Nautn mannsins, þjáning konunnar

 

Á þessum árstíma er indælt að borða léttan, litskrúðugan og sumarlegan mat á  sólpallinum eða úti í garði. Blöð og tímarit eru uppfull af nýstárlegum uppskriftum sem gaman er að prófa og í Morgunblaðinu er t.d. sérlega frumleg sælkerasíða með fallegum ljósmyndum og ráðleggingum um rétta vínið. Í sjónvarpi, og m.a.s. í útvarpinu, fer hver matreiðsluþátturinn á fætur öðrum í loftið, kannski hefur æðið byrjað með kokkinum klæðlausa, James Oliver á Stöð tvö og nautnabelgnum Nigellu á RÚV. Íslensk matreiðsluþáttagerð er í mikilli uppsveiflu um þessar mundir. Matarþættir Sigmars B. Haukssonar í tilbúinni stúdíóíbúð, þar sem allt átti að vera svo heimilislegt að það varð hallærislegt, eru nú flestum gleymdir. Nú galdra ungir, spaugsamir og upprennandi kokkar fram dýrindis rétti í sjónvarpinu á mettíma og einnig er farið heim til leikmanna, oftast þjóðþekktra einstaklinga, og fylgst með matargerð þeirra við glænýjar gaseldavélar í stálburstuðum og leirflísalögðum eldhúsum víðs vegar um bæinn. Matur er jú ekki bara matur heldur endurspeglar hann velmegun kokks og gesta, þjóðfélagsstöðu þeirra og siðmenningu, og kynhlutverk.

 

Grillvertíðin hefur verið meginþema matreiðsluþátta og auglýsinga í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Helstu grillmeistarar landsins stilla sér upp með sólskinsbros á vör og gefa uppskriftir og góð ráð um hráefni, krydd og meðlæti. Af einhverjum ástæðum hafa karlar tekið á sig „byrði“ útimatseldarinnar. Þeir setja ábúðarmiklir upp svuntu með skondinni áletrun, munda töngina og ýta einbeittir á ON á gasgrillinu. Dæmigerð orðaskipti á veröndinni: „Réttu mér bjórinn!“ „Já elskan, eftir augnablik. Bara klára að skera grænmetið.“ „Ertu ekki að koma með kjötið?“ „Jú, rétt að setja kartöflurnar í álpappírinn, búin að leggja á borðið og þetta er allt að koma.“ Löngum stundum standa karlarnir síðan við grillið, oft í misjöfnum veðrum, og snúa kjötinu fagmannlega. Matseldin veitir þeim sanna ánægju sem nær hápunkti þegar þeir kjamsa sáttir og sælir á blóðugri steikinni og fitan rennur niður hökuna á þeim. Körlum hefur tekist að varðveita eðlislæga gleði frummannsins við að njóta matarins meðan konur eru þrúgaðar af oki óeðlilegrar ímyndar um mat og líkamsþyngd. Konum er matur oft forboðin nautn sem tengist blygðun og sektarkennd líkt og kynlíf á Viktoríutímanum.

 

Barátta kvenna við „þyngdarlögmálið“ birtist í gegndarlausri og endalausri megrun og níu af hverjum tíu telja sig of þungar. Samkvæmt bandarískum rannsóknum þráir fjöldi kvenna ekkert heitar en að léttast um þrjú til sjö kíló og telur þann árangur eftirsóknarverðari en allt annað í lífinu. Þær eyða háum fjárhæðum í fegrunaraðgerðir og fitusog, grenningarlyf og líkamsrækt til þess að uppfylla útlitskröfur samtímans. Fyrirmyndirnar leggja sín lóð á vogarskálarnar en meðalþyngd fyrirsætna, leikkvenna og poppstjarna er um 20% minni nú en fyrir 20 árum. Árlega greinast þúsundir kvenna um heim allan með alvarlega og banvæna átröskunarsjúkdóma og þær þjást af sjálfsfyrirlitningu og  ranghugmyndum um líkama sinn. Gleðin, nautnin og fegurðin sem einkenna matseld og matarauglýsingar fjölmiðlanna eiga sér skuggahliðar þjáningar og dauða fyrir margar konur. Brenglað viðhorf þeirra til matar og líkama kristallast í tilsvari fegurðardrottningar Íslands 2002 þegar hún aðspurð sagði að helsti veikleiki hennar væri góður matur.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 15. júní 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s