Eitt vetrarsvartholið enn

Ísak Harðarson er látinn. Síðasta smásagnasafnið hans, Hitinn á vaxmyndasafninu, fannst mér frábært verk. Ég fór honum til heiðurs að gramsa á veraldarvefnum eftir umfjöllun um bækur hans. Það rifjaðist upp að ég skrifaði sjálf örstutt um síðustu ljóðabók hans með titlinum furðulega, Ellefti snertur af yfirsýn þann 23. október 2018 á vef Kvennablaðsins sáluga sem er nú týnt og tröllum gefið. En ég fann greinina í iðrum tölvunnar og deili hér með, ég hafði soldið fyrir því að hafa ljóðabrotin í ComicSans þegar greinin birtist. Takk Ísak fyrir skáldskapinn.

Ísak Harðarson (f. 1956) er eitt af þekktustu skáldum sinnar kynslóðar. Kraftmikil og myndræn ljóð  hans búa yfir mótþróa, kaldhæðni  og heitri trúarþörf. Fyrsta ljóðabók Ísaks, Þriggja orða nafn, kom út 1982. Ljóðabók hans, Rennur upp um nótt (2009), var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011.

Ísak er ómyrkur í máli í nýrri ljóðabók sem hann nefnir Ellefti snertur af yfirsýn. Bókin er sú ellefta í röð ljóðabóka hans og titillinn tengist ljóðlínu um fjall sem hann verður að ganga á til að fá þó ekki nema snert af yfirsýn á hrun (heimsins) og rústir siðmenningar. Þótt lesandi sé í upphafi varaður við því að orð og slitur myndi ekki neina samfellu, drætti eða mynstur, er heildarsvipur á bókinni. Andúð á efnishyggju, græðgi og offors er ríkjandi og heimsendir er nær en maður hefði haldið.

Það er dómsdagsstemning hvert sem litið er. Allt er hrunið, kurlað í mask, engin hús, engin bók, engin merking en guð er nálægur þótt hann sé hvergi að sjá. Og lítill strákur steinhissa sem fæddist á Allraveraldarvegi er orðinn Grafarvogsbúi. Jörðin, Úfinkolla Sunnudóttir, er á hverfanda hveli og feigðin vofir yfir.

Allt er ögrandi við ljóðabók Ísaks: Orðaleikir, ádeila, textauppsetning, titill, mynd á bókarkápu og hið forljóta letur ComicSans sem ýfir viðkvæmar taugar allra sem telja sig til fagurkera. En glæsileg eru ljóðin:

Lokaljóð bókarinnar er ástarljóð til deildar 33A á Landspítalanum, fullt af ást, þakklæti og von.

Ljóðið er ódrepandi, Ellefti snertur af yfirsýn kemur okkur í gegnum eitt vetrarsvartholið enn.

„Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum…“

Ferðasögur eru ævaforn og vinsæl bókmenntagrein, eldri en skáldsagan enda stundum nefnd formóðir bæði hennar og sjálfsævisögunnar sem bókmenntaforms.

Upphaf ferðasagna á Íslandi eins og þær eru jafnan skilgreindar má tímasetja á seinni hluta 12. aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og ferðabók Gizurar Hallssonar en hún hefur því miður týnst. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá 15. og 16. öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsalafara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar um ferðalög sín. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um amk fimm texta til viðbótar sem nefndir eru í öðrum heimildum en hafa glatast. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst síðan í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga og halda nafni þeirra á lofti. Á nítjándu öld er fjöldi ferðasagna orðinn gríðarlegur og hefur vaxið ört síðan. Ekki er mér kunnugt um ferðasögu eftir konu fyrir miðja nítjándu öld (sjá nánar í MA-ritgerð um íslenskar ferðasögur hér).

EIns og gefur að skilja voru það einkum karlar sem skrifuðu ferðasögur í gegnum aldirnar, þ.e. karlar sem höfðu fjárráð og ferða- og athafnafrelsi öndvert við konur.

En það eru til ferðasögur eftir konur, fjölbreyttar að gerð og efni en eiga það margar sameiginlegt að höfundur brýst undan hefðbundnu kynhlutverki samtíma síns. Þá er þess að vænta að konur sem stíga þetta skref í lífinu hafi annað sjónarhorn á hlutina en ríkir karlar en þó er ekki auðvelt að komast undan forréttindum sínum eins og glöggt má sjá í tilviki Idu Pfeiffer sem kom til Íslands sumarið 1845 og ritaði ferðasögu þar um. Íslandsferð Idu Pfeiffer 1845 er brot úr stærra verki um ferðalög Idu um Norðurlönd og hefur nú loksins verið þýdd og útgefin hjá bókaforlaginu Uglu. Guðmundur J. Guðmundsson þýddi og ritaði fróðlegan inngang. 

Ida (1797-1858) var frá Austurríki, kunnur landkönnuður og ferðasagnahöfundur og ein víðförlasta kona sinnar samtíðar. Hún lagðist í ferðalög eftir að hún varð ekkja og átti tvo uppkomna syni. Hún fór í tvær heimsreisur sem stóðu árum saman og fór m.a. til Asíu, Ameríku og Afríku. Fyrsta ferðabók hennar varð metsölubók en höfundar var ekki getið eins og æði oft var raunin þegar um konu var að ræða (10). Alls skrifaði hún fimm ferðabækur og hagnaðinn af bóksölunni notaði hún til að fjármagna reisur sínar, m.a. ferðina til Íslands. 

Ida var forvitin og áhugasöm um þjóðhætti í þeim löndum sem hún heimsótti og lýsti öllu skilmerkilega frá sínum bæjardyrum.  Hún var með myndavél í fórum sínum sem var óvenjulegt á þessum tíma. Ida hafði miklar væntingar til Íslandsfararinnar en óhætt er að segja að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þótt náttúran hafi verið heillandi komu landsmenn henni fyrir sjónir sem sóðalegir, latir og drykkfelldir. Hún virðist ekki hafa nokkurn skilning eða samúð með fátækt og umkomuleysi kúgaðrar nýlenduþjóðar. Ekki skildi hún nema stök orð í tungumálinu þrátt fyrir rómaða tungumálahæfileika og ekki gekk henni heldur vel að tala dönsku eða ensku við yfirstéttina sem hún vildi helst hafa samskipti við. Oft talar hún um ógeðsleg híbýlin þar sem hún gat ekki hugsað sér að gista heldur kaus frekar að sofa á hörðum kirkjubekk. 

Íslendingar eru mestu erkisóðar, bókstaflega viðbjóðslegir. Tökum sem dæmi tólf ára stúlku sem færði mér rjóma og vatn. Að mér ásjáandi sleikti hún með tungunni rjómann af tappanum úr rjómaflöskunni og ætlaði síðan að setja hann aftur á flöskuna. Stundum sat hún hjá mér í svo sem eins og hálftíma og þá kom fyrir að óværan sem þreifst í hárinu á henni gerðist full aðgangshörð. Þá þreifaði hún um höfuðið þangað til hún náði lúsinni, horfði á hana svipbrigðalaus og henti henni svo lifandi á jörðina. Skárra er að gera eins og Grænlendingar, þeir éta lýsnar og þá er að minnsta kosti engin hætta á að þær komist yfir á aðra. Yfirhöfuð hafa Íslendingar ekki nokkra tilfinningu eða skilning á almennu velsæmi. Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum sem ég varð vitni að myndi það fylla margar blaðsíður (140).

Bók Idu fékk ekki góðar viðtökur hér á landi enda vandaði höfundur þjóðinni ekki kveðjurnar þótt náttúran væri vissulega heillandi og stórbrotin. Hnjóðuðu nokkrir karlar í hana sem frá er greint í formálanum. Í bókarlok segir Ida frá því sem henni finnst jákvætt í fari Íslendinga en það er fyrst og fremst heiðarleiki því engu var stolið af henni á ferðalaginu; langflestir eru læsir og skrifandi og í hverjum minnsta moldarkofa var alltaf bókargrey að finna. 

Ida fór víða um Suðurland, m.a. til Þingvalla og í Surtshelli, að Geysi og Heklu. Hún segir frá því að hún hafi staðið á Heklutindi og er þá líklegast fyrst kvenna til þess. Hún er fyrsta erlenda konan sem hingað kemur ein síns liðs. Hvað sem segja má um miskunnarlaust álit Idu á eymd og volæði íslensku þjóðarinnar var hún óneitanlega frumkvöðull og hetja, með ríka ferða- og ævintýraþrá og lét ekkert stöðva sig í að láta drauma sína rætast. Bókin er í senn heimild um horfinn tíma og merka konu og að auki stórskemmtileg aflestrar.

Sjá ennfremur: Ida Pfeiffer á Íslandi eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Ég heyrði það í holum rómi samviskunnar…eftir Kristínu I. Valdemarsdóttur og Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif, annáll íslenskra reisubóka til 1835 eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur

Vesen hinna ríku

Fyrir mér eru fjölskyldur svo áhugaverðar, þetta samansafn af fólki sem eyðir tíma saman eingöngu vegna þess að um æðar þess rennur sama blóð. Það er svo heillandi, ef maður hugsar út í það, hvað bindur einstaklinga saman og hversu langt sumir eru tilbúnir að ganga, bara fyrir það eitt… (307).

Í Englum alheimsins eftir Einar Má segir e- s staðar að ættartré séu einu trén sem vaxi á Íslandi og margt til í því. Í nýrri skáldsögu Evu Bjargar Ægisdóttur, Þú sérð mig ekki, segir frá dramatísku ættar- eða niðjamóti sem haldið er á Snæfellsnesi í nóvember 2017. Snæbergs-ættin frá Akranesi hefur hagnast gríðarlega á sjávarútvegi og greiðir sjálfri sér arð sem eykst með hverju ári. Slektið hefur leigt heilt hótel fyrir viðburðinn enda vellríkt fólk og landsfrægt á ferð og ætlar aldeilis að styrkja trosnuð fjölskylduböndin. Ættingjarnir þekkjast misvel eins og gengur í stórfjölskyldum, dagskrá ættarmótsins er mátulega stíf, glæsilegar veitingar og taumlaus drykkja og auðvitað fer allt úr böndunum.

Fjölskylda mín er ekki fullkomin. Við höfum aldrei þóst vera það. Hvernig aðrir sjá okkur er ekki okkur að kenna. Fólk gefur sér að það að eiga peninga og fallegar eignir sé á einhvern hátt eftirsóknarvert. Fyrir mér hefur það aldrei verið þannig. Hvað mig varðar hefur þetta verið byrði, frekar en nokkuð annað (368).

Ein persóna stígur fram í sviðsljósið í einu; ættingjar, makar, hótelstarfsfólk, lögreglan; og smátt og smátt skýrist myndin af fjölskyldunni og ýmsum óuppgerðum málum hjá þessu fína og léttsnobbaða fólki. Og svo er framið morð. En lesandinn veit ekki hvaða hótelgestur var myrtur fyrr en langt er liðið á þessa efnismiklu sögu. Það er skemmtilegt trix. Hver kafli endar þannig að lesandinn vill vita meira, hver persóna á sína sögu, hefur sinn djöful að draga en öðlast samúð og skilning lesanda þegar brotin raðast saman.

Það er ekki alltaf gaman að vera ríkur og frægur. Áhrifamest fundust mér í sögunni angist og krísa unglingsstúlkunnar Leu. Hún fékk 200.000 króna YSL-veski í afmælisgjöf sem gerði allt vitlaust á samfélagsmiðlum. Í leit að ást og viðurkenningu sendir hún myndir af sér úr símanum til einhvers sem hún þekkir ekki neitt. Og hún þarf að þola gláp og káf frænda síns.

Saga Tryggva, eiginmanns Petru Snæberg, móður Leu, er dramatísk og áhugaverð. Hann passar illa inn hjá fína fólkinu þar sem hann er frekar lúðalegur og hefur allt aðra sýn á lífið, hefur unnið hörðum höndum fyrir sínu.

Sævar, þorpslöggan, er með gott jarðsamband, hann hefur áður birst í bókum Evu Bjargar og í lok þessarar bókar stefnir í að hann kynnist lögreglukonunni Elmu sem er í rannsóknarteymi með honum í fyrri bókum. Svo það er gott í vændum.

Það hefði alveg mátt vinna betur með titil sögunnar og bókarkápuna. Eva Björg (f. 1988) er verðlaunahöfundur, fékk Svartfuglinn 2018, íslensku hljóðbókaverðlaunin 2020 og bresk glæpasagnaverðlaun fyrir þýðingu á Marrinu í stiganum 2021. Útgáfuréttur á bókum hennar hefur verið seldur m.a. til Þýskalands en þar hafa landsmenn mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum.

Þú sérð mig ekki er fimmta bók Evu Bjargar. Hún hefur gott auga fyrir persónusköpun, byggingu sögu og næmt innsæi í þjóðarsálina sem skila sér í prýðilegri spennusögu – þótt morðið sé auðvitað klúður eins og oft vill verða.

