Kæru útskriftarnemar, mitt frábæra starfsfólk og góðir gestir. Til hamingju með daginn!
Tónlistarmaðurinn og bítillinn frægi John Lennon var ekki fyrstur til að segja að lífið væri það sem gerðist meðan væri verið að plana eitthvað allt annað. Hann fann þetta einhvers staðar og notaði það í frægum söngtexta. Þetta hefur akkúrat gerst núna: heilt eldgos hófst í Grindavík, rétt á meðan við vorum að plana útskriftarveisluna! Ekki nóg með að þessi hópur sem hér situr með nýju húfurnar i kjöltunni hafi farið í gegnum heimsfaraldur, heldur tvö eldgos líka.
Í dag langar mig að ræða við ykkur um skólamál, uppeldi og lestur, þetta eru mikilvæg mál. Nú um stundir er mikið talað um Písa. Niðurstöður skýrslu sem sýnir að 15 ára íslenskir krakkar eru ekki með nema um 40% lesskilning. Þau eru léleg í náttúrulæsi sem er undirstaða fyrir nám í stærðfræði og raungreinum, þau kunna ekki samvinnu og standa yfirleitt verr að vígi námslega en samanburðarhópar erlendis.
Okkur Íslendingum finnst nú ekki gott að fá skýrslur frá útlöndum sem eru að segja eitthvað annað en hvað við erum frábær þjóð og best í öllu. Hvað gera bændur nú?
Tjah, þessar fréttir koma okkur sem sinnum skólastarfi árið um kring ekkert á óvart. Og nóg er af sérfræðingunum sem hafa skoðun á þessu og ég ætla ekki að bætast í þann hóp. En vil þó draga sitthvað fram. Það eru alls konar fyrirvarar með þetta eins og annað sem blásið er út í fjölmiðlum. Svona próf draga gjarnan upp einhliða mynd af stöðunni, segja ekki alla söguna. En við vitum samt að það hefur fjarað undan læsi og lesskilningi hér landi sífellt hraðar undanfarin ár. En mögulega hefur annað batnað og styrkst sem ekki er mælt, og höfum það í huga. Við sem erum í þessum skólabransa höfum spyrnt við fótum gegn þróuninni og prófað ýmislegt, skipt um kennsluaðferðir, uppfært námsefni og reynt alla hvatningu sem okkur kemur til hugar til að vinda ofan af þessu.
Skóli þarf nefnilega alltaf að halda vöku sinni á hverjum tíma, það eru alltaf nýjar áskoranir. Við í FVA byrjuðum í janúar í stefnumótunarvinnu með framtíðarsýn okkar og námsleiðir. Það er ekki eftir neinu að bíða. Við þurfum að bregðast við núna. Við þurfum að leggja meiri áherslu á lestur, lesskilning, samvinnu og samtal í námi og kennslu og auka orðaforðann. Við verðum að skilja hvert annað!
Hvaðan koma þessi orðasambönd sem ég hef notað hér, að standa verr að vígi? Kemur úr fornmáli. Alda Halda vöku sinni? rætur að rekja til gamalla búskaparhátta. Spyrna við fótum, ÓMÆGOD hvað þýðir þetta allt?! Kennarar fá margar spurningar á dag um merkingu orða og orðasambanda sem voru daglegt mál fyrir 10-15 árum. Það hefur alltaf verið kynslóða-bil í málnotkun en nú er að myndast djúp gjá. Tvær grunnskólastúlkur lögðu um daginn fyrir fullorðið fólk nokkrar spurningar um orð sem þær nota daglega. Enginn yfir tvítugu gat svarað þeim öllum rétt. Hvað eru Nöllur, hvað þýðir skammstöfunin ANJ? Nærbuxur og Án djóks. Nocap! (engin lygi). Það eru reyndar fyrirvarar á þessu líka eins og öðru sem fjölmiðlar blása upp, spurningarnar voru án samhengis, frasar og skammstafanir sem erfitt var að ráða í…
Það eru alltaf tískubylgjur í gangi í orðaforða og málnotkun og það er bara frábært og hluti af lifandi tungu. Ágætt dæmi um nýtt orðasamband í málinu má sjá í nýlegu ljóði Iceguys við hressilegt lag: Að kasta inn handklæðinu… sem er sótt til ensku og merkir að hætta eða gefast upp og kemur úr máli hnefaleikara/boxara. Gaman að því, íslenska er lifandi tungumál sem grípur upp skemmtileg orð þar sem þau verða á vegi hennar.
