Ferðalög

Aðallega fjallabílaferðir

„Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum…“

Ferðasögur eru ævaforn og vinsæl bókmenntagrein, eldri en skáldsagan enda stundum nefnd formóðir bæði hennar og sjálfsævisögunnar sem bókmenntaforms.

Upphaf ferðasagna á Íslandi eins og þær eru jafnan skilgreindar má tímasetja á seinni hluta 12. aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og ferðabók Gizurar Hallssonar en hún hefur því miður týnst. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá 15. og 16. öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsalafara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar um ferðalög sín. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um amk fimm texta til viðbótar sem nefndir eru í öðrum heimildum en hafa glatast. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst síðan í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga og halda nafni þeirra á lofti. Á nítjándu öld er fjöldi ferðasagna orðinn gríðarlegur og hefur vaxið ört síðan. Ekki er mér kunnugt um ferðasögu eftir konu fyrir miðja nítjándu öld (sjá nánar í MA-ritgerð um íslenskar ferðasögur hér).

EIns og gefur að skilja voru það einkum karlar sem skrifuðu ferðasögur í gegnum aldirnar, þ.e. karlar sem höfðu fjárráð og ferða- og athafnafrelsi öndvert við konur.

En það eru til ferðasögur eftir konur, fjölbreyttar að gerð og efni en eiga það margar sameiginlegt að höfundur brýst undan hefðbundnu kynhlutverki samtíma síns. Þá er þess að vænta að konur sem stíga þetta skref í lífinu hafi annað sjónarhorn á hlutina en ríkir karlar en þó er ekki auðvelt að komast undan forréttindum sínum eins og glöggt má sjá í tilviki Idu Pfeiffer sem kom til Íslands sumarið 1845 og ritaði ferðasögu þar um. Íslandsferð Idu Pfeiffer 1845 er brot úr stærra verki um ferðalög Idu um Norðurlönd og hefur nú loksins verið þýdd og útgefin hjá bókaforlaginu Uglu. Guðmundur J. Guðmundsson þýddi og ritaði fróðlegan inngang. 

Ida (1797-1858) var frá Austurríki, kunnur landkönnuður og ferðasagnahöfundur og ein víðförlasta kona sinnar samtíðar. Hún lagðist í ferðalög eftir að hún varð ekkja og átti tvo uppkomna syni. Hún fór í tvær heimsreisur sem stóðu árum saman og fór m.a. til Asíu, Ameríku og Afríku. Fyrsta ferðabók hennar varð metsölubók en höfundar var ekki getið eins og æði oft var raunin þegar um konu var að ræða (10). Alls skrifaði hún fimm ferðabækur og hagnaðinn af bóksölunni notaði hún til að fjármagna reisur sínar, m.a. ferðina til Íslands. 

Ida var forvitin og áhugasöm um þjóðhætti í þeim löndum sem hún heimsótti og lýsti öllu skilmerkilega frá sínum bæjardyrum.  Hún var með myndavél í fórum sínum sem var óvenjulegt á þessum tíma. Ida hafði miklar væntingar til Íslandsfararinnar en óhætt er að segja að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þótt náttúran hafi verið heillandi komu landsmenn henni fyrir sjónir sem sóðalegir, latir og drykkfelldir. Hún virðist ekki hafa nokkurn skilning eða samúð með fátækt og umkomuleysi kúgaðrar nýlenduþjóðar. Ekki skildi hún nema stök orð í tungumálinu þrátt fyrir rómaða tungumálahæfileika og ekki gekk henni heldur vel að tala dönsku eða ensku við yfirstéttina sem hún vildi helst hafa samskipti við. Oft talar hún um ógeðsleg híbýlin þar sem hún gat ekki hugsað sér að gista heldur kaus frekar að sofa á hörðum kirkjubekk. 

Íslendingar eru mestu erkisóðar, bókstaflega viðbjóðslegir. Tökum sem dæmi tólf ára stúlku sem færði mér rjóma og vatn. Að mér ásjáandi sleikti hún með tungunni rjómann af tappanum úr rjómaflöskunni og ætlaði síðan að setja hann aftur á flöskuna. Stundum sat hún hjá mér í svo sem eins og hálftíma og þá kom fyrir að óværan sem þreifst í hárinu á henni gerðist full aðgangshörð. Þá þreifaði hún um höfuðið þangað til hún náði lúsinni, horfði á hana svipbrigðalaus og henti henni svo lifandi á jörðina. Skárra er að gera eins og Grænlendingar, þeir éta lýsnar og þá er að minnsta kosti engin hætta á að þær komist yfir á aðra. Yfirhöfuð hafa Íslendingar ekki nokkra tilfinningu eða skilning á almennu velsæmi. Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum sem ég varð vitni að myndi það fylla margar blaðsíður (140).

Bók Idu fékk ekki góðar viðtökur hér á landi enda vandaði höfundur þjóðinni ekki kveðjurnar þótt náttúran væri vissulega heillandi og stórbrotin. Hnjóðuðu nokkrir karlar í hana sem frá er greint í formálanum. Í bókarlok segir Ida frá því sem henni finnst jákvætt í fari Íslendinga en það er fyrst og fremst heiðarleiki því engu var stolið af henni á ferðalaginu; langflestir eru læsir og skrifandi og í hverjum minnsta moldarkofa var alltaf bókargrey að finna. 

Ida fór víða um Suðurland, m.a. til Þingvalla og í Surtshelli, að Geysi og Heklu. Hún segir frá því að hún hafi staðið á Heklutindi og er þá líklegast fyrst kvenna til þess. Hún er fyrsta erlenda konan sem hingað kemur ein síns liðs. Hvað sem segja má um miskunnarlaust álit Idu á eymd og volæði íslensku þjóðarinnar var hún óneitanlega frumkvöðull og hetja, með ríka ferða- og ævintýraþrá og lét ekkert stöðva sig í að láta drauma sína rætast. Bókin er í senn heimild um horfinn tíma og merka konu og að auki stórskemmtileg aflestrar.

Sjá ennfremur: Ida Pfeiffer á Íslandi eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Ég heyrði það í holum rómi samviskunnar…eftir Kristínu I. Valdemarsdóttur og Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif, annáll íslenskra reisubóka til 1835 eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur

Bless árið 2020!

Ég get ekki annað sagt en bless árið 2020 og takk fyrir allt! Þetta var frábært ár sem hófst á því að ég fékk nýja vinnu, sem skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ég var í góðu starfi hjá KÍ/FF frá 2016 með frábæru samstarfsfólki þar sem góðir hlutir gerast, ég vann í þágu félagsmanna og var með mörg spennandi verkefni. En mig langaði að komast í betri aðstöðu til að láta meira til mín taka. Ég fann í hjarta mínu að í FVA væri þörf fyrir mig og ég gæti gert gagn. Ég þakka auðsýnt traust af öllu hjarta.

Verkefnin streymdu að í nýja starfinu og ég hafði í nógu að snúast á árinu. Ég keyrði á milli Kóp og FVA í mínum hundtrygga Yaris, nema vindhviðurnar á Kjalarnesinu færu yfir 30 m/sek. Margt kunni ég og þekkti úr skólastjórnun og -starfi frá fyrri árum í MK en annað var mér nýtt í byrjun, ss ábyrgð á heimavist, samstarf við sveitarfélög, barnaverndarmál og framkvæmdir vegna rakaskemmda svo dæmi séu tekin. Og eftir aðeins nokkrar vikur í embætti skall á samkomubann í framhaldsskólum sem kunnugt er vegna hættu á útbreiðslu kórónuveiru. Vægast sagt óraunverulegt að slík staða kæmi upp en blákaldur veruleiki engu að síður. Það hvarflaði ekki að mér að allt árið yrði undirlagt af þessu ástandi. Við tók fjarkennsla og síðan fjarvinna, fjarfundir og endalaust samráð og aðlögun að breyttum reglugerðum fram á vor. Stjórnendateyminu skipti ég upp og var sjálf á staðnum í þrjá daga í viku og vann heima hina tvo dagana. Það var ágætt fyrirkomulag að mörgu leyti, margt komst í verk því tíminn sem annars hefði farið í akstur milli Kóp. og FVA nýttist betur og oft var bara notalegt að vinna heima við eldhúsborðið á náttbuxunum með útvarpið á rólegum nótum og malandi kaffivélina innan seilingar.

Á ýmsu gekk sem reyndi á verulega á þolgæði, útsjónarsemi og aðlögunarhæfni míns frábæra starfsfólks. Á haustönn voru gefnar út átta reglugerðir um skólastarf sem þurfti að bregðast við á ýmsa vegu. Brautskráning um vorið var lengi í óvissu en tókst vel á endanum því þá máttu 200 manns koma saman. Ég var mjög spennt yfir athöfninni, 26. maí 2020, fyrstu útskriftinni minni, en það er ólýsanlega gefandi og gaman að fá að útskrifa unga fólkið og leggja því lífsreglur áður en það reynir vængina sína fyrir alvöru. Svo var frábært að geta haft veglegt starfsmannapartý í Golfskálanum á Akranesi áður en allir héldu út í sumarið.

Bjartsýn var ég í byrjun haustannar eins og ég er í eðli mínu, en haustönnin reyndist svipuð, því kórónuveiran var enn á sveimi og öflugri ef eitthvað var. Haustið leið hratt með margs konar áskorunum og ótal verkefnum og allt tókst ótrúlega vel í skólastarfinu enda einstaklega gott fólk að vinna í FVA og nemendur gerðu sitt besta undir þessum erfiðu kringumstæðum. Um jólin voru aðstæður ekki eins góðar fyrir brautskráningu og verið höfðu um vorið, ekki máttu fleiri en 25 vera í sama rými svo útskrifað var í tveimur hópum. Það tókst þó vel að mínu viti og í minni embættistíð hafa samtals 112 nemendur útskrifast frá FVA.

Það sem út úr þessu öllu kom hjá okkur í FVA var m.a. þetta: Allir eru tilbúnir til að leggja hart að sér þegar á reynir. Fundir eru nú styttri og árangursríkari. Mikilvægi góðs samstarfsfólks og vinnufélaga er orðið augljósara. Ýmsar reglur voru endurskoðaðar. Nýtt sjónarhorn á vinnu kom fram, unnið er með frumkvæði og lausnir. Upplýsingaflæði er greiðara. Samstaða myndast þrátt fyrir einangrun og fjarvinnu. Bjartsýni og jákvæðni ríkja þrátt fyrir allt.

Sumarfríið okkar 2020 var með öðru sniði en venjulega. Húsbíllinn mátti bíða heima í hlaði nánast allt sumarið því við skötuhjú höfum nú áhuga á meiri fjallamennsku en hann býður upp á. Tjaldbox var fest á þak jeppans og með það þeystum við vestur á firði í byrjun júlí. Einfalt líf, minni matseld og meira frelsi. Við dvöldum m.a. í Breiðuvík, að mestu alein á tjaldstæðinu, sem var dásamlegt. Við erum enn að læra á þennan nýja sið sem hefur kosti og galla umfram húsbílalífið sem við höfum stundað síðan 2005 og notið þægindanna sem það býður upp á. Það er td ekki auðvelt að finna tappatogarann í skottinu á Landcruiser en hann er á vísum stað í húsbílnum. Uppblásið hústjald prófuðum við einnig í sumar og náðum þannig einni reisu með okkar góða vinafólki á Akureyri. Það var algjör lúxus, beddum stillt upp með náttborði á milli og veislumatur eldaður í öll mál. Yndislegt var t.d. í Ásbyrgi þar sem við vorum í tæpa viku og sólin skein allan tímann. Minna varð um hjólreiðar á þessu ári en 2019. Sjósund prófaði ég í fyrsta sinn í haust og líkaði vel. Kannski ofrausn að kalla það sund, frekar dýfu. Fjallgöngur voru nokkrar á árinu, hæst ber auðvitað gangan á Akrafjall með Þuru systur, á Löðmund með Gunnu systur og Gullu frænku og á Glym með samstarfsfólki í FVA.