Hamingjusöm börn

Í viðtali við Stundina árið 2018 lét Guðrún Helgadóttir rithöfundur þessi vísdómsorð falla um börn og barnauppeldi:

Varðandi barnauppeldi sagðist Guðrún hafa eitt ráð til fólks og það hafi hún kennt sínum börnum og barnabörnum „Það er að vera góð við þau. Ég kann enga uppeldisaðferð betri. Það getur verið dálítill vandi á köflum en fyrst af öllu verður barn að finna að það er elskað. Það skiptir bara akkúrat öllu máli,“ sagði Guðrún og bætti við að ein leið til að vera góð við börn sé að lesa fyrir þau. „Ég er sannfærð um það að barn verði ekki hamingjusamara í annan tíma en þegar það situr á volgu læri mömmu og pabba, ömmu, afa eða systkina, hlustar á sögu og skoðar kannski í leiðinni myndirnar. Það eru virkilega sælustundir fyrir alla,“ sagði Guðrún.

Þá sagðist hún vonast til þess að bækur hennar hafi og muni áfram hjálpa börnum við að opna augun og sjá lífið í kringum sig. „Við fullorðna fólkið eigum að kenna börnum að horfa á blómin, fjöllin, landið. Það gefur mikla hamingju að læra það. Öll fegurð gefur manni hamingju. Það þarf líka að opna huga þeirra fyrir umhverfinu, að kenna þeim til dæmis að hirða um hvernig félaganum líður. Þeir Jón Oddur og Jón Bjarni komust að því einhvers staðar í bókinni að það borgaði sig að vera góður. Ef börn eru opin fyrir lífinu, landinu, tungumálinu, þá held ég að þau verði afskaplega hamingjusöm.“

Siðbót og saggaþefur

Skáldsagan Byltingarbörn gerist á Íslandi um siðaskiptin og byggir á sögulegum heimildum eins og Bjöms Th. er von og vísa. Ögmundur biskup situr i Skálholti, háaldraður, farinn að heilsu og blindur. Undir hans vemdarvæng eru m.a. Gizur Einarsson biskupsefni, meistari Oddur Gottskálksson, þýðandi Nýja testamentisins, og systir hans, Guðrún biskupsdóttir frá Hólum. Þeir Gizur og Oddur hafa heillast af lúterskum sið sem Danakóngur hefur fyrirskipað og vinna að framgangi hans í leyni.

Flestar persónur sögunnar eiga sér stoð i raunveruleika fyrri tíðar. Myndin af meistara Oddi er skýr og nýstárleg, efasemdir hans um trúna og afleiðingar trúboðsins eru sannfærandi en hann er alltofsnemma úr sögunni. Gizur biskup efast ekki um að hann sé að gera rétt; að boða hið hreina orð án reykelsis, skúrgoða, ave og credo, en barátta hans skilar honum aðeins óhamingju enda spuming hversu góöur málstaðurinn er. Guðrún Gottskálksdóttir er sömuleiðis harmræn: stolt kona sem fórnar ástinni og hamingjunni til að friðþægja fyrir syndir sínar.

Ýmsar brotalamir eru þó í persónusköpuninni, við sumar aukapersónur er mikið nostrað (t.d. Þorkel úr Selvogi) meðan aðalpersónur standa í skugganum. Undarlegur er hinn sannsögulegi síra Eysteinn Þórðarson staöarráðsmaður sem bamar Guðrúnu, unnustu Gizurar. Framan af er Eysteinn skrípalegur með rauðan kýl sem á að undirstrika karlmennsku hans, svo gerist hann vígamaður, elskhugi og loks fómarlamb grimmdarlegs ofbeldis. Þegar Guðrún stendur upp frá samförum þeirra Eysteins segir: „Volg og ókennileg kvoða rann niður um innanverð lærin…“ (94). Klisjulegt orðalag og spyrja má hvers vegna þetta er henni svo framandi þar sem hún hefur áður sængað hjá Gizuri. Þá kemur fram sú fráleita og karllæga hugmynd að kona sé ekki heil, frjáls og sjálfri sér ráðandi fyrr en hún hefur kennt karlmanns (67).

Sjómarhomið er ýmist hjá Eysteini, Oddi eða Guðrúnu en lengst af er Gizur í sviðsljósinu. Oft er erfitt að henda reiður á brotakenndum söguþræði og illskiljanlegt er t.d. að Guðrún skuli þýðast Eystein eins og honum er lýst og að meinlætamaðurinn Gizur láti undan ásókn hofróðunnar Katrínar. Mikið er um vel gerð, löng og leikræn samtöl og þar lifnar sagan, persónumar stíga fram á svið og mæla á gullaldaríslensku Björns.

