Fávís kona

Nú er ég bara fávís kona, opinber starfsmaður og almennur launþegi. Ég vinn á skrifstofutíma alla daga sem ekki eru rauðir á dagatalinu, ég greiði mín launatengdu gjöld og legg mitt af mörkum til samfélagsins. Ég er svo gamaldags að ég legg áherslu á að standa í skilum, þrái að greiða niður skuldir mínar og langar að ávaxta mitt pund til að geta ornað mér við það í ellinni (mér sýnist eldri borgarar ekkert ofhaldnir). Svo heyri ég í útvarpinu að ríkið hafi skyndilega hlaupið til og keypt aftur mjólkurkúna sem sem var göbbuð út úr henni á spottprís í nafni einkavæðingarinnar og síðan blóðmjólkuð og útpískuð, á uppsprengdu verði. Mér skildist þegar var verið að gera kjarasamninga við almenning í landinu að engir peningar væru til. Ég bara sé ekki hvernig þessi „efnahagsaðgerð“ á að geta bætt hag minn og almennings í landinu (lækkað matarverðið, bensínið, heita vatnið…). Munu launin mín nú halda verðgildi sínu og hætta lánin að þenjast út? Það hélt ég að væri brýnast um þessar mundir. Hvað gerist ef banki fer á hausinn? Hvað gerist ef heimili eru í kröggum og fara á hausinn ? Kemur einhver og bjargar þeim? Eins og sjá má hef ég ekkert sérstaklega góða innsýn í efnahagsmál.

1 athugasemd

  1. Ég er svo heppinn að vera ennþá ungur og reiður og sé þetta allt í blóðrauðum lit. Það er þó ljós punktur í þessu. Dauði frjálshyggjunnar mun taka færri með sér en hefði getað gerst ef stuttbuxnadrengjunum hefði tekist að draga allar tennurnar úr ríkisvaldinu fyrr. En hvar er Hannes Hólmsteinn? (Mér er sama um Hannes Smárason)

Færðu inn athugasemd