Við fetuðum nýjar slóðir í útivistinni á árinu. Í Veiðivötn hef ég aldrei viljað fara en lét til leiðast í sumar. Þar gátum við jeppast út um allt (aldrei þó utan vegar) og fórum m.a.s. í Jökulheima sem var stórkostlegt. Einnig kom ég í Sauðlauksdal í fyrsta sinn, á Landeyjasand og í Álftavatn. Við fórum þó ekki eins oft og víða í sumar eins og jafnan áður, m.a. tóku annir viðkomandi vinnunni tíma frá sumarleyfinu. Ég vann líka um sumarið að grein um Oddnýju skáldkonu frá Hóli sem birtist í Andvara í byrjun desember en ég er þó ekki laus við þá góðu konu úr huganum, það er meira sem ég vil gera með sögu hennar. Brynjar missti vinnuna sem photoguide um leið og dró úr ferðamannastraumi til landsins og vann því mikið heima að markaðssetningu ljósmynda sinna í Ameríku og myndvinnslu og þurfti að halda vel á spöðunum. Ekki fórum við út fyrir landsteinana frekar en aðrir þetta árið en planið hafði verið að fara til Perú snemma á vormánuðum. Það bíður betri tíma. En auðvitað fór ég til Þórshafnar eins og á hverju ári, með Sossu minni og áttum við þar góða daga eins og alltaf. Þar bý ég að frændsemi og vináttu til æviloka.

Í ágúst missteig ég mig í berjamó. Hægri fóturinn fór illa út úr þessu, ég var sárkvalin vikum saman og er ekki enn orðin góð. Myndatökur leiddu ekkert í ljós en kírópraktorinn minn bjargað því sem bjargað varð. Af þessu lærði ég að meta þau lífsgæði að geta gengið og hlaupið að vild og sofið án verkja.

Áfram held ég ásamt stallsystrum í ritnefnd að pota inn efni á vefinn skáld.is sem er gagnagrunnur um íslenskar skáldkonur. Einkum hef ég áhuga á þeim sem hafa fallið í gleymsku eða verið hunsaðar af feðraveldinu. Það á kannski einmitt við um mig sjálfa líka, ég komst nefnilega að því á árinu að öndvegis meistararitgerð mín frá 1996 má ekki vera aðgengileg í Skemmunni heldur verður að halda áfram að safna ryki í hillu í Bókhlöðunni, engum til gagns. Og eftir að hafa fjallað um bókmenntir og skrifað ritdóma sleitulaust í tvo áratugi í dagblöð, tímarit, á vef og fyrir útvarp hef ég lagt pennann til hliðar í bili og ég sé ekki að nokkur einasti maður hafi orðið var við það eða sakni þess að lesa mína vönduðu og ígrunduðu ritdóma eða mitt faglegt mat á stöðu íslenskra bókmennta fyrr og nú. Það er skellur, verð ég að viðurkenna!

Framkvæmdir í húsinu settu svip sinn á árið. Staðið hafði til lengi að skipta um eldhúsinnréttingu sem var farin að láta verulega á sjá eftir ca fjörutíu ára dygga þjónustu. Hún var rifin niður í mars og er skemmst frá því að segja að í ágúst var verkinu enn ekki fyllilega lokið. Ísskápur kom ekki til landsins fyrr en í september svo áfram var hokrað í bráðabirgðaeldhúsi. En í desember var aðeins eftir að setja upp aðfellu fyrir ofan skápa og fá hluta af borðplötunni en annað tilbúið. Útkoman er einstaklega fagurt eldhús með þægilegri aðstöðu í hvívetna til margs konar matargerðar. Mikinn lærdóm hef ég dregið af þessu brölti sem nýtist mér í næstu framkvæmdir sem fara vonandi fljótlega í gang!

Inga mín stofnaði eigið heimili með Gesti sínum í Vesturbænum snemma árs 2020 og lauk meistaranámi sínu. Óttar minn hefur blómstrað sl tvö ár, hann býr í Norðurbænum, fer eigin leiðir og hefur kennt mér svo margt. Það besta í heiminum eru börnin manns! Sandra Dögg Brynjarsdóttir flutti til okkar í lok árs og verður hjá okkur um tíma og það er frábært að geta lagt henni lið. Arnþór bróðir hennar býr í Svíþjóð með sinni fjölskyldu og þar vaxa og dafna yndislegu afastrákarnir okkar, Emil Freyr og Kristján Þór.

Það var leitt að geta ekki haft eins mikil samskipti við vini og ættingja og vanalega. Gestrisinn 2020, stúdentsveisla Jóhönnu Sigrúnar systurdóttur minnar, tónleikar Sæunnar Þorsteinsdóttur frænku minnar í Gljúfrasteini og fimmtugsafmæli Ármanns eru viðburðir sem ég náði þó að taka þátt í. Fyrirhugað niðjamót Ásgarðssystkina féll niður, árlegur frænkuhittingur líka, aðventuboðið með systkinabörnum í föðurætt breyttist í zoom-fund. Leshringur sem ég hef verið í árum saman var að mestu óstarfhæfur. Ástvinir kvöddu á árinu, Unnur frænka mín fór alltof snemma. Skúli móðurbróðir minn, Árni Helgason og Angantýr föðurbróðir minn eru nú komnir í aðrar víddir ásamt Hönnu í Hvammi, þeirri gæðakonu og ömmu Óttars.

En tíminn líður hratt og sjaldan er mikið svigrúm til að pæla mikið í hlutunum. Ég gef mér þó alltaf tíma til að íhuga aðeins og þakka fyrir það sem ég hef. Ég er endalaust þakklát fyrir börnin mín og fjölskylduna, umhyggjusömu systur mínar sem eru dásamlegar og þeirra makar og börn, og mögnuðu móður mína sem er eldhress og hraust á 75. aldursári. Og fyrir Brynjar minn sem er mín stoð og stytta í einu og öllu. Og fyrir tækifærin sem ég fæ í lífinu til að láta gott af mér leiða.

Nýtt ár verður áreiðanlega betra en það liðna. Ég er með fullt af verkefnum og hugmyndum sem ég vil sinna og kvíði engu. Takk og bless!

Í Breiðuvík
Í Veiðivötnum
Gestrisinn 2020
Plássið
Vinkonur í áratugi
Á Brekknaheiðinni
Nýja uppáhaldsplássið mitt!
Í bráðabirgðaeldhúsinu
Afkvæmin
Kristján Þór
Emil Freyr
Liðið!

Frábært ferðalag

Ég hef víða farið um landið á frækna húsbílnum okkar stjörnuparsins og jafnan haldið ferðadagbók sem ég birti hér á vefnum. Í breytingum á útliti vefsins fyrir löngu týndi ég þeim og fann þær aldrei aftur. Því var ég glöð að rekast á þessa pdf ferðasögu í möppu í tölvunni í gær og rifja upp dásamlega daga meðan frostið bítur kinn.

