
- Á hverfanda hveli?
Í bíómyndinni Australia er margt sem gæti skapað stórmynd, s.s. heimsfrægir leikarar (Jackman og Kidman sem bæði eru áströlsk), flott söguefni og glæsilegt landslag. Margir spennandi þræðir eru í gangi, ástarsaga bresku hefðarkonunnar og kúrekans, ill meðferð á frumbyggjum Ástralíu (fordómar, þjóðarmorð, misnotkun) og heimstyrjöldin síðari. En leikstjórinn, Baz Luhrman (Moulin Rouge m.a.), spilar ekki nógu vel úr þessum þráðum eða handritið er ekki nógu gott. Hér hefði aldeilis mátt sleppa, skerpa og klippa. Tilfinningasemin er líka yfirgengileg, persónurnar grunnar og sólarlagssenurnar aðeins of margar. Jackman, sem er alltaf vampírubani í mínum augum, er frábær hestamaður og hasarkroppur og Kidman er ægifögur en hreyfingar hennar og svipbrigði öll eru ýkt og tilgerðarleg og minna mest á teiknimyndapersónu. Kynblendingurinn Nullah, sem leikinn er af hinum bráðlaglega 12 ára gamla Brandon Walters, er algjört sjarmatröll og vekur mikla samúð með málstað frumbyggja. Myndin Australia er ágætis afþreying en líka sorglegt dæmi um það hvernig fé og hæfileikum er sóað, Hollywood-formúlur og klisjur verða allsráðandi en gullnu tækifæri til að skapa listrænt stórvirki er kastað á glæ.
Ja hérna hér!
Maður sleppir þá þessari. Hvar sástu hana? Stuð tvu?
Þér er óhætt að sjá hana. Hún er sýnd í SAMbíóunum.