„En til hvers er að dvelja við slíka dagdrauma!“

En til hvers er að dvelja við slíka dagdrauma!

Um Svein Pálsson

Sveinn Pálsson

Átjánda öldin og upphaf þeirrar nítjándu eru jafnan talin til erfiðustu tímaskeiða í sögu íslensku þjóðarinnar. Hér geisuðu hallæri og hungursneyð, plágur og pestir; fólk bjó við óblíð náttúruöfl, fátækt , einokun og misrétti; kúgun og arðrán voru daglegt brauð og hugarfarið einkenndist af ofstæki, bælingu og grimmd. Þó má ekki gleyma að á þessu sama tímaskeiði var upplýsingarstefnan farin að láta á sér kræla með nýjum hugmyndum, bjartsýni og von um betri tíð. Hennar sér stað m.a. í stjórnsýslu, listum og trúarlífi og náttúrufræði sem tók stakkaskiptum með vísindalegum aðferðum, skilgreiningum og skipulegri skráningu. Túlkun mannsins á sjálfum sér breyttist, bókmenntir losnuðu úr gömlu formi og stíl, ný yrkisefni komu til sögu og maðurinn sem sjálfráð skynsemisvera varð til.

Í Evrópu var margt á seyði á tímum upplýsingarinnar. Skólar risu, fangelsi voru byggð ásamt sjúkrahúsum, heilsuhælum, geðveikraspítölum, munaðarleysingjahælum, verksmiðjum,  leikhúsum og söfnum; dagblöð voru gefin út,  lögmál um vörur og neytendur urðu til, lyf og almenn heilsufræði komu til skjalanna, samskipti og þjónusta urðu atvinnugreinar. Og einstaklingshyggja varð til sem hafði áhrif á aldagamalt feðraveldi og stéttaskiptingu,  tíska losnaði úr spennitreyju sektar og erfðasyndar og þráin varð til í orðræðu og hugsunum fólks. Skilgreindur vinnudagur í kjölfar iðnbyltingar leiddi til þess að frítími kom til sögunnar og menn nutu hans í lystigörðum, á torgum og kaffihúsum, menn tóku að trúa á umbætur á samfélagi sínu, að þekking skilaði framförum og að Guð hefði fulla stjórn á skipulaginu og veraldarganginum (Porter, 2000). Jafnvel dauðinn, með tilheyrandi syndaregstri, erfðaskrá, fyrirbænum og líkvökum, hætti að vera ógnvekjandi lokauppgjör við lífið og varð að ljúfum svefni (Porter, 2003) en það var upplýst læknisfræði sem breytti fornri ásýnd dauðans. Í stað mikilvægustu spurningar fyrri tíðar um hvernig verður sálin varð hólpin, fýsti menn að leita hamingjunnar í jarðlífinu (Porter, 2000). Í stað spákvenna, lófalesara og galdraseyða endureisnartímabilsins kom ný sýn á vísindi og náttúru, mælingar og greiningar (sjónaukar, smásjár, loftvogir, hitamælar, rakamælar), kerfisbundin alfræði kom til sögu með skilgreiningum og líkindum. Áhrif upplýsingarinnar náðu um síðir til Íslandsstranda og frömuðir og föðurlandsvinir eins og Magnús Stephensen (1762-1833) og Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson  (1807-1841) tileinkuðu líf sitt framgangi hennar.

