofna.

Segðu mér frá Ferrante, hvernig rak það verkefni á fjörur þínar? Og hvernig var glíman við það? Var tímapressa?

Ferrante var eitt fyrsta verkefni sem rak á fjörur mínar eftir uppstokkun í þessu örheimi sem íslenskur útgáfubransi er. Guðrún Vilmundardóttir, sem ég hafði unnið mest með þegar hún var útgáfustjóri hjá Bjarti bókaútgáfu, stofnaði eigið forlag Benedikt og var svo elskuleg að leyfa mér að fylgja með í farteskinu en ég hafði þýdd allan Stieg Larsson á sínum tíma þegar hún var útgáfustjóri þar. Skáldsagan Dagar höfnunar eftir Ferrante var fyrsta verkefnið sem hún bauð mér að takast á við og ég var satt að segja tvístígandi og hélt að ég myndi ekki geta þetta. Annað kom í ljós, bókin vakti gríðarlega sterk viðbrögð og ég er enn að hitta fólk sem þakkar mér fyrir þá þýðingu. Ég get samt vel viðurkennt það hér og nú að hún gekk nærri mér og fyrir því liggja persónulegar ástæður, en líka reynsluleysi mitt sem ítölskuþýðanda. Ég vann langt upp fyrir mig þar og klukkustundirnar voru ómældar.

Undir væng Guðrúnar tók ég svo stökkið úr reyfaradeildinni, sem ég var aðeins farin að festast í eftir Stieg Larsson-ævintýrið. Nýjasta skáldsaga Ferrante kom svo út á örlagaríka covid-árinu en hún var unnin undir mun meiri pressu en ég hafði nokkru sinni upplifað áður. Þýðingin átti að koma út í fjölmörgum löndum á sama tíma, engar aðrar þýðingar voru tiltækar ef ég strandaði, fréttir frá Ítalíu voru skelfilegar, ótti og óvissa ríkti. Þegar vika var eftir af skilafrestinum, sem var í lok mars og ég farin að vinna 17-18 tíma á sólarhring til að ná í mark, var ég loksins skorin úr snörunni, útgáfudegi þýðinganna var frestað í öllum löndum fram á haust vegna faraldursins Þá tók við ljúfur tími, þar sem ég gat pússað og lagað og pússað og lagað. Það bjargaði mér fyrir horn í það skiptið.

Sem leiðir að Stieg Larsson – þar hlýtur líka að hafa verið tímapressa. Er pressa góð? Hvað þarf þýðandi sjálfur að hafa til að bera til að þýðing verði góð? Er til óþýðanleiki?

Ég virðist alltaf hafa rutt einhverja snjóskafla, þegar ég lít til baka. Byrjaði ekki á garðinum þar sem hann var lægstur; Per Olov, sem urðu tvær á endanum; fór síðan í Stieg Larsson sem engan óraði fyrir að yrði að svo miklu stórveldi á heimsmælikvarða. Svona gerist þegar maður hefur ekkert plan… Pressa er góð upp að vissu marki, sérstaklega á hráþýðingarstiginu, þ.e. fyrsta stigi í þýðingarvinnunni. Ef yfirlestrarstigið og lokapúss er í pressu þá er það vont, hættulegt beinlínis. Texti þarf að fá tíma til að sjatna, og það þurfa fleiri augu að koma að á lokametrunum. Ég er skæð með að breyta fram á síðasta dag, þar kemur sjálfsefinn sterkur inn, honum finnst ekkert nógu gott. Þá er eins gott að einhver þarna hinum megin rífi þýðinguna af mér með valdi. Það til óþýðanleiki og hann birtist t.d. í ljóðum og eins þegar blótsyrðum, t.d. á napólísku, er tvinnað saman eins og hjá Ferrante, en þá reynir á skáldið í þýðandanum, og kannski leikarann líka.

Er þýðing skapandi, hvað má fara langt frá frumtexta? Má bæta texta höfundar td? Má krydda með íslenskum orðtiltækjum til að textinn renni betur? Er allt leyfilegt til að þýðing verði lipur eða eru mörk sem höfundur eða útgefandi setur og ekki má fara yfir?

Sköpunin er alltaf með í för. Orðin eru alltaf val þýðandans og hann hefur oftast nær úr ýmsu að moða hverju sinni. Þýðing sem víkur hvergi frá frumtexta er ekki gerleg í bókmenntaþýðingum. Norskan á orðið,,gjenddiktning“ yfir þýðingu, þ.e. að endursemja. Ég held að það fari nærri lagi að lýsa því sem í þýðingu felst. Ýmislegt gerist í ferlinu. Stundum verður textinn liprari í þýðingu en í frumtexta, það getur vel skeð að hann verði slípaðri.

