2025 Vor – Um dýrmætar mínútur, skyndilausnir og klúður Bréznevs

Kæru útskriftarnemar, góðir gestir, stoltir aðstandendur og frábæra samstarfsfólk. 

Aldeilis stór og fjölbreytilegur hópur sem útskrifast í dag! Hér erum við núna í fyrsta skipti í langan tíma með glæsilegan skara af meisturum, sem hafa lagt það á sig að stunda námið á kvöldin og um helgar ofan á fulla vinnu og fjölskyldulíf og það er aldeilis ekki auðvelt.  Respect til ykkar, meistarar! – Ég bið ykkur náðarsamlegast um að vera duglegir við að taka nema á samning, til að viðhalda fagmennskunni og stéttinni og fjölga iðnaðarmönnum! Það vantar amk 3000 iðnaðarmenn á Íslandi strax. – Hér erum við líka með topp afreksíþróttamenn og hóp af frábæru leikhúsfólki, eitursnjalla iðnaðarmenn og svo mætti lengi telja, hér er fullt hús af hæfileikum! Þið hafið nú lokið mikilvægu tímabili í lífi ykkar þar sem hæfileikar ykkar hafa vonandi blómstrað, þið hafið náð settum markmiðum.  staðist gerðar kröfur og Til hamingju með það! 

Mörg ykkar hafa tekið virkan þátt í félagslífinu, td fjörugum dansleikjum sem haldnir eru hér í þessum sal og stórskemmtilegum leiksýningum sem hafa slegið í gegn. Mörg ykkar hafa verið dyggir gestir á skrifstofu skólans, bókasafni og í mötuneyti og sum hafa haldið uppi stuði á heimavistinni með ýmsum uppákomum…, við hér í Fjölbraut eigum eftir að sakna ykkar allra! 

Þessi ljúfa og veðurblíða vorönn leið ósköp hratt, það voru þrír fimmtudagar sem voru frídagar og það munar aldeilis um minna í skólastarfinu. Því tíminn sem kennari ver með nemendum sínum dagsdaglega er óendanlega dýrmætur. Það eru mikilvægar mínútur með menntuðum sérfræðingi, viskubrunni, hjálparhellu, hugsjónamanneskju og húmorista sem hefur unun af að miðla sérgrein sinni og leysa mál af alúð og fagmennsku – og þessar mínútur er dýrmætar og þær koma ekki aftur. Það er nauðsynlegt að nýta þær vel þegar þær gefast – kannski er aðeins of seint að hamra á þessu núna við ykkur… en hafið þetta í huga í framhaldsnámi og varðandi skólagöngu ykkar eigin barna, systkina og vina. Notum tímann vel!  

Mig langar að segja ykkur sögu í tilefni dagsins, dæmisögu til að læra af því við erum ekki hætt að læra þótt við útskrifumst. Bóndi nokkur var á ferð í klettaskornum fjöllum og rakst egg sem hafði oltið út úr arnarhreiðri. Bóndinn tók eggið með sér, hélt á því hita alla leið heim í bæ og lagði það síðan í varpkassa í hænsnakofanum. Eftir nokkra daga klöktust eggin út, gulir kjúklingar brutust úr eggjunum, skríkjandi kátir, en úfinn arnarungi skreiddist úr því síðasta. Arnarunginn varð glaður að sjá systkini sín og lærði af þeim að gagga, éta fræ og grafa eftir ánamöðkum. Hann blakaði stundum stóru vængjunum sínum og flaksaðist þá aðeins frá jörðu eins og kjúklingar gera, hélt síðan áfram að leita að fræjum. En eftir því sem árin liðu varð örninn sífellt mæddari og leiðari á lífinu. Dag einn var hann á vappi um bæjarhlaðið og sá stóran fugl fljúga yfir, hátt og tignarlega sveif hann um háloftin. „Hver er nú þetta“, spurði örninn. Gömul vitur hæna (ef hún er þá til) varð fyrir svörum: „Þetta er örninn, konungur fuglanna, hann flýgur hátt, himnarnir eru hans heimkynni en við erum hænsnfuglar og okkar heimkynni eru hér á jörðu niðri.“ Örninn trúði þessu,  lifði síðan og drapst eins og sá kjúklingur sem hann hélt að hann væri. 

