Sektin og skömmin

Nú eru margir Íslendingar reiðir og bitrir. Sem vonlegt er, hér á landi er allt í tómu tjóni í efnahagsmálum. Öllu er snúið á haus, hinir ráðdeildarsömu tapa sparnaði og lífeyri en fjárglæframennirnir stinga af með þýfið og þurfa hvorki að skila einni einustu krónu eða bæta skaðann á nokkurn hátt. Þeir sem höfðu lágu launin og voru trúir yfir litlu borga brúsann næstu 150 árin og hafa enga von um kjarabætur á næstunni meðan peningasukkarar á ofurlaunum og makráðir stjórnmálamenn með feitan eftirlaunadíl setja upp sakleysissvip, halda því hiklaust fram að þeir séu ekki sökudólgar og vilja engar nornaveiðar. Og við látum þetta yfir okkur ganga með gamla viðhorfinu „þetta reddast, við komumst í gegnum þetta“.

Hér er þrusugott blogg sem allir ættu að lesa: Lára Hanna, skrifar um mótmæli og íslenska þjóðarsál.

Ég er hætt að hlusta á þreyttar klisjur  og undanbrögð stjórnmálamanna í fjölmiðlum en er að átta mig á því að ef enginn af þessum glæponum er látinn taka ábyrgð eða sæta refsingu fyrir prettina og hrun íslenska fjármálamarkaðarins er ég meðsek í augum heimsins, stimpluð svikari eins og gróðapungarnir. Íslenskir námsmenn og ferðamenn erlendis hafa fengið að finna fyrir því á síðustu vikum, þeir mæta fjandskap og fyrirlitningu. Ímynd lands og þjóðar hefur beðið óbætanlegt tjón, sennilega meiri en við gerum okkur almennilega grein fyrir núna. Ég er ekki bara neydd til að borga reikninginn með erfiði mínu og striti það sem eftir er ævinnar heldur sit ég líka uppi með skömmina.

Helgi Hóseason, mótmælandi Íslands
Helgi Hóseason, mótmælandi

2 athugasemdir

  1. Kæra frænka.

    Nú þurfum við svona hugsunargeymi ala útlönd (thinktank). Þar sem allir gáfuðustu og fallegustu vinstrimenn og leiðindaseggir koma saman og skapa nýmarxíska hugmyndafræði án landamæra fræðigreina. Við skulum auðvitað syrgja mistökin en ekki óttast framtíðina. Rétt eins og það var frelsandi fyrir hófsamt félagshyggjufólk og stuttbuxnavitleysinga þegar múrinn féll þá er það aftur frelsandi fyrir félagshyggjufólkið þegar stuttbuxnatjaldið hefur verið dregið frá og við blasa rústirnar.

    Í miðju samfélagslegu uppgjöri þeirra sem réðu og okkar sem létum ráðast er ekki fjarri lagi að jólasveinninn eigi bara fullt erindi við landsmenn.

    Mbk,
    Sannfærður

  2. Nú skilst mér að einhverjir ráðamenn og pólitíkusar verði látnir segja af sér, þ.e. taka peningapokana sína og byrja að þiggja eftirlaunin sín á einhverri sólríkri eyju sem lítið fer fyrir þeim. Þetta á að þagga niður í blóðþyrstum lýðnum sem heimtar að spariféð sé tryggt og vill lifa mannsæmandi lífi. Ef ónefndur gaur, sem fékk 300 milljónir fyrir að byrja í vinnunni og 800 fyrir að hætta, skilaði nú þessum aurum til baka, þá fengju kannski einhverjar ekkjur ævisparnaðinn sinn útborgaðan. Það á ekki að leyfa fjárglæframönnunum að hætta störfum og draga sig í hlé, ofurlaunin hljóta að dekka einhverja ábyrgð. Ég vil í fyrsta lagi að þeir vinni í samfélagsþjónustu til æviloka og í öðru lagi að þeir verði sviptir lífeyrisréttindunum sem þeir skömmtuðu sjálfum sér, þeir mega samt fá það sama og við hin svo þeir drepist ekki úr hungri. Svona er ég nú mildari í þeirra garð en þeir í minn.

Færðu inn athugasemd