Sveinn Pálsson (1762-1840), læknir og fremsti náttúrufræðings landsins á sinni tíð, kom ungur og fátækur sveitapiltur  úr Skagafirði til náms í Kaupmannahöfn þar sem ferskir vindar upplýsingarinnar sviptust um hellulagðar götur og torg.  Hann lauk fyrstur manna prófi í náttúrufræði í Danmörku 1791 og fékk að því búnu styrk til rannsóknarferða um Ísland í fjögur ár. Hann hafði skýr fyrirmæli um verkefnið sem var gríðarlega umfangsmikið og vandasamt. Hann fann vel til vanmáttar síns sem vísindamanns og segir t.d.  um ferðina heim til Íslands frá Kaupmannahöfn: „Mjög fátt gerðist í ferð þessari fyrir náttúrufræðing, sem svo á að heita, jafnvel þótt ekki sé nema að nafninu til“ (Sveinn Pálsson, 1983:7). Til rannsókna hafði hann nauman fjárstyrk og enga aðstöðu til að fylgja þeim eftir. Í upphafi ferðabókar sinnar telur hann upp þau áhöld sem hann keypti til ferðarinnar og verða þau að teljast ansi fátækleg:  40 stk öskjur, 40 stk pappi, 4 rís þerripappír, 1 ¾  pund seglgarn, 1 pund kembd baðmull, 3 ¾ pund skeiðvatn (saltpéturssýra) og flöskur undir það, 30 stk svínsblöðrur, 10 stk krukkur, loftvog, hitamælir, fiskikarfa úr járni, 400 faðma strengur, snæri og skaftlaus klaufhamar (Sveinn Pálsson, 1983:BLS). Niðurstöður rannsóknanna skráði hann á dönsku í Ferðabók sína með ör­smárri og skipulegri rithönd og er handrit hans rúmar sjö hundruð síður í þremur þéttskrifuðum bindum í arkarbroti (IB.1–3.fol.). Þetta handrit, sem eitt sinn var í eigu Jónasar Hallgrímssonar, starfsbróður hans, var ekki þýtt eða gefið út fyrr en tæpum 150 árum eftir að það var skrifað.

Sveinn var mikill fjallgöngumaður en á hans tíð þóttu slíkar göngur óðs manns æði, bæði hér á landi og erlendis. Hann hafði jafnan með sér oddhamar á ferðum sínum og með honum klappaði hann fangamark sitt og ártal á tiltæka steina og tinda. Þessi spor í íslensku landslagi sem Sveinn Pálsson skildi eftir sig hafa ef til vill bætt honum upp hversu lítið fór fyrir honum í þjóðlífinu. Því þótt Sveinn væri einn lærðasti maður sinnar samtíðar, landskunnur sem „læknirinn í Vík“ og í kunningsskap við helstu virðingar- og lærdóms­menn landsins þá kvað ekki mikið að honum í samfélaginu. Sennilega hefur þar komið til annríki við dagleg læknisstörf, endalaust peningabasl, eðlislæg hlédrægni og síðast en ekki síst eitthvert hik, ósjálfræði og beiskja vegna eigin örlaga sem urðu önnur en hann hefði kosið.

Ferðabók Sveins Pálssonar má líkja við stóran suðupott. Þar krauma saman dagbókarfærslur og rannsóknarskýrslur, landafræði og náttúrufræði, sjúkdómslýsingar og önnur læknisfræðileg minnisatriði, þjóðsögur sem t.d. tengjast örefnum, og ferðalýsingar þar sem segir af fjall­göngum, vísindalegum rannsóknarferðum milli landshluta og stuttum grasaferðum í næsta nágrenni – allt er þetta undir einu pottloki. Svo er kryddað með veðurlýsingum og fréttum af aflabrögðum. Í Ferðabókinni birtast klisjur úr ferðabókum fyrri alda og eru settar fram eins og vísindi en þær eiga rætur að rekja til gamallar hugmyndafræði og goðsagna úr landfræðiritum og ferðasögum í aldanna rás. Sem dæmi mætti nefna tilbrigði við loftslagskenningu Montesqieu (1689-1755)  sem byggir á muninum á kaldrifjuðum íbúum norðursins og blóðheitum þjóðum í suðrænum löndum. Hjá Sveini birtist hún sem  hrepparígur birtist milli norðurs og suðurs, sjávar og sveita. Sunnlendingar fá þá  umsögn að vera sljóir og latir meðan sveitungum Sveins, Norðlendingum, er hampað. Um íbúa Gullbringusýslu segir í Ferðabókinni:

