Stálmaðurinn

Súpermann

Á ferð og flugi

Á ferð og flugi

Man of Steel, Stálmaðurinn, var á bíótjaldinu í gærkveldi (leikstj. Zach Snyder). Stórkostlegar brellur á ferð, rosalegt show, flott geimskip og hugljúf saga af fæðingu og uppvexti Súpermanns. Leikarann kannast ég ekki við (Henry Cavill, breskur, fæddur 1983), hann er doldið eins og Ken, massaður og sviphreinn, með klassískt andlistfall, sterklega kjálka og afar vel tenntur. Súpermann er frekar einfaldur maður, góður og hrekklaus og dyggur þjóðfélagsþegn (frá Kansas). Held að hann sé líka hreinn sveinn, 33ja ára. Geimverurnar eru dökkar og grimmar, skip þeirra eru svört og drungaleg og minna á pöddur því nú eru ekki lengur hvít, krómuð og stílhrein skip í tísku eina og var fyrir Matrix (1999). Geimverurnar vilja leggja undir sig jörðina enda plánetan þeirra, Krypton, sprungin í tætlur því íbúar hennar og æðstu stjórnvöld tóku ekkert tillit til náttúrunnar og misnotuðu orkulindir og landsgæði.  Súpermann á ættir að rekja til Krypton eins og alþjóð veit og er líka gangandi forðabúr fyrir gen hinnar útdauðu Kryptonþjóðar. Söguþráður er ekki flókinn en atburðarásin er hröð, heimsendir í nánd og bara Súpermann og ameríski herinn sem er réttsýnn og rogginn geta forðað heimsbyggðinni frá því að verða útrýmt. Blaðakonan snjalla, Lois Lane (Amy Adams), er sjarmernandi með rautt hár og uppbrett nef, alltaf á réttum stað á réttum tíma. Gaman að sjá Lawrence Fishburne í hlutverki ritstjórans, ég hélt kannski að hann kæmi með frasa um sýndarveruleikann sem við lifum í. Ég hefði viljað hafa smá brýningu um umhverfismál í myndinni (og minna þá af þjóðrembu) og smá húmor hefði mátt vera með. En þetta er besta Súpermannmyndin sem ég hef séð.