Ástin á sagnfræðinni á það til að skyggja á skáldskapinn í sögunni, t.d. þegar sögumaður talar um hversu skemmtilegar heimildir minnisgreinar Gizurar frá ferðalögum hans erlendis séu (137-8). Á sama stað má lesa orð sem e.t.v. hafa verið leiðarhnoða Björns sjálfs á rithöfundarferlinum: að lesa rétt úr því smáa, í ljósi þess stærra… (138). Það gerir hann t.d. í frásögn af því sem fólk leggur á sig til að komast að skríni Þorláks helga í Skálholti og varpar skýru ljósi á að siðaskiptin tengjast valdagræðgi og offorsi andlegra og veraldlegra ráðamanna fyrst og fremst en hafa minnst með sannfæringu almúgamanna að gera.

Í Byltingarbörnum er gefin raunsæisleg samfélagsmynd sextándu aldar. Á biskupssetrinu vaða menn forina í dimmum bæjargöngunum með saggaþef í nösum. Lýst er áhrifum siðbótarinnar á lærða og leika um leið og örlaga- og ástarsaga raunverulegs fólks er rakin. Efnið er erfitt viðureignar, sagan brokkgeng og langt frá því að vera með því besta frá hendi höfundar. Björn heldur sig á fornum slóðum og er fyrir löngu orðinn ráðsettur yfirmaður í sögulegu skáldsagnadeidinni. En hann er enginn byltingarbjörn. Og bókarkápan er hörmung.

Birt í DV 19.11.2000, hér örlitið breytt

Sætkartöflusúpa Heiðrúnar

Ég elska heitar og heimagerðar súpur. Fékk þessa fínu súpu hjá Heiðrúnu minni á Þórshöfn í sumar. Prófaði að elda hana hér í borginni en átti ekki alveg allt sem átti að vera en kona bjargar sér og nennir ekki útí búð eftir e-u smáræði. Súpan endaði svona:

1-2 sætar kartöflur, 1 l vatn, 1-2 laukar, 3-4 hvítlauksrif, 1 rauð paprika og/eða hálft epli, 1 msk grænmetiskraftur, salt og pipar, safi úr sítrónu eða límónu, duglega cummin, chiliduft og smá kanill

Sætu er flysjaðar, brytjaðar og soðnar í vatni þar til þær eru mjúkar. Vatninu hellt af. Hitt grænmetið steikt á pönnu í kryddinu. Allt sett saman og 1 l af vatni bætt í. Malla bara nógu lengi og mauka síðan með töfrasprota – það geri ég annars aldrei við súpur en þessi er góð svona mjúk og kremuð. Bæta svo við rjóma/hafrarjóma. Skreyta með steinselju og rjómataumi ef vill. Gott að hafa kaldhefað brauð með, það fékk ég hjá frænku! Brauðið á líka rætur til Þórshafnar, sjá hér söguna af því.

SVEFN

eftir Vilhjálm frá Skáholti

Hann kom svo þreyttur, þetta var um kvöld,
er þögull skugginn gamalt húsið vafði,
því það var haust, og mjöllin, mjöllin hvít
sinn mjúka feld á gluggann okkar lagði.

Svo var hans auglit dularfullt og dimmt,
sem dáinn vœri endur fyrir löngu,
án festu og kjarks sem þjáðum hug er hent,
að hafa með á lífsins píslargöngu.


Hann missti eitthvað innst úr hjartarót,
sem öllum stundum lífið hetju geymir,
Og sefur enn svo undur rótt sem fyr,
og allt er hljótt í kringum mann sem dreymir.


Hann, þessi maður, átti yfir fjöll
að arka um nóttu fyrir þjáða lýði,
en hversu bljúgur svefninn seig á brá,
var sorgleg upþgjöf manns i þeirra striði.


Sjá, langt i burtu, bak við myrkvuð fjöll
hans biða hjörtu stöðugt þjáð, og sakna.
Og hvað mun þá um þau sem biða hans,
ef þessi maður skyldi aldrei vakna?

Vinnan, 1948

Að burðast með sögu sína

Titill skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti, frá árinu 2015, gefur til kynna eitthvað afdrifaríkt. Hann er lokahrinan, þegar uppsafnaðir kraftar brjótast út, eftir hann er allt breytt, kannski horfið eða hrunið. Eins og í tilfelli Sögu en hún rankar við sér eftir heiftarlegt flogakast og man sáralítið út lífi sínu. Hún fetar sig hikandi í gegnum óminnið og kemst brátt að því að hún er nýskilin við rithöfundinn Berg og þau eiga einn son, Ívar. Hún hefur alist upp við drykkju og ofbeldi föður síns sem steyptu fjölskyldunni í ógæfu. Síðan þá grúfir sorgin yfir og aldrei grær um heilt; ótti, meðvirkni og bæling hvíla á öllum eins og mara. Kvikmynd eftir bókinni er komin í bíó.