Héraðsbragur virðist vera sá, að menn séu dramblátari, eigingjarnari, ógestrisnari og óhreinskilnari við yfirvöldin en annars staðar á landinu. Málfar og venjur er svo blandað erlendu kámi, að hver sá, er þangað kemur fyrsta sinni utan úr sveit, hlýtur að standa sem steini lostinn yfir fólkinu, sem hann hyggur hálfdanskt. Yfirleitt mundu menn óska þess, að þeir, sem búa við sjó á Íslandi, tækju fremur eftir erlendum verzlunarmönnum hreinlæti, fagra og gagnlega siði og hófsemi heldur en uppivöðslusemi, kaffi- og brennivínsdrykkju, blótsyrði og aðra fíflsku (607). […] Klæðnaður, einkum kvenfatnaður, er íburðarminni hér en annars staðar, sérstaklega norðan lands. Mjög fáir kvenmenn bera silfur utan á sér, en auk þess eru fötin hvernig nærri eins snotur og upp til sveita (608). […] Húsakynni fólks eru afleit… Bæirnir eru lágkúrulegir, litlir og þröngir, illa viðaðir, og ógerlegt má heita að þrífa þá. Alltaf er þar fullt af viðbjóðslegum óþef, sem kemur af daglegum úrgangi frá útveginum, lýsisbornum sjóklæðum og þó einkum hinni svonefndu f o r. Það er þró, sem grafin er niður í jörðina fast við bæjardyrnar og hlaðin upp úr grjóti. Í hana er safnað hlandi, rusli úr bænum, fisksoði og öðrum óþverra, en síðan er þetta notað sem áburður á túnin. Af þessu kemur það, að vermenn, sem verið hafa við sjó á vertíðinni, verða fyrir því, þegar þeir koma aftur út í sveitirnar á sumrin, að heimafólkið þefar af þeim með nokkurs konar háðslegum viðbjóði, unz þeir hafa látið þvo allan sinn fatnað sem rækilegast. Og í rauninni helzt einhver leiðinda dámur við við þessa menn nokkurn tíma eftir heimkomuna, þangað til að þeir hafa vanizt lifnaðarháttum í sveitinni. Þegr dvalizt er við sjávarsíðuna, finna menn þetta naumast, en því meira, er þeir koma hingað í fyrsta sinni ofan úr sveitum.“ (Sveinn Pálsson, 1983: 608-9)

Um íbúa Hegranessýslu segir hins vegar í Ferðabókinni:

Skagfirðingar eru vanari ferðalögum en öll önnur landsins börn. Og í stað þess, að fólk i sumum öðrum sveitum ferðast aldrei og er, að kalla má, mannfælið og hefur einhvern heimóttarsvip, þá er Skagfirðingar manna frjálslegastir, fljótir til og opinskáir í viðmóti. En þegar aðrir finna í skapferli þeirra hinn ósvikna hermennskubrag, ásamt frjálslegri og óþvingaðri framkomu er illa þolir kúgun, þá kallast það, að þeir séu hvatvísir, óstýrilátir og þrætugjarnir. Og af því að þeir sýna óttaleysi um ýmsa aðra fram, þá eru þeir álitnir drambsamir, orðhvatir og auk þess montnir, af því þeir taka Sunnlendingum langt fram í hreinlæti og klæðaburði. Þeir eru þannig hugrakkir, opinskáir, örlyndir, alvarlegir og göfuglyndir. Þeir unna réttsýni, og mjög má róma gestrisni þeirra, þegar undan eru skildar einstakar sveitir, svo sem Viðvíkursveit og Höfðaströnd, er liggja næst hinum danska verslunarstað. En því er svo háttað um land allt, að það fólk, sem lengi hefur saurgazt af samskiptum við útlendinga – en meðal þeirra er oft úrhrak verzlunarþjóðarinnar – er sem væri það af öðrum kynþætti en hin ósnortna alþýða upp til landsins (Sveinn Pálsson 1983: 636).

Hér birtast skýrast andstæðurnar  norður – suður, íburður – fátækt, sveit – sjávarsíða, hreint – óhreint  (þvottur – daunn), frjálslegur – heimóttarlegur, innlend áhrif – erlend áhrif, ósnortinn – saurgaður, úrhrak verzlunarþjóðar – alþýða landsins. Íbúum sýslnanna tveggja er lýst kerfisbundið að hætti alfræði upplýsingarinnar, þeir fá tiltekin einkenni og samanburður í ljósi mismunar veitir eina svarið sem tekið var gilt. Flokkunarkerfið hefur á sér hlutlægniyfirbragð;  hér er að verki vísindaleg tafla sem birtir eiginleika íbúa tveggja landshluta og dregur upp mynd af skipulagi eða veruleika sem er kyrrstæður; þar sem allt er bundið saman í algilt kerfi. Þetta eru vísindi sem gefa sig út fyrir að þekkja sannleikann. En þegar að er gáð úir og grúir af óvísindalegum fullyrðingum, fordómum og klisjum sem eru enn að verki í huga okkar enn í dag um td. sveit og borg. Vísindi sem þessi birtast mjög víða í almennum landafræðiritum þessa tíma (t.d. í Almennri Landaskipunarfræði 1821-7) og   í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar (pr. 1947). Vert er að huga í þessu samhengi að kenningum franska fræðimannsins Michael Foucault (1926-1984) sem fjallaði um hugsunarsögu Vesturlanda og upplýsinguna í  frægri bók sinni Orð og hlutir (Les mots et le choses, 1966).

Það sem einkennir þekkingu og skynjun upplýsingamanna, skv. kenningum hans, er mikil greiningarþörf, flokkun og skipulag. Samfellt kerfi hluta er búið til og virkar sem eins konar algild sannindi, hreyfingarlaus og tímalaus, líkt og greypt inn í hugann. Á upplýsingartímanum var „lýsing“ lykil­hug­tak og forsenda þeirrar þekkingar sem réði skynjun manna á heiminum. Heimurinn og hugsunin voru þá álitin spegla hvort annað hnökralaust í gegnum tungumálið sem menn töldu að væri algerlega gagnsætt, orð og hlutur samsvöruðu hvort öðru fullkomlega. Heimsmyndin var sett upp í eins konar alfræðitöflu og skipað eftir ákveðnum reglum. Hvorki tungumálið né tilvist mannsins var vandamál í sjálfu sér (Foucault, 1996). Upplýsingin er því tímabil alfræðinnar miklu, orðabókanna og vísindasafnritanna. Alfræðitaflan byggir á einfaldleika, hún birtir þekkingu í ljósi mismunar og sérkenna. Dæmi um slíka töflu er m.a. að finna í verkum sænska grasafræðingsins Carl Linné (1707-1778). Í frægu verki sínu, Systema Naturae, bjó hann til kyrrstætt og algilt flokkunar- og stigveldiskerfi fyrir plöntur og dýr. Sveinn Pálsson þekkti verk Linnés og skrifaði stutta ritgerð eða skrá um flokkun plantna. Skráin, sem heitir Flora Efri-Skaulana, er tafla um þær plöntur sem hann safnaði og greindi sumarið 1796 í túninu heima á Skála undir Eyjafjöllum (Sveinn Pálsson, 1983). Það hefur ýmislegt verið náttúrufræðingi á Íslandi mótdrægt á þessum tíma, því í lokin skrifar hann: „Erfitt er einnig að nafngreina grösin með fullri vissu á túnum hér á landi, því að þau eru slegin áður en grösin blómgast“(703).

