Við Óttar fórum að sjá Mömmu Gógó í dag. Dramatísk, hjartnæm og falleg mynd um ást og elli og fjölskyldu á tímamótum og öðrum þræði um harkið í íslenskri kvikmyndagerð. Trúverðugar senur, fagmannlega teknar og vel leiknar, flott sett, yndisleg íbúð mömmunnar og falleg sólsetur, enginn vafi um framhaldslíf en hrunið er yfirvofandi, bankakallarnir ráða ráðum sínum við risaskrifborð og fara svo í lax. Myndin var vel leikin, bæði Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær voru frábær og Gunnar Eyjólfsson er eilífðartöffari. Kristbjörg túlkaði snilldarvel hnignun og dauða þessarar reffilegu og ráðagóðu konu sem ávallt hafði haldið sínum hlut og kunnað að njóta lífsins en þarf svo að takast á við alzheimsersjúkdóminn með öllu tilheyrandi. Aðfangadagskvöldið kom tárunum aldeilis út á mér. Mér fannst ganga furðu fljótt að fá inni á hjúkrunarheimilinu fyrir gömlu og lyfin virka furðu vel, held að hvorugt sé raunin. Svo er spurning hvort trikkið með 79 af stöðinni virkar (doldið langt) en það er soldið gaman að því.