Ættarmót Holtunga stendur fyrir dyrum um næstu helgi. Af því tilefni fórum við systur að grúska í gömlum bréfum og fundum m.a. þennan gullmola.

Holti, 11. mars 1962
Óttar minn elskulegur!
Ég hefi farið óskaplega illa að ráði mínu, að hafa aldrei sent þér orð á blaði í vetur. Ég er þó oft búin að skammast mín fyrir það. Ég þakka þér bréf með síðasta pósti, svo skemmtilegt og gott, og ég þakka ykkur Agga fyrir afmælisskeyti. Skilaðu því.
Blessað fólkið gerði þessi ósköp með mig á afmælisdaginn. Samferðafólk mitt frá gömlum árum sendi mér kveðjur, það lán hefur fylgt mér að hafa ætíð gott fólk í kringum mig. Sólin skein glatt á afmælisdaginn minn, þá veistu hvað dýrðlegt er í Holti. Dals- og Gunnarssstaðafólk kom, auðvitað Vilborg og Haukur og Arnþór. Hilla var ráðskona heima. Aðalsteinn Eiríksson og hans kona sendu mér stól, fínan og góðan, þvílíkt! Arnbjörg mín hafði veislukaffi, allir voru glaðir, en söngur varð ekki svo að hvinur yrði af!!
– Það er gott að allt gengur vel hjá þér, blessaður drengurinn, og gott að vita að bætast í kennarastéttina góðir drengir.
Ég og allir hér þakka kærlega fyrir jólakveðjur og allt gott. Myndina af stúdent Óttari hefi ég aldrei þakkað fyrir, geri það hér með, það er stórmyndarlegur maður, elskan.
Þú finnur nú hvernig amma þín er, bréf sem ég fékk snemma í desember hefi ég aldrei svarað. Mig dagaði uppi fyrir jól, Það var ekki fyrir að að ég vildi ekki. Svo langaði okkur að tala við ykkur á Akureyri milli jóla og nýárs, þá var veðrahamur og ómögulegt að fá samband eins og alltaf er héðan. Geiri vildi ekki senda þér þennan miða aftur. Hann sendi beint til þeirra suður í pöntun. Svo þú ert laus allra mála í því.
Frændur þínir voru einu sinni að bera við að þeir ættu að skrifa þér en það verður víst ekki í þetta sinn.
Það er gott að frétta af okkur. Skepnurnar hafa nóg, sjaldan beitt fé í vetur. Oddviti hugsandi yfir þeim vestur í firðinum. Sumir hafa víst lítið.
Ég enda þá þetta ómyndarbréf. Við hér biðjum kærlega að heilsa Agga, og óskum kennaraefnunum góðs afreks með vorinu. Allir biðja að heilsa þér auðvitað.
Vertu þá blessaður alla æfina og þakka þér elskulegheitin öll, elsku Óttar minn. Sólin blessuð vermi þig.
þín amma Ingiríður Árnadóttir