Þessi saga sýnir hvað það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig, hafa trú á sjálfum sér og láta ekki umhverfið og uppeldið skilgreina sig. Þannig er, að við fáum skilaboð alls staðar að úr umhverfinu sem í sífellu innprenta okkur hver við séum og hvernig við eigum að vera. Ef við trúum því að við séum hæna en ekki örn, lifum við hænulífi. Allt uppeldið, alla skólagönguna, í vinnunni, hjónabandinu og áfram við uppeldi unganna okkar heldur þetta áfram, kynslóð fram af kynslóð. Það er því mikilvægt fyrir okkur núna á þessum tímamótum að hugsa sem svo: ég get alveg verið td örn! Ég er búinn að ná því markmiði sem ég setti mér. Mér eru allir vegir færir. Himnarnir bíða! Munið þessa sögu. Þessu hugarfari getið þið náð ef þið viljið, gúglið það bara og æfið ykkur.  

Nú er það m.a. hlutverk skólans að leiðbeina nemendum við að tileinka sér þekkingu eða færni sem ekki er aðgengileg strax og tekur tíma að læra. Það gerist hægt og hægt og er ekki endilega alltaf rosa gaman. Það er hins vegar rosa gaman að ná loksins valdi á þekkingu eða færni eftir smá puð, að læra eitthvað og geta nýtt sér það á einhvern hátt. Að ná slíku takmarki eflir okkur í að ná næsta takmarki, og svo næsta. Það er er menntun, það er þroski, sem er ma tilgangurinn með þessu jarðlífi.  

Þá ætla ég að segja ykkur aðra sögu sem vonandi vekur til umhugsunar:  

Á fb er síða sem heitir Vinna með litlum fyrirvara, það eru 84.000 manns þar inni og margar færslur á dag. Þekkið þið þessa síðu? Þann 27. mars sl rakst ég á eftirfarandi á síðunni, nafnlaus færsla:  

Er í upplýsingatækni og eigum að gera verkefni, er séns að ég geti borgað einhverjum til að gera excel-verkefnin fyrir mig, þetta eru 23 verkefni.  

Ellefu brugðust við, einn var svo djarfur að segja: Hvað með að gera verkefnin og læra af þeim? Annar sagði að það að kunna á excel væri mesta „hax“ sem hægt er að læra! Hinir voru að prútta um verð og eflaust hefur þetta endað með að nafnlausi nemandinn keypt verkefnin fullleyst. Og skilaði þeim til kennara. En nú situr þá ekkert eftir hjá þessum nemanda, engin hæfni eða færni varð til.  

Ég sé fyrir mér hryllingsmynd sem gæti auðveldlega orðið að veruleika: nemandinn skilar verkefni unnu af einhverjum öðrum eða af gervigreind og kennarinn notar síðan gervigreindina til að meta úrlausnina. Hvað verður um færni, sköpun og sjálfstæða hugsun í svona dæmi? Talandi um gervigreind, sem ég ætla einmitt ekki að gera í þessari ræðu, þá er hún frábært tól með milljón möguleikum, notum hana til að spara tíma, fá hugmyndir, skoða og skapa. Rýnum allt mjög vel sem frá henni kemur og getum heimilda! 

Því ef við hugsum ekki sjálf og gerum ekki hlutina sjálf, gæti farið fyrir okkur eins og Leoníd Brézhnev sem var þekktur stjórnmálamaður í fyrrum Sovétríkjunum á síðustu öld (d. 1982). Hann átti eitt sinn að halda mikilvæga 15 mínútna ræðu í Moskvu, sem einhver skrifstofublók  hafði samið fyrir hann, en hún endaði í 45 mínútum því hann fékk ræðuna í þremur eintökum! Hann tók bara blöðin hugsunarlaust og las þau öll upp. Sönn saga 

Ágætu útskriftarnemar.  

Ég bið ykkur um að hugsa sjálfstætt og gera hlutina sjálf en ekki kaupa skyndilausnir eða láta mata sig!  

Ég minni á að tíminn er dýrmætur þegar hann er nýttur til að læra. Ekki reyna að plata ykkur sjálf, kennarann né vinnuveitandann, með því að skila af ykkur verki sem þið hafið ekki sjálf unnið. Með puði verður til hagnýt færni og þekking sem aldrei verður frá ykkur tekin.  

Ég bið ykkur að treysta ekki skrifstofublókinni eða gervigreindinni í blindni. Það verður kannski frægt að endemum í sögubókunum eins og klúður  Bréznevs.  

Látið engan segja ykkur hver þið eruð, hvað þið getið og hvað ekki. Ekki vera hæna heldur taktu bara flugið hiklaust eins og örninn hefði átt að gera, sama hvað hver segir.  

Ég þakka kennurum skólans og starfsfólki fyrir að klára enn eitt skólaárið með sóma og sann, þau hafa af örlæti gefið ykkur hinar áðurnefndu dýrmætu mínútur sem vonandi nýtast vel til framtíðar. 

Takk fyrir góða samfylgd og gangi ykkur vel, kæru útskriftarnemar 

Til hamingju með daginn öll! 

Færðu inn athugasemd