Þýðing er alltaf höfundarverk þýðandans. Það þarf vissulega að krydda með sem réttustu kryddi en helst ekki með því kryddi sem ekki var fyrir í frumtextanum, nema í algjörri neyð.

Ég laga hiklaust ef ég sé augljóst misræmi í frumtexta, yfirleitt í samráði við yfirlesara eða ritstjóra. Hús sem sagt er á einni hæð er allt í einu orðið tveggja hæða, fólk gengur upp stiga en var nýbúið að fara inn í lyftuna o.s.frv.

Þegar ég þýddi Hafbókina norsku, sem mér þykir einna vænst um af öllum mínum þýðingum, þá þurfti að leggjast í mikla rannsóknarvinnu við að finna réttu orðin yfir hluti sem tengdust sjómennsku, veðri og veiðum, og þar þurfti ég að grípa til eigin lausna með orðatiltæki t.d. og vísubrot. Sú þýðing reyndi mikið á mig og var fyrsta þýðing mín úr norsku t.d. en þar fékk ég líka tækifæri til að kynnast höfundi, fara á bókmenntahátíð í Lillehammer, taka þátt í málstofu með höfundi og þýðendum bókarinnar frá öllum heimshornum og þar gátum við borið saman bækur okkar. Ég var komin stutt á veg með þýðinguna þegar ég mætti á hátíðina en ég bjargaði andlitinu með því að bjóða öllum upp á íslenskan hákarl, enginn hafði smakkað hann, ekki heldur höfundurinn, en þó var hákarl aðalpersóna sögunnar. Í bókinni tók ég mér umdeilt bessaleyfi sem þýðandi og þýddi tegundarheitið beint úr norsku sem hákerling en ekki hákarl. Ég gerði það í listrænum tilgangi og lét skýringar fylgja með. Kannski voru ekki allir sáttir – ég veit það ekki, en þarna skildi ég eftir mig ,,spor“, vísvitandi.

Hversu langan tíma tekur að þýða 300 bls bók á venjulegri ensku td? Hvaða þýðing kemur út næst eftir þig?

Þýðing er aldrei unnin í tímamælingu. Ég legg aldrei út í slíkt nema til að gera grófa tímaáætlun fyrir mig. Stundum lofa ég upp í ermina með skil og þá er unnið í kvöld- og helgarvinnu og stundum er of mikið að gera á öðrum vígstöðum í lífinu svo að þýðing er unnin með afgangsorkunni án þess að slá megi af. Slík þýðing getur lukkast vel en þreytan segir þá bara til sín hjá mér eftir þannig tarnir. Engin bók er ,,venjuleg“ og það geta komið upp ótrúlegar gildrur þótt texti láti lítið yfir sér og virðist sakleysislegur á yfirborðinu. Stundum er eitt dagsverk 10 blaðsíður, stundum 20 blaðsíður eða meira ef ég kemst í stuð og fæ frið en þá er ég aðeins að tala um hráþýðingu sem er alltaf fyrsta útgáfa og hana fær enginn að sjá nema ég. Eftir hráþýðingu leggjast síðan ómældar vinnustundir í að pússa texta, fara í saumana á einstaka hlutum, leysa úr flækjum, fletta upp í orðabókum o.s.frv. Svo les þýðandi yfir próförk stundum einu sinni og stundum tvisvar. Allt tekur þetta tíma sem er ómældur. Næsta bók heitir Tríó, sem ég þýði úr sænsku.

Hefurðu þýtt ljóð? Dæmi?

Það hafa komið upp vísur og ljóð í þeim skáldverkum sem ég hef þýtt og það hefur sannarlega oft verið ögrandi verkefni og þá þarf að virkja brageyrað og opna á lýrísku æðina. En það getur verið ansi snúið. Ég þýddi sænskan skírnarsálm fyrir nokkru og hann mun væntanlega birtast í nýju sálmabókinni. Það er svona eitt dæmi. En ég hef stundum æft mig í að þýða ljóð, bara fyrir mig, svona eins og fingraæfingar á píanói.

Hefur þú þýtt af íslensku yfir á annað tungumál? Er það öðruvísi, hvernig?

Ég hef aðeins prófað það og það er allt öðruvísi. Þá kemur nefnilega svo berlega í ljós að þýðandi þarf að vera svo miklu, miklu betri í tungumálinu sem hann þýðir yfir á en í því sem hann þýðir úr.

Áttu heilræði, hvatningu eða varnaðarorð til lesenda og (skáld)kvenna sem langar að reyna sig við að þýða?

Farið gætilega með orð, þau leyna á sér og eru sannarlega ekki öll þar sem þau eru séð, stíll sögu og form liggur í orðunum. Góður bókmenntaþýðandi verður að hafa næmt auga fyrir stíl og blæbrigðum orða, helst þarf hann að vera bæði túlkandi og skáld inn við beinið svo hann nái að fanga andann í hverju skáldverki fyrir sig. Hann þarf að vera göldróttur, geta brugðið sér í allra kvikinda líki, búa yfir innsæi og smekkvísi til að velja þau orð sem hæfa hverju sinni. Vissulega þarf hann hafa góða þekkingu á því tungumáli sem hann þýðir úr en hitt er þó mest um vert, að vera með trausta þekkingu á íslensku, hafa næmni fyrir henni. Þýðandi er eins og leynilöggan eða innbrotsþjófurinn í glæpasögunni, hann þarf að kunna á þjófalykilinn eða kóðann, geta læðst um öll skúmaskot, brugðið vasaljósinu á loft, leyst gátuna, laumast svo út aftur, loka á eftir sér og skilja ekki eftir sig nein spor. Þýðandi getur stokkið fullskapaður fram ef réttar forsendur eru fyrir hendi, góður grunnur og hæfni, en reynslan hjálpar alltaf og svo er góður yfirlesari ómetanlegur.

Þýðandi verður að þola mikla einveru, langar setur, einangrun og stundum jafnvel að gleymast alveg þegar fjallað er um verk hans, vera ekki nefndur á nafn. Rithöfundar hafa sagt við mig að það sé að mörgu leyti flóknara að vera þýðandi en höfundur. Höfundur ræður öllu en þýðandi verður að vera auðmjúkur þjónn, höfundur má nota alla þá sérvisku sem honum lystir í texta, þýðandi má helst ekki skilja eftir sig nein sérviskuleg spor, hann á að vera fínstilltur, auðmjúkur og fullkomlega meðvirkur. Svo má gjarnan taka fram svona í lokin að það er ákveðin tilhneiging á tímu tæknivæðingar, vélþýðinga og nýrra útgáfumiðla að gleyma vinnu þýðandans, og vilja sem minnst af henni vita.

Sólar nýtur ekki lengur í garðinn og kaffibollarnir hafa verið tæmdir. Takk Halla fyrir spjallið og fyrir að færa okkur heimsbókmenntir. Við sem erum lesendur, kaupendur og bókmenntaunnendur undirstrikum mikilvægi þýðinga fyrir íslenskar bókmenntir og gerum þá sjálfsögðu kröfu að nafns þýðanda sé ávallt getið.

Skáld.is

Íslenskur djammveruleiki

„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, skáldsögu frá 2017 eftir Jónas Reyni Gunnarsson. María kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

Y-kynslóðin

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Djammið

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá, 8. nóv. 2017

Virkja nemendur til dáða

Mér er hugleikið að virkja nemendur framhaldsskóla til dáða, bæði í kennslustundum og til lýðræðislegrar þátttöku í skólastarfi til framtíðar. Ég rakst í morgun á rannsókn um þetta efni og niðurstöðurnar eru skýrar:

„Ef kennari sækist eftir virkri þátttöku nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til sem
flestra nemenda. Rannsóknir hafa sýnt að nemendamiðaðar aðferðir hafa jákvæðari áhrif á virkni nemenda í námi heldur en kennarastýrðar aðferðir. Höfundur telur í þessu sambandi að virkniathafnirnar að vinna verkefni og spyrja kennara spurninga, sem voru algengustu athafnir nemenda í kennslustundunum, sýni ekki nægilega fjölbreytta virkni
nemenda. En ég tel að jákvætt viðmót kennara, sem kom fram í 87% virknistundanna, og hinir athafnaflokkarnir þrír, hlýlegt viðmót, skýr fyrirmæli og hvetjandi kennari, hafi góð áhrif á virkni nemenda í kennslustundum.“

Þetta kemur fram í meistararitgerð Heiðrúnar Hafliðadóttur (f. 1991) frá 2019 sem má finna hér. Á vorönn hef ég tekið starfsmannasamtöl í FVA en það er í fyrsta skipti sem ég geri slíkt á ævinni. Það er afar fróðlegt og gagnlegt og skemmtilegt. Ég hef skrifað hjá mér á sérhannað eyðublað punkta meðan á spjalli stendur og setti inn dálk sem heitir Ákvarðanir teknar sem hefur minnt mig á að fylgja því eftir sem fram kemur og ákveðið er í samtalinu. Sem nýr skólameistari hafði ég alltaf hugsað mér að vera sem mest á ferðinni í skólanum, innan um nemendur og kennara. Því miður er ég að mestu föst við skrifborð og hef ekkert getað litið inn í kennslustofur eins og mig dreymir um, og kófið gerði alveg út um þann draum. Ég hugsaði með mér á dögunum að starfsmannasamtöl væru góð og gild – annað hvert ár, en á móti vildi ég fara í kennslustofur og sjá kennara að störfum og boða mitt fagnaðarerindi um lýðræði og virka þátttöku. Við lestur ritgerðar Heiðrúnar fann ég einmitt fínasta eyðublað sem ég get notað í þessum tilgangi næsta skólaár svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Góður dagur.

Skóli framtíðarinnar er opinn og bjartur og nemendur sjálfstæðir og lausnamiðaðir

Loksins barst niðurstaða

Á degi 5 kl 13.15 var hin langþráða sýnataka á Suðurlandsbraut. Urðu þar fagnaðarfundir því þeir sem voru í boðinu alræmda voru boðaðir á svipuðum tíma. Allan daginn var ég að bíða eftir svari en undir kvöld höfðu flestir fengið neikvætt svar. En ekki ég. Verð að viðurkenna að ég sveiflaðist á milli vonar og ótta þótt ég hefði engin einkenni. Hvað ef ég er með covid? Kæmist ekki til vinnu dögum saman, lægi í bælinu og gæti enga björg mér veitt og yrði jafnvel marga mánuði að jafna mig? Ég mátti ekki til þess hugsa. Vá hvað ég ætlaði að gæta mín framvegis varðandi sóttvarnir. Það varð alveg skýrt í mínum huga hvað ég er í raun heppin en líf hvers manns er brothætt og góðir dagar hverfulir. Í raun þarf ótrúlega litið til að allt fari á hvolf í tilverunni: atvinnumissir, ástvinamissir, vinir fjarlægjast, heilsubrestur, skilnaður, eignatjón, ofbeldi… enginn er undir þetta búinn en þetta er blákaldur veruleiki. Því skyldi hvern dag að kveldi lofa, þakka fyrir það sem er til staðar, fylla sjálfan sig og aðra af kærleika og umburðarlyndi, horfa á stóru myndina en festa sig ekki í nöldri, píslarvætti og smámunum. Leita skýringar á vanlíðan eins og höfnun og ástleysi, vanmætti, uppgjöf, pirringi og reiði; takast á við og vinna úr þeim tilfinningum sem skolast yfir á hverjum degi án ásökunar eða örvæntingar. Iðka æðruleysi og sleppa tökum. Með þessi fögru fyrirheit að leiðarljósi bjó ég mig til svefns þetta sunnudagskvöld. Þegar ég lagðist á koddann barst sms: þú ert ekki með covid.

Sóttkví enn

Þriðji dagur í sóttkví. Í gær fórum við Gunna systir, en við erum báðar sóttkvígur, í 7 km gönguferð um Kársnesið sem hressti mig verulega. En annað hvort er ég ímyndunarveik eða covid er að grassera í hausnum á mér í dag. Eitthvað slen í mér og slím í hálsi og svo er ég komin með bumbu af endalausu snarli og kaffiþambi. Tveir Teams vinnufundir í morgun, bréfaskipti og símtöl fram að hádegi, svo hefur verið rólegt hjá mér „í vinnunni“.

Í byrjun apríl er leshringsfundur og efni fundarins er Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, sem lést í spænsku veikinni. Í manifesto leshringsins frá síðustu öld segir að meðlimir verði að vera lesnir í heimsbókmenntum og helstu lókal kanónum svo JT hefur lengi legið óbættur hjá garði.

Fyrstu bindin af Höllu og heiðarbýlinu tvö fékk ég hjá Huldu minni og spændi þau í mig . Óttar Har reddaði mér svo síðustu tveimur bindunum af bókasafni þar sem ég má ekki fara neitt, svo ég lagðist í maraþonlestur í kvínni. Laaaangar náttúrulýsingar sem falla að sálarlífi persónanna taka á þolinmæðina, samtöl eru fá, sögumannsröddin er ágeng en persónur lifandi og eru málpípur augljósar og enginn endir á hörmungunum hjá Höllu. Ljóst er að skáldinu svíður stéttaskiptingin, ömurlegur húsakosturinn, hrikaleg fátæktin og örbirgðin. Ræður Péturs á Kroppi og Aðalsteins læknis eru reiðiþrungnar, þær lýsa grimmum örlögum fólksins sem minnst má sín. Þau sem flytja á heiðarbýlin í leit að frelsi og lausn undan arðráni húsbænda sinn strita þar á hungurmörkum, híma í dimmum og köldum kofa allan veturinn, féð sveltur, kýrin er skorin, börnin deyja úr kirtlaveiki og fólkið dregst upp af skyrbjúg. Síðar hafa auðvitað fleiri snillingar eins og Laxness, Guðrún frá Lundi , Oddný Guðm og Hallgrímur Helgason lýst þessu öllu í svipuðum anda.

En ég er viss um að ef JT hefði haldið áfram með söguna hefði Halla óðarar tekið til við að bjarga Þorsteini frá sjálfum sér og fengið jafn litlar þakkir fyrir og þegar hún bjargaði heiðri pokaprestsins unga með því að gifta sig, ekki þeim næstbesta heldur þeim allraversta. Mig blóðlangar að skrifa lokabindið af Höllu og láta hana verða stönduga og virta í kaupstaðnum, koma börnum sínum til náms og mögulega taka saman við Þorgeir verslunarstjóra.

Nú skín sólin og Binni er að drífa sig aftur á gosstöðvarnar. Hann ætlar samt að fara með mér um leið og ég losna. Hlakka til!

Sóttkví, dagur eitt

Það eru aldeilis dramatískir tímar þessa dagana. Eldgos hófst um síðustu helgi á Reykjanesskaga og í dag var gripið til hertra sóttvarnaraðgerða gegn kórónuveirunni. Öll starfsemi í þjóðfélaginu er meira og minna lömuð og allir nemendur grunn- og framhaldsskóla voru sendir heim í fjarkennslu. Til lánsins eru bara tveir dagar þart til páskafríið hefst.

Ég sjálf fór í örlítið fjölskylduboð sl. sunnudag en þar var lítill frændi sem reyndist kominn með smit tveimur dögum síðar. Allir í boðinu fóru í sóttkví. Gestgjafinn var niðurbrotinn. En svona getur alltaf gerst þegar veira geisar, enginn er alveg óhultur.

Í dag er fyrsti dagur í sóttkví hjá mér. Ég svaf ekki sérlega vel í nótt og dreymdi skýran stressdraum um hús og innrás og ofbeldi. En var vöknuð snemma að vanda. Vann að margvíslegum verkefnum sem nóg er af í mínu starfi og vinnudegi lauk rétt fyrir kl 18 á fundi með skólameisturum og mennta-og menningarmálaráðherra.

Brynjar sem alltaf er æðrulaus og mun aldrei fá covid að eigin sögn fór í dag að gosstöðvunum til að taka ódauðlegar myndir. Ég hef ekki enn farið á svæðið og kemst ekki núna fyrr en eftir sóttkví.

Heyrði aðeins í Gunnu systur sem líka var í boðinu og er þess vegna í sóttkví en hún sat aðalfund Rarik og málaði svefnherbergi í dag. Ef ég veikist ekki ætla ég að taka fataskápinn minn í gegn um helgina, hef ekki alveg staðið mig í að halda reglu sem ég setti mér fyrir rúmu ári: ein ný flík inn, tvær gamlar út. Mikilvægt er að setja sér reglur og enn mikilvægara að fara eftir þeim.

Fleira er á döfinni, ég bíð eftir boði í segulómun á hægra hné. Eymsli þar hafa verið að angra mig síðustu mánuði, og ráð heimilislæknis um að bryðja ibufen dugði skammt. Verst var ég í hnénu á gönguskíðanámskeiðinu sem við Brynjar skelltum okkur á í byrjun þessa mánaðar – eins og hálf þjóðin. Átti námskeiðið að vera fimm skipti en snjóleysi, jarðskjálftar og eldgos bundu enda á glæstan feril þegar tvö skipti voru eftir. Ég fékk ægilega byltu í síðasta tímanum, skall með hnakkann og rassinn í hjarnið og er rétt að jafna mig núna. Þetta tók verulega á festingar framan á hálsinum og enn er ég aum í rófunni þegar ég fer upp stiga.

Planið okkar Brynjars um að fara norður um páskana að heimsækja vini og vandamenn er í uppnámi. Sennilega verðum við að ferðast innanhúss um páskana og reyna að gera gott úr því. Það væsir ekki um okkur í fína húsinu okkar þar sem er nóg að bíta og brenna og alls konar við að vera. Heilu dagana situr Brynjar við tölvuna inni í sínum helli með headphone og vinnur þar og ég flögra um stofu og eldhús með útvarpið í botni, glamra á gítarinn, geng frá þvotti, vökva blóm, ét úr ísskápnum, fæ mér gönguferð, legg kapal í símanum, dorma og les. Nr eitt er að sleppa við veiruna og halda heilsu, andlegri og líkamlegri.

Bless árið 2020!

Ég get ekki annað sagt en bless árið 2020 og takk fyrir allt! Þetta var frábært ár sem hófst á því að ég fékk nýja vinnu, sem skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ég var í góðu starfi hjá KÍ/FF frá 2016 með frábæru samstarfsfólki þar sem góðir hlutir gerast, ég vann í þágu félagsmanna og var með mörg spennandi verkefni. En mig langaði að komast í betri aðstöðu til að láta meira til mín taka. Ég fann í hjarta mínu að í FVA væri þörf fyrir mig og ég gæti gert gagn. Ég þakka auðsýnt traust af öllu hjarta.

