Veðrið var svo gott á laugardaginn að við Brynjar ákváðum að fara í enn eitt ferðalag á húsbílnum (japönsk jen og svissneskir frankar). Við ákvaðum að fara stutt, ókum upp í Mosfellssveit og þaðan í Móskarðshnjúka, líparítfjöll austan við Esjuna, vinsæl gönguleið og fjallganga. Við gengum upp bratta hnjúkana í sól og blíðu (ca 800 mys), sveitt og móð en afskaplega ánægð með okkur. Enginn var þarna á ferli, náttúrufegurð mikil og útsýni gott auk yndislegrar kyrrðarinnar. Í fjallshlíðunum var krökkt af berjum og rjúpur flögruðu um í hópum. Um kvöldið voru grænmetisbuff hituð á pönnu og saffranhrísgrjón soðin og matnum var skolað niður með einstaklega góðu rauðvíni, Glen Carlou 2005 Tortoise Hill Red. Í myrkrinu blikuðu stjörnur og norðurljós en ljóssúlan í Viðey reis þráðbeint upp í loftið og minnti okkur á mikilvægi ástar og friðar í heiminum.

Var kjötið búið? En glæsileg mynd engu að síður.
Grænmetisbuffin eru í takt við heilsuþema ferðarinnar. Rauðvínið líka…