„Hin káta angist“

 

Aristófanes (450-388 f. Kr.) er fyrsti gamanleikjahöfundur bókmenntasögunnar sem vitað er um. Hann er talinn einn af helstu meisturunum og beindi spjótum sínum að samtíðinni, gerði stólpagrín að samferðamönnum og notaði þeirra réttu nöfn í gamanleikjum sínum. Að baki býr djúp siðferðisleg alvara og þjóðfélagsgagnrýni og hann var dæmdur fyrir „óþjóðholla starfsemi“ á sínum tíma. Spaugstofumenn í ríkissjónvarpinu og Haukurinn á Rás 2 halda uppi merkjum Aristófanesar í fjölmiðlum hér á landi en hafa ekki verið dæmdir enn; reyndar munaði litlu þegar hinn frægi páskaþáttur Spaugstofunnar fór í loftið (þar sem blindir fengu Sýn)…

 

Greiðendur afnotagjalda geta glaðst yfir því að ríkisfjölmiðlarnir eru þeir einu sem rækja andófshlutverk sitt. Spaugstofunni, sem enn hefur gengið í endurnýjun lífdaga, tekst oft vel upp. Umgjörð hennar nú tengist fjölmiðlum, í upphafinu, í lokin og milli atriða fletta Spaugstofumenn dag- og vikublöðum í fréttaleit auk þess sem þeir hafa fartölvu fyrir framan sig, sítengdir við netið. Segja má að spaugið í þættinum skiptist gróflega í fimm flokka: atburði liðinnar viku, grín um stjórnmálamenn og þjóðþekkta einstaklinga, glens um íslenska þjóðarsál, aulabrandara og loks fastagesti, t.d. Silli, Númi, Sigfinnur gamli o.fl. Það sem heldur Spaugstofunni á floti eru undirliggjandi ádeila og þjóðfélagsgagnrýni í anda Aristófanesar. Í síðasta þætti fólst beiskur broddur í því þegar hringt var frá Sparisjóðnum í Sigga Sigurjóns til að segja honum að innistæðunni hans hefði verið stolið í liðinni viku því bankarnir bera sjaldnast sjálfir tjón eða tap. Þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins var tekinn fyrir í þættinum var hæðst að skattalækkanatilboði Davíðs Oddssonar sem á að gilda fyrir fyrirtæki og suma einstaklinga en alls ekki fyrir alla. Hinu linnulausa líkams- og heilsuræktaræði íslensku þjóðarinnar voru síðan gerð góð skil; Pálmi hafði „misst“ 70 kíló og Örn var frámunalega fyndinn á hlaupabrautinni. Spjótunum er þar beint að öfgum útlitsdýrkunar en Spaugstofumenn eru ófeimnir við að sprella berir, mjúkir og loðnir. Inn á milli eru aulabrandarar, t.d. frá rónunum á Arnarhóli sem eiga sér málsvara í Örvari og Boga og um Manninn á bak við tjöldin þar sem grínast er með ímynduð störf í þjóðfélaginu. Þá birtist gamall (og þreyttur) kunningi á skjánum í síðasta þætti; Kristján heiti ég Ólafsson, en hann hefur óvenjulega sýn á brjóstastækkanir og bauð nýjar og femínískar lausnir. Spaugstofumenn daðra þó við karlrembuna, engin kona er meðal liðsmanna hennar í þessari lotu en líkt og í leikhúsi Shakespeares leika þeir sjálfir kvenhlutverkin og klæðast hiklaust kvenmannsfötum. Gamanið er oft grátt og það er ekki að ástæðulausu sem kynning þáttarins hefst á hoppi liðsmanna og viðsnúningum ásamt brothljóði þegar upphafsmyndin hrynur.

 

Haukurinn flytur aristófanískar „Ekki fréttir“ af miklum móð á Rás 2 og er LANGflottastur. Þar er pólitísk og þjóðfélagsleg ádeila áberandi, þátturinn byggist að miklu leyti á því að setningar valdsmanna úr þingræðum eða viðtölum eru slitnar úr samhengi og klipptar saman á ný þannig að útkoman verður sprenghlægilegur vaðall og bull. Ingibjörg Sólrún tafsar og Davíð Oddsson svarar út í hött. Haukurinn beinir fránum augum að samfélaginu, snýr miskunnarlaust út úr með snjöllum orðaleikjum og í eldhröðum og örstuttum þætti hans er egghvass fleinn, miklu skeinuhættari en hjá Spaugstofunni sem mætti alveg vera beittari. Grínþættir á borð við þessa eru þörf sálubót. Þeir birta nýja sýn á umheiminn, veita stjórnvöldum og fjölmiðlaveldi viðnám og aðhald og hjálpa fólki til að fá útrás fyrir angist, gremju og reiði; eru ein aðferð örvilnaðra nútímamanna til að skilja óréttlátan og fjarstæðukenndan heim og sætta sig við hann stundarkorn. Í stríðshryllingi og hernaðarbrölti þar sem saklausir borgarar verða fyrir byssukúlum og sprengjuárásum er ekki síður þörf á „kaþarsis“ en á dögum Aristófanesar.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

12. apríl 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s