Verkefnin streymdu að í nýja starfinu og ég hafði í nógu að snúast á árinu. Ég keyrði á milli Kóp og FVA í mínum hundtrygga Yaris, nema vindhviðurnar á Kjalarnesinu færu yfir 30 m/sek. Margt kunni ég og þekkti úr skólastjórnun og -starfi frá fyrri árum í MK en annað var mér nýtt í byrjun, ss ábyrgð á heimavist, samstarf við sveitarfélög, barnaverndarmál og framkvæmdir vegna rakaskemmda svo dæmi séu tekin. Og eftir aðeins nokkrar vikur í embætti skall á samkomubann í framhaldsskólum sem kunnugt er vegna hættu á útbreiðslu kórónuveiru. Vægast sagt óraunverulegt að slík staða kæmi upp en blákaldur veruleiki engu að síður. Það hvarflaði ekki að mér að allt árið yrði undirlagt af þessu ástandi. Við tók fjarkennsla og síðan fjarvinna, fjarfundir og endalaust samráð og aðlögun að breyttum reglugerðum fram á vor. Stjórnendateyminu skipti ég upp og var sjálf á staðnum í þrjá daga í viku og vann heima hina tvo dagana. Það var ágætt fyrirkomulag að mörgu leyti, margt komst í verk því tíminn sem annars hefði farið í akstur milli Kóp. og FVA nýttist betur og oft var bara notalegt að vinna heima við eldhúsborðið á náttbuxunum með útvarpið á rólegum nótum og malandi kaffivélina innan seilingar.

Á ýmsu gekk sem reyndi á verulega á þolgæði, útsjónarsemi og aðlögunarhæfni míns frábæra starfsfólks. Á haustönn voru gefnar út átta reglugerðir um skólastarf sem þurfti að bregðast við á ýmsa vegu. Brautskráning um vorið var lengi í óvissu en tókst vel á endanum því þá máttu 200 manns koma saman. Ég var mjög spennt yfir athöfninni, 26. maí 2020, fyrstu útskriftinni minni, en það er ólýsanlega gefandi og gaman að fá að útskrifa unga fólkið og leggja því lífsreglur áður en það reynir vængina sína fyrir alvöru. Svo var frábært að geta haft veglegt starfsmannapartý í Golfskálanum á Akranesi áður en allir héldu út í sumarið.

Bjartsýn var ég í byrjun haustannar eins og ég er í eðli mínu, en haustönnin reyndist svipuð, því kórónuveiran var enn á sveimi og öflugri ef eitthvað var. Haustið leið hratt með margs konar áskorunum og ótal verkefnum og allt tókst ótrúlega vel í skólastarfinu enda einstaklega gott fólk að vinna í FVA og nemendur gerðu sitt besta undir þessum erfiðu kringumstæðum. Um jólin voru aðstæður ekki eins góðar fyrir brautskráningu og verið höfðu um vorið, ekki máttu fleiri en 25 vera í sama rými svo útskrifað var í tveimur hópum. Það tókst þó vel að mínu viti og í minni embættistíð hafa samtals 112 nemendur útskrifast frá FVA.

Það sem út úr þessu öllu kom hjá okkur í FVA var m.a. þetta: Allir eru tilbúnir til að leggja hart að sér þegar á reynir. Fundir eru nú styttri og árangursríkari. Mikilvægi góðs samstarfsfólks og vinnufélaga er orðið augljósara. Ýmsar reglur voru endurskoðaðar. Nýtt sjónarhorn á vinnu kom fram, unnið er með frumkvæði og lausnir. Upplýsingaflæði er greiðara. Samstaða myndast þrátt fyrir einangrun og fjarvinnu. Bjartsýni og jákvæðni ríkja þrátt fyrir allt.

Sumarfríið okkar 2020 var með öðru sniði en venjulega. Húsbíllinn mátti bíða heima í hlaði nánast allt sumarið því við skötuhjú höfum nú áhuga á meiri fjallamennsku en hann býður upp á. Tjaldbox var fest á þak jeppans og með það þeystum við vestur á firði í byrjun júlí. Einfalt líf, minni matseld og meira frelsi. Við dvöldum m.a. í Breiðuvík, að mestu alein á tjaldstæðinu, sem var dásamlegt. Við erum enn að læra á þennan nýja sið sem hefur kosti og galla umfram húsbílalífið sem við höfum stundað síðan 2005 og notið þægindanna sem það býður upp á. Það er td ekki auðvelt að finna tappatogarann í skottinu á Landcruiser en hann er á vísum stað í húsbílnum. Uppblásið hústjald prófuðum við einnig í sumar og náðum þannig einni reisu með okkar góða vinafólki á Akureyri. Það var algjör lúxus, beddum stillt upp með náttborði á milli og veislumatur eldaður í öll mál. Yndislegt var t.d. í Ásbyrgi þar sem við vorum í tæpa viku og sólin skein allan tímann. Minna varð um hjólreiðar á þessu ári en 2019. Sjósund prófaði ég í fyrsta sinn í haust og líkaði vel. Kannski ofrausn að kalla það sund, frekar dýfu. Fjallgöngur voru nokkrar á árinu, hæst ber auðvitað gangan á Akrafjall með Þuru systur, á Löðmund með Gunnu systur og Gullu frænku og á Glym með samstarfsfólki í FVA.

Við fetuðum nýjar slóðir í útivistinni á árinu. Í Veiðivötn hef ég aldrei viljað fara en lét til leiðast í sumar. Þar gátum við jeppast út um allt (aldrei þó utan vegar) og fórum m.a.s. í Jökulheima sem var stórkostlegt. Einnig kom ég í Sauðlauksdal í fyrsta sinn, á Landeyjasand og í Álftavatn. Við fórum þó ekki eins oft og víða í sumar eins og jafnan áður, m.a. tóku annir viðkomandi vinnunni tíma frá sumarleyfinu. Ég vann líka um sumarið að grein um Oddnýju skáldkonu frá Hóli sem birtist í Andvara í byrjun desember en ég er þó ekki laus við þá góðu konu úr huganum, það er meira sem ég vil gera með sögu hennar. Brynjar missti vinnuna sem photoguide um leið og dró úr ferðamannastraumi til landsins og vann því mikið heima að markaðssetningu ljósmynda sinna í Ameríku og myndvinnslu og þurfti að halda vel á spöðunum. Ekki fórum við út fyrir landsteinana frekar en aðrir þetta árið en planið hafði verið að fara til Perú snemma á vormánuðum. Það bíður betri tíma. En auðvitað fór ég til Þórshafnar eins og á hverju ári, með Sossu minni og áttum við þar góða daga eins og alltaf. Þar bý ég að frændsemi og vináttu til æviloka.

Í ágúst missteig ég mig í berjamó. Hægri fóturinn fór illa út úr þessu, ég var sárkvalin vikum saman og er ekki enn orðin góð. Myndatökur leiddu ekkert í ljós en kírópraktorinn minn bjargað því sem bjargað varð. Af þessu lærði ég að meta þau lífsgæði að geta gengið og hlaupið að vild og sofið án verkja.

Áfram held ég ásamt stallsystrum í ritnefnd að pota inn efni á vefinn skáld.is sem er gagnagrunnur um íslenskar skáldkonur. Einkum hef ég áhuga á þeim sem hafa fallið í gleymsku eða verið hunsaðar af feðraveldinu. Það á kannski einmitt við um mig sjálfa líka, ég komst nefnilega að því á árinu að öndvegis meistararitgerð mín frá 1996 má ekki vera aðgengileg í Skemmunni heldur verður að halda áfram að safna ryki í hillu í Bókhlöðunni, engum til gagns. Og eftir að hafa fjallað um bókmenntir og skrifað ritdóma sleitulaust í tvo áratugi í dagblöð, tímarit, á vef og fyrir útvarp hef ég lagt pennann til hliðar í bili og ég sé ekki að nokkur einasti maður hafi orðið var við það eða sakni þess að lesa mína vönduðu og ígrunduðu ritdóma eða mitt faglegt mat á stöðu íslenskra bókmennta fyrr og nú. Það er skellur, verð ég að viðurkenna!

Framkvæmdir í húsinu settu svip sinn á árið. Staðið hafði til lengi að skipta um eldhúsinnréttingu sem var farin að láta verulega á sjá eftir ca fjörutíu ára dygga þjónustu. Hún var rifin niður í mars og er skemmst frá því að segja að í ágúst var verkinu enn ekki fyllilega lokið. Ísskápur kom ekki til landsins fyrr en í september svo áfram var hokrað í bráðabirgðaeldhúsi. En í desember var aðeins eftir að setja upp aðfellu fyrir ofan skápa og fá hluta af borðplötunni en annað tilbúið. Útkoman er einstaklega fagurt eldhús með þægilegri aðstöðu í hvívetna til margs konar matargerðar. Mikinn lærdóm hef ég dregið af þessu brölti sem nýtist mér í næstu framkvæmdir sem fara vonandi fljótlega í gang!

Inga mín stofnaði eigið heimili með Gesti sínum í Vesturbænum snemma árs 2020 og lauk meistaranámi sínu. Óttar minn hefur blómstrað sl tvö ár, hann býr í Norðurbænum, fer eigin leiðir og hefur kennt mér svo margt. Það besta í heiminum eru börnin manns! Sandra Dögg Brynjarsdóttir flutti til okkar í lok árs og verður hjá okkur um tíma og það er frábært að geta lagt henni lið. Arnþór bróðir hennar býr í Svíþjóð með sinni fjölskyldu og þar vaxa og dafna yndislegu afastrákarnir okkar, Emil Freyr og Kristján Þór.

