Ellý og Vilhjálmur

Ég hef alltaf haft tónlistaráhuga. Lærði lög og texta fljótt og auðveldlega sem barn. En aldrei lærði ég almennilega á neitt hljóðfæri þótt mér hafi boðist það heldur varð unglingauppreisn og eilífðargelgja til þess að ég hunsaði vilja og ráð foreldra minna. Ég syng mikið og dansa í eldhúsinu við alls konar tónlist; gömul dægurlög sem ég ólst upp við, t.d. lög Ellýjar og Vilhjlálms, popp og diskó, en ekki síður nýjustu slagarana sem unglingarnir fíla, elska remix, þjóðlög innlend og erlend, og svo mætti lengi telja.

Síðustu vikur hef ég fengið mikinn áhuga á klassískri tónlist, og hef sérlega gaman af að hlusta á Magnús Lyngdal velja Greatest hits af gulnuðum nótnablöðum á rás eitt. Nýlega hóf ég að æfa með Árkórnum, skemmtilegasta kór á landinu, og komst að því hvað það er gaman að syngja með öðrum og skapa samhljóm sem hefur heilandi áhrif á sál og líkama.

Við mamma fórum í Borgarleikhúsið í gær á leiksýninguna um Ellý sem nú er vegna mikillar eftirspurnar sýnd í takmarkaðan tíma Þetta er í annað sinn sem við sáum sýninguna, sem er frábær. Nýrri uppsetningin er lítillega breytt til batnaðar, meira er farið á dýpið; sársaukinn vegna drykkfelldra eiginmanna, fjarvista frá ungum börnum og áfalls við bróðurmissinn, virðist einhvern veginn meiri en áður. En tónlistin er jafnyndisleg og ljóst að þau systkinin Ellý og Vilhjálmur eiga sérstakan sess í huga fólks. Ekki var þurrt auga í salnum þegar fregnin um slysið í Lúxemborg barst Ellý og Björgvin Franz söng Söknuð. Sjálf man ég vel hver mikil áhrif skyndilegt fráfall Vilhjálms hafði á alla sem ég þekkti; segja má að ríkt hafi þjóðarsorg.

Heima á Akureyri var mikið hlustað á þau Ellý og allar plöturnar þeirra voru í rekka í stofunni og spilaðar daginn út og inn. Þau boðuðu líka alltaf komu jólanna á heimilinu. Plötur þeirra beggja seldust í bílförmum enda höfðaði tónlistin til fjölbreytts hóps hlustenda og gerir enn. Salurinn í gærkvöldi var troðfullur af ungum sem öldnum – nokkrar göngugrindur biðu upp við vegg eftir aðdáendum – en tónlistin höfðar til breiðs hóps og má segja að hún sé orðin sígild.

Allir fara leikarar vel með hlutverk sín í sýningunni en Katrín Halldóra er algjörlega frábær, það er eins og Ellý holdgerist á sviðinu og sjarminn streymir frá henni. Og Björgvin Franz fer algjörlega á kostum í sínum mörgu hlutverkum. Hann er Vilhjálmur með bartana, ungur og óöruggur, skrifar undir lélegan samning við SG hljómplötur, hann er KK og Raggi Bjarna með alla sína takta, breitt bros og húmor. Svo er þarna alvöru hljómsveit á sviðinu enda ekki annað boðlegt þegar fengist er við líf og tónlist dáðustu dægurlagasöngkonu landsins. Við mamma mælum með að ná sæti á einhverja af sýningunum sem framundan eru, þær verða samtals 258 og sú síðasta er 28. desember nk.

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd