Án ártals

10. janúar

Sæl – og gleðilegt nýár.

Nú leita ég til þín. Mig langar til að kaupa dálítinn hlut: Mér varð á það óhapp að brjóta könnu fyrir vinkonu minni, og í laumi ætla ég að reyna að bæta henni hana. Hún var nefnilega samstæð glösum, og var þetta á sínum tíma silfurbrúðkaupsgjöf. Líklega er ekki hægt að fá alveg sömu gerð. En slétta glerkönnu með einhvernveginn gylltu skrauti er sennilega hægt að grafa upp. Hún mun hafa tekið 1 lítra.

Mundir þú vilja kynna þér þetta, skrifa mér um málið – eða bara kaupa hana og geyma? Viltu líka lána mér, svo að ég þurfi ekki að vera að bisa með ábyrgðarbréf eftir ýmsum krókaleiðum u m sveitina.

Ég veit þetta er leitt kvabb. En ég skal fara í einhverja snattferð fyrir þig í staðinn seinna. Takist þetta, verður umrædd kanna sótt til þín einhvern tímann seinna af vandamönnum þessa borðbúnaðar, búsettum í Reykjavík.

Bið að heilsa Stínu og Gísla.

Í Guðs friði.

Ossa.

Þetta málefni má ekki ræða í landsímann. Það heyrist um alla sveit.

Oddný í útvarpinu

Það er helst að frétta af mér og Oddnýju frá Hóli að hugmynd að ca 2×40 mínútna útvarpsþáttum um hana hefur verið samþykkt á Hugmyndadögum Rúv. Framundan eru grúsk og fræðimennska, dálítinn glaðning rak á fjörur mínar sem mun vonandi varpa nýju ljósi á Oddnýju.

Saga hennar er saga konu sem fór aðrar leiðir í lífinu en ætlast var til af henni í formföstu samfélagi, gerði það sem hana langaði til og lét álit annarra sem vind um eyrun þjóta. Ég hlakka til að sinna þessu verkefni.

safnahusio

Í Safnahúsinu á Húsavík

 

Jakobína og afi

Var að blaða í tímaritinu Melkorku, tímariti kvenna, frá 1959. Afi minn, Einar Kristjánsson, fjallar þar um Jakobínu Sigurðardóttir á fundi hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna á Akureyri og segir m.a. :

„Hennar þáttur í baráttu fólksins gegn hernaðarviðurstyggðinni, hefur verið henni til mikillar sæmdar og íslenzkar konur mega vera stoltar af því að eiga hana í sínum hópi.“

Kafli úr erindi afa birtist í Melkorku, sjá tímarit.is

New York 2018

40784975_962754867249447_2694152149201321984_n

Í New York er stöðugur straumur alls konar fólks sem sinnir erindum sínum á þönum með kaffimálið sitt og litlar handtöskur,  rýnir í símann og þrýstir hvítum heyrnartólum inn í eyrun á sér. Í septemberbyrjun eru allir léttklæddir, hitinn úti er yfir 30 gráður en í búðum og á veitingastöðum er hrollkalt. Hótelherbergið er pínulítið og loftræstingin í gangi allan sólarhringinn, útsýnið yfir í næsta vegg. Allt er dýrt, matur og drykkur á svipuðu verði og á Íslandi þegar skattur og þjórfé er talið með. Og allt kostar sitt, í fótsnyrtingu kostar aukalega að pússa mikið sigg, það kostar meira að fara hærra en 86. hæðir í Empire State, það kostar 4 dollara að leysa út pakka sem geymdur er í lobbýinu og það bætist skattur við allt verð sem gefið er upp.

Central Park iðar af lífi, þar er ekki amalegt að setjast niður með kaffimál og krósant og virða fyrir sér aðra ferðamenn, hlaupara, betlara, barnafólk og bóhema. Bókasafnið við Bryant Park er risastórt og glæsilega hannað, í garðinum þar er Makbeð á fjölunum. Alls staðar í borginni er eitthvað um að vera og raðir myndast við mátunarklefa og kassa í búðum, á söfnum og veitingastöðum. Allir eru glaðir og vinalegir í viðmóti, brosa og heilsa: How are you today?

Söfnin eru frábær, td MOMA, hið ofursmarta Guggenheim og Whitney (ekki Houston). Og  stórskemmtilegt var að skoða Tenement Museum við Orchard Street sem hýsir leiguíbúðir frá síðustu áratugum 19. aldar þegar innflytjendur, aðallega Gyðingar frá Austur-Evrópu og Rússlandi, tóku að streyma til lands tækifæranna. 6-8 manns bjuggu í 30 fermetra íbúð, án gass og rafmagns, og íbúðin var jafnframt vinnustaður þar sem 3-4 sátu við klæðskurð, sauma og pressun frá morgni til kvölds.

Á Metropolitan safninu var sýning að nafni Heavenly Bodies sem var stórfengleg. Hún snýst um áhrif kaþólskrar trúar og myndlistar á fatahönnun nútímans. Áhrifamikið og fallegt, tónlistin dásamleg.

 

Í Guggenheim var yfirlitssýning á verkum svissneska listamannins Alberto Giacometti  (d. 1966) sem var gaman að skoða. Einnig var í litlum sal sýning á list ungra asískra nútímalistamanna og þar var frábært vídeóverk eftir Wong Ping (f. 1984); eins konar Tómas Jónsson í Hong Kong.

Í MoMa var sérlega gaman að skoða sýningu á verkum Bodys Izek Kingeles (d. 2015), Bodys. Hann er afrískur listamaður og skúlptúrar hans eru líkön af byggingum, innblásin af afrískri list, friðarást og fjörugu ímyndunarafli.

 

 

Alls staðar var góður viðurgjörningur, matur fallegur og bragðgóður, drykkir dásamlegir. Í NY er allt í fjöri og vexti, allt er stórt, dýrt og magnað, amk það sem snýr að ferðamanni. Hún er heimsborg fyrir lengra komna.

Fárleg örlög

Lenda þar að landi
líst sá staður sístur
halda vilja heldur
harla skjótt frá jarli.
Sigla þöndum seglum
sunnar slóðir kunnar.
Örlög flúið fárleg
fengið hefur enginn

 

Ekki margir sem geta ort dróttkvætt. En það gerir Þórarinn Eldjárn léttilega.

Hér liggur skáld, 2012