Húsbílareisan 2012

 

cropped-mg_2924.jpg

New York 2018

40784975_962754867249447_2694152149201321984_n

Í New York er stöðugur straumur alls konar fólks sem sinnir erindum sínum á þönum með kaffimálið sitt og litlar handtöskur,  rýnir í símann og þrýstir hvítum heyrnartólum inn í eyrun á sér. Í septemberbyrjun eru allir léttklæddir, hitinn úti er yfir 30 gráður en í búðum og á veitingastöðum er hrollkalt. Hótelherbergið er pínulítið og loftræstingin í gangi allan sólarhringinn, útsýnið yfir í næsta vegg. Allt er dýrt, matur og drykkur á svipuðu verði og á Íslandi þegar skattur og þjórfé er talið með. Og allt kostar sitt, í fótsnyrtingu kostar aukalega að pússa mikið sigg, það kostar meira að fara hærra en 86. hæðir í Empire State, það kostar 4 dollara að leysa út pakka sem geymdur er í lobbýinu og það bætist skattur við allt verð sem gefið er upp.

Central Park iðar af lífi, þar er ekki amalegt að setjast niður með kaffimál og krósant og virða fyrir sér aðra ferðamenn, hlaupara, betlara, barnafólk og bóhema. Bókasafnið við Bryant Park er risastórt og glæsilega hannað, í garðinum þar er Makbeð á fjölunum. Alls staðar í borginni er eitthvað um að vera og raðir myndast við mátunarklefa og kassa í búðum, á söfnum og veitingastöðum. Allir eru glaðir og vinalegir í viðmóti, brosa og heilsa: How are you today?

Söfnin eru frábær, td MOMA, hið ofursmarta Guggenheim og Whitney (ekki Houston). Og  stórskemmtilegt var að skoða Tenement Museum við Orchard Street sem hýsir leiguíbúðir frá síðustu áratugum 19. aldar þegar innflytjendur, aðallega Gyðingar frá Austur-Evrópu og Rússlandi, tóku að streyma til lands tækifæranna. 6-8 manns bjuggu í 30 fermetra íbúð, án gass og rafmagns, og íbúðin var jafnframt vinnustaður þar sem 3-4 sátu við klæðskurð, sauma og pressun frá morgni til kvölds.

Á Metropolitan safninu var sýning að nafni Heavenly Bodies sem var stórfengleg. Hún snýst um áhrif kaþólskrar trúar og myndlistar á fatahönnun nútímans. Áhrifamikið og fallegt, tónlistin dásamleg.

 

Í Guggenheim var yfirlitssýning á verkum svissneska listamannins Alberto Giacometti  (d. 1966) sem var gaman að skoða. Einnig var í litlum sal sýning á list ungra asískra nútímalistamanna og þar var frábært vídeóverk eftir Wong Ping (f. 1984); eins konar Tómas Jónsson í Hong Kong.

Í MoMa var sérlega gaman að skoða sýningu á verkum Bodys Izek Kingeles (d. 2015), Bodys. Hann er afrískur listamaður og skúlptúrar hans eru líkön af byggingum, innblásin af afrískri list, friðarást og fjörugu ímyndunarafli.

 

 

Alls staðar var góður viðurgjörningur, matur fallegur og bragðgóður, drykkir dásamlegir. Í NY er allt í fjöri og vexti, allt er stórt, dýrt og magnað, amk það sem snýr að ferðamanni. Hún er heimsborg fyrir lengra komna.

Íslandsbréf 1874

itayloy001p1

Bayard Taylor, 1825-1878 (Brittanica)

Bandarískt skáld, Bayard Taylor að nafni (1825-1878), var meðal erlendra gesta á þjóðhátíð Íslendinga árið 1874. Hann hafði verið á ferðalagi um Egyptaland og var staddur í Bretlandi þegar dagblaðið New York Tribune bað hann að skreppa á hátíðarhöldin og senda fréttir yfir hafið. Hann kom til landsins á gufuskipinu Albion og var Eiríkur Magnússon (1833-1913, bókavörður og þýðandi) honum samferða frá Cambridge. Taylor gaf síðan út ferðabók um reisurnar, Egypt and Iceland in the Year 1874, sem kom út samtímis í New York og London 1875.

Tómas Guðmundsson, skáld, leitaði lengi að bók Taylors til þýðingar í fornbókaverslunum í Englandi og víðar en árangurslaust þar sem hún er mjög sjaldgæf. Honum tókst loks að fá hana góðfúslega lánaða hjá Þórði Björnssyni, sakadómara „sem sennilega á stærra safn ferðarita um Ísland en nokkur annar“. Íslandsbréf 1874 kom út hjá Almenna bókafélaginu 1963 og ritaði Tómas greinargóðan formála og segir þar m.a.:

Samt ætla ég, að sumar þær þjóðlífsmyndir, sem þar er brugðið upp, varpi allskírri birtu yfir ævikjör og umkomuleysi fólksins á þessum tíma, sem nú er flestum okkar horfinn … Og þá er það líka nokkurs vert, að  hér kynnast menn mjög geðfelldum og drengilegum höfundi, sem fjallar um menn og málefni af óvenjuglöggum skilningi og ríkri samúð (10).

Rakst á þessa bók í dag í hillu og sökkti mér í hana. Bók úr safni föður míns og/eða afa sem báðir voru ástríðufullir bókasafnarar, unnu þjóðlegum fróðleik, hagmæltir heiðursmenn.

Nú er hægt að lesa bók Taylors á rafrænu arkívi.

Guðdómlegt í Guatemala

Síðasti dagur í litla indjánaþorpinu San Marcos, í bili. Þrjár vikur flugu svo hratt. Dvölin hér í Guatemala hefur verið ævintýri frá upphafi til enda. Ég hef kynnst svo mörgu framandi og spennandi, hitt fullt af áhugaverðu og glöðu fólki og lært svo margt. M.a. fékk ég kakó hjá gúrúnum Keith Wilson, kynntist geimverum hjá Dante hinum hláturmilda, fékk nudd og Ayurvedakynningu hjá Mariell sem er læknir og ljósberi, lærði um Love Center hjá Dennisson (76) sem er léttklikkaður og síðast en ekki síst fór ég í 3ja klst dáleiðslu hjá vinkonu minni, Tamilu, þar sem fornar syndir voru hreinsaðar út til að skapa pláss fyrir nýja strauma. Ekkert verður eins og áður. Töfrar þessa staðar eru margslungnir og duna í blóðinu þangað til næst.

Hér má sjá brot af myndum. Nánar á Instagram, steinunninga, #guatemalaferðin

27394775_811734865684782_113117715_n27394038_811735045684764_1229254582_o27268042_811735725684696_1534982640_o (1)27266059_811735762351359_305052725_o27267111_811736115684657_950418684_o27335865_811736125684656_374623763_o27330298_811736362351299_2083112724_o27267098_811736372351298_1353045752_o27335040_811736435684625_1675371867_o27398062_811736459017956_251969886_o27266063_811736649017937_873442980_o27267004_811736665684602_738651709_o27336040_811736832351252_330856180_o27267999_811736915684577_1645281540_o27267887_811737215684547_958455434_o27398014_811737332351202_293782818_o27152678_811737545684514_1870591037_n27157365_811737962351139_1044250928_n

Brussast í Brussel

belgian-waffles

Nokkrar staðreyndir frá Arndísi vinkonu minni:

Evrópusambandið er með 40 þúsund manns við störf í borginni. Hús sambandsins er 1 milljón fermetrar.

Nató er með 4 þúsund manns í vinnu.

Diplómatar eru 5.400 sem er heimsmet í einni borg.

Erlendir blaðamenn búsettir í borginni eru 1.000.

27% borgarbúa eru útlendingar.

Íbúafjöldi í borginni er 1,1 milljón manna.

Alls eru töluð 104 tungumál á staðnum.

800 tegundir af bjór eru seldar á börum bæjarins.

Um 220 þúsund tonn af súkkulaði eru framleidd á ári í Belgíu eða um 22 kíló á hvern heimamann.

Galleries St. Hubert er elsta verslunargata í bogagöngum í Evrópu, frá 1847

Dýpsta sundlaug heims er í Brussel, 35 metra djúp.

Þar er safn um sögu og þróun frönsku kartöflunnar