Ýmislegt

ja hérna

Amma á Akureyri

19732250_10209688463550208_4169520249553070341_n

Amma mín á Akureyri, Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti (1917-2017) var einstök kona. Lágvaxin, fíngerð og falleg, léttlynd og glaðvær og hló smitandi hlátri. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og listum og það var alltaf mikið fjör á heimili hennar og afa, ekki síst þegar gripið var í píanóið og harmónikkuna. Heimili þeirra afa og ömmu var fallegt og nýtískulegt, þar var afar gestkvæmt og allir velkomnir.

Lífið var henni mótdrægt að mörgu leyti. Dóttir hennar, Hildigunnur, lést langt um aldur fram frá þremur litlum börnum, yngsti sonurinn og augasteinn allra, Einar Kristján, lést 46 ára. Óttar, faðir minn, lést 2013 og en þá var amma orðin fótsár af ævinnar eyðimörk.

Þegar amma fór á elliheimili opnaði hún dyr að heimili sínu og bað afkomendur að taka það af hennar góssi og nota sem þeim líkaði því hún þyrfti það ekki lengur. Það lýsir vel höfðingsskap hennar, nýtni og nægjusemi.

Amma var friðarsinni og jafnaðarmaður, örlát og hlý og tróð engum um tær. Vandvirk og vönd að virðingu sinni, smekkleg og kurteis. Mikið má af henni læra um lífsviðhorf, fallega framkomu, húmor og styrk í mótlæti. Þau pabbi voru bestu vinir enda lík um svo margt. Elsku amma er hvíldinni fegin, hún er afkomendum sínum falleg og góð fyrirmynd; minning hennar mun lifa lengi í hjörtum þeirra.

Brussast í Brussel

belgian-waffles

Nokkrar staðreyndir frá Arndísi vinkonu minni:

Evrópusambandið er með 40 þúsund manns við störf í borginni. Hús sambandsins er 1 milljón fermetrar.

Nató er með 4 þúsund manns í vinnu.

Diplómatar eru 5.400 sem er heimsmet í einni borg.

Erlendir blaðamenn búsettir í borginni eru 1.000.

27% borgarbúa eru útlendingar.

Íbúafjöldi í borginni er 1,1 milljón manna.

Alls eru töluð 104 tungumál á staðnum.

800 tegundir af bjór eru seldar á börum bæjarins.

Um 220 þúsund tonn af súkkulaði eru framleidd á ári í Belgíu eða um 22 kíló á hvern heimamann.

Galleries St. Hubert er elsta verslunargata í bogagöngum í Evrópu, frá 1847

Dýpsta sundlaug heims er í Brussel, 35 metra djúp.

Þar er safn um sögu og þróun frönsku kartöflunnar

Stebbi

Þetta gípandi og hressa lag tileinka ég minningu Stefáns Más Guðmundssonar.

Stebbi var svili minn um langa hríð og síðan góður vinur í áratugi. Alltaf var gaman að hitta hann enda afar heillandi persónuleiki. Síðast sá ég hann í Verkmenntaskóla Austurlands í október á þönum að sinna sínu starfi, geislandi af þeirri orku, góðvild, húmor og gleði sem jafnan einkenndu hann. Hann var hugmyndaríkur, drífandi, jákvæður og traustur mannvinur sem gerið lífið skemmtilegra. Stebba er saknað af öllum sem hann þekktu, heimurinn er lítlausari án hans og vonin minni um að mannkyni verði viðbjargandi.

 

 

SKAM-æðið

Nú geisar SKAM-æði á Íslandi. Allir hafa séð þessa norsku sjónvarpsþætti, allir elska þá, ungir sem aldnir. Yfir sjö þúsund manns eru í íslensku SKAM-aðdáendagrúppunni á facebook. Þrjár seríur eru í sarpinum á Rúv og sú fjórða á leiðinni. Og ef maður byrjar að horfa, er engin leið að hætta.

SKAM segir frá nokkrum unglingum í Hartvig Nissen-menntaskólanum í Ósló. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum eru hressar stelpur að unglingast, hamast í símanum og tölvunni, verða ástfangnar, djamma og sofa hjá. Þær eru líka að reyna að þóknast, fá viðurkenningu, vera mjóar og vinsælar en ekki druslur. Í þriðju seríu er kastljósið meira á strákunum, sem eru nokkurn veginn í sama gírnum . Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi eða frumlega, hvað er það við þetta efni sem verður til þess að það fer eins og eldur í sinu um alla heimsbyggðina?

Það er markaðssetningin og máttur samfélagsmiðlanna sem skapa þessar gríðarlegu vinsældir. Áður en þættirnir fóru í loftið voru þeir kynntir á heimasíðu þáttanna og öllum samfélagsmiðlum og markhópurinn var aðallega ungar stúlkur. Aðalpersónur þáttanna eru með instagram og facebook-prófíl sem þúsundir fylgja þar sem má sjá efni úr skálduðu lífi þeirra á degi hverjum áður en það birtist svo í heild í sjónvarpinu/netinu. Allt gerist hægt í þáttunum sem eru í dogmastíl, það eru langar þagnir, svipbrigði sem fá svigrúm og slómó-senur sem skapa stemninguna og tilfinningu fyrir rauntíma, raunsæi og trúverðugleika. Átta manna harðsnúið lið sér svo um að halda samfélagsmiðlunum á fullu stími allan sólarhringinn. Samt er þetta ódýrasta þáttagerð sem NRK hefur nokkurn tímann ráðist í.

Handritshöfundurinn, Julie Andem, lagði á sig mikla rannsóknarvinnu áður en hún skrifaði þættina. Hún las ótal skýrslur um hag og líðan unglinga og tók viðtöl við fjöldann allan af norskum skólakrökkum til að komast sem næst veruleika þeirra. Handritið er líka ansi gott,  bæði sannfærandi, dramatískt og fyndið en líka sárt. Margar persónanna bera harm í hjarta og þær eru einar á báti, eiginlega munaðarlausar eins og t.d. bæði Noora og William. Þarna er allt þetta vandræðalega frá unglingsárunum sem allir kannast við, eins og bólur, blankheit og standpína. Og Skömmin er alls staðar, í hremmingum Nooru, í sjálfsmynd Vildu, að Eva stakk undan Ingrid og er alltaf blindfull í partýum, í kynhneigð Isaks og fortíð Williams. Múslimastúlkan Sana hins vegar skammast sín ekki fyrir neitt og Chris, sú þybbna, er algjör nagli með sjálfstraustið í lagi. Eskild, meðleigjandi Nooru og seinna Isaks, er afar vel gerð persóna, bæði fyndinn og klár, og svo er hjúkrunarfræðingurinn í skólanum frábær karakter.

Skömmin setur mark sitt á líf allra, líka kynlífið enda vita allir að norskir strákar sleikja ekki píkur þótt þeir vilji hins vegar ólmir fá tott. Í þáttunum er fjallað um mikilvæg mál á mannlegum nótum, svo sem staðalmyndir, fordóma, lystarstol, femínisma og hrelliklám.

Það er mikill kostur að karakterarnir eru venjulegir í útliti. Sumir eru laglegir en ekki eins og í mörgum amerískum sjónvarpsþáttum þar sem áherslan er á hár, förðun og merkjaföt og allir líta eins út. Og það er enginn hamingjusamur hollywood-endir á hlutunum í Skam. Heyrst hefur að í bígerð sé að gera ameríska útgáfu af þáttunum, sem er algjör katastrófa þar sem Skam er einmitt andsvar við sápuóperum Kananna þar sem fólk er matað á glysi.

Þýðing Matthíasar Kristiansen á fyrstu tveimur þáttaröðunum er ansi klaufaleg og gamaldags en Erla E. Völudóttir þýðir þriðju seríuna lipurlega. Ennþá er hægt að sjá þættina á rúv.is en að hika er sama og að tapa því þeir verða þar ekki til eilífðar.

Leyfðu ljúfum markaðsöflum að heilla þig með Skömm, taktu prófið HÉR; hvaða SKAM-persóna ert þú?

Prag, borgin fagra

25695288912_45634b5ea8_o

Nákvæmlega í dag er eitt ár síðan ég pakkaði fataleppum og bókum í tösku, yfirgaf fjölskyldu og vini á Íslandi og fór til hálfs árs námsdvalar við einn elsta háskóla í Evrópu, Univerzita Karlova í Prag. Fyrstu dagana var snjór yfir öllu og kuldinn óskaplegur. Það vandist fljótt og ég dvaldi í borginni í hálft ár og naut hverrar mínútu, enda á Kafkaslóðum. Prag er svo falleg og menningin stórbrotin, saga landsins löng og skrautleg, tungumálið og bókmenntirnar maður minn! Veðrið er gott, verðlag hagstætt, fólkið er yndislegt, samgöngur frábærar og svo mætti lengi telja. Aldrei langaði mig aftur heim. Ég sakna enn hellulagðra strætanna, ævagamalla húsanna, hinna margvíslegu brúa yfir Karlsána, kaffihúsanna, bókabúðanna, háskólans, safnahúsanna, sporvagnanna… Þarna kynntist ég frábæru fólki, bæði samnemendum frá Erasmus og innfæddum, og fékk til mín góða gesti. Ég kvaddi þessa fögru borg með söknuði á sjóðheitum sumardegi og er staðráðin í að heimsækja hana aftur. Við Íslendingar getum nefnilega margt lært af Tékkum, t.d. nægjusemi, núvitund, skipulag almenningssamganga og ölgerð.

Hjálagt er myndaalbúmið:

Albúm frá Prag

Minning að heiman. Fótbolti í Þistilfirði fyrir 70 árum

460-bobby-charlton-with-some-young-fans-in-the-backyard-of-his-home-on-beatrice-street-ashington-211079184-4344964

Bobby Charlton og aðdáendur  (ljósm. Iyi Orta Gol Getirir)

Hátíðarræða Sigmars Ó. Maríussonar

á vetrarfagnaði Átthagafélags Þórshafnar, 22. október 2016

„Ég ætla að segja frá harðsnúnu fótboltaliði í Þistilfirði. Það einkenndist af miklum áhuga og var íþróttin stunduð í frímínútum og eftir skóla á daginn. Nú heyrist mikið um þetta í fjölmiðlum og miklar peningafúlgur í sambandi við þennan merkilega leik. Hjá okkur var þessu öfugt farið, það var ekki króna í spilinu og liðum við nokkuð af þeim sökum.

Við fengum gamlan bolta hjá Ungmennafélaginu sem hafði munað sinn fífil fegri og var hann oftast sprunginn, en þá þurfti taka úr honum blöðruna og líma á hana bætur. Aðalviðgerðameistarinn var Viggi á Álandi, hann var snemma laginn í höndunum.

Nú er að nefna völlinn sjálfan. Það var tún Eggerts í Dal en þar var skólinn um þessar mundir, en þetta var farskóli í þá daga eins og margir vita sem eldri eru. Mörkin voru tvær og tvær hrossataðshrúgur og stærð vallar ekki í samræmi við alþjóðareglur, sem sagt engin stöng og engin þverslá. Þetta var frjálslegur og skemmtilegur leikur og stundum var bara notað eitt mark og gekk þá allt hraðara fyrir sig – og mætti vel athuga það í dag. Ég var 9 ára þennan vetur og ekki byrjaður í skóla en fékk að vera með, en skólaskylda þá var frá 10 ára aldri. Vigfús á Syðra-Álandi var aðaldriffjöðrin – hann prjónaði á okkur svokallaðar hárkollur, það var 2-3 cm breitt hand um höfuðið og kross yfir og var þetta alveg ómissandi í boltanum en geymt í vasanum í kennslustundum. Þeir yngri voru enn á stuttbuxnaskeiðinu en þeir sem komnir voru undir fermingu komnir í síðbuxur sem var mikið upphefð. Allir voru á gúmmískóm eða stígvélum í boltanum.

Leikmenn voru: Holli á Fjallaseli, hann var léttur á sér og hljóp hratt. Kobbi á Brekknakoti sem var hávær og skemmtilegur. Bragi í Dal, flinkur leikmaður. Hjalti í Flögu, harðfylginn. Bói á Svalbarði (Vilhjálmur Þorláksson) hljóp hægt en var ómissandi í marki. Maddi í Hvammi, langur og mjór og hraðskreiður. Allir voru dómarar og hrópaði hver upp í annan: Mál – mál! Þá var ekki sagt mark, heldur mál.

Af öllu þessu hnjaski hnignaði aumingja boltanum mjög og þar kom að ekki var hægt að líma blöðruna lengur. Var þá tekið til þess ráðs að troða boltann upp með heyi, og var hann ekki eins skemmtilegur eftir það. Þar kom svo að lokum að yfirleðrið var komið í hengla og fór þá að dofna yfir íþróttinni. Þá datt einhverjum í hug notast mætti við selshaus sem lá í reiðuleysi. Reyndist hann frekar illa, fékk fljótt glóðarauga og sprungna vör og ekki notalegt að skalla hann, enda flaug hann ekki hátt, eðli sínu samkvæmt.

Eftir þetta var farið í feluleik, sem alltaf var jafnspennandi, sérstaklega eftir að rökkva tók, og fleiri leiki, svo sem Fallin spýta og Yfir.

