Höfundur: Steinunn Inga

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

Virkja nemendur til dáða

Mér er hugleikið að virkja nemendur framhaldsskóla til dáða, bæði í kennslustundum og til lýðræðislegrar þátttöku í skólastarfi til framtíðar. Ég rakst í morgun á rannsókn um þetta efni og niðurstöðurnar eru skýrar:

„Ef kennari sækist eftir virkri þátttöku nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til sem
flestra nemenda. Rannsóknir hafa sýnt að nemendamiðaðar aðferðir hafa jákvæðari áhrif á virkni nemenda í námi heldur en kennarastýrðar aðferðir. Höfundur telur í þessu sambandi að virkniathafnirnar að vinna verkefni og spyrja kennara spurninga, sem voru algengustu athafnir nemenda í kennslustundunum, sýni ekki nægilega fjölbreytta virkni
nemenda. En ég tel að jákvætt viðmót kennara, sem kom fram í 87% virknistundanna, og hinir athafnaflokkarnir þrír, hlýlegt viðmót, skýr fyrirmæli og hvetjandi kennari, hafi góð áhrif á virkni nemenda í kennslustundum.“

Þetta kemur fram í meistararitgerð Heiðrúnar Hafliðadóttur (f. 1991) frá 2019 sem má finna hér. Á vorönn hef ég tekið starfsmannasamtöl í FVA en það er í fyrsta skipti sem ég geri slíkt á ævinni. Það er afar fróðlegt og gagnlegt og skemmtilegt. Ég hef skrifað hjá mér á sérhannað eyðublað punkta meðan á spjalli stendur og setti inn dálk sem heitir Ákvarðanir teknar sem hefur minnt mig á að fylgja því eftir sem fram kemur og ákveðið er í samtalinu. Sem nýr skólameistari hafði ég alltaf hugsað mér að vera sem mest á ferðinni í skólanum, innan um nemendur og kennara. Því miður er ég að mestu föst við skrifborð og hef ekkert getað litið inn í kennslustofur eins og mig dreymir um, og kófið gerði alveg út um þann draum. Ég hugsaði með mér á dögunum að starfsmannasamtöl væru góð og gild – annað hvert ár, en á móti vildi ég fara í kennslustofur og sjá kennara að störfum og boða mitt fagnaðarerindi um lýðræði og virka þátttöku. Við lestur ritgerðar Heiðrúnar fann ég einmitt fínasta eyðublað sem ég get notað í þessum tilgangi næsta skólaár svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Góður dagur.

Skóli framtíðarinnar er opinn og bjartur og nemendur sjálfstæðir og lausnamiðaðir

Loksins barst niðurstaða

Á degi 5 kl 13.15 var hin langþráða sýnataka á Suðurlandsbraut. Urðu þar fagnaðarfundir því þeir sem voru í boðinu alræmda voru boðaðir á svipuðum tíma. Allan daginn var ég að bíða eftir svari en undir kvöld höfðu flestir fengið neikvætt svar. En ekki ég. Verð að viðurkenna að ég sveiflaðist á milli vonar og ótta þótt ég hefði engin einkenni. Hvað ef ég er með covid? Kæmist ekki til vinnu dögum saman, lægi í bælinu og gæti enga björg mér veitt og yrði jafnvel marga mánuði að jafna mig? Ég mátti ekki til þess hugsa. Vá hvað ég ætlaði að gæta mín framvegis varðandi sóttvarnir. Það varð alveg skýrt í mínum huga hvað ég er í raun heppin en líf hvers manns er brothætt og góðir dagar hverfulir. Í raun þarf ótrúlega litið til að allt fari á hvolf í tilverunni: atvinnumissir, ástvinamissir, vinir fjarlægjast, heilsubrestur, skilnaður, eignatjón, ofbeldi… enginn er undir þetta búinn en þetta er blákaldur veruleiki. Því skyldi hvern dag að kveldi lofa, þakka fyrir það sem er til staðar, fylla sjálfan sig og aðra af kærleika og umburðarlyndi, horfa á stóru myndina en festa sig ekki í nöldri, píslarvætti og smámunum. Leita skýringar á vanlíðan eins og höfnun og ástleysi, vanmætti, uppgjöf, pirringi og reiði; takast á við og vinna úr þeim tilfinningum sem skolast yfir á hverjum degi án ásökunar eða örvæntingar. Iðka æðruleysi og sleppa tökum. Með þessi fögru fyrirheit að leiðarljósi bjó ég mig til svefns þetta sunnudagskvöld. Þegar ég lagðist á koddann barst sms: þú ert ekki með covid.

Sóttkví enn

Þriðji dagur í sóttkví. Í gær fórum við Gunna systir, en við erum báðar sóttkvígur, í 7 km gönguferð um Kársnesið sem hressti mig verulega. En annað hvort er ég ímyndunarveik eða covid er að grassera í hausnum á mér í dag. Eitthvað slen í mér og slím í hálsi og svo er ég komin með bumbu af endalausu snarli og kaffiþambi. Tveir Teams vinnufundir í morgun, bréfaskipti og símtöl fram að hádegi, svo hefur verið rólegt hjá mér „í vinnunni“.

Í byrjun apríl er leshringsfundur og efni fundarins er Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, sem lést í spænsku veikinni. Í manifesto leshringsins frá síðustu öld segir að meðlimir verði að vera lesnir í heimsbókmenntum og helstu lókal kanónum svo JT hefur lengi legið óbættur hjá garði.

Fyrstu bindin af Höllu og heiðarbýlinu tvö fékk ég hjá Huldu minni og spændi þau í mig . Óttar Har reddaði mér svo síðustu tveimur bindunum af bókasafni þar sem ég má ekki fara neitt, svo ég lagðist í maraþonlestur í kvínni. Laaaangar náttúrulýsingar sem falla að sálarlífi persónanna taka á þolinmæðina, samtöl eru fá, sögumannsröddin er ágeng en persónur lifandi og eru málpípur augljósar og enginn endir á hörmungunum hjá Höllu. Ljóst er að skáldinu svíður stéttaskiptingin, ömurlegur húsakosturinn, hrikaleg fátæktin og örbirgðin. Ræður Péturs á Kroppi og Aðalsteins læknis eru reiðiþrungnar, þær lýsa grimmum örlögum fólksins sem minnst má sín. Þau sem flytja á heiðarbýlin í leit að frelsi og lausn undan arðráni húsbænda sinn strita þar á hungurmörkum, híma í dimmum og köldum kofa allan veturinn, féð sveltur, kýrin er skorin, börnin deyja úr kirtlaveiki og fólkið dregst upp af skyrbjúg. Síðar hafa auðvitað fleiri snillingar eins og Laxness, Guðrún frá Lundi , Oddný Guðm og Hallgrímur Helgason lýst þessu öllu í svipuðum anda.

En ég er viss um að ef JT hefði haldið áfram með söguna hefði Halla óðarar tekið til við að bjarga Þorsteini frá sjálfum sér og fengið jafn litlar þakkir fyrir og þegar hún bjargaði heiðri pokaprestsins unga með því að gifta sig, ekki þeim næstbesta heldur þeim allraversta. Mig blóðlangar að skrifa lokabindið af Höllu og láta hana verða stönduga og virta í kaupstaðnum, koma börnum sínum til náms og mögulega taka saman við Þorgeir verslunarstjóra.

Nú skín sólin og Binni er að drífa sig aftur á gosstöðvarnar. Hann ætlar samt að fara með mér um leið og ég losna. Hlakka til!

Sóttkví, dagur eitt

Það eru aldeilis dramatískir tímar þessa dagana. Eldgos hófst um síðustu helgi á Reykjanesskaga og í dag var gripið til hertra sóttvarnaraðgerða gegn kórónuveirunni. Öll starfsemi í þjóðfélaginu er meira og minna lömuð og allir nemendur grunn- og framhaldsskóla voru sendir heim í fjarkennslu. Til lánsins eru bara tveir dagar þart til páskafríið hefst.

Ég sjálf fór í örlítið fjölskylduboð sl. sunnudag en þar var lítill frændi sem reyndist kominn með smit tveimur dögum síðar. Allir í boðinu fóru í sóttkví. Gestgjafinn var niðurbrotinn. En svona getur alltaf gerst þegar veira geisar, enginn er alveg óhultur.

Í dag er fyrsti dagur í sóttkví hjá mér. Ég svaf ekki sérlega vel í nótt og dreymdi skýran stressdraum um hús og innrás og ofbeldi. En var vöknuð snemma að vanda. Vann að margvíslegum verkefnum sem nóg er af í mínu starfi og vinnudegi lauk rétt fyrir kl 18 á fundi með skólameisturum og mennta-og menningarmálaráðherra.

Brynjar sem alltaf er æðrulaus og mun aldrei fá covid að eigin sögn fór í dag að gosstöðvunum til að taka ódauðlegar myndir. Ég hef ekki enn farið á svæðið og kemst ekki núna fyrr en eftir sóttkví.

Heyrði aðeins í Gunnu systur sem líka var í boðinu og er þess vegna í sóttkví en hún sat aðalfund Rarik og málaði svefnherbergi í dag. Ef ég veikist ekki ætla ég að taka fataskápinn minn í gegn um helgina, hef ekki alveg staðið mig í að halda reglu sem ég setti mér fyrir rúmu ári: ein ný flík inn, tvær gamlar út. Mikilvægt er að setja sér reglur og enn mikilvægara að fara eftir þeim.

Fleira er á döfinni, ég bíð eftir boði í segulómun á hægra hné. Eymsli þar hafa verið að angra mig síðustu mánuði, og ráð heimilislæknis um að bryðja ibufen dugði skammt. Verst var ég í hnénu á gönguskíðanámskeiðinu sem við Brynjar skelltum okkur á í byrjun þessa mánaðar – eins og hálf þjóðin. Átti námskeiðið að vera fimm skipti en snjóleysi, jarðskjálftar og eldgos bundu enda á glæstan feril þegar tvö skipti voru eftir. Ég fékk ægilega byltu í síðasta tímanum, skall með hnakkann og rassinn í hjarnið og er rétt að jafna mig núna. Þetta tók verulega á festingar framan á hálsinum og enn er ég aum í rófunni þegar ég fer upp stiga.

Planið okkar Brynjars um að fara norður um páskana að heimsækja vini og vandamenn er í uppnámi. Sennilega verðum við að ferðast innanhúss um páskana og reyna að gera gott úr því. Það væsir ekki um okkur í fína húsinu okkar þar sem er nóg að bíta og brenna og alls konar við að vera. Heilu dagana situr Brynjar við tölvuna inni í sínum helli með headphone og vinnur þar og ég flögra um stofu og eldhús með útvarpið í botni, glamra á gítarinn, geng frá þvotti, vökva blóm, ét úr ísskápnum, fæ mér gönguferð, legg kapal í símanum, dorma og les. Nr eitt er að sleppa við veiruna og halda heilsu, andlegri og líkamlegri.

Bless árið 2020!

Ég get ekki annað sagt en bless árið 2020 og takk fyrir allt! Þetta var frábært ár sem hófst á því að ég fékk nýja vinnu, sem skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ég var í góðu starfi hjá KÍ/FF frá 2016 með frábæru samstarfsfólki þar sem góðir hlutir gerast, ég vann í þágu félagsmanna og var með mörg spennandi verkefni. En mig langaði að komast í betri aðstöðu til að láta meira til mín taka. Ég fann í hjarta mínu að í FVA væri þörf fyrir mig og ég gæti gert gagn. Ég þakka auðsýnt traust af öllu hjarta.

Verkefnin streymdu að í nýja starfinu og ég hafði í nógu að snúast á árinu. Ég keyrði á milli Kóp og FVA í mínum hundtrygga Yaris, nema vindhviðurnar á Kjalarnesinu færu yfir 30 m/sek. Margt kunni ég og þekkti úr skólastjórnun og -starfi frá fyrri árum í MK en annað var mér nýtt í byrjun, ss ábyrgð á heimavist, samstarf við sveitarfélög, barnaverndarmál og framkvæmdir vegna rakaskemmda svo dæmi séu tekin. Og eftir aðeins nokkrar vikur í embætti skall á samkomubann í framhaldsskólum sem kunnugt er vegna hættu á útbreiðslu kórónuveiru. Vægast sagt óraunverulegt að slík staða kæmi upp en blákaldur veruleiki engu að síður. Það hvarflaði ekki að mér að allt árið yrði undirlagt af þessu ástandi. Við tók fjarkennsla og síðan fjarvinna, fjarfundir og endalaust samráð og aðlögun að breyttum reglugerðum fram á vor. Stjórnendateyminu skipti ég upp og var sjálf á staðnum í þrjá daga í viku og vann heima hina tvo dagana. Það var ágætt fyrirkomulag að mörgu leyti, margt komst í verk því tíminn sem annars hefði farið í akstur milli Kóp. og FVA nýttist betur og oft var bara notalegt að vinna heima við eldhúsborðið á náttbuxunum með útvarpið á rólegum nótum og malandi kaffivélina innan seilingar.

Á ýmsu gekk sem reyndi á verulega á þolgæði, útsjónarsemi og aðlögunarhæfni míns frábæra starfsfólks. Á haustönn voru gefnar út átta reglugerðir um skólastarf sem þurfti að bregðast við á ýmsa vegu. Brautskráning um vorið var lengi í óvissu en tókst vel á endanum því þá máttu 200 manns koma saman. Ég var mjög spennt yfir athöfninni, 26. maí 2020, fyrstu útskriftinni minni, en það er ólýsanlega gefandi og gaman að fá að útskrifa unga fólkið og leggja því lífsreglur áður en það reynir vængina sína fyrir alvöru. Svo var frábært að geta haft veglegt starfsmannapartý í Golfskálanum á Akranesi áður en allir héldu út í sumarið.

Bjartsýn var ég í byrjun haustannar eins og ég er í eðli mínu, en haustönnin reyndist svipuð, því kórónuveiran var enn á sveimi og öflugri ef eitthvað var. Haustið leið hratt með margs konar áskorunum og ótal verkefnum og allt tókst ótrúlega vel í skólastarfinu enda einstaklega gott fólk að vinna í FVA og nemendur gerðu sitt besta undir þessum erfiðu kringumstæðum. Um jólin voru aðstæður ekki eins góðar fyrir brautskráningu og verið höfðu um vorið, ekki máttu fleiri en 25 vera í sama rými svo útskrifað var í tveimur hópum. Það tókst þó vel að mínu viti og í minni embættistíð hafa samtals 112 nemendur útskrifast frá FVA.

Það sem út úr þessu öllu kom hjá okkur í FVA var m.a. þetta: Allir eru tilbúnir til að leggja hart að sér þegar á reynir. Fundir eru nú styttri og árangursríkari. Mikilvægi góðs samstarfsfólks og vinnufélaga er orðið augljósara. Ýmsar reglur voru endurskoðaðar. Nýtt sjónarhorn á vinnu kom fram, unnið er með frumkvæði og lausnir. Upplýsingaflæði er greiðara. Samstaða myndast þrátt fyrir einangrun og fjarvinnu. Bjartsýni og jákvæðni ríkja þrátt fyrir allt.

Sumarfríið okkar 2020 var með öðru sniði en venjulega. Húsbíllinn mátti bíða heima í hlaði nánast allt sumarið því við skötuhjú höfum nú áhuga á meiri fjallamennsku en hann býður upp á. Tjaldbox var fest á þak jeppans og með það þeystum við vestur á firði í byrjun júlí. Einfalt líf, minni matseld og meira frelsi. Við dvöldum m.a. í Breiðuvík, að mestu alein á tjaldstæðinu, sem var dásamlegt. Við erum enn að læra á þennan nýja sið sem hefur kosti og galla umfram húsbílalífið sem við höfum stundað síðan 2005 og notið þægindanna sem það býður upp á. Það er td ekki auðvelt að finna tappatogarann í skottinu á Landcruiser en hann er á vísum stað í húsbílnum. Uppblásið hústjald prófuðum við einnig í sumar og náðum þannig einni reisu með okkar góða vinafólki á Akureyri. Það var algjör lúxus, beddum stillt upp með náttborði á milli og veislumatur eldaður í öll mál. Yndislegt var t.d. í Ásbyrgi þar sem við vorum í tæpa viku og sólin skein allan tímann. Minna varð um hjólreiðar á þessu ári en 2019. Sjósund prófaði ég í fyrsta sinn í haust og líkaði vel. Kannski ofrausn að kalla það sund, frekar dýfu. Fjallgöngur voru nokkrar á árinu, hæst ber auðvitað gangan á Akrafjall með Þuru systur, á Löðmund með Gunnu systur og Gullu frænku og á Glym með samstarfsfólki í FVA.

Við fetuðum nýjar slóðir í útivistinni á árinu. Í Veiðivötn hef ég aldrei viljað fara en lét til leiðast í sumar. Þar gátum við jeppast út um allt (aldrei þó utan vegar) og fórum m.a.s. í Jökulheima sem var stórkostlegt. Einnig kom ég í Sauðlauksdal í fyrsta sinn, á Landeyjasand og í Álftavatn. Við fórum þó ekki eins oft og víða í sumar eins og jafnan áður, m.a. tóku annir viðkomandi vinnunni tíma frá sumarleyfinu. Ég vann líka um sumarið að grein um Oddnýju skáldkonu frá Hóli sem birtist í Andvara í byrjun desember en ég er þó ekki laus við þá góðu konu úr huganum, það er meira sem ég vil gera með sögu hennar. Brynjar missti vinnuna sem photoguide um leið og dró úr ferðamannastraumi til landsins og vann því mikið heima að markaðssetningu ljósmynda sinna í Ameríku og myndvinnslu og þurfti að halda vel á spöðunum. Ekki fórum við út fyrir landsteinana frekar en aðrir þetta árið en planið hafði verið að fara til Perú snemma á vormánuðum. Það bíður betri tíma. En auðvitað fór ég til Þórshafnar eins og á hverju ári, með Sossu minni og áttum við þar góða daga eins og alltaf. Þar bý ég að frændsemi og vináttu til æviloka.

Í ágúst missteig ég mig í berjamó. Hægri fóturinn fór illa út úr þessu, ég var sárkvalin vikum saman og er ekki enn orðin góð. Myndatökur leiddu ekkert í ljós en kírópraktorinn minn bjargað því sem bjargað varð. Af þessu lærði ég að meta þau lífsgæði að geta gengið og hlaupið að vild og sofið án verkja.

Áfram held ég ásamt stallsystrum í ritnefnd að pota inn efni á vefinn skáld.is sem er gagnagrunnur um íslenskar skáldkonur. Einkum hef ég áhuga á þeim sem hafa fallið í gleymsku eða verið hunsaðar af feðraveldinu. Það á kannski einmitt við um mig sjálfa líka, ég komst nefnilega að því á árinu að öndvegis meistararitgerð mín frá 1996 má ekki vera aðgengileg í Skemmunni heldur verður að halda áfram að safna ryki í hillu í Bókhlöðunni, engum til gagns. Og eftir að hafa fjallað um bókmenntir og skrifað ritdóma sleitulaust í tvo áratugi í dagblöð, tímarit, á vef og fyrir útvarp hef ég lagt pennann til hliðar í bili og ég sé ekki að nokkur einasti maður hafi orðið var við það eða sakni þess að lesa mína vönduðu og ígrunduðu ritdóma eða mitt faglegt mat á stöðu íslenskra bókmennta fyrr og nú. Það er skellur, verð ég að viðurkenna!

Framkvæmdir í húsinu settu svip sinn á árið. Staðið hafði til lengi að skipta um eldhúsinnréttingu sem var farin að láta verulega á sjá eftir ca fjörutíu ára dygga þjónustu. Hún var rifin niður í mars og er skemmst frá því að segja að í ágúst var verkinu enn ekki fyllilega lokið. Ísskápur kom ekki til landsins fyrr en í september svo áfram var hokrað í bráðabirgðaeldhúsi. En í desember var aðeins eftir að setja upp aðfellu fyrir ofan skápa og fá hluta af borðplötunni en annað tilbúið. Útkoman er einstaklega fagurt eldhús með þægilegri aðstöðu í hvívetna til margs konar matargerðar. Mikinn lærdóm hef ég dregið af þessu brölti sem nýtist mér í næstu framkvæmdir sem fara vonandi fljótlega í gang!

Inga mín stofnaði eigið heimili með Gesti sínum í Vesturbænum snemma árs 2020 og lauk meistaranámi sínu. Óttar minn hefur blómstrað sl tvö ár, hann býr í Norðurbænum, fer eigin leiðir og hefur kennt mér svo margt. Það besta í heiminum eru börnin manns! Sandra Dögg Brynjarsdóttir flutti til okkar í lok árs og verður hjá okkur um tíma og það er frábært að geta lagt henni lið. Arnþór bróðir hennar býr í Svíþjóð með sinni fjölskyldu og þar vaxa og dafna yndislegu afastrákarnir okkar, Emil Freyr og Kristján Þór.

Það var leitt að geta ekki haft eins mikil samskipti við vini og ættingja og vanalega. Gestrisinn 2020, stúdentsveisla Jóhönnu Sigrúnar systurdóttur minnar, tónleikar Sæunnar Þorsteinsdóttur frænku minnar í Gljúfrasteini og fimmtugsafmæli Ármanns eru viðburðir sem ég náði þó að taka þátt í. Fyrirhugað niðjamót Ásgarðssystkina féll niður, árlegur frænkuhittingur líka, aðventuboðið með systkinabörnum í föðurætt breyttist í zoom-fund. Leshringur sem ég hef verið í árum saman var að mestu óstarfhæfur. Ástvinir kvöddu á árinu, Unnur frænka mín fór alltof snemma. Skúli móðurbróðir minn, Árni Helgason og Angantýr föðurbróðir minn eru nú komnir í aðrar víddir ásamt Hönnu í Hvammi, þeirri gæðakonu og ömmu Óttars.

En tíminn líður hratt og sjaldan er mikið svigrúm til að pæla mikið í hlutunum. Ég gef mér þó alltaf tíma til að íhuga aðeins og þakka fyrir það sem ég hef. Ég er endalaust þakklát fyrir börnin mín og fjölskylduna, umhyggjusömu systur mínar sem eru dásamlegar og þeirra makar og börn, og mögnuðu móður mína sem er eldhress og hraust á 75. aldursári. Og fyrir Brynjar minn sem er mín stoð og stytta í einu og öllu. Og fyrir tækifærin sem ég fæ í lífinu til að láta gott af mér leiða.

Nýtt ár verður áreiðanlega betra en það liðna. Ég er með fullt af verkefnum og hugmyndum sem ég vil sinna og kvíði engu. Takk og bless!

Í Breiðuvík
Í Veiðivötnum
Gestrisinn 2020
Plássið
Vinkonur í áratugi
Á Brekknaheiðinni
Nýja uppáhaldsplássið mitt!
Í bráðabirgðaeldhúsinu
Afkvæmin
Kristján Þór
Emil Freyr
Liðið!

Um vinnubrögð

Þann 28. júní kom borðplatan inn í nýja eldhúsið. Langþráð og ægilega lekker. Rafvirki brást fljótt við og tengdi helluborðið svo nú er hægt að matbúa í þessu fáránlega flotta eldhúsi. Einnig tengdi hann eldhúsljósið flotta yfir tilvonandi eldhúsborði. Hann þarf að koma amk einu sinni enn til að taka upp tengingu sem hann setti í ledborða undir skápunum, hann notað bara einn spennubreyti þótt þeir væru þrír í pakkningunni… Og ljósin blikka. Hann fær þá nokkra tíma á reikninginn í viðbót… Enn er líka eftir að ganga frá ledborða, aðfellu og lýsingu upp við loftið… Á síðasta augnabliki tókst Brynjari að láta hann snúa innstungunum langs, en ekki þvers eins og hann hafði teiknað fyrir og hefði verið  glatað..  sjá mynd. Borðplötusmiðunum tókst einhvern veginn að reka sig í og rispa nýmálaðan vegginn í eldshúsinu (þeir létu engan vita) þegar þeir settu plötuna á, sjá mynd. Og yfirsmiður sagaði ótrúlega illa út fyrir álprófíl… sjá mynd. Dæs!

Ég ráðlegg öllum sem ætla í framkvæmdir amk eftirfarandi:

  • Vera búinn að gera allt sem hægt er að gera sjálfur áður en iðnaðarmenn koma (rífa, brjóta niður, færa til stóra hluti, breiða yfir, forða því sem þolir ekki hnjask)
  • Fylgjast vel verkinu, helst standa yfir mönnunum
  • Semja um kaup og kjör fyrirfram
  • Biðja iðnaðarmenn að nota ferðina, ekki koma oft í sama verkefnið (jafnvel bjóðast til að skutlast sjálfur eftir því sem vantar, miklu ódýrara)
  • Prútta og tilgreina skýrt að enginn annar kostnaður verði greiddur (akstur, matur, kaffi…)
  • Ef vörur eru keyptar fyrir þig, fáðu þá reikninginn (frumrit) en ekki bara e-a tölu frá iðnaðarmanninum
  • Vera liðlegur en ákveðinn, hringja ef iðnaðarmaður kemur ekki á tilsettum degi (tíma)
  • Kvarta og láta laga ef vinnubrögð eru ekki ásættanleg
  • Ekki borga fyrr en verki er lokið

106285357_2366511070311624_3292370593489274331_n

Meikar sens að snúa innstungunum langs og hafa þær inni í horninu en ekki þvers í miðjunni eins og rafvirkinn ætlaði

106497565_2590310361233287_3494252453212689239_n

Þetta er við uppþvottavélina og blasir alltaf við þegar hún er opnuð

106579888_3101548536600690_3148916945455166006_nÞessi rispa eftir  borðplötumennina er 45 cm löng

Besti vinur mannsins

20. júní, fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust…

Uppþvottavélin kom loksins til lands þrátt fyrir gjaldeyrishöft, brælu og covid. Vænkaðist hagur okkar verulega við það og óhætt að segja að hún sé besti vinur mannsins. Þó þýðir það að sumt er þvegið í vaskinum í þvottahúsinu og hitt fer í vélina og vatnsglas þarf að sækja á baðið. Svo er ég byrjuð að raða í skúffur og skápa í innréttingunni og þá kemur oft upp sú staða að potturinn er í eldhúsinu, hafragrjónin í Inguherbergi og vatnið á baðinu. Og þegar ég sest með grautinn minn og lýsið er skeiðin í skúffu í eldhúsinu. En borðplatan sem allt veltur á er væntanleg 29. júní svo brátt tekur þetta böl nú enda.

Ofninn nýi frá AEG/Ormsson rokkar þvílíkt! Hann verður heitur á örskotsstundu og hitar allt jafnt og vel. Hef bakað pizzur og eina köku í honum og hún lukkaðist stórvel. Mitt landsfræga lasagna lukkaðist sömuleiðis frábærlega. Hér hafa sko verið haldin fámenn en fjörleg matar- og kaffiboð þrátt fyrir frumstæð skilyrði. Ofninum fylgdu leiðbeiningar á 12 tungumálum en engar á ensku. Einn bæklingur var á dönsku en allar stillingar á ofninum eru á ensku. Svo það er bara húsmóðurhjartað sem finnur hvernig er best að gera þetta, ég hef enga þolinmæði í að horfa á skýringarmyndbönd á youtube, það læt ég Binna mínum eftir.

Veggljós í eldhús bíður uppsetningar, loftljós keypti ég af Sæju arkitekt, sem hefur tekið að sér að hanna forstofu og þvottahús í haust… svo ekki erum við af baki dottin.

104825107_578417459529312_5350763945910437944_n Þetta lítur mjög vel út þótt ég segi sjálf frá, sérstaklega þegar límmiðarnir verða teknir af

105035813_1750414355100944_6896248355722524026_n

Sandblástursfilmuna plokkaði ég af með blóði, svita og tárum. Hún hefur verið á síðan 2005 og búin að þjóna sínu hlutverki

105567606_258514242091853_948716604138698284_n

Uppþvottavélin bjargaði málunum

104667985_2623990197851790_8950669417952406348_nSúkkulaðikakan góða úr nýja ofninum

Spegill, spegill

Ég er byrjuð að raða örlítið í skápana, aðallega öllum þeim hundruðum glasa sem mér hafa áskotnast í gegnum árin. Þarf kona að eiga fleiri en 12 glös, mér er spurn? Sex hafa dugað síðustu tvo mánuði. Blómavasar fylla líka eina hillu, eru notaðir kannski fimm sinnum á ári. Hér er verk að vinna við að útrýma.

Nú er beðið með óþreyju eftir að uppþvottavélin komi til landsins. Áætluð lending er í næstu viku, fyrstu viku júní. Ísskápurinn kemur seinna. Góðar fréttir bárust af borðplötu, hún er væntanleg með skipi í lok júní.

Pípari kom loksins og græjaði tengingu fyrir uppþvottavélina og í leiðinni ákvað verkstjóri að færa lagnir og krana í bílskúrnum og ætlar líka að kaupa varmaskipti fyrir neysluvatnið í húsinu.

Sjónvarpið sem var búið að koma sér þægilega fyrir í svefnherberginu hefur verið fært aftur inn í stofu. Ekki nándar nærri eins kósi að sofna fyrir framan það núna eins og var meðan kúrt var undir sæng. Stofan er að verða sæmilega fín, myndir á eftir að hengja upp, svo og ljós og nýjan spegil (sem er risastór…). Hér gerast góðir hlutir hægt.

101171783_670400890359624_8390170328713658368_n

Gengur ekkert

Innrétting er komin á sinn stað og efri skápar líka. Búið er að kaupa spanhelluborð, vask og krana en pípari hefur ekki sést í viku þrátt fyrir gefin heit. Borðplata er fundin en efnið ekki til, kemur til landsins í síðasta lagi í ágúst. Svo bráðabirgðaplata verður sett upp. 95388808_575148566540627_6245927074624700416_n

Hlífðarplastið ennþá á en lítur samt stórkostlega vel út. Og flísarnar sjóðheitar, bókstaflega.

95542072_2494161490896461_8743163777987379200_n (1)

Ljósahönnun Sæju er til fyrirmyndar og mikið fyrir henni haft. Ledborðinn undir efri skápunum gerir gæfumuninn.

95383257_262847718095378_2890675666389303296_n

Uppþvottavél er fjarlægur draumur.

96557808_236157080990949_8043694878858674176_n

Þessi er ekkert nema þolinmæðin og þrautseigjan fyrir utan hvað hann er sætur.

96512604_667046143842508_490779809765392384_n

Eldunaraðstaðan…97989764_2638364096489185_8591482034357010432_n

Ýmislegt góss sem fer upp í skápana á næstu mynd.

95903511_813194015872879_5099569297953390592_n

Og svona í restina: Lampi sem mig langar doldið í …

96672408_188187925603740_4550843022085980160_n