Vitlausramannahelgin – íslenskt frelsi

 

Verslunarmannahelgin er feitur hvalreki í hallæri fjölmiðlanna undanfarnar vikur. Um miðjan júlí  birtast heilsíðuauglýsingar dagblaðanna um hátíðahöld hér og hvar um landið og veðurfréttir sjónvarpsstöðvanna öðlast skyndilega gríðarlegt áhorf þegar þær fara að snúast um það hvaða útisamkoma hreppi besta veðrið. Útvarpsviðtöl við áhyggjufulla lögregluþjóna og glaðbeitta skemmtana- og mótshaldara óma í sífellu ásamt sólríkum auglýsingum  í sjónvarpi sem ganga aðallega út á hvaða hljómsveitir muni halda uppi fjörinu og hvaða styrktaraðilar komi að skemmtuninni (oft lítt dulbúnar áfengisauglýsingar). Spurningin er alltaf sú sama: HVAR ætlar ÞÚ að vera um verslunarmannahelgina? – það er ekki valkostur að sitja heima. Þeir sem þrátt fyrir allt fara hvergi, geta huggað sig við að boðið er  upp á sérstakt verslunarmannahelgarútvarp, sem fellur víst í flokkinn Innlend dagskrárgerð,  þar sem farið verður á helstu samkomustaði, talað um veður og aðsókn, aðstöðu og helstu uppákomur í beinni útsendingu, auk þess sem Umferðarráð treður upp og gefur heilræði um akstur á vegum úti.

 

Fyrir helgina er venju fremur er rætt um þá aðsteðjandi ógn sem stafar af nauðgurum. Auglýsingaherferðir og viðvaranir félagasamtaka á borð við Stígamót hafa skilað miklum árangri, ekki síst vegna þess að þar er gengið út frá raunveruleika og þungbærri reynslu sauðdrukkinna og eftirlitslausra unglinga á myrkum og niðurrigndum tjaldstæðum innan um tómar flöskur, sígarettustubba og bréfarusl. Stúlkur eru t.d. hvattar til að halda hópinn og hafa eftirlit hver með annarri, enda staðreynd að kynferðisofbeldi beinist aðallega gegn þeim. Og hinn bitri sannleikur er sá að ekki er spurt hvort, heldur hversu margar nauðganir verði framdar. Fæstar eru kærðar til lögreglu – enda eru konur enn spurðar hvort þær hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna þegar nauðgunin átti sér stað og hvernig þær hafi verið klæddar en þær upplýsingar eru oftar en ekki notaðar til að draga trúverðugleika fórnarlambanna í efa. Í yfirstandandi herferð aðstandenda V-dagsins er áróðrinum beint að karlmönnum. Það verður að teljast mikilvægt skref fyrir mannkyn sem birtist í viðleitninni til að taka ábyrgðina á glæpnum frá þolandanum og færa hana yfir á gerandann.

 

Þótt gleðin muni vera við völd um helgina, ef marka má þá mynd sem dregin er upp í auglýsingunum, er öllum ljóst að skuggahlið hátíðahaldanna verður allsráðandi strax á mánudaginn. Þá rekur miður kræsilegan hval á fjörur; æsifréttir af fíkniefnasölu og -neyslu, skemmdarverkum, slysum, ofbeldi og nauðgunum. Til allrar hamingju koma þó flestir heilir heim úr helgardjamminu en alltof margir bera ör á sál og líkama eftir dans gleðinnar. En hverjir eru það þá sem græða á útihátíðum þegar upp er staðið? Eru það bæjarfélögin, skemmtikraftarnir, fjölmiðlarnir og athafnaskáldin? Hver borgar brúsann? Eru það skattborgararnir og tryggingafélögin? Útihátíðir, eins og þær fara fram hér á landi, eru séríslenskt fyrirbæri; enn ein birtingarmynd áunninnar spennufíknar, langvarandi streitu, agaleysis og lífshraða þjóðfélagsins. Vert er um þessar mundir að minnast flugslyssins í Skerjafirði en ekki er hægt annað en að dást að þrautseigju og dugnaði aðstandenda ungmennanna sem fórust þar en hugmyndafræði þeirra gengur út á að atburðurinn verði víti til varnaðar; veki til umhugsunar um samábyrgð og fái ekki að falla í kæruleysislega gleymsku. Stendur ekki siðferðið völtum fótum þegar það er óbeint samþykkt að megi kasta því fyrir róða í trylltum frelsisdansi eina langa helgi á ári?

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 3. ágúst 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s