Sumir þessara góðu vina sem ég nefndi eru nú farnir á vit feðra sinna og ekki er mér kunnugt um að þeir hafi náð nokkrum frama í boltaíþróttinni. En vel og fallega var farið af stað.“

 


 

„Flugmarkálkurinn okkar, Aðalbjörn Arngrímsson, sem hjálpaði almættinu að gera þennan ágæta Sauðanesflugvöll sem reyndist vel, var fórnfús í starfi og faðir flugvallarins og frumkvöðull í að fá rafmagn í byggðarlagið og seinna sjónvarp og fleira mætti nefna. Hann var stundum í gamla daga kallaður Ljósapabbi, sem er heiðursnafn.

Ekki held ég að launin hafi alltaf verið há þegar hann var í þessum útréttingum fyrir sitt byggðarlag og starf hans fyrir flugfélagið meira og minna sjálfboðavinna.

Kunnugleg var röddin þegar Douglasinn var að koma frá Akureyri og farinn að nálgast. Þá greip hann míkrófóninn, búinn að senda einhvern ungan mann út að vindmæla: „Faxi – Alfreð, Faxi – Alfreð, Þórshöfn Radíó kallar, Faxi – Alfreð, Faxi – Alfreð, Þórshöfn Radíó.“

Áberandi var að þessi velunnari okkar vildi að allir ferðuðust á sem hagkvæmastan máta. Og því var það eitt sinn að hann sendi frá sér fulla vél til Akureyrar sem oftar. Eftir hæfilegan tíma er hringt til hans og ókunnugleg karlmannsrödd segir: „Það var að koma frá þér vél, Aðalbjörn, og ein miðaldra frú, Ólöf Jóhannsdóttir (Lóa Dodda) er á barnafargjaldi. Hvernig víkur því við?“ Ekki stóð á svarinu: „Hún er svo mögur, vesalingurinn.“

Listakonan í fjörunni

screen-shot-2016-12-18-at-14-33-29

ÚTÞRÁ er höggmynd og útilistaverk úr bronsi Elísabetu Geirmundsdóttur (1915-1959). Í gær var verkið afhjúpað við tjörnina í Innbænum, gegnt Minjasafninu á Akureyri. Verkið er eftirgerð og stækkun af Útþrá sem varðveitt er á Minjasafninu en afkomendur Elísabetar færðu safninu listaverksafn Elísabetar að gjöf á hundrað ára afmæli listakonunnar.

Elísabet var fædd í Geirshúsi, Aðalstræti 36 á Akureyri, 16. febrúar 1915, og þar í fjörunni bjó hún og starfaði. Ung giftist hún Ágústi Ásgrímssyni, og áttu þau þrjú börn.  Saman reistu þau húsið í Aðalstræti 70 eftir teikningu hennar. Garðurinn umhverfis er prýddur ýmsum myndverkum eftir hana. Milli húsverka, barneigna og margs konar anna sinnti hún list sinni af  ótrúlegum krafti og hugmyndaauðgi. Það er ein og hana hafi grunað að hún hefði skamman tíma, hún lést 9. apríl 1959, aðeins 44 ára að aldri.

Elísabet var hún ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni. Hún gerði listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur, sumum forgengilegum eins og snjó, öðrum eilífum eins og orðum og höggmyndum. Kunnust varð hún fyrir myndverk sín en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður.

Um Elísabetu og verk hennar er bókin Listakonan í fjörunni sem kom út 1989 undir ritstjórn Eddu Eiríksdóttur. Árið 2015 voru 100 ár liðin frá fæðingu Elísabetar. Á þessum tímamótum færðu Ásgrímur og Iðunn Ágústsbörn Minjasafninu á Akureyri listaverkasafn móður sinnar til eignar og varðveislu. Í tilefni af þessari góðu gjöf hefur Minjasafnið útbúið rými á efstu hæð safnsins svo sýna megi hluta af verkum Elísabetar. Á afmælisárinu var einnig haldin vegleg yfirlitssýning á verkum Listakonunnar í Fjörunni í Listasafninu á Akureyri.

Það er barnabarn og nafna listakonunnar, Elísabet Ásgrímsdóttir, sem hefur borið hitann og þungann af undirbúningi að eftirgerðinni af Útþrá. Verkið mun standa á grasflötinni við Minjasafnstjörnina, rétt hjá heimili listakonunnar. Þetta er sannarlega fallegur og tímabær virðingarvottur við íslenska listakonu.  Án aðkomu niðja Elísabetar lægju listaverk hennar undir skemmdum eða yrðu gleymskunni að bráð. Það er ekki vanþörf á að halda framlagi íslenskra listakvenna á lofti.

15577753_610013529190251_1803806351_n

Frumgerðin af Útþrá eftir Elísabetu Geirmundsdóttur (ljósm. Ásgrímur Ágústsson)

Birt í Kvennablaðinu, 18. des. 2016