Kæru útskriftarnemendur, mitt góða starfsfólk og ágætu gestir.
Það er hátíðisdagur í dag, jólin eru eiginlega fallin í skuggann því nú er brautskráning
dyggra nemenda úr Fjölbraut sem hafa puðað og pælt í gegnum hvern áfangann af
öðrum, nætur og daga og sumir um helgar líka. Kennarar skólans og starfsfólk hafa leitt
ykkur farsællega í gegnum þetta af þekkingu sinni og fagmennsku og ómældri
þolinmæði. Fjölskylda ykkar hefur stutt við ykkur eftir megni – restina sáuð þið um. Til
hamingju öll!
Ég hef það mikilvæga hlutverk í dag að brautskrá ykkur formlega frá skólanum og hér
stend ég í 10.skipti. Það eru tvær útskriftir á ári og allt í einu eru liðin fimm ár frá því ég
hóf störf við skólann í janúar 2020. Þessi ár hafa liðið mjög hratt og verið nóg að gera. Og
eiginlega alltaf gaman!
Hér hefur margt breyst á þessum tíma. Við sem vinnum hér höfum styrkst sem hópur og
okkur líður vel á vinnustaðnum, kennarahópurinn er sterkur og samheldinn, heyra má
hlátrasköll á kaffistofunni og félagslíf starfsfólks er blómlegt. Vinnuaðstæður allar hafa
batnað og eru alltaf í vinnslu, véla- og tækjakostur er í endurnýjun eftir þörfum,
bókasafnið er í senn lærdómssetur, athvarf og skjól, stoðteymið er þétt skipað og öflugt,
heilsueflingarteymið er hart í horn að taka, mötuneytið heldur okkur mettum og frískum,
stjórnendateymið samhent og svo mætti lengi telja. Einn skemmtilegasti vinnustaður
sem ég hef verið á og ég hlakka til næstu ára hér á Skaga.
Að kenna er alltaf áskorun. Oft gleðst kennarinn innilega í hjarta sínu þegar áhugi
nemanda vaknar og framfarir og þroski verða, spurningum er svarað og dæmin leyst. Oft
reytir kennarinn hár sitt þegar nemandinn mætir ekki í tíma, skilar ekki verkefni, fellur á
prófinu. Nemendur eru samir við sig, hafa verið svona öldum saman og maður sér
reyndar sjálfan sig á þeirra aldri í mörgum þeirra. Sjálf var ég unglingsgrey í
Menntaskólanum á Akureyri 1983, svældi sígarettur, djammaði allar helgar, vann alltaf
verkefnin á síðustu stundu og skrópaði svo hressilega að það átti að reka mig úr
skólanum. Sem betur fer fékk ég skriflega áminningu, tók mig á og síðasta árið mitt í
skólanum var ég með 100% mætingu. Þarna fékk ég tækifæri til að bæta mig og hafði vit
á að nýta það . Við skulum aldrei afskrifa neinn alveg, hver veit nema
skrópagemlingurinn verði einhvern tímann skólameistari?!
Ekki gengur allt samkvæmt áætlun í lífinu. Við gerum mistök eða lendum út af sporinu,
mætum mótlæti sem kýlir okkur niður. Að fá annað tækifæri getur skipt sköpum, að
nýta tækifærið breytir gangi lífsins og jafnvel gangi sögunnar. Fyrirtæki eins og Amazon,
Apple, Disney og Google byrjuðu öll starfsemi sína í bílskúr og gripu síðan tækifæri og
urðu milljarðafyrirtæki. Eftir að John Travolta hafði slegið í gegn í Grease ofl lék hann í
nokkrum lélegum og löngu gleymdum gamanmyndum um árabil en fékk svo langþráð
annað tækifæri í Pulp Fiction. Í fyrsta skipti sem Seinfeld kom fram sem uppistandari
kom hann ekki upp orði og var púaður niður. Næsta kvöld fékk hann samt að koma aftur
og sló þá í gegn og eftir það var leiðin greið. Pamela Anderson sem hefur lifað í skugga og
skömm í áraraðir hefur snúið aftur, hugrökk og fögur sen aldrei fyrr án meiköpps. Það er
frábært að fá annað tækifæri, láta ekki fortíðina draga sig niður eða skilgreina sig til
eilífðar. Mörg ykkar sem útskrifast í dag eruð einmitt að nýta tækifærið, hófuð nám að
nýju, með fullri vinnu og fjölskyldu. Þið hafið sýnt að þið búið yfir þeim styrk og seiglu
sem til þarf til að breyta til í lífinu. Vel gert!
En eins við við vitum erum við ekki öll jafn vel í sveit sett. Alltof víða í heiminum er staðan
þannig að börn og ungmenni fá ekki að ganga í skóla, vegna stríðs eða fátæktar,
kynferðis, trúarbragða eða annarra ástæðna. Þau fá ekki tækifæri. Sameinuðu þjóðirnar
sem Ísland er aðili að, settu sér 17 heimsmarkmið árið 2015 sem eiga að nást fyrir árið
2030 og skuldbundu sig til að framfylgja þeim. Þau snúa að efnahag, samfélagi og
umhverfi. Heimsmarkmið nr 4 er Menntun fyrir öll og það er langt í land með að það
markmið náist. En á Íslandi höfum við öll möguleika á að ganga í skóla og fáum að læra,
sem gefur okkur kost á framhaldsmenntun sem skapar okkur fleiri atvinnumöguleika.
Við njótum velmegunar og velgengni og getum gripið tækifærin þegar þau gefast.
Innskot: Við sem njótum þessara forréttinda mættum alveg vera aðeins duglegri að læra og að lesa. Köstum ekki frá okkur tækifærum sem okkur eru gefin bara af því að við
nennum ekki, eða gefum okkur ekki tíma. Lesum – okkur til gagns og ánægju og lesum
þar sem börnin sjá til. Búum til fyrirmyndir og lesum fyrir börnin okkar eins lengi og hægt
er, til að þau öðlist orðaforða og setningagerð, mál og stíl, þjálfi hugsun og ímyndunarafl
svo þau séu betur í stakk búin til að nýta tækifærin sem bíða þeirra.
En – kæru útskriftarnemar, þið gripuð tækifærið og hafið nú lokið ykkar námi hér við
Fjölbraut. Síðasti dagurinn í skólanum er runninn upp. Ég segi við ykkur, hafið augun
opin fyrir tækifærunum því þau liggja víða. Segið já þegar þau koma til ykkar. Opnið huga
ykkar fyrir nýjungum. Fögnum því þegar fólk sýnir það hugrekki að halda áfram að reyna,
viðurkenna mistök, bæta ráð sitt, breyta lífi sínu og snúa aftur. Gefum öllum tækifæri því
skrópagemlingar geta blómstrað og Pamelur risið úr öskustó.
Til hamingju öll með daginn í dag og gangi ykkur allt í hag.