Höfundur: Steinunn Inga

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

Frábært ferðalag

Ég hef víða farið um landið á frækna húsbílnum okkar stjörnuparsins og jafnan haldið ferðadagbók sem ég birti hér á vefnum. Í breytingum á útliti vefsins fyrir löngu týndi ég þeim og fann þær aldrei aftur. Því var ég glöð að rekast á þessa pdf ferðasögu í möppu í tölvunni í gær og rifja upp dásamlega daga meðan frostið bítur kinn.

Húsbílareisan 2012

 

cropped-mg_2924.jpg

Áfram Oddný

Framvinda í Oddnýjarverkefni? Jú þetta, þokast. Búin að ganga frá samningi við RÚV um tvo útvarpsþætti sem verða á dagskrá um hvítasunnuna. Ég er farin að sækja tíma í útvarpsþáttagerð í HÍ, hef hlustað á marga frábæra þætti sem ég get lært af. Búin taka nokkur viðtöl við kunnuga, eitt m.a.s. á Akureyri, skrifa þau niður með tímasetningum og merkja við gott efni. Heilmikið sem ég þarf að snikka til, sé ég. Byrjuð að safna hugmyndum í hljóðmyndina sem mig langar að hafa. Hef verið að hlusta á gamalt efni sem frændi minn Aron Berg hjá safnadeild RÚV tók saman fyrir mig. M.a. frásögn Oddnýjar af strandi bresks togara við Látrabjarg 1947. Nú langar mig mest að leyfa kerlingunni að tala sjálfri allan tímann því hún er svo fyndin.

Bullandi kaldhæðin sýn á ástina

Bók um líf og hugsanagang dagdrekkandi menntaskóladroppáts (46), misheppnaðs maka og ömurlegrar móður, þarf ekki endilega að vera niðurdrepandi þótt þar beri mest á tortímandi sjálfsmynd og niðurrifshugsunum. Í Kópavogskróniku eftir Kamillu Einarsdóttur er fjallað um skuggahliðar ástarinnar, niðurlægingu, höfnun og einsemd á hressilega gráglettinn hátt. 

Vodka á Catalinu

Sagan er um unga konu sem á hrakningum sínum um viðsjálar lífsins götur virðist hafa glatað sjálfsvirðingunni og orðið bæði sár og varanleg sködduð eftir ömurleg ástarsambönd en hressir sig á Catalinu með vodka og Magic í hálfslítraglasi (87). Twitter-stíll sem minnir oft á skets í góðu uppistandi, hressilegt málfar, glymjandi mótsögn milli þess sem sagt er og sýnt og óþolandi bið eftir hvenær sögukona fær loksins nóg af rugli sýna vel að mikið býr í þessari nýju skáldkonu og verður forvitnilegt að sjá hvernig hún tekst á við form og efni í framtíðinni. Hún teymir hikandi lesanda miskunnarlaust um endasleppar gangstéttir og litförótt gatnakerfi  Smiðjuhverfisins. En af hverju er Kópavogur sögusviðið? Jú, hann er óskáldlegasti staður í heimi, eina vonin um að það breytist er Herra Hnetusmjör.

Bergstaðastræti og Fífuhvammur

Hvernig má það vera að fólk hangi í ástarsambandi sem er bara svekkelsi endalaust? Furðu margir eru í svoleiðis aðstæðum, tímabundið eða að eilífu. Fastir í sambandi sem báðir kveljast í en sækja samt í að viðhalda því angistin er betri en óvissan, vonbrigðin skárri en einsemdin. Ástin getur verið svo nærandi, falleg og góð en ástarsambandið í sögunni er álíka rómantískt og haustdagar á Snorrabraut og stinningskaldi í nóvember (18). Og það ríkir ekki jafnræði á þessum bæ, hann er Elvis í hennar augum en hún sjálf einskis virði, hún lítur á líkama sinn sem rusl sem aðrir hafa hent og annað kvenfólk er Bergstaðastræti meðan hún sjálf er Fífuhvammur. Hann er kötturinn Púki sem klappar manni aldrei til baka (121), hún er klunnalegur og áttavilltur súperman-kall í Atari 2600 leik frá 1979 (83), hún er vonlaus en hann er verðlaunatré; samanburðurinn birtist skýrt í myndmálinu, alltaf henni óhagstæður. 

Persónurnar eru nafnlausar, sögukona heitir ekkert enda er hún ekkert í eigin huga, karlarnir eru plastpokamenn; forritari, rappari eða vöðvatröll. Einn elskhuganna er tónsmiður sem óendanlega grimmur í eymd sinni og þunglyndi hefur fundið í henni undirgefið konugrey til að skeyta skapi sínu á. Þjáningum hennar er lýst með bullandi kaldhæðni sem reynist auðvitað haldlítið skjól fyrir litla egóið hennar sem engist yfir því að fá enga næringu, bara þessa hrikalegu höfnun. 

„Höfnunarbakflæði“

Heitust er ástin sem hún ber til svonefnds verðbréfamiðlara og blossar upp þegar hann hengir sokka á snúru og hellir upp á kaffi (en býður henni ekki), þegar hann sleikir puttana og stynur svo fallega. Alltaf passar hún sig á að segja ekki neitt sem gæti styggt hann, alltaf er hún tilbúin að ganga í augun á honum, þóknast og þiggja. Blasir við öllum að þetta er glatað samband en sá sem er ást-fanginn horfist auðvitað ekki í augu við það. Milli þeirra er svonefndur „ástleysissamningur“ því það er svo töff að vera bara bólfélagar án tilfinninga og skuldbindinga, en það veldur samt „höfnunarbakflæði þegar hún reynir að kremja það inn í sér að hún sé farin að elska hann smá (67). Það er sorglegt þegar hana langar svo að spyrja þennan gaur af hverju hann vilji aldrei gera hana glaða, heldur bara aðrar stelpur, en spyr hann aldrei því það er svo ósvalt og afhjúpandi. Hún þorir ekki að vera berskjölduð – helst vildi hún vera eins og Klingoni, kaldur, beinskeyttur og skipulagður (77), skemmtileg líking. Loksins nær hún botninum bókstaflega,  þegar hún skúrar eldhúsgólfið hjá honum í þynnkunni (120). 

Þar sem ástin er hötuð

Biturrar kaldhæðni gætir víða í textanum og skýlir sársauka sem djúpt er á: „Undarlegast var að hitta forritarann sem bjó í Kársnesinu og bauð mér oft í heimsókn. Hann talaði nokkur evrópsk tungumál auk C og Python, en á engu þeirra gat hann sagt mér hvort hann vildi mig“ (61). Töffaraskapurinn er allsráðandi og breitt yfir kvölina með stælum: „Það er eiginlega alltaf betra að fá sér kanilviskí sem bragðast eins og jólasveinn hafi brundað upp í mann en að vera að velta sér upp úr tilfinningum“ (108). Atburðarásin er endalaus lúppa hugsana og grátbroslegra athafna við að ná athygli og ástum manns sem vill hana ekki og hún er sjálf margsinnis búin að loka á. Það er eitthvað hrífandi við það hvernig textinn snýst upp í undarlega andhverfu eða mótsögn þegar lýst er sársauka sem má ekki sýna, ást sem má ekki orða, tilfinningar sem má ekki hafa, þörf sem ekki má minnast á. Kópavogskrónika er ástarsaga þar sem ástin er hötuð, tilfinningar eru hallærislegar og slepjulegar, nánd skelfir og traust er ekki til. 

Sagan er skrifuð til dóttur sem var lítið barn þegar sambandið við verðbréfamiðlarann ómótstæðilega er í algleymingi en kemur annars lítið við sögu. Í síðasta kaflanum þegar dóttin er ávörpuð á ný, var ég búin að steingleyma því að sagan væri skrifuð til hennar. Ramminn gerir kannski ekki sérlega mikið fyrir söguna nema þá til að sýna að móðurinni er varla viðbjargandi, að eigin mati að minnsta kosti. Í eftirfarandi heilræði hennar fléttast saman sinnuleysi og kaldhæðni en það er reyndar nokkuð til í þessu góða uppeldisráði: „Ef þú eignast barn, gefðu því nógu margar Astrid Lindgren bækur, kenndu því að smyrja sér samloku og leyfðu því svo bara að finna út úr restinni“ (47). 

Rómantískt æði

Það er langþráð að heyra rödd skynseminnar undir lokin í sögunni: „Lagskonan tók aldrei undir svona óra hjá mér. Spurði svona bara í gamni hvort mér væri ekki ljóst að hugmyndir um rómantík og góð sambönd væru samsæri feðraveldisins til að búa til bljúga og viljuga kynlífs- og heimilisstarfaþræla. Sýndi mér svo hvað heimilisþrífandi, rassamyndatakandi botox konum væri mikið hampað í fjölmiðlum… „Dísess, ertu enn að spá í hann? Hvað sérðu eiginlega við hann? Er hann ekki alltaf bara leiðinlegur við þig?“ (110). Þið, sem eigið svona vinkonur, munuð ekki glepjast af rómantísku æði, ekki lenda í ruglinu og til hamingju með það.!

„Elsku Kópavogur með allar sínar óskiljanlegu gangstéttir sem byrja og enda út í bláinn. Elsku Byko með alla sína ullarsokka fyrir fólk sem notar skó númer 50“ (97-8): þetta er sagan  þín, þetta er sagan um lífið í Smáralind og á Smiðjuvegi, á dekkjaverkstæðinu í Digranesi og í apótekinu þar sem treoið fæst. Í Kópavogum heimsins er óforbetranlegt fólk sem lætur sig dreyma um ást og rómantík en raunveruleikinn rekst oft harkalega á við drauminn, eins og sjá má af þessum línum, sem gætu verið tíst eða ljóð eða hvort tveggja: „Get ég ekki labbað á einhvern með fullt fangið af blöðum? Við tínum þau upp saman og lífið verður dans á rósum…?“ (100).

Víðsjá, 16. janúar 2019

Mynd: kamillae, twitter

Aldrei öll sagan sögð

Þórdís Helgadóttir er ungur höfundur sem sendir frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir. Bókin skiptist í þrjá hluta, kannski eftir ritunartímabilum en það er ekkert víst, fyrsta sagan er alla vega með mestum byrjandabrag og sú síðasta hefur brotist fullþroskuð út úr forminu. Alls eru þetta sextán sögur sem allar bera merki frumleika og fjörugs ímyndunarafls. Þær eru dregnar fáum dráttum, lausar við stað og tíma, hefjast í miðjum klíðum og þeim lýkur skyndilega; enginn aðdragandi, engar málalengingar en hið ósagða þrumir yfir og magnar upp spennu. Söguefnið er margs konar og hversdagsleika slær saman við furður: Tröll hreiðra um sig meðal manna, sjálfur djöfullinn er forstjóri H&M, það er tímavél í bílskúrnum og fjöregg skiptir um eigendur.

Í sumum sögunum hefur veröldin tortímst algjörlega (Bessadýrin, Keisaramörgæsir), í öðrum hafa sambönd fólks tortímst eða eru komin í öngstræti (Út á milli rimlanna, Leg, Lopi). Dýr koma víða við sögu, nútímamenn sjá þau sennilega helst í sjónvarpsþáttum þar sem róandi rödd lýsir atferli dýranna með fáguðum breskum yfirstéttarhreim (146) og í titilsögunni (sem er eins og leikrit) ætla persónurnar einmitt að horfa á hina frægu dýralífsmynd um ferðalag keisaramörgæsanna. Í þeirri sögu þrauka einu eftirlifendurnir í rafmagnsleysi við þröngan kost og framtíðarsýnin er ansi myrk. Fleiri dýr stinga upp kolli í bókinni, risavaxin skepna rís úr djúpinu og skellir saman skoltum, órangútan-api rjátlar í íbúðinni og einmana naggrís mætir örlögum sínum í þvottavélartromlu. Ein sagan heitir Bessadýrin en það eru raunveruleg óvenju harðgerð smádýr með mikla aðlögunarhæfni sem þola bæði frost og funa. Þau gætu verið einu dýrin sem lifa af margboðuð ragnarök en það er einhvers konar hnignunar-, vonleysis- og heimsendastemning yfir bókinni allri.

Áleitin saga heitir Bylgja, þar er sjónarhorn lítillar stúlku sem lítur á lífið eins og ráðgátu sem hún leysir út frá alls konar vísbendingum. Í erfiðleikum sem steðja að fjölskyldunni spjarar hún sig ein með aðstoð alfræðiorðabókar. En alfræðin nær ekki yfir týnda barnið, veikindi móður hennar og sorgina sem leitar allra. Mögnuð er sagan Leg, um hið glæsilega par Alís og Elí sem nær öllum markmiðum sínum og fær það besta út úr lífinu meðan aðrir ná í mesta lagi tuttugu til þrjátíu prósentum. Í matarklúbbnum með japanska þemanu verður óvænt uppgjör, grunur er samt aldrei staðfestur en Alís sem er hörkunagli og ætlar að keppa í Járnmanni afhjúpar ógeðslegt leyndarmál. Kannski áttar Elí sig núna á sársauka konu sinnar sem rúmaðist ekki í fullkomna lífinu þeirra en líklega er það of seint. Þessi saga gæti átt heima í Black Mirror-þætti á Netflix hvað efnistök varðar, vel byggð og spennandi.

Saga sem heitir Vesen nær furðulegum tökum á manni, þar ægir öllu saman, undirheimum og ofbeldi, einhyrningshorni, skarði í vör, hvalkjöti og smálánaokri. Andrúmsloftið einkennist af örvæntingarfullri sjálfsbjargarviðleitni Emmu, einstæðrar móður, í skuggaveröld sem smáborgararnir þekkja ekki. Innan um kostulegt karnival þegar hvalavinum slær saman við kjötætur í blóðugum götuslag og sögur af bergmálssöng og útrýmingu hvalastofnsins, rís svo stúlka loksins upp gegn kærasta sem hefur haft tangarhald á henni. Vel gert.

Ein stutt saga með löngum titli, Það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommasso Marinetti, er í orðastað konu sem er óvenju langlíf og talar líklega í síma við blaðamann sem er á höttunum eftir skandal um ítalska ljóðskáldið og fútúristann Marinetti (d. 1944) sem hún hélt kannski við. Eintalið berst að loftslagsbreytingum og sú gamla fer á flug í íroníunni:

„Hvað í veröldinni er til dæmis að svifryki? Svifrykið á Miklubrautinni – það er fullkomlega náttúrulegt. Náttúruleg útkoma af náttúrulegri hegðun dýrategundar sem til skamms tíma hefur gengið framúrskarandi vel í samkeppninni um náttúruvalið. Að útrýma öðrum tegundum er nú eiginlega bara skylda hverrar þeirrar lífveru sem á annað borð kemur sér í þá stöðu að geta gert það. Kannski við tortímum okkur sjálfum í leiðinni, það er svo sem náttúruleg hegðun líka. Þú sérð að það þarf að rýma svolítið til hérna“ (23).

Aðrar sögur eru ljóðrænar og torræðar, til dæmis Þetta heilaga og B5-M, formgerð þeirrar síðarnefndu er bréfaskipti sem eru ódagsett og ekki í tímaröð en segja marglaga sögu sem lesandi verður að ráða í. Textinn er víðast blátt áfram en sums staðar ljóðrænn, sumar setningar gætu staðið sem ljóð: „Barnið sem þú varst einu sinni lifir í mér eins og tálkn eða rófubein. Ég er botnlanginn í þér. Þú átt eftir að hlæja þegar þú lest þetta. Ég get næstum heyrt það“ (62). Í annarri ljóðrænni sögu leitar sögumaður alltaf uppi dýragarða, furðuleg fyrirbæri sem hefðu átt að leggjast af um leið og sjónvarpið var fundið upp.

„Í Bronx snúa górillurnar baki við gestum, luralegar og hálslausar. Niðurmjóar. En svo áður en maður veit af hafa þær dregið hnefana alla leið upp að glerinu og stara á mann óttalausum augum. Mér hefur verið ráðlagt að horfa ekki á móti. Ég velti því fyrir mér hvort villtir apar séu með sama augnaráð, ég hef aldrei séð górillu úti í náttúrunni. En augnatillitið þekki ég samt, ég hef mætt því oft áður. Á börum sem loka seint eða aldrei, framan í mönnum sem muna ekki lengur hvort þeir eru lausir á skilorði eða að bíða eftir að sitja af sér dóm. Ég lít undan“ (65-66).

Keisaramörgæsir Þórdísar Helgadóttur koma á óvart, sögurnar eru fjölbreyttar,  vel stílaðar og byggðar, ferskar, ljóðrænar og íronískar. Fyrirtaks lesning þar sem aldrei er öll sagan sögð. Erum við mennirnir ekki svolítið eins og keisaramörgæs;  hjarðdýr á köldum klaka sem er fast í eilífum kjólfötum og bægslast langar leiðir eftir viðurværi til æviloka? En kannski er ég bara að missa mig í túlkuninni, hugurinn fer á flug við lestur áhugaverðra bókmennta.

Víðsjá, 18.12.18

Fullkominn endir

Á átjándu öld var ástandið hér á landi orðið svo bágborið vegna náttúruhamfara, hungursneyðar og viðskiptaeinokunar, að kóngur vor í Kaupinhafn sá sig tilneyddan að ganga í málið. Hann hafði lengi haft nokkurn ama af þessari kotþjóð og fulltrúum þeirra við dönsku hirðina sem voru sífellt nauðandi um kjara- og réttarbætur, en hafði líka af henni nokkurn arð, m.a. af skreið og lýsi, og sá fram á að tekjulind þessi mundi þverra ef ekkert yrði að gert. Ungur vísindamaður er því fenginn til að fara til Íslands í þeim tilgangi að gera úttektarskýrslu eða „allsherjarprotocoll“ eins og það er kallað, svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana, þ.e. að flytja þá tæplega 40.000 Íslendinga sem enn tórðu á brott og fá þeim sæmilegt húsnæði og atvinnu í dönskum kaðla- og spunaverksmiðjum.

Kona frá 18. öld í íslenskum búningi

Skáld og fífl

Þetta er í örstuttu máli sögulegur bakgrunnur Lifandi lífslækjar, nýrrar skáldsögu Bergsveins Birgissonar; eins konar leiktjöld fyrir ísmeygilega ádeilu á vald, forréttindi og fordóma. Eitt af hlutverkum skáldsögu er að afhjúpa valdið í öllum sínum myndum og hér er það einkar vel gert, líkt og fyrri verkum Bergsveins, t.d. Geirmundar sögu heljarskinns (2016) þar sem landnám Íslands er undir og sýnt í nýju ljósi sem brölt valdagráðugra þrælahaldara. Gaman er að geta þess að Bergsveinn sjálfur birtist í þeirri bók eins og einhvers konar Stan Lee, í örlitlu hlutverki skálds sem fær háðulega meðferð og hann birtist líka í Lifandi lífslæk; fífl sem hjalar óráð og þylur illar spár og skapar þannig spennu hjá fulltrúum ólíkra viðhorfa til skynseminnar. 

Ljós skynseminnar

Sagan hefst í Kaupmannahöfn á ráðagerðum Dana og þar lifna við þjóðkunnir karlar, Magnús Stephensen og Jón Eiríksson, framfarasinnaðir embættismenn og sérfræðingar í málefnum Íslands sem þó er ekkert hlustað á í ráðuneyti konungs. Í borginni ferðast vellauðug verslunarelítan um upplýst stræti og torg í hestvagni, ilmandi af lavender og kryddvíni. Það eru nýir tímar, vísindin hafa tekið þann sess í huga fólks sem guð skipaði áður, hjátrú og hindurvitni tilheyra myrkri fortíðar en myndmál hins nýja hugsanagangs einkennist af ljósi skynseminnar. Þar með eru örlög fólks ekki lengur í hendi guðs, hægt er að halda því fram að fátækt og eymd séu manni sjálfum að kenna og lag fyrir valdhafa að skáka í því skjóli.

Draugar og mörur

Aðalsöguhetjan, Magnús Árelíus Egede, tilheyrir danskri forréttindastétt. Hann er metnaðargjarn landkönnuður og dyggur aðdáandi vísinda og upplýsingar, með nýtískulega hárkollu, klæddur hvítu vesti og blúndum skreyttur. Hann er skrýtin blanda af manni (165), upplýstur vísindamaður sem verður eins og lítill drengur þegar hann talar íslensku, sitt annað móðurmál (54), skotið dönskuslettum og latínufrösum (en mál og stíll sögunnar er bæði mergjað og drepfyndið og efni í langa stúdíu). Hann þjáist af flogaveiki og er í ofanálag rammskyggn. Í flogaveikiköstum og óráði sækja draugar og mörur að honum, íslensk alþýða stígur fram og lýsir kúgun í gegnum aldir. Kvendraugur rekur hroðalega sögu sína af misnotkun og ofbeldi og niðursetningur sem var barinn og sveltur til dauðs tíu ára gamall, sest á rúmstokk Markúsar og talar um arðrán og gerspillt vald sem gegnsýrir allt á landi hér:

„Það er óttinn sem límir það allt saman, óttinn sem stýrir, óttinn er samhengið. Og þar sem óttinn ræður er aldrei langt í fyrirlitninguna og litlir menn óttast upp á við og fyrirlíta niður á við og gera eins og þeim er sagt og herma eftir herrum sínum að ofan. Þeir læra af þeim hæstu herrum að hata sitt eigið fólk. Allt frá froðunni úr kjafti valdsins til barnings á þeim lægsta tala ég. Óttinn byrjar hjá þeim sem eiga landið, þaðan til æðstu embætta valds og verslunar og sótast þaðan yfir í okkur hin. Þeir óttast að vera ekki starfi sínu vaxnir gegn hærri herrum og traðka því sem mest þeir mega á bændum, ohoho, klapp vilja þeir á kollinn fyrir hvert traðk og hverja píning, leigur og tolla, skatta og gjöld, dálitla umbun fyrir hverja fyrirlitningu sem þeir sýna niður á við, hvert húðlát er umsnúinn ótti…“ (250).

Vor missjón!

Magnús fékk í sinn hlut að rannsaka mannlíf á Hornströndum og segir hátíðlega við upphaf siglingar til Íslands: „Vor missjón er missjón vísindanna er ekkert fær stöðvað“ (57). En brátt rekst hans lærdómur harkalega á raunveruleikann, teoría og praktík stangast á, vísindaleg latínuheiti, flokkun og tegundagreining leiða ekki til haldbærrar þekkingar né koma að gagni í lífsbaráttunni í harðbýlu landi. Háðulega meðferð í sögunni fær hin vísindalega greinandi hugsun þegar stórvaxin bein sem standa út út sjávarkambi eru álitin vera af risum sem talið var að hefðu verið á Íslandi til forna, þau eru sæmd latneska heitinu Gigantes og pakkað inn til að setja á safn í Köben en innfæddir vita að þau eru úr hval sem strandaði í fjörunni fyrir löngu. Eftir því sem lengra líður á ferðasöguna skarast kategóríurnar innra með embættismanninum sem efast æ meir um hlutverk sitt og tilgang. „Hvað átti hann með að ákveða hvar væri góð eða slæm lífsskilyrði? Einmitt sá sem tekur sér það bessaleyfi að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu, það er sá sem skilur ekki neitt, hvorki í manneskju né menningu“ (197).

Á maðurinn val?
Tvo aðstoðarmenn hefur Magnús með sér í ferðinni, Bárð Grímkelsson, hjáleigubónda úr Dölunum sem þjáist af hlandstíflu og Jón Grímsson sem hefur áður ferðast um landið í umboði Danakonungs til að kenna þjóð sinni kálgarðarækt en án árangurs, báðir eru málpípur innfæddra sem gefa lítið fyrir „vísendi“ og lærdóm Magnúsar Árelíusar enda kann hann ekkert á land og þjóð. En síðan er hann einn á ferð enda kominn svo langt frá mannabyggð að enginn hættir sér þangað. Þá þarf hann ekki lengur að strögla og sýnast fyrir aðstoðarmönnum sínum, persónan þroskast og breytist; fínu fötin kolast, hárkolla lærdómsmannsins verður mórauð (129) og hann allur svo móbrúnn að yfirbragði að margir tóku hann fyrir innlendan brennivínssölumann (175). Honum vitrast að kannski er hann sá fátæki en hið fáfróða og arma fólk ríkt – af trú og sögum í sínum þrönga og endurtekningasama heimi. Var það hans eigin menning sem bar feigðina í sér en ekki þeirra sem hann átti að bjarga? Það molnar úr brothættri sjálfsmyndinni en vísindaferðin gæti enn snúist upp í sigurför hans sjálfs. En þá reynir á manninn, hefur hann frjálsan vilja, hefur hann val?

Loks kemst hann við illan leik á Strandir. Öndvert við bágborið ástand í sveitum á Vatnsnesi og víðar, eru Strandamenn hressir og hraustir. Þar drýpur smjör af stráum, þar eru kýr og veiðarfæri, postulín og sápa, enda skipta þeir við hollenskar duggur og hunsa þann kóng sem vill að þegnar hans séu þrælar. Svona gæti líf Íslendinga verið um land allt ef þeir fengju að ráða sér sjálfir.

Sumarið 1785

Sagan líður áfram í sínum sérstaka og stórskemmtilega 18. aldar stíl, með hárfínni íroníu, listilega skrifuðum bréfum og mögnuðum draugagangi. Ferðamaðurinn kemur á bæi og lærir sitthvað, hann er á mærum menningarheima og öðlast aðra sýn á nýlenduþjóðina og ekki síður á sína eigin þjóð. Honum tekst að kveða niður djöfla sína með kærleika sem hann vissi ekki að hann ætti til og Sesselja, hin mállausa sem sætt hefur óskiljanlegu ofbeldi, elskar hann óverðskuldað en það eru kaldhæðnisleg örlög rökfasta vísindamannsins að eiga allt sitt undir henni og hinum töfrum slungna lífslæk.

Sögumaður stendur frammi fyrir flóknu verkefni, hvaða veruleika á andi sögunnar að segja frá? (110). Hversu nákvæmlega á að lýsa ferð eins manns með beyg í brjósti á framandi slóðum sumarið 1785? „Eða hver var ekki með beyg í brjósti sumarið 1785?“ (174). Sögumaður þykist hafa afstöðu sagnaritara en leikur tveimur skjöldum, í síðustu köflunum talar hann um að ekki séu til fleiri heimildir fyrir þessari frásögn og ekki í boði að skálda einhverjar „rómankúnstir“ (286) þótt það flikkaði óneitanlega upp á söguna að segja frá konu sem grætur ofan í visinn blómvönd.

Í Epilogus er hins vegar nóg af heimildum, m.a. skýrslur og bréf, og þar er píla til okkar sem nú lifum á Íslandi og virðumst stefna í að selja það allt undir „bræðslur, olíuhreinsistöðvar, járnblendi-, súráls- og brennisteinsverksmiðjur og risaorkuver“ (292). Frú Sigrid Andersen ráðherra hefur gert sölu landsins að kappsmáli sínu og miðar býsna vel.

Fullkominn endir

Myndin sem dregin er upp af því sem hefði getað orðið ef danskt skrifræði hefði fengið sitt fram er ansi nöturleg og ætti að vera okkur til varnaðar á okkar viðsjárverðu tímum þegar stjórnvöld hafa margsinnis sýnt að þeim eru mislagðar hendur. Seinasta sagnabrotið, þegar tjaldið fellur við sögulok og maðurinn horfist í augu við eigin fordóma og hefur misst allt þrátt fyrir forréttindi sín, er ekki „verifíserað“ af sögumanninum en mikið er það fallegt og harmþrungið; fullkominn endir.

Víðsjá, 11. desember 2018

Nýtt orð

Heyrði nýtt orð í dag, sem reyndar hefur verið til frá 1631. Plútókrasía. Þar sem auður ræður. 

