Úr gömlu sendibréfi

Svo ritar Geir biskup góði:

„Lambastöðum, 1. apríl 1803

Veturinn byrjaði hér strax með Mikkaelsmessu með norðanveðri, frosti og snjó, svo heiðar urðu ófærar, og mörgum, sem á ferð voru, lá við stórslysum. Margir áttu þá enn hey úti, sem allt varð að litlum eða engum notum…

Svo var stór grasbrestur á Ströndum í sumar eð var, að tún urðu víða ekki ljáborin, og margir flúðu með gripi sína inn að Ísafjarðardjúpi og fengu þar leyfi að slá fyrir þeim, það sem aðrir ekki vildu nota, svo þessi sveit sýndist framar öðrum stödd í dauðans kverkum. Þar skal annars í Hælavík, skammt frá Horni, vera enn nú einu sinni strandað skip frá Skagaströnd, hlaðið með kjöt, tólg og ull. Menn meina menn komizt hafi lífs á land, en drukknað í forvaða einum, sem þaðan er yfir að fara til mannabyggða. Þingeyjar- og Norður-Múlasýsla eru og í mestu þrenging, í þeirri fyrri, einkum á Langanesi, Sléttu og allt að Reykjaheiði, skal fólk vera farið að ganga frá heimilum sínum og sumir að eta hordautt hrossakjöt, svo allir segja þar mannfelli óumflýjanlegan…“

(Íslensk sendibréf 1966:33. Geir biskup góði í vinarbréfum, 1790-1823)

Færðu inn athugasemd