Í Ferðabókinni takast á viðhorf náttúrufræðings og bóndasonar, vísinda og hjátrúar. Jón Eyþórsson, einn þýðenda ferðabókar Sveins, segir að Sveinn hafi „hatað hjátrú“ (Jón Eyþórsson 1983:xxx1). Það viðhorf get ég ekki fundið í Ferðabókinni. Sveinn trúir ekki neinu sem hann getur ekki sjálfur sannprófað en afstaða hans til hjátrúar er langt frá því að vera ofstækisfull heldur er hún miklu frekar mild og raun­sæisleg. hann segir td: „Alþýða manna hér á landi kennir alla (slíka) bráða sjúkdóma fjandanum og illum öndum, líkt og annars staðar er títt, enda vita þeir ekki hinar réttu orsakir sjúkdómanna“ (94). Úr skrifum Sveins má lesa einföld skilaboð, fólk vantar upplýsingu. Sjálfur er hann oft tvístígandi með hvað í náttúrunni megi tengja saman og hvað ekki: „Það er áreiðanlegt, að það veit á hvassviðri, þegar mikil ólæti eru í hrossagauknum á kvöldin og framan af nóttu“ (I:58)  skrifar Sveinn eins og gamall endurreisnarmaður.  Skrýtið dýr, með eitthvað sem líktist selshaus, fór á kaf og skaut upp kryppu í á, fólk sagði að þetta væri algengt á undan illviðri og þá skrifar Sveinn: „En hversu furðulegar sem þessar sýnir mega virðast, þá er hitt samt ennþá furðulegra, að slík dýr skuli aldrei hafa náðst né fundizt rekin á þurru landi eftir umbrot í ánum o.þvl. Eiga menn að skella skollaeyrum við öllu slíku sem heilaspuna og hjátrúargrillum?“  BLS Hann á skiljanlega erfitt með að koma sam­an vísindalegri heimsmynd sem honum var kynnt í háskóla og  þeirri náttúrudulhyggju og þjóðtrú sem hann þekkti úr uppvextinum en fleiri upp­lýsingarmenn stóðu frammi fyrir þessum vanda. Saga myndunar hafs og landa var mönnum t.d. óljós á þessum tíma og Sveinn telur að Ísland hafi myndast við náttúruhamfarir stuttu eftir að Guð bjó til þurrlendi og sjó eins og segir í fyrstu Móse­bók. „Hvort mun náttúran eigi í þessu sem öllu öðru hafa ákveðin, órjúfanleg takmörk, sem hún hefur öðlazt fyrir ævalöngu, ef til vill skömmu eftir að almættið skildi þurrlendið frá votlendinu?“ (Sveinn Pálsson, 1983:429). Þrátt fyrir gríðarlega náttúrufræðiþekkingu sína taldi Sveinn að allt væri meira eða minna runnið undan rifjum herra sköpunarverksins. Þessa hug­mynd má rekja til píetismans, guðfræðistefnu á meðal upplýsingarmanna, en samkvæmt henni setti Guð veröldinni forðum lögmál sem allt laut og þaðan í frá bar manninum að sjá um að allt gengi sinn vanagang. Almættið trónaði efst í skipulagi heimsins í huga Sveins. Vísindin og maðurinn voru undirsátar þess og höfðu það hlutverk að skýra heiminn og túlka hann út frá Guði og kennisetningum kirkjunnar. Sveinn áleit líkt og aðrir vísindamenn þessa tíma að náttúran sé gerð af Guði fyrir manninn og að rannsóknir á t.d. myndunarsögu jarðar og fræðaiðkanir ýmsar næðu aðeins til þess veruleika sem skynsemin getur kannað. Þegar henni sleppir tók opinberunin við, hið óútskýranlega var á umráðasvæði Guðs.

Sveinn ritaði sjálfsævisögu sína síðasta veturinn sem hann lifði. Hún er ófullgerð en hann var kominn að árinu 1828. Hann náði ekki að skrifa neitt fallegt um eiginkonu sína, Þórunni Bjarnadóttur Pálssonar. Hún  andaðist 11. apríl 1836 úr því sem Sveinn nefnir garnengju (garnaflækju), eftir langa legu og í ritgerð sem hann ritaði síðar um íslensk sjúkdómanöfn segir: „Þennan viðbjóðslega og pínufulla sjúkdóm hafa inir gömlu kallað miserer eðr miskunn þú“ (Jón Eyþórsson, 1983:xxviii). Áður hafði Sveinn átt í litlu ástarævintýri sem endaði ekki vel:  „Sveinn var líka búinn að reyna pretti af stúlku, efnilegri og ekki fátækri, við hverja honum varð vel síðasta vetur hans í Hólaskóla; en þá hann tók fyrir sig að fara suður að Nesi, brá hún vináttu við hann, eignaðist umkomulítinn prest í Fljótum, sem ei varð langlífur“ (Sveinn Pálsson 1929:32).

Sveinn ritar sjálfsævisöguna í 3. persónu, hann horfir á sjálfan sig úr fjarlægð og býr til karakter sem er hrekklaus í mótlæti lífsins, treystir forlögunum en hefur orðið fyrir vonbrigðum. Maðurinn er á þessum tíma að verða til sem sjálfsvera, hún er er ekki komin alveg upp á yfirborðið heldur er hún hikandi og feimin. Undir merkjum játningar, píslarvættis og kristilegs meinlætis rituðu höfundar átjándu og nítjándu aldar sjálfsævisögur sínar, ferðasögur og bréf í þeirri trú að þeir væru að skrásetja sannleikann. Michel Foucault hefur einnig fjallað um hvernig sjálfsveran brýst fram (Eiríkur Guðmundsson 1998). Fyrir upplýsinguna ríkti ósjálfræði í huga fólks, menn höfnuðu sjálfinu og hlýddu yfirboðurum sínum,  sættu sig við  vald og skelltu skuldinni á aðra ef ekki rættist úr. Síðan fer að örla á nútímalegu viðhorfi eða viðleitni til að nota hyggjuvit sitt í anda upplýsingarinnar, sbr. kjörorð hennar: Sapere Aude! Samt má skýrt greina í sjálfsævi- og ferðasögum fleiri upplýsingarmanna að þeir eru eins og óvirkir áhorfendur, þeir hika, taka ekki af skarið né bera ábyrgð á eigin lífi.

Sveinn gerir grein fyrir sér sem elskuðu og þekku barni, sérlega námfúsum pilti í Hólaskóla Hann var svo við nám hjá Jóni Sveinssyni landlækni í Nesi á Seltjarnarnesi og lynti þar einstaklega vel við alla í læknishúsinu en segir „þó sumir fyndust, er heldur álitu hann kænan en hitt, bæði þá og oftar síðan“  (Sveinn Pálsson, 1929) og ýjar þar að þeirri vondu tilfinningu sem oft leitaði á hann, að hann væri ekki metinn að verðleikum. Jón bauð Sveini svo að halda áfram námi á Íslandi eða fara utan og valdi Sveinn að fara þótt fátækur væri. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla í fjögur ár og hugðist ljúka heimspekiprófi sem tryggði námsstyrk í 5 ár og jafnvel eitthvað áfram, en var talinn af því, m.a. af Magnúsi Stephensen. Hann lauk því aldrei embættisprófi í læknisfræði sem gerði honum erfitt fyrir  síðar og þýddi að hann aldrei komst út úr fátæktinni. Hann segir: „Forlögin rjeðu, því náttúra mannsins var þangað til, að taka því sem sjálfkrafa byðist, en ala ei önn annars morguns!“ (Sveinn Pálsson, 1929:15).

Ólíkt hafast þeir að, Magnús Stephensen og Sveinn, sem voru samtíða í Höfn og rituðu báðir sjálfsævisögur sínar á efri árum, Magnús dundar við að kaupa sér föt og glingur, dreypa á madeira, sækja tónleika og leiksýningar en Sveinn lét eftir sér einstaka leikhúsferð og blöskraði sumum bruðlið, segir hann ( Sveinn Pálsson, 1929:17).   Hann segir það sárt: „Að geta ekki aldurs, tíma og fátæktar vegna tekið ofurlitla hlutdeild í neinu af því ótölulega marga indæla og undir eins veglega, t. d. söng og hljóðfæralist, dansi, lifandi tungumála iðkun, nytsömum reisum til lands og sjáar, teiknaralist og s. fr., samt fátt eitt sjeð af þeim ótölulega konstverkafjölda, er í þvílíkum stöðum og löndum standa til boða, og oss íslendingum ei oftar býðst, vera þó ekki óupplagður til margs af því, hvað fleirum er virt til óstöðugleiks, sínir þvílíkum fyrst fyrir alvöru hvað bágt sje að vera fátækur“ (Sveinn Pálsson, 1929:17).

Vini átti Sveinn fáa í Höfn en getur sérstaklega vinfengis við Stefán Stephensen, og þess að þeir voru af ólíkum stigum. Sveinn telur nefnilega að yfirstéttin, menntuð og rík, eins og t.d.  Magnús, hafi ekki kært sig um alþýðumenn í sínum röðum, fátæka sveitadurga sem hefjast upp af eigin verðleikum en ekki fyrir efni sín og ættgöfgi:

„Hans aðalfeil sýnist um  pessar mundir hafa verið: að taka of einfaldlega og trúgirnislega því, sem næst var hendinni, án mæðandi íhugunar þess ókomna og útfallsins. En reynsluleysi, ókunnugleiki, skortur óhrekkvísra og eldri leiðsagnara, sem ekki stóðu þá fátækum til boða, en hvötur hinna, er máske vilja flesta minni sjer, olla nú þá svo á stendur einatt misjöfnu. … hefði nokkur í fyrstu sagt honum, sem satt var, að á 3-4 árum var og er máske enn hægt að ná  attestats í medicin með æru við universitetið, þá gat  skeð, að honum á eftir hefði hlotnast æðri vegur eður arðmeiri embættistrappa í því mediciniska en hann síðan  hlaut. En hvað hægt er ekki að sjá þetta og annað á  eftir og segja, — en hver vogar það afgjört? — að hann  með áðursögðu og eftirfylgjandi hafi forspilað sinni lukku? Honum var aldrei kent að trúa á hana, heldur á guð.“  (BLS)

Í ellinni lítur Sveinn yfir farinn veg og telur að gæfan hafi þarna snúið við honum baki, hann hafi verið leiksoppur örlaganna, saklaus sveitadrengur sem hlýddi vondum ráðum, að sjálfstæðar ákvarðanir hafi ekki verið honum eðlislægar. Trúin á guð og að fátæktin hafi alltaf verið honum fjötur um fót. Hann dreymdi um frama, tíma til að sinna áhugamálum sínum og betri fjárráð en draumar hans rættust ekki. Seinna segir Sveinn allt þetta hafa valdið sér þunglyndi, angursemi og depurð. Framan til og út á sumarið 1795 var Sveinn oft í þungum þönkum um líf sitt  en segist „alvanur að fela sig forlaganna herra“ (Sveinn Pálsson, 1929:32). Ósjálfræði  hans birtist vel þegar hann lætur tilleiðast að gifta sig 1795 og stofna bú skv. ráðum  Vigfúsarsýslumanns Thorarensens  (1756-1819) og þá eru vonir hans um náms- og embættisframa endanlega brostnar. En að hætti upplýsingarmanna er ábyrgðin ekki hans sjálfs heldur eru fortölur annarra, guð og forlögin sem stjórna því hvernig lífsgangan er. Hjónaband hans var þó farsælt og barnmargt en þegar vonbrigðin heltaka hann þarf Þórunn, kona hans, að taka á honum stóra sínum, einu sinni þurfti hún að sækja hann annan bæ þar sem hann hafði lagst í kör af sorg og þunglyndi yfir sínum hlut.

Upplýsingarskeiðið á Íslandi er litríkt tímabil andstæðna og ólíkra hugmynda. Í textum upplýsingarmanna speglast ríkjandi tíðarandi, sjálfsveran gægist fram og öndverð viðhorf mismunandi hugsunarkerfa togast á. Skýrt kemur fram hvernig háskólagenginn og margfróður skynsemistrúarmaður eins og Sveinn Pálsson sveiflast á milli lærðrar vísinda-  og rökhyggju og þeirrar þjóðtrúar og náttúrudulhyggju sem hann er alinn upp við. Í verkum hans má skýrt greina að lýsingin er lykilhugtak í hugarfarinu, hvernig alfræðin eða taflan verkar á huga hans og hjúpar sig gervi vísindanna. Augljós er trú hans á að hægt sé að safna þekkingu saman, lýsa henni með orðum sem tákni hlutina á gagnsæjan hátt og koma þannig böndum á heiminn. Ósjálfræði og trú á fyrirfram ákveðin örlög hindra framgang hæfileikaríks manns eins og Sveinn Pálsson var, harðduglegur og bráðgáfaður, en hann glatsar tækifærum til fjár og frama með því að láta varpast í forlaganna straum í stað þess að stjórna lífi sínu sjálfur. Dæmi um það má víða finna í verkum hans. Í annál eða Anniversariu frá 1797 sem birt er í Ferðabókinni þylur hann upp hvernig hann sér fyrir sér stöðu landlæknis á Íslandi þróast í framtíðinni á glæsilegan hátt. En hann klykkir svo út með: En til hvers er að dvelja við slíka dagdrauma! (707). Þar með er málið dautt og hann heldur áfram að streða, stúdera, lækna, þýða og skrifa og – basla inn í eilífðina.

Greinin er byggð á fyrirlestri mínum í tilefni af 200 ára ártíð Sveins Pálssonar á degi umhverfisins, 24. apríl 2012.

Birt í TMM, 1. hefti 2013

Heimildir

Eiríkur Guðmundsson 1998. Gefðu mér veröldina aftur. Um sjálfsævisöguleg skrif Íslendinga á átjándu og nítjándu öld með hliðsjón af hugmyndum Michel Foucault. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Foucault, Michel 1996. The Order of Things. An Archeology of the Human Sciences. Vintage Books, New York

Porter, Roy 2001. Enlightenment. Britain and the Creation of the Modern World. Penguin Books, London

Porter, Roy 2003. Flesh in the Age of Reason. How the Enlightenment transformed the Way We see our Bodies and Souls. Penguin Books, London

Sveinn Pálsson 1929. Æfisaga Sveins læknis Pálssonar eftir sjálfan hann.

Sveinn Pálsson 1983. Ferðabók, dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Fært í íslenzkan búning af þeim Jóni Eyþórssyni o.fl. Snælandsútgáfan, Reykjavík

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s