Sjúk sambönd

Í slíkum fjölskyldum verða til sjúk sambönd milli fólks.  Duldar reglur verða til um hlutverk hvers og eins, hvað má segja og hvað ekki í brengluðu samskiptamynstri sem allir mótast af. Auður hefur áður fjallað um þetta efni af raunsæi, innsæi og list, s.s. í Fólkinu í kjallaranum (2004) og Ósjálfrátt (2012).

Þegar Saga kemur til baka úr floginu og hefur glutrað niður reglunum og mynstrinu sem hafa stjórnað samskiptum í fjölskyldunni fer allt á hvolf. Viðbrögð hennar t.d. við  hvarfi móðu sinnar sem Saga upplifði sem barn eru önnur en hinir eiga að venjast sem veldur tortryggni en skapar um leið mögulegt svigrúm fyrir lausnir og uppgjör.

Saga hefur alltaf upplifað sjálfa sig sem fyndna og klára konu sem hristir af sér vandamálin (110) og krækir framhjá öllu því óþægilega en eftir skjálftann er hún vanmáttug og ráðalaus og líður eins og líf hennar hafi verið fáránlegt. Hún hefur algjörlega misst fótanna og finnst hún vera að sligast undan þunga eigin tilveru (226). Sjálf vill hún ekki brjótast úr hlutverki sínu og raska venjum fjölskyldunnar, hún reynir að leyna minnisleysinu fyrir sínum nánustu og breiða yfir misfellurnar af gömlum vana, sem skapar skrautlega atburðarás.

Syndir feðranna

Sagt er að syndir feðranna komi niður á börnunum og það gera þær svo sannarlega hér. Pabbi Sögu var yfirgefinn, ástlaus og vanræktur í æsku og bar þess aldrei bætur. Mamma hennar átti þunglyndan og fálátan föður og móður sem drekkti sér í vinnu og stjórnaði með augnaráðinu einu saman. Marvaðinn er troðinn endalaust í límkenndu minni aldanna og spurt er hvort nokkurrar undankomu sé auðið (177). Saga sjálf á í flóknu ástar-/haturssambandi við foreldra sína sem eru sligaðir af áralangri þöggun og bælingu og hvað bíður Ívars litla ef vítahringurinn er ekki rofinn? Hún þurfti svo sannaralega á því að halda að missa minnið til þess að muna (225).

Drekinn

Í verkinu eru margir þræðir spunnir. Einn þeirra er hlutverk mannsheilans við varðveislu minninga. Svokallaður dreki (hippocampus) er talinn sjá um að flokka minningar í eins konar gagnabanka en þegar Saga reynir að sækja upplýsingar þangað og púsla tilverunni saman á ný valda erfiðu minningarnar hræðilegum höfuðverk, fortíðin bankar upp á og sýnir enga miskunn enda löngu komið að skuldadögum.

Í skáldsögu Stine Pilgaard sem heitir Mamma segir (2012) er fengist við höfnun, uppeldi og ástarsorg og meginuppistaða hennar er langir og ljóðrænir kaflar um drekann (í líki sæhests) og hlutverk hans í minningasafninu. Skemmtileg tilviljun. Það verður sífellt áleitnara í samtímaskáldskap að fjalla um minni og minningar, grafast fyrir um fortíðina, uppeldið og áhrif þess á sjálfsmynd og tilvist manneskjunnar.

Gömul reiði

Annar þráður verksins er flogaveikin sem er lýst sem árásarmanni og nauðgara, sem liggur í leyni og getur ruðst fram hvenær sem er til að taka stjórn og koma fram vilja sínum. Og ástin er enn eitt umfjöllunarefnið, en gengur hún ekki út á að safna góðum minningum og skapa nýjar? Eða gengur hún út á erfiðar minningar sem fólk á sameiginlegar? Gömul reiði er versti óvinur ástarinnar og það sannast í samskiptum Sögu og Bergs , sjúklegur ótti hennar um soninn á rætur að rekja til fjölskylduhörmunganna sem hún upplifði sem barn og hafa aldrei verið gerðar upp. Saga er stjórnsöm og bitur og pirrast endalaust á manninum sínum sem á endanum gefst upp á henni.  Eftir stóra skjálftann man Saga aðeins góðu stundirnar með Bergi en það er sorglega augljóst að arfurinn úr uppeldinu hefur fylgt henni og eyðilagt sambandið.