Skilgreint sem svo:

: government by the richest people

: a country that is ruled by the richest people

: a group of very rich people who have a lot of power

sbr. merriam-webster

Ljónið og gasellan

Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur gerist í Reykjavík samtímans og virðist vera hefðbundin og raunsæ unglingabók sem fjallar um venjulega unglinga og allt þeirra venjulega vesen en svo fer eitthvað nýtt, spennandi og yfirnáttúrulegt að gerast. Dyr opnast af sjálfu sér, súgur fer um sali, krossar snúast og draugar mæta á skólaball.

Kría er 16 ára og nýflutt til Reykjavíkur. Hún býr í miðbænum með pabba sem er arkitekt og verkfræðingnum móður sinni, hún byrjar í MR, er þá ekki allt í sómanum? Nei, ekki alveg, Kría er með vafasama fortíð sem er ástæðan fyrir því að fjölskyldan hraktist úr  heimabænum, og amman sem býr á neðri hæðinni, er greinilega með óhreint mjöl í pokahorni. Þetta gæti orðið spennandi saga.

Ljónið
Hildur Knútsdóttir
Steinunn Inga Óttarsdótir

Kría kynnist krökkum í skólanum sem eru fallegir og ríkir, lepja latté og spila á selló. Elísabet Snæhólm er ein bekkjarsystirin, dóttir rektors, hress og skemmtileg stelpa, ráðagóð og sjálfstæð. Aðrir krakkar eru dregnir daufari dráttum og renna einhvern veginn saman, nema ljónið sem bókin heitir eftir; leyndardómsfullur gaur að nafni Davíð sem hugsar á öðrum brautum en flestir og er auðvitað einstaklega heillandi fyrir vikið.

Elísabet hressa og hin hlédræga Kría verða góðar vinkonur og þegar þær komast á snoðir um mannshvarf í Snæhólm-fjölskyldunni fyrir löngu, ákveða þær að komast til botns í því máli. Sagan fjallar þó mest um þroska Kríu og lausn hennar undan þrúgandi atburðum fortíðar og nýja hversdagslífið hennar „með sínum smásigrum og -sorgum“ (410) en minna um lausn hins óhugnanlega og óleysta lögreglumáls, sem reyndar er býsna fyrirsjáanleg að minnsta kosti fyrir miðaldra lesanda.

MR er sveipaður einhverjum gullnum ljóma, þar er fjörugt félagslíf og sætir strákar, þar er setið við heimanám öll kvöld og allar helgar til að mæta metnaðarfullum kröfum skólans og þar fær einmana unglingur að norðan tækifæri til að eignast vini og nýtt líf. Nostalgían er aðeins of mikil í lýsingum á kennslustundum og húsnæði skólans. Og það verður að segjast að allt gerist lúshægt í þessari rúmlega 400 blaðsíðna bók.

Kría upplifir í fyrsta sinn að vera ástfangin og sofa hjá. Lýsingin á því er leyst af hendi með líkingunni fornu við flugeldasýningu sem ég hélt að Auður Haralds hefði afbyggt og gert útlæga úr bókmenntum. En „Þegar hann fór inn í hana þandist hver einasta taug í líkama hennar út, þar til allt sprakk í neistaregni og rann síðan saman við myrkrið“ (255).

Elísabet á býsna góða ræðu í bókinni sem hún heldur þegar Kría hefur áhyggjur af því að verða kölluð drusla af því að hún sýndi meiri áhuga á kynlífi en kærastinn var tilbúinn í:

„Sko, okkur er innrætt að við eigum alltaf að vera sexí og sætar og það það sé það sem skiptir mestu máli í lífinu. En svo eru við látnar skammast okkar fyrir að vilja kynlíf. Ég meina, eigum við að vera fokking kynverur eða ekki? Ákveddu þig, heimur! Þetta er bara fokking drusluskömmun og ekkert annað. Þú ert bara að drusluskamma sjálfa þig, Kría. Og þú skalt bara steinhætta því. Bara á stundinni. Þú mátt vera eins mikil drusla og þér sýnist og það er er nákvæmlega ekkert að því. Og hana-fokking-nú“ (287).

Þessi boðskapur er góður og gildur og kannski aldrei of oft kveðinn en ég vona að þetta sé ekki opinberun fyrir markhóp bókarinnar, eru ekki allir með þetta á hreinu núna eftir vakninguna í kjölfar Druslugöngunnar?

Traust og ábyrgð eru þemu í sögunni og boðskapurinn sá að skárra er að treysta og vera svikinn en treysta aldrei neinum. Tæpt er á stéttaskiptingu og einelti en án þess að ljá því mikinn þunga, harmsaga svikullar fyrrverandi vinkonu fer svolítið hljótt og reynsla ömmunnar af því að alast upp við fátækt og fordóma er bara bergmál. Sagan snýst langmest um stelpur sem eru skotnar í strákum, fara á túr, skoða instagram og eru á trúnó, horfa á þætti, mála sig, fara á ball og fá sér bjór. Sennilega er þetta raunsæislegur reynsluheimur flestra íslenskra unglingsstúlkna á 21. öld og það er frábært að draga hann fram, leyfa stelpum að tjá sig frjálslega, segja „fokkjú“ og fleira, eiga löng samtöl um sín hugðarefni –  fá þeim rödd og rými. Það er svo sannarlega þarft og brýnt í íslenskum bókmenntum og þakkarvert. Það er auðvitað ekki hægt að leggja það á höfunda barna- og unglingabókmennta að standa einir í því að ala upp „rétthugsandi“ og femíníska þjóðfélagsþegna og breyta staðalmyndunum í samfélaginu. En þarf myndmálið endilega að vera strákur sem ljón, strákur sem spyr gagnrýninna spurninga eins og hvað er skrýmsli, hvað er rétt og rangt, gott og illt (382), og svo stelpa sem er fórnarlambið, gasellan (409)? Það er eitthvað svo dæmigert og niðurdrepandi.

