Rökkurbýsnir eftir Sjón

Smartasta bókarkápan

Smartasta bókarkápan

Þetta er mögnuð bók um Jón Guðmundsson lærða sem uppi var á 17 .öld, ógnvænlegri galdraöld og hjátrúartíma  sem einkenndist af flóknu hugsunarkerfi líkinda og samhverfu manns og náttúru, sárri fátækt alþýðu og yfirgangi hinna ríku, hörðum dómum kirkju og embættismanna og grimmum refsingum. Hér fara bölbænir „Jónasar Pálmasonar lærða“ þegar hann hefur misst konu sína og þrjú barna sinna, ofsóttur og útlægur og  allar bjargir bannaðar:

„Góður Guð, taktu fúlmennið Náttúlf Pétursson, skilaðu mér aftur Hákoni litla sem alltaf var blíður sem stúlka, náðugi Alfaðir, taktu Ara Magnússon í Ögri, skilaðu mér Berglindi handskörpu sem erfði útskurðargáfu föður síns, himneski Skapari, taktu rógmennið séra Guðmund Einarsson, skilaðu mér smádrengnum Klemensi með annað auga mosagrænt og hitt blátt, dýrlegi Herra, taktu þennan skara dusilmenna sem dag hvern lifa fórnarlömb sín, sitjandi í húsbóndastólum og hásætum, kýlandi vömbina með löðrandi feitu kjöti af bústofni sem ól sig á grængresi á engjum sem hirt voru af iðnu, saklausu og trúræknu fólki; hælandi sér af því að hafa haft lífsbjörgina af þessum manninum og hinum og fyrirvinnuna af einni konu og annarri, milli þess sem þeir mega vart mæla fyrir illa fenginni munnfyllinni; njótandi fram í hæstu elli voðaverkanna sem þeir frömdu  á þessum jarðardögum…“ (163-4)

1 athugasemd

  1. Er einmitt að lesa hana og má vart vatni halda. Ótrúlega flottur texti, maður kjamsar á hverju orði. Ég verð ekki búin að lesa margar jólabækur fyrir jólaringó en held að ein bók af þessu kalíberi telji sem 10 miðlungs…

Færðu inn athugasemd