Pottþéttur sumarsmellur

hvit_fidrildi_72-646x1024Hvít fiðrildi er ástarsaga um Gus og Tess sem rekast hvort á annað á unglingsárum og síðan nokkrum sinnum aftur án þess þó að kynnast. Þau gætu orðið hið fullkomna par en margt kemur í veg fyrir það; ýmsar tilviljanir, undarleg örlög, misráðið val og slæmar ákvarðanir.  Bókin er pottþéttur sumarsmellur, dável þýdd, dramatísk og spennandi.

Aðalpersónur sögunnar eru vel mótaðar, breyskar og reikular í ráði. Sjónarhornið er til skiptis hjá hvoru þeirra, allt frá því þau sáust fyrst í apríl 1997 þar til í júlí 2013. Tess er í upphafi sögu á leið í háskólanám en allar fyrirætlanir breytast við dauða móður hennar. Þá verður það hennar hlutskipti að annast litlu systur sína og föður sem er eigingjarn og forpokaður drykkjusjúklingur. Gelgjan Gus burðast með sektar- og minnimáttarkennd vegna hins frábæra bróður síns sem lést af slysförum en þegar hann hunskast í læknanám til að þóknast plebbalegum foreldrum sínum fær hann tækifæri til að skapa sér bærilega framtíð.

Árin líða og leiðir þeirra Gus og Tess skarast af og til óafvitandi. Þau eiga í ýmsum ástarsamböndum sem fæst ganga upp, hann er bældur og  lyginn og sífellt á flótta frá sjálfum sér en Tess er huglaus, meðvirk og hefur lítið sjálfstraust. Þau skakklappast í gegnum lífið með öllu sem því fylgir á 500 blaðsíðum en dyggur lesandinn bíður alltaf í ofvæni eftir að þau taki af skarið.

Ástin er vissulega helsta þema sögunnar en ekki síður sorg og missir og hvernig ungt fólk tæklar slíkt; soldið eins og hvít fiðrildi sem flögra inn og út um gluggann og vita ekkert í sinn haus svo það er vel til fundið hjá þýðandanum, Höllu Sverrisdóttur, að poppa bókartitilinn upp (Miss you á frummálinu). Aukapersónur gefa sögunni lit og líf þótt þær séu ansi klisjulegar, s.s. hin skrautlega besta vinkona, Doll, einhverfa systirin Hope, kaldrifjaða framakonan Charlotte og litríki karakterinn og hjálparhellan Nash. Í heild eru Hvít fiðrildihugljúfasta afþreying sem óhætt er að mæla með fyrir hina óforbetranlegu rómantíkera heimsins.

Hvít fiðrildi

JPV

532 bls

Þýðandi: Halla Sverrisdóttir

 

Birt í Kvennablaðinu, 26. júlí 2017

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Krúttlegir smáglæpir

my-new-presenta_23258363_b91f2f37f2b8bfc7569b24af12e81e51d0b5e2baÍslensk smásagnagerð stendur með miklum blóma um þessar mundir. Höfuðskáld eins og Gyrðir Elíasson, Þórarinn Eldjárn, Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og fleiri hafa með verkum sínum sýnt svo listilega hvers formið er megnugt og nú spreytir sig hver lærisveinninn af öðrum.

Smásagnasafn Björns Halldórssonar (f. 1983), Smáglæpir, hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta 2016 en kom út nú á dögunum hjá bókaforlaginu Sæmundi. Björn er nýr í bransanum en lofar góðu, í bókinni eru sjö sögur sem allar eru ánægjuleg lesning.

Fyrsta sagan í safninu, Barnalæti, sker sig úr. Þar talar telpa sem er nýflutt í hverfið og býr við þreytandi heimilislíf. Hún er auðveldlega útsett fyrir undarlegu ofbeldi nágrannadrengsins og virðist vera í þann veginn á leggja út á óheillavænlega braut. Þetta er langbesta sagan í bókinni; áhrifamikil og uggvekjandi í einfaldleika sínum. Í hinum sögunum hafa karlar orðið, á ýmsum aldri og í misjöfnum aðstæðum. Í sögunni Ef þið hefðuð hringt er nöturleg spenna milli þess sem Sólmundur gamli hugsar og þess sem hann segir en dregin er upp mynd af harðjaxli sem ætlar ekki að gefa færi á sér eða linast með aldrinum og dæmir sjálfan sig þar með til einsemdar. Rekald fjallar um mann á elliheimili, lítt notað sögusvið sem býður upp á skemmtilegar senur. Endirinn er stíðnislegur og lesandinn fær ekki það sem hann bjóst við. Marglyttur er á yfirborðinu byggð á bernskuminningu um sjóferð sem endar illa en hún er áleitin og snýst ekki síður um sekt og fíkn. Saga sem heitir Eiginmaðurinn og bróðir hans segir frá Bödda sem giftist konu frá Filipseyjum. Hún fer frá honum og Jóhann, bróðir hans, rifjar upp ýmis atvik sem varpa ljósi þá ákvörðun hennar. Sjálfur á Jóhann í frekar brengluðu sambandi við sína eigin fjölskyldu. Það er ýjað að ýmsu og boðið upp á óvænta túlkun undir lokin og ógnin seytlar inn í huga lesandans.

Það er margt gott í Smáglæpum en stíllinn er helsti veikleikinn; stundum myndrænn en oftast raunsær og hversdagslegur; einkennist af talmáli víða og málvillur eru á stangli. Stílinn þarf að æfa og nostra við, fága og pússa til að nálgast fullkomnun lærimeistaranna og varla við slíku að búast í frumraun höfundar.

En hverjir eru smáglæpirnir sem verkið dregur nafn sitt af? Þeir felast í hikinu, hugleysinu, lygunum og ofbeldinu í lífi okkar; glæpum sem við höfum öll gerst sek um gagnvart hvert öðru og sjálfum okkur.

Bókaforlagið Sæmundur 2017

Smáglæpir, 142 bls.

 

Birt í Kvennablaðinu, 7. júlí 2017

 

 

Amma á Akureyri

19732250_10209688463550208_4169520249553070341_n

Amma mín á Akureyri, Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti (1917-2017) var einstök kona. Lágvaxin, fíngerð og falleg, léttlynd og glaðvær og hló smitandi hlátri. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og listum og það var alltaf mikið fjör á heimili hennar og afa, ekki síst þegar gripið var í píanóið og harmónikkuna. Heimili þeirra afa og ömmu var fallegt og nýtískulegt, þar var afar gestkvæmt og allir velkomnir.

Lífið var henni mótdrægt að mörgu leyti. Dóttir hennar, Hildigunnur, lést langt um aldur fram frá þremur litlum börnum, yngsti sonurinn og augasteinn allra, Einar Kristján, lést 46 ára. Óttar, faðir minn, lést 2013 og en þá var amma orðin fótsár af ævinnar eyðimörk.

Þegar amma fór á elliheimili opnaði hún dyr að heimili sínu og bað afkomendur að taka það af hennar góssi og nota sem þeim líkaði því hún þyrfti það ekki lengur. Það lýsir vel höfðingsskap hennar, nýtni og nægjusemi.

Amma var friðarsinni og jafnaðarmaður, örlát og hlý og tróð engum um tær. Vandvirk og vönd að virðingu sinni, smekkleg og kurteis. Mikið má af henni læra um lífsviðhorf, fallega framkomu, húmor og styrk í mótlæti. Þau pabbi voru bestu vinir enda lík um svo margt. Elsku amma er hvíldinni fegin, hún er afkomendum sínum falleg og góð fyrirmynd; minning hennar mun lifa lengi í hjörtum þeirra.

Tvö ljóð

Dagar mínir

 

Í dapurlegum skugga verða dagar mínir taldir,

það dregur senn að skapadægri því, sem koma skal.

Og ég mun liggja fúnandi um næstu ár og aldir

og engan varðar framar um daga minna tal.

 

– Ég átti hér í veröldinni aðeins fáa daga

við örðugleika, hamingju, söng og gleði og vín,

sem allt í hljóðum hverfleik verður aðeins horfin saga,

hið eina varanlega er kannski beinin mín.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

 

Haustljóð

 

Nú haustblærinn næðir um húmdökknuð fjöll

og hlynur og björk fella laufin sín öll,

og víðir og lyngið og blágresið bliknar,

svo bleik verður grundin

og brimar við fjörðinn og sundin

 

Og haustskýjadansinn í dimmunni hefst

og drunginn og treginn að hjartanu vefst.

Og væri ekki sælast, er sumarið kveður,

með söngfuglaróminn,

að sofna eins og trén og blómin.

 

Þó enn verði lífið að greiða sitt gjald

og geigvænt og dapurt sé haustkvíðans vald,

í hjartanu leyna sér vonir sem vakna

með vermandi hlýju –

– það vorar og sumrar að nýju.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

Fáráðlingur deyr

Úr Hrafnagilsannál

1745

Gengu frost svo mikil, að lagði allan fjörðinn. Maður bráðkvaddur við Mývatn, sótti vatn handa lömbum sínum og dó á vatnsveginum. Maður hengdi sig á Þingeyrum í fjósi. Annar skar sig á háls, þar nálægt. Einn lærbrotnaði í sömu sýslu. Annar fótbrotnaði. Barn fæddist í Ísafjarðarsýslu, var leon að mitti, var ei grafið að kirkju…

1. Jan. fæddust tvö börn á Kerhóli í Möðruvallasókn, samföst eður einn líkami frá viðbeini og ofan fyrir nafla. Sáust tveir naflarnir og geirvörtur utar og ofar en almennilega. Þetta voru kvenbörn, skírð Guðrúnar. Bæði grétu undir eins, sváfu undir eins, lifðu ellefu vikur, dóu nærri því á sömu stund. 2. Febr. varð úti Jón Þórisson á Grund, fáráðlingur, gekk út í hríð mót allri venju berhentur og ber á brjósti, fannst hjá Miðgerði dauður, og höfðu hrafnar þá kroppað úr honum augað annað.

Höfundur fastur í eigin ruglingslega handriti

Bókmenntagagnrýnandi Víðsjár segir góða kafla inn á milli í Musu eftir Sigurð Guðmundsson en heilt yfir reyni hún þó um of á þolinmæði lesenda. Ritstíflan sem bókin fjalli um endurspeglist í textanum sjálfum, sem hökti áfram, flatur og tilbreytingarlítill með krampakenndum rykkjum.

 

Hljómar það ekki eins og þversögn að ætla að skrifa bók um ritstíflu? Það er nú samt ætlun Sigurðar Guðmundssonar í nýrri bók sem nefnist Musa.  Nafnið minnir á grískar listagyðjur en sögumaður tekur til öryggis fram að hún sé þó ekki ein af þeim frægu verum (49) heldur goðumlíkur sköpunarkraftur sem hann þráir og leitar að í dyrum og dyngjum og vonast í örvæntingu til að geti losað um stífluna miklu sem kemur í veg fyrir að hann geti skrifað bók.

Hugmyndir samofnar guðlegum flygsum

Í verkinu er sögumaður ýmist Maðurinn eða ég, í fortíð, nútíð eða framtíð,  í gráum hversdagsleika eða súrrealískum og draumkenndum aðstæðum. Eldri maður situr einn á hótelherbergi á 18. hæð á Hainan-eyju í Suður-Kínahafi og gramsar í tölvunni sinni í leit að innblæstri, veltir fyrir sér lífi sínu og list og fær af og til hvatningu frá töfradís úr iðrum netsins sem heitir því hallærislega nafni Hakký. Loks rennur hann saman við Musu sína á óljósum landamærum raun- og sýndarveruleika og lífs og dauða, ritstíflan brestur og hugmyndirnar streyma fram hver annarri betri, samofnar guðlegum flygsum og svifkjörnum.

