Framkvæmdir að nýju

Eftir allt brasið í stofu og eldhúsi 2020 tókum við okkur gott hlé en erum nú aftur farin af stað með framkvæmdir í fallega húsinu okkar. Að þessu sinni er það þvottahúsið (Harlem) og forstofan, sem þýðir að við verðum þá að lokum búin að endurbæta öll rými hússins nema bílskúrinn og planið sem bíða betri tíma. Í þvottahúsinu hékk uppi af gömlum vana innrétting frá 1963 svo það er alveg tímabært að endurnýja. Þvottakona heimilisins hefur sýnt ómælda og undirgefna þolinmæði í gegnum árin því vinnuaðstaðan þarna inni er þröng og raunar alveg glötuð og kallar á allskonar óþarfa bogr og beygjur. Það hefur þó ekki komið niður á gæðum þjónustunnar…

Allt hófst þetta árið 2022 með því að við fengum Margréti Sigfúsdóttur hjá Formax til að teikna rýmin fyrir okkur. Hún kom með þá frábæru hugmynd að færa dyrnar inn í bílskúrinn til að fá meiri heildarsvip og betri nýtingu í forstofunni. Það leist mér strax afskaplega vel á en húsbóndinn sá strax í hendi sér að þetta yrði heljarvesen og nennti engan veginn svona pjatti. Svo drífur ýmislegt á dagana og fókusinn fer vítt og breitt og úr varð að verkefnið fór í bið – þar til nú, vorið 2025. Þá féllst Brynjar á þetta hurðarvesen, ekki síst fyrir hvatningu frá yfirsmiðnum – karlarnir standa saman!

Þann 20. apríl tók Brynjar niður allan panelinn í forstofunni og skápana sem voru alltaf heldur óhentugir. Hvað er hægt að geyma í efstu skápahillunum sem enginn nær eða sér uppí? Þar voru hafðar húfur, vettlingar og treflar og endalaust verið að standa uppi á stól til að leita. Betra er að láta yfirhafnir hanga uppi og hafa góðar hirslur fyrir neðan. Skáparnir voru fyrir þegar við fluttum inn 2004 en spónlagðar hurðirnar hafði ég málað með hvítu lakki fyrir rúmum 20 árum um leið og ég málaði panelinn með þunnri hvítri málningu. Þetta kom svo vel út að það hefur haldist óbreytt síðan.

Einnig braut B upp alltof endingargóðar gólfflísar og skóf eldgamla málningu af þeim veggjum sem ekki á að setja gifsplötu á. Fjarlægði líka sérlega fallega pottofna (þeir eru enn undir húsvegg) sem hafa nú þjónað sínu hlutverki dyggilega frá því húsið var byggt 1963. Þá var komið að píparanum að skera fyrir lögnum til að fá hita í gólfið. Fengum við Grétar, frábæran pípara sem Gunna syst benti á í verkið, hann var snöggur og lausnamiðaður og allt stóð eins og stafur á bók hjá honum. Gummi Múr mætti síðan með sitt lið og hellti floti yfir allt og sléttaði.

Yfirsmiðurinn rak saman sökkla undir fataskápana og þvottahúsinnréttinguna sem bíða nú á nýflotuðu gólfinu. Eitthvað rugl var með teikningarnar að innréttingunni í þvottahúsinu og hornskápur var til vandræða. Margrét sendi nýja tillögu að lausn fyrir nokkrum dögum og við samþykktum hana. Þá ætti að vera hægt að taka saman lista til að panta úr Ikea og mun þá reyna verulega á þolinmæði, rýmisgreind og geðprýði húsbóndans við að setja innréttinguna saman. Vill svo vel til að hann er ríkulega búinn öllum þessum eiginleikum og hefur auk þess allan heimsins tíma.

Þannig er staðan nú, þremur mánuðum eftir að við byrjuðum ferlið.

Gamla forstofan mínm, búið að taka niður stóran spegil sem var fyrir ofan stólinn þar sem útlitið og dressið var tékkað á hverjum morgni

Staðan í apríl áður en byrjað var á gólfinu

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd