Ég gekk 10 kílómetra í dag ásamt fjölda fólks (750 manns). Það var ganga til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini á vegum Göngum saman. Gengið var frá Árbæjarkirkju á messutíma sem leið lá um Elliðaárdalinn í sæmilegu veðri. Ég þrammaði með Heiðrúnu Kristjáns og vinkonu hennar og það var ekkert gefið eftir, gengið heldur rösklega, vorum klukkutíma og þrjú korter. Þetta var hressandi, svo hressandi að þegar heim kom svaf ég í klukkutíma eftir heitt baðið og sporðrenndi síðan 10 amerískum pönnukökum með sýrópi, einni fyrir hvern kílómetra.