Það var leitt að geta ekki haft eins mikil samskipti við vini og ættingja og vanalega. Gestrisinn 2020, stúdentsveisla Jóhönnu Sigrúnar systurdóttur minnar, tónleikar Sæunnar Þorsteinsdóttur frænku minnar í Gljúfrasteini og fimmtugsafmæli Ármanns eru viðburðir sem ég náði þó að taka þátt í. Fyrirhugað niðjamót Ásgarðssystkina féll niður, árlegur frænkuhittingur líka, aðventuboðið með systkinabörnum í föðurætt breyttist í zoom-fund. Leshringur sem ég hef verið í árum saman var að mestu óstarfhæfur. Ástvinir kvöddu á árinu, Unnur frænka mín fór alltof snemma. Skúli móðurbróðir minn, Árni Helgason og Angantýr föðurbróðir minn eru nú komnir í aðrar víddir ásamt Hönnu í Hvammi, þeirri gæðakonu og ömmu Óttars.

En tíminn líður hratt og sjaldan er mikið svigrúm til að pæla mikið í hlutunum. Ég gef mér þó alltaf tíma til að íhuga aðeins og þakka fyrir það sem ég hef. Ég er endalaust þakklát fyrir börnin mín og fjölskylduna, umhyggjusömu systur mínar sem eru dásamlegar og þeirra makar og börn, og mögnuðu móður mína sem er eldhress og hraust á 75. aldursári. Og fyrir Brynjar minn sem er mín stoð og stytta í einu og öllu. Og fyrir tækifærin sem ég fæ í lífinu til að láta gott af mér leiða.

Nýtt ár verður áreiðanlega betra en það liðna. Ég er með fullt af verkefnum og hugmyndum sem ég vil sinna og kvíði engu. Takk og bless!

Í Breiðuvík
Í Veiðivötnum
Gestrisinn 2020
Plássið
Vinkonur í áratugi
Á Brekknaheiðinni
Nýja uppáhaldsplássið mitt!
Í bráðabirgðaeldhúsinu
Afkvæmin
Kristján Þór
Emil Freyr
Liðið!

Um vinnubrögð

Þann 28. júní kom borðplatan inn í nýja eldhúsið. Langþráð og ægilega lekker. Rafvirki brást fljótt við og tengdi helluborðið svo nú er hægt að matbúa í þessu fáránlega flotta eldhúsi. Einnig tengdi hann eldhúsljósið flotta yfir tilvonandi eldhúsborði. Hann þarf að koma amk einu sinni enn til að taka upp tengingu sem hann setti í ledborða undir skápunum, hann notað bara einn spennubreyti þótt þeir væru þrír í pakkningunni… Og ljósin blikka. Hann fær þá nokkra tíma á reikninginn í viðbót… Enn er líka eftir að ganga frá ledborða, aðfellu og lýsingu upp við loftið… Á síðasta augnabliki tókst Brynjari að láta hann snúa innstungunum langs, en ekki þvers eins og hann hafði teiknað fyrir og hefði verið  glatað..  sjá mynd. Borðplötusmiðunum tókst einhvern veginn að reka sig í og rispa nýmálaðan vegginn í eldshúsinu (þeir létu engan vita) þegar þeir settu plötuna á, sjá mynd. Og yfirsmiður sagaði ótrúlega illa út fyrir álprófíl… sjá mynd. Dæs!

Ég ráðlegg öllum sem ætla í framkvæmdir amk eftirfarandi:

  • Vera búinn að gera allt sem hægt er að gera sjálfur áður en iðnaðarmenn koma (rífa, brjóta niður, færa til stóra hluti, breiða yfir, forða því sem þolir ekki hnjask)
  • Fylgjast vel verkinu, helst standa yfir mönnunum
  • Semja um kaup og kjör fyrirfram
  • Biðja iðnaðarmenn að nota ferðina, ekki koma oft í sama verkefnið (jafnvel bjóðast til að skutlast sjálfur eftir því sem vantar, miklu ódýrara)
  • Prútta og tilgreina skýrt að enginn annar kostnaður verði greiddur (akstur, matur, kaffi…)
  • Ef vörur eru keyptar fyrir þig, fáðu þá reikninginn (frumrit) en ekki bara e-a tölu frá iðnaðarmanninum
  • Vera liðlegur en ákveðinn, hringja ef iðnaðarmaður kemur ekki á tilsettum degi (tíma)
  • Kvarta og láta laga ef vinnubrögð eru ekki ásættanleg
  • Ekki borga fyrr en verki er lokið

106285357_2366511070311624_3292370593489274331_n

Meikar sens að snúa innstungunum langs og hafa þær inni í horninu en ekki þvers í miðjunni eins og rafvirkinn ætlaði

106497565_2590310361233287_3494252453212689239_n

Þetta er við uppþvottavélina og blasir alltaf við þegar hún er opnuð

106579888_3101548536600690_3148916945455166006_nÞessi rispa eftir  borðplötumennina er 45 cm löng