Poppstjarna Íslands

Alþjóðlega (ameríska) hæfileikakeppnin Stjörnuleit, eða Idol, stendur hérlendis sem hæst þessa dagana og er sjónvarpað beint á Stöð 2. Hundruðir ungmenna sem þyrstir í frægð og frama hafa í undankeppninni beðið í löngum röðum eftir að spreyta sig frammi fyrir miskunnarlausri dómnefndinni sem samanstendur af Siggu Beinteins, Þorvaldi fyrrum Todmobilegaur og Bubba Morthens (hann fer alveg á kostum). Eftir taugatrekkjandi bið fá keppendur, einn í einu, að koma fram fyrir dómnefndina og syngja eitt erindi og viðlag og frammistaðan sker úr um frekari þátttöku í þessum æsispennandi leik. Myndavélar fylgjast grannt með öllu á staðnum og bæði gleði og vonbrigði keppendanna eru vandlega fest á filmu. Fjörkálfarnir á Popptíví, þeir Simmi og Jói, sjá um að draga áhorfendur inn í hringiðu keppninnar og eiga sinn þátt í að skapa góða stemmingu með hálfkæringi og léttu gríni. Loks stendur eftir stór hópur af poppstjörnuefnum sem enn þreytir með sér en keppendur heltast síðan úr lestinni einn og einn og eftir úrslitahrinurnar standa aðeins nokkrir eftir sem líklegir mega teljast til að verða poppstjarna Íslands. Spennan magnast í hverri viku, þegar „þjóðin kýs“ með sms skilaboðum hverjir keppendanna fá að halda áfram og hverjir eru sendir heim með brostnar vonir. Fleiri bandarískir sjónvarpsþættir byggja á útsláttarkeppni eins og þessari, s.s. Survivor þar sem keppendur velja sjálfir þá sem skulu snúa heim, Bachelor/-ette en þar verður hnossið að gera upp á milli vonbiðla, og Fear Factor þar sem þeir hætta keppni sem ekki standast raunirnar. Frumskógarlögmálið ræður greinilega ríkjum og það kitlar taugar áhorfenda að aðeins hinir hæfustu lifa af.

Stjörnuleit/Idol er stórsniðug fjölmiðlamarkaðshugmynd sem veltir hundruðum milljóna og undur og stórmerki að enginn skuli hafa fundið upp á þessu löngu fyrr. Íslenskir áhorfendur eru stórhrifnir og greiða áskriftina sína með glöðu geði (þættirnir eru síðan gjörnýttir í dagskránni og endursýndir margsinnis),  síma- og auglýsingatekjur streyma viðstöðulaust inn í kassann, aðgöngumiðarnir í Smáralind þar sem úrslitin fara fram renna út eins og heitar lummur og búið er að gera geisladisk og spil sem hvorutveggja selst grimmt. Stjörnuefnin ungu eru þegar orðin þekkt andlit og farin að baða sig í frægðinni. Þau koma víðsvegar fram og allir fá eitthvað fyrir sinn snúð því fyrirtæki um allt land gauka ýmsu að keppendum og séð er til þess að það skili sér til áhorfenda heima í stofu. Þetta er einstaklega fríður og samheldinn hópur og fer mjög vel á með þeim öllum þrátt fyrir samkeppnina. Spennan sem myndast þegar valið er á milli keppenda er jafnan trega blandin því vitað er að einhver úr vinahópnum þarf að taka pokann sinn. Þeir sem það hafa gert eru bundnir þagnareiði þar til keppninni lýkur svo það er nægur fréttamatur eftir; viðtöl og greinar þar sem „sannleikurinn“ um keppnina, vináttuna og dómnefndina mun væntanlega koma í ljós. Stjörnuleit mun því áfram mala gull löngu eftir að stjarnan er fundin.

Stjörnuleit/Idol gengur ekki út á að finna leyndan snilling, listamann eða undrabarn í tónlist. Leitað er að einstaklingi sem hefur góða rödd, fallega sviðsframkomu, útgeislun og sjarma; einhverjum sem fellur að staðlaðri ímynd poppstjörnunnar. En hvað tekur við þegar stjarna er fædd? Útsmogin markaðssetning og græðgislegt fjölmiðlafár, eða vonbrigði og gleymska, stjörnuhrap? Er líf að loknu Idol? Frægðin er fallvölt eins og dæmin sanna. Það fékk m.a.  heimskunni hvalurinn Keikó að reyna. Hann sem áður svamlaði í gagnsæju einkakeri og naut aðdáunar heimsbyggðarinnar var sendur á brott til að hírast í þröngri kví norður á Íslandi og var loks hent í sjóinn, þar sem hann á dögunum háði einn sitt dauðastríð (sem var efni í stutta fréttatilkynningu). Hann var loks grafinn í kyrrþey, öllum gleymdur – fallin stjarna…

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 29. nóvember 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s