Arnþór

Frændi minn, Arnþór Karlsson (1954-2022), var hetja sem hafði mikil áhrif á okkur öll sem honum kynntust. Sem ungur maður lamaðist hann upp að hálsi í slysi og var upp frá því í hjólastól. Fyrst um sinn bjó hann áfram með foreldrum sínum, þeim heiðurshjónum Hauki og Vilborgu ömmusystur minni, í Borgarfelli á Þórshöfn. Þangað var alltaf gott að koma og þar naut hann frábærrar umönnunar fjölskyldunnar.

Hvernig átti lamaður maður, búsettur á Langanesi á áttunda áratug síðustu aldar, að hafa ofan fyrir sér? Hann gerði svo sannarlega allt sem hann gat, sá um bókhald í fyrirtæki sem hann stofnaði með bróður sínum og mági og hann pantaði kost og fleira fyrir báta á miðunum í gegnum talstöð. Þegar ég var á rúntinum á Þórshöfn forðum daga með vinahópnum var oft kallað í Arnþór og gantast lengi kvölds í talstöðinni: 6817, 6817? Ásgarður kallar! Yfir! Seint þreyttist hann á ruglinu í okkur. En fyrir rúmum 30 árum flutti hann svo úr þorpinu sínu og keypti sér fallega íbúð í SEM-húsinu á Sléttuvegi í Reykjavík. Þar fékk hann góða þjónustu og bjó þar til dauðadags.

Arnþór var skynsamur og traustur, húmoristi og mikill mannvinur. Hann undi sínu þungbæra hlutskipti án biturðar og einstök skapgerð hans einkenndist lífsgleði, æðruleysi og umhyggju fyrir öðrum. Hann var vinmargur og ættrækinn, það var oft gestkvæmt á Sléttuveginum og alltaf gaman að koma til hans. Hann kom alltaf auga á hið spaugilega í tilverunni og var hafsjór af fyndnum sögum og fróðleik. Arnþór var höfðingi heim að sækja og hélt ótal frábær partí, þá var djammað og dansað eins lengi og sjúkraliðarnir leyfðu. Hann sætti því að þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og tók því af einstakri þolinmæði. Hann vann áfram við bókhald um skeið en okkar samfélag býr reyndar ekki sérlega vel að fólki sem hefur skerta starfsgetu. Hann var því feginn þegar hann komst á eftirlaun og hætti að vera öryrki! Miklar skoðanir hafði hann á stjórnmálum og var jafnaðarmaður í hjarta sínu. Við áttum margar góðar stundir í gegnum árin, hann fylgdist vel með mér og uppvexti barna minna enda einstaklega barngóður og lét sér annt um fólkið sitt. Um skeið fórum við saman í Kringluna á Benzinum um jólaleytið til að kaupa gjafir og hápunkturinn var að fá okkur hressingu á kaffihúsi að því búnu. Hann hélt þjóðleg matarboð og elskaði að fá sér siginn fisk og þorramat. Það var svo gaman að koma til hans á sumrin og fara með kaffið út á svalir, hann elskaði sólina! Arnþór var innsti koppur í búri í Átthagafélagi Þórshafnar og var lengi í stjórn þess. Við vorum bæði í nefndinni sem stofnaði það ágæta félag, héldum fyrstu samkomuna í salnum á Sléttuveginum og þar er enn haldinn fjölmennur félagsfundur í maí þegar svartfuglseggin koma úr björgunum.

Aldrei heyrði ég Arnþór frænda kvarta yfir sínu hlutskipti í lífinu og af honum lærði ég að vera ekki að væla yfir smámunum. Aldrei vildi hann láta á sér bera eða hafa mikið fyrir sér umfram það sem þurfti. Hann var sáttur þegar hann kvaddi og ósk hans var að útförin færi fram í kyrrþey – það er dæmigert fyrir hann. Minningin lifir um mann sem tókst á við mótlæti með hugrekki og jafnaðargeði og gladdi aðra með hlýrri nærveru, kærleika og hárfínum húmor. Allri stórfjölskyldu Arnþórs, Kristínu og vinum hans sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og þakka fyrir allt. Yfir og út.

Viðtal við Arnþór, 1995

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd