2025 Haust – Um bið, bóklestur og Mohammed Taher

Kæru útskriftarnemar, mitt frábæra starfsfólk og góðir gestir!

Árið 2025 var viðburðaríkt og skemmtilegt hér í Fjölbraut á Skaga. Alltaf eru næg verkefni fyrir okkur öll sem hér störfum og í mörg horn að líta.. Við höfum td alltaf á haustönn íþróttakeppnina WestSide þar sem við etjum kappi við MB og FSN og okkur tókst að hampa bikarnum að þessu sinni; við héldum hið forna og hefðbundna Skammhlaup þar sem nemendur keppa í óhefðbundnum greinum eins og stígvélakasti, ullarsokkahlaupi, leiklist og myndlist; leiklistarklúbburinn Melló setti upp Gauragang í Bíóhöllinni sl vor sem var alveg frábær sýning og undirbúningur er þegar hafinn fyrir næstu sýningu. Við tókum þátt í samsyningu framhaldsskólanna með glæsibrag og svo mætti lengi telja.

Vistarbúar hafa búið í næstum því hurðarlausum herbergjum á heimavistinni þessa önn og beðið með mikilli þolinmæði (takk fyrir það) eftir að klárist að smíða hurðirnar í Reykjavík en þær eru núna loksins komnar og verið er að setja þær upp.

Öndvegis heimilismatur hefur verið étinn upp til agna alla daga í mötuneytinu og það hefur verið chillað í það óendanlega á bókasafninu. Á meðan öllu þessu vindur fram púlum við í stefnumótun fyrir skólann þar sem liggja ótal tækifæri til umbóta og ígrundunar. Og svo heldur námið og kennslan stöðugt áfram undir styrkri leiðsögn kennaranna okkar – sem komu frábærlega út í kennslukönnun sem gerð var meðal nemenda núna á haustönn, það erum við sannarlega öll ánægð með og stolt af!

Hér er fullt hús af frábæru fólki, nemendum og starfsfólki og við unum glöð við okkar hag. Við reynum einarðlega að láta sviptingar í ráðuneytinu í Reykjavík ekki trufla störf okkar um of. Ráðherra mennta- og barnamála kom í heimsókn hingað í skólann í nóvember því blikur eru á lofti um óljósar breytingar á skólakerfinu. Tíminn mun síðar leiða í ljós hvað þar er á ferðinni.

Menntun er mikilvæg eins og þið sem eruð að útskrifast hér í dag og aðstandendur ykkar vitið vel. Kannski er menntun aldrei mikilvægari en einmitt núna í upplýsingaóreiðunni og fjölmiðlafárinu sem við lifum og hrærumst í.  Menntun er almennt í okkar huga mannréttindi – en hún er líka forréttindi. Ekki hafa allir íbúar heimsins aðgang að skóla. Á Indlandi, þar sem býr um einn og hálfur milljarður manna, voru 32% stúlkna aldrei skráð í skóla, þær fengu enga menntun og þar af leiðandi engin tækifæri til að taka þátt í samfélaginu né komast upp úr fátækt, barnaþrælkun, misnotkun eða þvinguðum hjónaböndum. Þar í landi hafa kennarar undanfarin ár barist fyrir að breyta þessari stöðu, m.a.  með víðtæku fræðsluátaki um mikilvægi menntunar, ráðgjöf til fjölskyldna, stuttum og hagnýtum námsleiðum og brýningu til stjórnvalda um að byggja fleiri skóla og mennta fleiri kennara.  Mohammed Taher (gúgglið hann!) er félagsráðgjafi sem hefur haft gríðarleg áhrif á indverskt samfélag í þessa átt. Fyrir tilstilli hans hafa þúsundir götubarna lært að lesa og skrifa og þúsundir unglingsstúlkna fengið fræðslu um atvinnutækifæri, getnaðarvarnir, heilsu og hreinlæti. Þetta hefur skilað sér í betra samfélagi fyrir alla: Menntun er sannarlega besta fjárfestingin sem nokkurt ríki getur lagt í.

Það eru 32 að ljúka námi verknámi í dag, Mörg ykkar hófuð nám að nýju, með fullri vinnu og fjölskyldu. Vel gert!

Aldrei hefur þörf fyrir iðnaðarmenn verið eins mikil og núna og þá er ég að tala um á heimsvísu. Á Íslandi einu vantar um 3000 iðnaðarmenn í allar greinar. Í iðngreinunum liggur lykillinn að framþróun í orkunýtingu, sjálfbærni og uppbyggingu innviða fyrir framtíðina.  Svo ykkar bíða ótal tækifæri, frekara nám eða næg atvinna um heim allan nú að námi loknu. Og ekki eftir neinu að bíða!

En stundum þarf víst að bíða. Við þekkjum það sem stöndum í framkvæmdum og breytingum innanhúss sem utan að það fer mikill tími í að bíða eftir iðnaðarmönnum. Ég stend núna í stórræðum í húsinu mínu, er að taka niður innréttingar í þvottahúsi sem eru frá því um 1970 og hafa nú þjónað sínum tilgangi. Ég þurfti ss á múrara, málara, pípara, smið og rafvirkja að halda þar sem ég get ekki gert neitt sjálf með mína 10 þumalputta. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef hringt í þessa iðnaðarmenn – sem lofa að koma en koma / komast svo ekki á tilteknum tíma. Framkvæmdirnar hófust í apríl sl og enn er ég með ósamsetta skápa, víra standandi út úr ljósastæðum og þvotturinn marar í gulu vaskafati. Mig langar því að benda ykkur, hverjum og einum nýútskrifuðum iðnaðarmanni, að þegar þið farið út á feltið, gangið þið á undan með góðu fordæmi um gott skipulag á verkefnum hvers dags í vinnunni og ætlið ykkur ekki um of. Það er allt í lagi að segja „nei ég kemst ekkert á næstunni“ við konuna sem er að bíða – það er betra en að segja „já ég kem í vikunni“ en geta svo ekki staðið við það – og enn bíður konan! Ég er löngu hætt að vonast til að framkvæmdunum hjá mér ljúki fyrir jól og tek bara æðruleysið á þetta. Já biðin er löng en hún er auðvitað þess virði og gleymist auðvitað fljótt þegar iðnaðarmaðurinn rennir loksins í hlaðið með réttu verkfærin, breiða brosið og faglegar lausnir við öllu. En minnist minnar ábendingar þegar þið hefjið störf!

Ykkar stúdentanna bíða ekki síður aðkallandi verkefni,og björt framtíð. Gervigreindin sækir í sig veðrið á mörgum sviðum og það er mikilvægt að geta td talað tungumál sem hún skilur, bæði góða ensku og íslensku sem hún verður sífellt sleipari í. Það er von okkar að undirbúningur sá sem þið hafið fengið hér í Fjölbraut reynist ykkur haldgott veganesti. Þið eruð komin með aðgöngumiða inn í háskóla og sjáið fram á nokkur ár í viðbót í sérnámi sem þið veljið ykkur sjálf af einskærum áhuga og eldmóði.

Þá rifjast upp fyrir mér þegar ég útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1983, unglingsgrey  með gleraugu og bólur og vissi ekkert hvað mig langaði að verða. Ég prófaði fyrst enskudeildina í HÍ, svo lagði ég stund í lögfræði í eitt ár, síðan fór ég í Kennaraháskólann og fann þar loksins mína réttu hillu, bætti svo við mig meistaraprófi í íslensku og bókmenntum. Alls voru þetta 8 ár – á námslánum sem ég er enn að borga… En ég fann þó loksins nám sem ég hafði brennandi áhuga á, sem hefur nýst mér mjög vel og ég sé ekki eftir neinu. Því brýni ég fyrir ykkur, kæru stúdentar, að velja það framhaldsnám sem ykkur langar til og sem höfðar til ykkar, ekki horfa bara á auðveldu leiðina eða tekjumöguleikana. Það er allt í lagi að vita ekkert hvað mann langar að læra eða gera í lífinu, allt í lagi að prófa nokkrar greinar í háskólanum eða ólík störf á vinnumarkaðnum, bara ef maður fylgir hjartanu – alveg sama hvað aðrir segja og ráðleggja.

Heiminn vantar vissulega bæði fagmenntaða iðnaðarmenn sem eru til taks við margs konar breytingar og uppbyggingu, og bóklært fólk sem hefur innsýn í mörg fræðasvið mannlífsins, ss. hugvísindi, raungreinar og stærðfræði. Heiminn vantar fólk eins og ykkur og hann vantar líka sáttasemjara, friðflytjendur og frumkvöðla, lausnaleitara, heilara og hlustendur, hugsuði, sögumenn og listamenn og einfaldlega kærleiksríkt fólk af öllum gerðum. Það bíður ykkar allra að bæta úr þessum skorti til góðs fyrir framtíðina!

Og áfram um biðina (hún er ekki bara eftir iðnaðarmönnum og því að þessi athöfn klárist). Aðventan er hin langa bið eftir jólunum, en við þolum almennt illa að bíða. Við sækjumst eftir hraða og reynum sífellt að fylla hvert augnablik með allskonar stundarfró, sífellt að keppast við, kaupa og neyta. Að lesa bók var eitt sinn helsta leiðin til að slaka á, opna glugga inn í nýja heima og gleyma sér um stund. En bóklestur hefur því miður alltof víða vikið fyrir öllu öðru. Þess sér greinilega stað í notkun íslenskunnar, þessu pínulitla, söguþrungna og sérstæða tungumáli. Lesskilningur verður sífellt minni og orðaforðinn fábrotnari. Það er alvarleg staða vegna þess að hugsanir eru orð. Ef við búum ekki að fjölbreyttum og nærtækum forða af orðum sem við skiljum og notum, verður hugsun okkar ósjálfstæð, takmörkuð og einsleit og tjáningin og samskiptin þar af leiðandi líka. Hvernig endar það?

Í mínum huga verður það sífellt meira aðkallandi að vekja athygli á þessu og vinda ofan af þessari þróun. Þarf einhver eins og eldhugurinn Mohammed Taher að koma til skjalanna með átak og fræðslu? Eða getum við gert eitthvað sjálf, viljum við gera eitthvað sjálf? Já það getum við, kæru útskriftarefni. Nú þegar þið fáið ekki lengur það verkefni hér hjá okkur í Fjölbraut að fara yfir tiltekið lesefni fyrir morgundaginn, þá vil ég hvetja til þess að þið gefið ykkur framvegis alltaf smá tíma til að staldra við og líta í bók. Og að lesa upphátt úr bók fyrir börnin ykkar á hverjum degi. Það er stund sem geymist í minninu í uppeldi barns og þar er m.a. lagður grunnur að málþroska, málnotkun og orðaforða til framtíðar. Þetta getum við öll gert og ég lofa því að það mun skila árangri fyrir sjálfstæða hugsun og betri samskipti og í leiðinni tryggja sjálfstæða tilvist tungumálsins okkar. En þetta þolir ekki neina bið, við verðum að hefjast hana strax. Fræg eru ummæli breska forsætisráðherrans Tony Blair frá 2001 um að forgangsmál ríkisstjórnar hans væru: Education, education and education.  Ég bið ykkar núna um að gera í framtíðinni amk þetta þrennt og ekki bíða með það: að lesa, lesa og lesa.

Kæru útskriftarefni, meðþessu fræðsluerindi um biðina og mikilvægi menntunar og tungumálsins læt ég staðar numið á þessum síðasta degi ykkar í skólanum. Biðin eftir brautskráningu er á enda. Ég þakka samfylgdina og ég þakka starfsfólki skólans fyrir vel unnin störf, elju, fagmennsku og þolinmæði önn eftir önn, ár eftir ár. Við erum öll stolt af ykkur og óskum ykkur innilega til hamingju með daginn!