Það eru margs konar pælingar í sögunni, t.d. um sköpun og stöðnun, list og ljóð, vegsömun konunnar sem skapara og listamanns, um guð, um form skáldskapar og sögumannsrödd. Ætli sögumaður sé alþjóðlegi myndlistarmaðurinn Sigurður  Guðmundsson, heimsþekktur fyrir ljósmyndir sínar og óvenjulega gjörninga um hálfrar aldar skeið? Eða rithöfundur sem hann segist þó ekki vera (15) en skrifaði frumleg verk eins og Tabula Rasa (1993), Ósýnilegu konuna (2000) og Dýrin í Saigon (2010); allt bækur sem rúmast illa innan hefðbundinna skilgreininga á skáldsögu, líkt og Musa. Eða er sögumaður aðeins röflandi karl sem feigðin vofir yfir og hvers skáldæð er uppþornuð? Hugsun hans er reikul og hrörnun hans og elli bersýnileg; ístra og fellingar, upphleyptir fæðingarblettir og mjóar vörtur, gisin bringuhár, skalli og lausar tennur (76). Það má kannski einu gilda hvernig hann er, hvað hann er eða var, en hvað vill hann okkur?

Líf án listar er andlaus rotnun

„Ef ég er ekki sískapandi líður mér bara eins og rotnandi kjötstykki. Ég hef alltaf unnið við sköpun og hræðslan við að missa sköpunargáfuna er svolítið dramatísk hjá mér. Ég held að það sé nokkuð algengt að listamenn glími við þetta – það er svo ennþá verra ef þeir eru mjög þekktir“ sagði Sigurður í DV um daginn. Það er erindi hans við okkur: að leggja áherslu á skapandi hugsun, sköpunargáfu, hugmyndir, ferli og fullnægju í að búa til list, að leggja til málanna, nálgast guðdóminn í listinni – algjörlega án predikunar og yfirlætis. En þetta er ekki auðvelt, ritstörfin verða „stefnulaust handritsklór“ sem bera aðeins vott um stöðnun, rotnandi nútíð og framtíðarlaust líf án hreyfingar og útsýnis (19) segir hann á einum stað. Það er vissulega betra að rembast áfram en rotna og lifa andlausu lífi án listar sem er í raun dauði.

Í heild er verkið allsherjar naflaskoðun, kannski sannsögulegt efni á einhvern hátt sem miðlað er með aðferðum skáldskaparins, þó með miklum efasemdum: „En er þetta ekki vitlaus aðferðarfræði, hugsar hann, að vera að grufla í eigin fortíð i örvæntingarfullri von um að finna aftur leiðina til lífsins. Hefur hann þá ekkert lært af þessum línum sem hann skrifaði fyrir meira en fjörutíu árum?

Bál verður ekki kynt
með eigin reyk.
Eins verða verk mín
ekki til að vísa mér veginn.
(43-44)

Lesturinn er þolinmæðisverk

Það verður að segjast að reynt er verulega á þolinmæði og innlifun lesandans í þessu verki. Því ritstíflan endurspeglast svo sannarlega í textanum sem tregðast við og höktir áfram, flatur og tilbreytingarlítill, með krampakenndum rykkjum; hann flæðir ójafnaður hægra megin á blaðsíðunum með furðu lítilli spássíu vinstra megin… Inn á milli seytla fram ágætlega skrifaðir kaflar, eins og af minnisstæðu atviki á Kleppi (60-74) og útlegging á dæmisögunni um Adam og Evu í aldingarðinum (89-98) sem hugsanlega er einhvers konar lykill að verkinu. Svo koma kaflar sem eru súrrealískir og minna á draum eða hálfvökuástand, þar sem sögumaður slæst við ryksugupoka eða er handa- og fótalaus ormur, eða fiskur sem slær til sporðinum og engist fastur í eigin ruglingslega handriti.

Lesandinn engist líka, með engu minni sporðaköstum, nema hann sé þeim mun þolinmóðari og áhugasamari um sjálfsmyndarkrísur og innblásið samband við ást og list.

15. júní 2017

http://www.ruv.is/frett/hofundur-fastur-i-eigin-ruglingslega-handriti