Erindi mitt við ykkur sem hér eruð samankomin í dag er að segja að við getum lagt ýmislegt af mörkum til að auka orðaforða og bæta lesskilning. Við ætlum nefnilega alls ekki að kasta inn handklæðinu í þessu máli! Auðvitað ætla stjórnvöld að taka til sinna ráða, framleiða gæðalesefni og borga barnabókahöfundum og kennurum ríkulega, lækka verð á bókum, uppfæra allt námsefni, talsetja barnaefni… en við þurfum ekki að bíða eftir því. Byrjum á að temja okkur t.d. bara það, að ef viðmælandi þekkir ekki orðin sem við notum, að útskýra þá með þolinmæði og án fordóma og hneykslunar. Ef nemandi td lærir eitt nýtt íslenskt orð eða orðasamband á dag, þá er það góður dagur! Það eru 365 orð á ári, hafðu það Písa!
Þið þekkið eða eigið börn, frændur og frænkur, tilvonandi nemendur, lesendur og málnotendur. Gefum okkur alltaf tíma til að tala við börn og unglinga, lesa með þeim og fyrir þau. Reynum að vera viðstödd í tilverunni, sinna börnunum, hlusta á þau og gefa þeim tíma, hjálpa þeim að læra móðurmálið sem er tækið sem við höfum til að hugsa og tjá okkur. Byrjum heima hjá okkur sjálfum. Þetta þarf að gerast hér og nú. Enginn gerir þetta fyrir okkur.
Reynum öll saman að útrýma öllu sinnuleysi um gildi lestrar. Ekkert kemur í staðinn fyrir að sitja með bók og lesa fyrir barn, svo að myndist tenging hjá barninu milli bókstafa og orða frá fyrstu tíð. Prófum að gefa heldur tíma og samveru en að rétta börnum tæki þegar þau kalla á athygli. Og munum að þau læra það sem fyrir þeim er haft.
Skólinn á að hjálpa nemendum að tileinka sér þekkingu sem ekki er alltaf aðgengileg strax. Það gerist etv hægt og er ekki endilega alltaf rosa gaman Það er hins vegar rosa gaman að ná loksins valdi á þekkingu eða hæfni eftir smá streð, að læra eitthvað nýtt og geta nýtt sér það á einhvern hátt. Að ná slíku takmarki eflir okkur í að ná næsta takmarki og svo næsta. Það er er menntun, það er þroski, það er tilgangurinn með þessu jarðlífi.
Kæru útskriftarnemendur. Þið hafið komist þetta langt, þið hafið komist í gegnum nálarauga kennaranna hér í FVA, lifað af covid19 og eldgos og náð takmarkinu ykkar (með þennan fína lesskilning…). Fyrir ykkur liggur að hefja þau störf sem þið hafið nú menntað ykkur til eða fara í frekara nám, sum ykkar ætla að ferðast og skoða heiminn, önnur að hinkra og sjá hvað rekur á fjörurnar (enn eitt eldgamla orðtakið).
En hvað sem þið hyggist taka ykkur fyrir hendur, bið ég ykkur um:
Að vera til staðar í tilverunni, vera til taks fyrir ykkur sjálf og börnin í kringum ykkur. Reynum að vera virk í lífinu og skapandi, leggja eitthvað af mörkum til að móta framtíðina, taka þátt og taka afstöðu.
Það er nóg að td að einsetja sér nokkur atriði í lífinu nú þegar þið haldið héðan með skírteinið undir hendinni:
Að styðja fjárhagslega eitt gott málefni á ári (t.d. að létta undir með Grindvíkingum sem hafa ekki getað sofið heima hjá sér í 40 daga), forðast þras og niðurrif bæði á samfélagsmiðlum og í nánasta umhverfi, sniðganga vörur sem menga jörðina, hlusta stundum á tónlist sem flutt er með raunverulegum hljóðfærum og:
Taka sér alltaf tíma á hverjum degi til lesa og byggja upp eigin orðaforða og barnanna svo við getum orðað hugsanir okkar og skilið hvert annað og veruleikann sem við lifum í – svo börnin mælist ekki skilningslaus í komandi Písa-rannsóknum börnin og tapi ekki hæfileikanum til að hugsa á íslensku.
Það munar svo mikið um eitt lítið framtak frá hverjum og einum. Allir geta gert eitthvað, enginn getur gert allt.
Til hamingju og gangi ykkur allt í hag!