Þjóðráð

Ég er ekki pólitíkus en ég er hagsýn húsmóðir og mér dettur ýmislegt í hug sem gæti orðið okkur að liði til að komast út úr þessu ófremdarástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. T.d.

1. Skipta inná á alþingi, þjóðnýta ýmsa hagfræðinga og spekinga  í 100 daga til að koma skikki á hlutina, t.d. menn eins og Pál Skúlason, Agnesi Bragadóttur, Guðmund Ólafsson o.fl. Fá óháða lögmenn, endurskoðendur og rannsóknaraðila til starfa ásamt óhlutdrægum upplýsingafulltrúa sem miðlaði jafnóðum til almennings fréttum að því sem er að gerast. Gera upp skuldir og eignir og fá á hreint hver staðan er, forgangsraða og semja við lánardrottna um hagstæð lán og greiðslukjör.

2. Rekja og frysta allar eignir auðmanna, bankastjórnarmanna og þeirra sem fært hafa stórar upphæðir milli reikninga, banka eða landa á undanförnum 6 mánuðum. Draga fram hverja einustu vísbendingum um spillingu, hagsmunatengsl og sukk og draga menn fyrir dóm sem hafa fórnað  almenningsheill fyrir eiginhagsmuni. Selja allar eignir erlendis sem hægt er að selja.

3. Fara vandlega  yfir öll „vafasöm“ hlutabréfakaup þar sem ekkert veð er annað en bréfin sjálf og augljóslega verið að hygla innherjum og einkavinum. Gera menn ábyrga fyrir svoleiðis skuldum, gera eignir þeirra upptækar og bjóða þeim greiðslukjör til eilífðar.

4. Frysta verðtrygginguna í nokkra mánuði meðan öldurnar lægir, lækka vextina svo fólki verði gert kleift og hafi lyst á að búa áfram í eigin húsnæði, það er ódýrara og betra til langframa en vanskil, landflótti og gjaldþrot. Frysta laun samhliða en ekki lækka þau, tryggja atvinnulausum mannsæmandi bætur, námskeið, hlutastörf, störf við hæfi í þágu samfélagsins sem skila arði til framtíðar. Tryggja velferð barna og unglinga með námskeiðum, niðurgreiðslum á skólamat, tannlækna- og sálfræðiþjónustu og skipulögðu æskulýðs- og tómstundastarfi, styrkja ríkisútvarpið, heilbrigðis- og skólakerfið.

5. Skera niður allt bruðl, setja framkvæmdir í salt í bili, ss. hönnun mislægra gatnamót og nýrrar miðbæjargötumyndar, stöðva byggingu verslunarmiðstöðva og hátæknisjúkrahúss,  hætta við virkjanir og olíuhreinsunarstöðvar en styrkja ferðaþjónustu og íslenskt hugvit og nýsköpun, sleppa júróvisjón og Feneyjatvíæringnum, leggja niður eða sameina sendiráð, fara yfir skattaupplýsingar og klófesta þá sem hafa himinháar tekjur en skila ekki tilskildum hluta þeirra til samfélagsins. Setja skorður við stofnun nýrrar kennitölu fyrir aðila í fyrirtækjarekstri sem hafa farið í þrot og skilið eftir sig sviðna jörð.Hætta öllu utanríkisvináttubrölti sem kostar stórfé en skilar sáralitlu eða engu en setja öfluga nefnd í að kanna ESB-málið á hlutlausan og faglegan hátt með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Sjálfsagt má gera fleira og betur en einhvers staðar verður að byrja.

5 athugasemdir

  1. Ég hef nú alltaf vitað að þú værir greind (vel gefin, ekki litgreind) en nú tók steininn úr!
    Held við verðum samt að breyta kosningakerfinu eitthvað svo ég geti bara kosið þig á þing án einhverrar flokksyfirbyggingar!

  2. Ég vil endilega bæta við að reka alla úr Fjármálaeftirlitinu með skömm og fara með bandprjóni yfir reikninga og risnu þeirra sem þar fara með stjórn. Og stoppa allt brask með krónur og evrur í gegnum leppfyrirtæki. Senda sýslumanninn á Selfossi á liðið!

  3. Ég kýs Steinunni 🙂 loksins kom aðgerðaráætlunin sem við höfum beðið eftir síðan 6. okt. Geir segir að ekki megi skipta um hest í miðri á en mér sýnist þeir ekki vera út í ánni, þeir eru á bakkanum og þora ekki yfir, eru að leita að vaði meðan áin vex í mestu leysingum „ever“ !!! Hvar eru skýrslur erlendra sérfræðinga, hvar er ímyndarteymið, hvað gerðist nákvæmlega….. Væri ekki ráð að auglýsa verslunarferðir frá t.d. Noregi til Íslands og fá þannig gjaldeyri í landið og til að fá hjólin aftur til að snúast…ekki getum við keypt þessar vörur í búðunum..
    Best fyrir sálina sjálfa er að slökkva á útvarpi og sjónvarpi og lesa góða bók 🙂

Færðu inn athugasemd