Stóri skjálfti kraumar af sárum tilfinningum sem umlykja orð og athafnir persónanna sem eru vanar að dylja það sem þeim býr í brjósti. Við vinarþel gjósa þær og streyma fram, það lætur engan ósnortinn:

…Það skiptir ekki máli héðan í frá. Þú gerðir það sem þú gast.

Hún horfir vantrúuð á mig.

Ég er viss um það, segi ég.

Þú getur ekki verið viss, segir hún og kæfir grát í fæðingu.

Þú passaðir mig alltaf, bæti ég við, sjálfri mér að óvörum og finn þakklæti leysa upp kökkinn í hálsinum. Ekki gleyma því!

Hún brosir feimnislega meyr en það þyrmir jafnóðum yfir hana.

(203)

Gjöf og gjald

Minnisleysi getur verið bæði gjöf og gjald, í gleymskunni er maður alltaf nýr og ferskur og eins og laus undan oki en um leið einhvern veginn úr samhengi og týndur. Það er ögrandi viðfangsefni í skáldskap að koma hlutlaus að málum og hafa annað sjónarhorn og minningar en aðrir og ekki síður að velta upp spurningum um hvernig mörkum minninga og ímyndunar er háttað.

„Nú veit ég að allt sem ég hef gleymt hefur gert mig að mér, ég er summan af eigin gleymsku. Og ég held áfram að gleyma, það styttist í að ég gleymi sjálfri mér. En óminnið getur aldrei eytt því sem gerðist, atburður lifir í eftiröldum sínum og ást sem eitt sinn var, hún var, og það sem var, það verður. Söknuðurinn er sönnun þess. Þá hlýtur veröld mín að vera eitthvað meira en skáldskapur…? (230)

Sagan stefnir að óumflýjanlegu uppgjöri sem sviðsett er með áhrifamiklum réttarhöldum. Sögulokin eru opin til túlkunar, stefnir í Sögulok. Stóri skjálfti er vel skrifuð saga um áleitið efni, um raunverulegt vandamál, upplausn og lífsháska. Erum við ekki öll að burðast með okkar eigin sögu, áföll og fjölskyldudrama, í leit að merkingu og sátt í trylltum heimi?

(Á smekklegri bókarkápunni sem Lubbi hannar er heilalínurit höfundarins sem minnir helst á plötuumslag Joy Division, Unknown Pleasures, söngvari þeirrar hljómsveitar var flogaveikur…)

Birt fyrst í Kvennablaðinu.


Frægðarturnar minninganna

„Það var þegar heill hópur af Reykjavíkurstrákum voru að skrifa bækur um reynslu sína af því að vera sendir í sveit, endalausar karlasögur fóðraðar með sjálfsánægjunni af því að vera strákar úr sveitaborginni Reykjavík, mættir galvaskir á ritvöllinn til að byggja sér frægðarturna úr minningum sínum af skrýtnu sveitafólki og hvernig þeir hefðu nú orðið að státnum, stæltum og vel gefnum karlmönnum af þrældómnum í sveitinni hjá hyskinu sem þar bjó. Það var þá sem mér datt í hug að gaman væri að skrifa bók um hvernig það var að vera sveitastelpa, lét þó aldrei verða af því.“

Þórhildur Ólafsdóttir, Efndir (50)

Ástarljóð til fyrrverandi

Myndlistarkonan og þýðandinn Guðrún Svava Svavarsdóttir (f. 1944) sendi árið 1982 frá sér ljóðabókina Þegar þú ert ekki, en þema hennar og umfjöllunarefni er skilnaður við skáldið Þorstein frá Hamri. Ljóðabókin er fallega upp sett, á sérlega fallegum pappír, hún er þrungin söknuði og skreytt sársaukafullum myndum höfundar.

Guðrún Svava hefur haldið námskeið og myndlistarsýningar, gert leikmyndir og myndskreytti m.a. Ljóðasafn Þorsteins frá Hamri 1984 og Urðargaldur 1987. Einnig myndskreytti hún Örvar-Odds sögu í útgáfu Þorsteins, Laxdælu í útgáfu Halldórs Laxness, þjóðsögur í útgáfu Hrings Jóhannessonar og Þorsteins, Búrið eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og tvær ljóðabækur Steinunnar Eyjólfsdóttur.

