Ýmislegt

ja hérna

Viðtal við meistarann…

Fólk-verður-að-hafa-farveg-fyrir-faglegan-metnað-sinn_1_Steinunn-Inga-ÓttarsdóttirRætt við nýjan skólameistara FVA í Skessuhorni

Steinunn Inga Óttarsdóttir er nýr skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún var skipuð í embætti snemma desembermánaðar og hóf störf 2. janúar síðastliðinn. Skólastarf hefur henni lengi verið hugleikið og kannski má segja að skólastjórnun sé henni í blóð borin. Faðir hennar var kennari og skólastjóri, móðir hennar og systir einnig. Skessuhorn hitti Steinunni að máli á skrifstofu skólameistara síðastliðinn fimmtudag og fékk að kynnast henni örlítið.

Sjá viðtal við Steinunni Ingu í Skessuhorni sem kom út í morgun, 16. janúar…

Angantýr Einarsson

80477795_10157977709779421_7326193108566147072_n

Ásgrímur frændi skrifaði svo fallega á fb. um Angantý Einarsson, föður sinn og föðurbróður minn (f. 1938), sem lést á aðfangadag 2019:

„Nú er pabbi látinn eftir löng og erfið veikindi. Við vorum nánir og kærir vinir og ég er innilega þakklátur fyrir að hafa átt hann að. Hann veitti mér rausnarlega af tíma sínum; kom mér á sporið í tónlistinni, vakti mig til vitundar um fegurð og blæbrigði tungumálsins og stuðlaði að áhuga mínum á stjórnmálum, skák, veiðiskap og fjallgöngum svo að eitthvað sé nefnt. Hann nennti endalaust að hlusta á mig, allt frá því að ég man fyrst eftir mér, hældi mér óspart fyrir það sem ég gerði vel – án þess þó (vonandi!) að það leiddi til alvarlegs ofmats – og hafði einstakt lag á að leiðbeina mér á uppbyggilegan hátt um það sem betur mátti fara. Hann hafði alla tíð sterka réttlætiskennd og var eins og áttaviti í vinstripólitík og umhverfismálum. En hann var fyrst og fremst kærleiksríkur og skemmtilegur pabbi.

Hér á eftir fer samantekt um æviferil hans (væntanleg í blöðum á útfarardaginn), fyrir þá sem hafa þrek og úthald til að lesa rúmlega 400 orð í viðbót!

Angantýr Einarsson fæddist á Hermundarfelli í Þistilfirði 28. apríl 1938. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. desember 2019. Útför hans verður gerð frá Akureyrarkirkju 6. janúar, kl. 10.30.

Foreldrar hans voru Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti í Þistilfirði, f. 16.8. 1917, d. 5.7. 2017, og Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli, f. 26.10. 1911, d. 6.7. 1996. Systkini Angantýs eru Óttar, f. 3.10. 1940, d. 7.2. 2013, Bergþóra, f. 21.3. 1944, Hildigunnur, f. 17.6. 1947, d. 27.5. 1987, og Einar Kristján, f. 12.11. 1956, d. 8.5. 2002. Eftirlifandi eiginkona Angantýs er Auður Ásgrímsdóttir, f. 15. janúar 1946. Foreldrar hennar voru Ásgrímur Hólm Kristjánsson frá Skoruvík á Langanesi, f. 25.3. 1913, d. 6.7. 1987, og Helga Margrét Haraldsdóttir, f. á Skálum 26.6. 1926, d. 28.6. 2002. Angantýr og Auður eignuðust fjögur börn. 1) Halla, f. 8.11. 1964. Börn hennar eru Einar Höllu Guðmundsson, Þórhalla Ásgeirsdóttir og Angantýr Ómar Ásgeirsson. 2) Hlynur, f. 7.6. 1967, í sambúð með ÖlmuDís Kristinsdóttur. Börn hans eru Auður Tinna, Íris Ösp, Elmar Blær og Margrét Bylgja. AlmaDís á tvö börn, Sindra Þór og Diljá Nönnu. 3) Ásgrímur, f. 3.8. 1972, unnusta Harpa Heimisdóttir. Dætur hans eru Auður og Björk. 4) Einar, f. 21.9. 1974, d. 29.5. 1979. Barnabarnabörn Angantýs og Auðar eru níu talsins.

Angantýr ólst upp á Hermundarfelli til átta ára aldurs en flutti þá til Akureyrar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, var við nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1958‒61, tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1962 og stundaði stærðfræðinám við sama skóla 1971‒72. Angantýr var kennari á Þórshöfn 1960‒61, 1962‒63 og 1964‒67, skólastjóri í Skúlagarði í Kelduneshreppi 1963‒64, og við Grunnskólann á Raufarhöfn 1968‒78, kennari þar 1979‒94, skólastjóri við Litlu-Laugaskóla 1994‒99, kennari við Grunnskólann á Þórshöfn 1999‒2001 og í afleysingum þar í nokkur ár eftir það. Á löngum starfsferli kenndi hann raungreinar, íslensku, erlend mál, samfélagsgreinar, íþróttir og tónmennt og var nær jafnvígur á allt. Hann var ritari fjárveitinganefndar Alþingis 1958‒59, erindreki hjá Alþýðusambandi Norðurlands 1967‒68 og tölvuforritari hjá ACO 1978‒79. Auk þess stundaði hann margvísleg störf á sumrin, m.a. handfæraveiðar, grenjavinnslu og verkstjórn erlendra sjálfboðaliða. Angantýr sat í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps 1970‒78 og 1990‒94 og var þá oddviti og formaður stjórnar Fiskiðju Raufarhafnar, sat í sýslunefnd 1966‒70, gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið og sinnti fjölmörgum öðrum félagsstörfum. Angantýr lék á píanó, gítar og harmonikku og hafði mikinn áhuga á útivist og veiðiskap, skák, bridge, ættfræði, íslensku máli og bókmenntum. Hann lærði líka esperantó og spænsku á fullorðinsárum. Þá er ónefndur skógurinn sem hann ræktaði á fæðingarstað sínum, Hermundarfelli.“

Blessuð sé minning Agga föðurbróður míns. Hann og pabbi voru bestu vinir og milli systkinanna allra var einstakt kærleikssamband.

Mynd af mér

steinunn.inga.ottarsdottir

Þegar Brynjar, ljósmyndarinn minn frábæri, tók þessa fallegu mynd af mér fyrir nokkrum árum hafði ég ekki setið fyrir áður. Hló stanslaust taugaveikluðum hlátri, vandræðalega feimin og vissi ekkert hvernig ég átti að vera. Gat hvorki setið kyrr né verið eðlileg.  Ég var ekki vön að vera uppstillt á háum stól í sviðsljósi og fannst þetta tilstand svo ýkt. Honum tókst með stakri þolinmæði að ná mér niður, ég slakaði á og treysti honum. Þannig fangaði hann svip sem mér finnst ég þekkja. Photoshop sá um rest.

Myndin var notuð m.a. í viðtali í Skólavörðunni, 2016.

 

Mannlýsing

Ég þekkti Hallgrím vel, og við vorum alltaf kunningjar, og hafði ég alltaf gaman að sjá hann og tala við hann. – Hann var að mörgu leyti merkilegur maður og öðruvísi en fólk er flest. Heldur var hann lítill vexti og grannholda, en svaraði sér heldur vel. Dálítið var hann tileygður og blindur á öðru auga frá æsku, hafði lítinn en fallegan hnakka, allmjög var hann útskeifur, en hnén mjög náin.

Úr Heimdraga II, 1965, bls. 71.

Kalt bað

Water surfaceKona þarf að setja sér markmið og ná þeim. Í sumar lét ég spana mig í að fara ofan í kaldan pott í sundlauginni á Þórshöfn (allt Gunnu systur að kenna sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna). Ég hélt ég gæti þetta ekki. Og það var óþægilegt og skrýtið en ekki eins slæmt og ég hélt. Svo ég setti mér markmið, að venjast því að fara í kalt bað, halda þetta út, láta hugann ekki hræða mig. Svo ég fór aftur og aftur, stutt og enn styttra, aftur og aftur. Ég er ekki farin að stunda klakaböð eða fara í sjóinn en ég komst að því að ég þoli vel miklu kaldara vatn en ég hélt. Nú læt ég renna úr garðslöngunni í pottinn á pallinum og dýfi mér þrisvar ofan í, upp að höku með hendurnar uppúr, tel upp að 20 minnst. Og það er sannarlega hressandi. Bæði að finna kalt vatnið fríska mann upp og ekki síður hitt að hafa sigrast á óttanum og náð markmiðinu. Takk Gunna!

 

Skil

60220473_287084208864318_8614296174783889408_nÞann 4. maí sl. skilaði ég MA-ritgerð um Oddnýju Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi (1908-1985). Ritgerðin var afrakstur margra mánaða vinnu sem var bæði skemmtileg og gefandi. Ég elska að grúska, finna samhengi, kynnast fólki úr fortíðinni og miðla sögu þeirra til nútímans.  Að kvöldi 11. maí skilaði ég svo tveimur útvarpsþáttum um skáldkonuna til yfirferðar hjá mesta útvarpsþáttagerðarsnillingi á Íslandi. Kannski þarf ég að laga eitthvað, kannski er þetta bara gott, kemur í ljós í vikunni. Ég er allavega fegin, sátt og glöð og ætla ekki að finna mér aðrar áskoranir næstu mánuði. Bara læra að gutla á gítarinn minn og hjóla sem lengst og oftast.

 

 

 

 

Frábært ferðalag

Ég hef víða farið um landið á frækna húsbílnum okkar stjörnuparsins og jafnan haldið ferðadagbók sem ég birti hér á vefnum. Í breytingum á útliti vefsins fyrir löngu týndi ég þeim og fann þær aldrei aftur. Því var ég glöð að rekast á þessa pdf ferðasögu í möppu í tölvunni í gær og rifja upp dásamlega daga meðan frostið bítur kinn.

Húsbílareisan 2012

 

cropped-mg_2924.jpg

Nýtt orð

Heyrði nýtt orð í dag, sem reyndar hefur verið til frá 1631. Plútókrasía. Þar sem auður ræður. 

Skilgreint sem svo:

: government by the richest people

: a country that is ruled by the richest people

: a group of very rich people who have a lot of power

sbr. merriam-webster