Fyrri bækur Hildar eru mun betri en þessi. Ljónið er langdregin bók, of mikið er um endurtekningar og langar lýsingar án tilgangs eða tilþrifa. Sagan verður því miður ekki eins spennandi og efni stóðu til. Þetta er fyrsta bókin í þríleik um Kríu, Elísabetu og stallsystur, ætli hann endi nokkuð með hátíðlegri útskrift Kríu úr hinum virðulega MR, líkt og Öddu-bækurnar forðum?

Víðsjá, 3. desember 2018

Má maður biðja um meira svona?

Umbúðir skáldsögu Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini, vekja strax athygli með leturgerð og káputexta sem bæði gleðja auga og hressa sál. Innihaldið gerir það ekki síður. Með meinfyndnum og grátbroslegum hætti birtast fortíð og örlög þjóðar á 460 blaðsíðum þar sem aldrei er dauð stund. Frá því Hallgrímur skrifaði sig frá fargi kynferðisofbeldis í skáldævisögunni Sjóveikur í Munchen (2015) og orti einlæglega um sorg og missi í Fiski af himni (2017), er hann á fullu stími og veður áfram eins og iðandi síldartorfa.

Sögumaður er yfirmaður með alsjáandi auga, hann er aðkomumaður í tíma og rúmi (Höfundur Íslands?) sem þekkir lúgusjoppur, varalit og fagra gosbrunna sem hinir kunna engin skil á. Rödd hans er gagnrýnin á þjóðskipulag og stéttaskiptingu í samfélagi þar sem öll frávik og framfaraskref eru litin hornauga, enginn á gúmmístígvél og eldspýtur hafa aldrei sést. Sagan gerist undir lok 19. aldar þegar íslensk þjóð hokrar í torfkofum í ánauð löngu afnumins vistarbands og einokunar eins og hún hafði gert í margar aldir þar á undan, étandi úldinn fisk og grasalímsgraut en vegna hjátrúar og fáfræði fúlsar fólk við feitri síldinni sem ólm vill komast ofan í pottana þess. Lífið er þrældómur og strit á akri óvinarins; skinn og lýsi, prjónles, kjöt og kjammi er lagt  inn hjá kaupmanni og nauðsynjavörur teknar út í staðinn. Þetta er hagkerfið og hin íslenska verslunarhefð, peningar sjást aldrei og viðskiptavinirnir eru háðir geðþótta og verðákvörðunum kaupmannsins.

Hallgrímur Helgason
Forlagið

Bóndinn Eilífur í Stundarkoti hafði það af á 20 árum að safna sér fyrir 3 lömbum og einum húsmæni (líkt og kollega hans, Bjartur í Sumarhúsum). Hann hefur verið dæmdur fyrir þjófnað og það er tilhlökkunarefni að fara í tugthús, koma í annan landshluta, fá reglulega að éta og þurfa ekki að strita við annað en sitja af sér dóminn. Hann hefur við upphaf sögu misst allt sem hann á í snjóflóði, nema son sinn á öðru ári en sá er alls staðar sólargeisli og aufúsuGestur. Elífur er að eilífu fastur í stétt fátækra og valdalausra kotbænda og ræður engu um örlög sín. Í dirfskukasti hyggst hann slíta af sér hlekki hugarfarsins og búa sér og syni sínum nýja framtíð en er snarlega brotinn á bak aftur. Þungbært er það þegar draumur Eilífs verður að engu og yfir hann hellist sú ískalda staðreynd að hann er sama sem dauður. Síðast spyrst til hans við frumstæðar og hrollkaldar hákarlaveiðar sem búa til gróða fyrir Kopp kaupmann. En sonurinn, Gestur litli, verður gestur í stétt og húsi kaupmannsins sem hann kallar nú föður sinn.

Gestur er frásagnarmiðjan, draumspakur með glöggt auga og hefur tengingu við allar sögupersónur en þær eru margar og skrautlegar. Snáðinn hefur þolað margt, upplifað missi og höfnun og hryllilegt ofbeldi um borð í franskri skútu, hann er drengur í taugaáfalli, unglingsgrey sem mann langar að taka í fangið, hugga og leiðbeina og helst ættleiða. Þrjá feður eignast hann en sá sem aldrei yfirgefur hann er kjarnaskáldið góða, hinn laghenti og bragfíkni Lási á Ytri-Skriðu sem fann upp hjólið alltof snemma. Hjartaskerandi er frásögn af Gesti í 28. kafla, einmana smala í þoku sem saknar fóstru sinnar, og enn átakanlegri er frásögn af því þegar hann fær bréf frá henni: „Vol hans var einn lágstemmdur og ámátlegur tónn, hinn hreini íslenski tónn í upphafi aldar, upplýstur af einu kerti í fjárhúsi fullu af myrkri“ (306).

Sjálfsagt voru þetta ekki bestu árin til að vera kona á Íslandi, segir á einum stað (197). Vinnukonur, ráðskonur og húsfreyjur eru flestar bognar og skældar af erfiðisvinnu og hafa aðrar eins sögupersónur ekki sést síðan Laxness sérhæfði sig í kvenlýsingum. Nægir að nefna hina hrjúfu Lárensíu sem rétt bregður fyrir með gráar forkristilegar rabbínafléttur og stækt ofnæmi fyrir börnum eftir að hafa eignast átján stykki og Hugljúfu í Hvammi sem enn mátti sjá í gegnum stritslikju lífsins að hafði verið snotur en var nú með samanherptar varir og kalnagaða vanga (369). Andstæður þeirra eru óslitnar en vofulegar prestsekkjurnar í Maddömuhúsi og hin fagra og „stofukæra“ kaupmannsdóttir Vigdís, kona Árna prests, tónskálds og þjóðlagasafnara (sem á sér raunverulega fyrirmynd). Þá er ónefnd Grandvör gamla Guðmannsdóttir frá Útdölum út sem leynir á sér, talar hrafl í frönsku og lumar á kveri í rúmbotni eins og stallsystir hennar í annarri frægri skáldsögu. Lýsing á henni á blaðsíðu 213 er snilld. Hún er ekki bara prjónandi húsdýr (190) heldur lifandi goðsögn og hetja. Af henni er löng saga (208-213) sem hefst svo:

„Í Útdölum út hafði eldur logað á hlóðum frá því um landnám, í rúm níu hundruð ár, sami eldur í sömu stó, og þannig var það á hverjum bæ um land allt, því elds er þörf á ísalandi. Um allar sveitir brunnu þessir ólympíueldar íslenskrar alþýðu og aldrei máttu þeir slökkvast. Á kvöldin var loginn svæfður til að vera vakinn að morgni. Var það kvennalist mikil sem gengið hafði kynslóða á milli, og varð aðeins með höndum numin, því engin þeirra formæðra gat útskýrt í orðum hvernig fela ætti eld. Einstaka sinnum kom það svo reyndar fyrir að eldurinn dó í stónni og var þá illt í efni, því sjálfvirku bensínkveikjararnir sátu enn í biðstofu sögunnar og flettu gömlum eldsneytistímaritum“ (209).

Fjörugur stíll og frumlegt myndmál ganga í gegnum söguna, kröftug nýsköpun sem sprengir upp tíma og rúm og opnar tungumálið með húmor, lifandi myndum og vísunum í hálfdauðan bókmenntaarfinn. Dæmin eru ótalmörg og aðeins nokkur tínd til:

„…honum virtust skjáturnar vera af dvergakyni og brynnti þeim líkt og músum“ (60).

„Að týna  barni var vont. Að týna annarra barni var verra. Að týna týndra manna barni verst“ (151).

„…fram á varir hennar kom svo ógnarblítt bros að sjá mátti að það hafði velkst um í sál hennar áratugum saman eins og bjórkútur í hafi…“ (191).

Frumleikinn yljar lesanda sem gleðst við nýsmíði eins og „harmslengd, píanófingraður, stritbrúnn og brimskeggjaður“, setningarnar sprikla af krafti og andríki. Má maður biðja um meira svona í íslenskum bókmenntum?

Persónurnar eru vandlega byggðar og hafa hver um sig boðskap að færa í skáldverkinu, segja hver sína sögu og sögu þjóðarinnar, saman settar af miskunnarlausu innsæi. Bara eitt dæmi: Rögnvaldur Sólskinsson flakkari, fulltrúi þessa þögla þjóðarbrots, kannski eini eftirlifandi þeirra þúsunda barna sem borin voru út og veinað höfðu í gilskorningum og gjótum Íslands. Málfar hans, þjóðfélagsstaða og hugmyndafræði passa hvergi en hann hefur þó þau áhrif að vekja Gest til umhugsunar og breytir lífi Árna prests.

Það er að mörgu að hyggja í þessari mögnuðu og margradda skáldsögu, í henni er flaumur af myndrænum lýsingum og senum, t.d. þegar Gestur lærir að prjóna en á kotbýlunum urðu allir að prjóna til að geta átt í sig og á til þess að geta haldið áfram að prjóna: „Gestur kom tregur inn í þessa vettlingaverksmiðju og virtist engan veginn vera efni í prjónagamm, það var enn í honum franska duggan, hann dró á eftir sér möru sína hvert sem hann fór og sagði nú sífellt færri orð“ (204). Og senan ægilega sem gerist í Steinkukoti þegar presturinn Árni með sitt snyrtilega yfirskegg vísiterar sigurverk fátæktarinnar, hina íslensku fjósbaðstofu (151-182). Sú sena er yfirgengilega grótesk og grimm, fyndin og sorgleg í senn en verður ekki höfð eftir hér en hlustendur eru hvattir til að lesa, helst við lýsistýru og sem allra fyrst. Ég veit ekki hvers Steinka þessi á að gjalda en hún kemur aftur við sögu í 42. kafla sem ber heitið Fegurðin, fátæktin og er aldeilis óborganleg.

Hvað þráð skal taka hér upp frekar af þeim mörgu sem fléttast saman i hinni sólgulu bók? Forneskjuna og fátæktina hjá þessu ísfólki, stöðnunina og stéttaskiptinguna, þrælslundina eða einokunina? Samanburðinn við Norðmenn eða sálgreininguna á íslensku þjóðinni sem er svo sönn og lýsandi og enn í fullu gildi? Af nógu er að taka.  Í þúsund ár hafði ekkert breyst í samfélaginu, hver dagur var barátta við hungur og kulda en þegar síldin kom í Segulfjörð bankaði framtíðin á dyrnar. Sumarið leið með ati á plani, brakandi seðlum, glampandi sól og mokfiskeríi. En „Að morgni hins sjötta dags septembermánaðar gerði stórgarð af norðri með éljum og hagli. Að draumasumri loknu, fullu af ævintýrum og nýjungum, gnauðaði gamla Ísland í gættum og ljórum“ (449).

Í lok sögu stendur Gestur í alveg sömu sporum og faðir hans í upphafi. Á hann möguleika á mannsæmandi lífi eða heldur vítahringurinn áfram?  Til hvers var svo allt þetta fýrverkerí, allur þessi freyðandi texti og grafísku senur, brýning og háð, ást og ofbeldi, frelsi og ófrelsi? Jú, lesandi er innblásinn og útblásinn eftir lesturinn, hefur notið orðaleiksins, öðlast innsýn og nýja sýn, kímt og viknað, fundið fyrir bullandi samlíðun og von. Það hlýtur jú að vera tilgangur allra góðra skáldverka.

Víðsjá, 15. nóvember 2018