Yrkja mig frá angri

Um bókina, Þegar þú ert ekki, segir Guðrún Svava í viðtali í Helgarpóstinum, 17. desember 1982:

„Það er hægt að líkja þessu við að eignast barn í fyrsta sinn, Þarna er eitthvað nýtt að fæðast, sem maður hefur átt þátt í að gefa líf og það er mjög góð tilfinning“. Þannig lýsir Guðrún Svava Svavarsdóttir myndlistarmaður því hvernig það er að sjá sína fyrstu bók á prenti… Guðrún Svava segir, að samning bókarinnar hafi verið tilfinningaleg útrás fyrir hana. „Ég var að yrkja mig frá angri“, segir hún. Í bókinni tekur hún fyrir tilfinningar sínar og upplifun á tímabili í lífi sínu, þegar hún kemst að því, að maður hennar er í tygjum við aðra konu, og eftir að hann er farinn að heiman. Er hún ánægð með bókina? „Já, ég er ánægð með hana sem verk eða sem hlut. Hún er mjög nálægt því að vera eins og ég vildi hafa hana. Mér finnst þeir ekkert hafa til sparað hjá Iðunni og það hefur verið mjög skemmtilegt að vinna með þeim. Mér finnst þetta falleg lítil bók og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gera hana þannig“ segir Guðrún Svava.“

Ástarljóð til fyrrverandi

Í viðtali við Guðrúnu Svövu í Morgunblaðinu frá 8. október 1982 segir m.a.:

„Guðrún Svava býður upp á rótsterkt og gott ítalskt expressokaffi og við spyrjum hvort hún hafi fengist við skriftir áður. „Nei, ekkert komið nálægt því, orti að vísu eitthvað þegar ég var stelpa, eins og allir gera.“ Guðrún er þekktari fyrir myndverk sín en Ijóðagerð og hefur meðal annars unnið talsvert við leikhúsin, teiknað leikmyndir og búninga. „Þessi Ijóð fjalla um tilfinningar mínar í gegnum visst skeið í lífinu. Það má kannski segja að þetta séu ástarljóð til mannsins míns fyrrverandi, en Ijóðin eru ort á síðastliðnu ári.“ Guðrún segir að meðan hún hafi verið að ganga í gegnum mestu erfiðleikana í sambandi við sambúðarslit þeirra hjóna hafi hún ekkert getað unnið í myndlistinni en svo hafi þessi Ijóð brotist í gegn.

Konur gefa oft meira af sér

„Það er ekki nokkur vafi að þetta hefur hjálpað mér í gegnum erfiðan tíma. Þar sem þau fjalla um persónulega reynslu mína hafa sumir spurt hvers vegna ég haldi þessu ekki bara fyrir mig. En ég hef alltaf sem listamaður unnið mikið með tilfinningar, bæði mínar og minna nánustu þó ég hafi að þessu sinni breytt um form, og hef oft unnið myndverkin á táknrænni hátt. Ég held líka að þessi Ijóð eigi erindi til annarra sem standa í svipuðum sporum eða hafa lent í svipaðri lífsreynslu.“ Hún segir að sér finnist skilnaður vera allt of algengur þáttur í lífi okkar í dag ásamt allskyns framhjáhöldum og lausung. „Ég held að skilnaður sé oft mesta persónulega skipbrot sem nokkur getur orðið fyrir og oft miklu erfiðara fyrir konur að skilja en karla því þær hafa oft gefið miklu meira af sér í sambandinu.“

Fólk upptekið af að neyta

Og hún heldur áfram og segir að sér finnist fólk oft hömlulaust, bæði efnahagslega og tilfinningalega. „Fólk er of upptekið af því að neyta allra hluta, það heldur að það verði hamingjusamara ef það eignast nýjan bíl eða nýjan maka, en það er löngu vitað að það er ekki rétta leiðin. Það sem skiptir fólk mestu máli býr í því sjálfu, hæfileikinn til að elska og gefa eitthvað af sér. Það er margt svo mótsagnakennt í lífinu, menn virðast t.d. stundum halda að frelsi felist í því að gera allt sem manni dettur í hug, en ég held menn verði ekki frjálsir nema með því að temja sér ákveðinn sjálfsaga.“

Brot úr ljóðabókinni:

Hún benti á þig:

Ég vil hann.

Og ást mín varð gömul.

Það er þungbært –

að hafa í fimmtán ár

reynt að gæta þess að þú fengir frið til að skrifa

reynt að styrkja þig á erfiðum stundum

reynt að sjá til þesss að þú glataðir ekki alveg

börnunum þínum fimm –

að vera kastað burt einsog einskis nýtu húsgagni.

Aldrei framar mun ég treysta mönnunum

né hrífast af fegurð landsins.

Aldrei framar.

Birtist á skáld.is, 7. mars 2021