Hanna

Þau Ari og Hanna í Hvammi tóku mér afskaplega vel þegar ég birtist í bæjardyrunum sem tengdadóttir þeirra á níunda áratug síðustu aldar. Tötraleg unglingsstelpa, týnd og uppreisnargjörn, fann í Hvamminum ást, frið og frelsi sem hún þurfti þá.

Í Hvammi var um þessar mundir mannmargt heimili, fjárbúskapur og refarækt. Mikið var um gestakomur, gripið í spil og spjallað yfir kaffiglasi og brúntertusneið í notalegu eldhúsinu með útsýni yfir Þistilfjörðinn. Alltaf var gott að leita til Hönnu, hún hafði þann einstaka eiginleika að finna alltaf það góða í hverjum og einum. Dómharka var ekki til hjá henni, hún umvafði alla með kærleika sínum.

Við Vignir slitum samvistum en sonur okkar átti alltaf öruggt skjól hjá ömmu sinni hvernig sem veröldin veltist. Fyrir það er ég ævinlega þakklát, fyrir vináttuna sem alltaf hélst, fyrir örlætið og æðruleysið sem Hanna ávallt sýndi.

Ari lést fyrir aldur fram í mars 1986. Hanna var fædd 1940 og lést 2020.

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd