Ýmsar leiðir færar

Góð grein eftir Benedikt Sigurðarson í Mbl. í dag. Hann segir m.a.:

„Forsendur verðtryggingar hafa til skemmri tíma fallið. Það er ekki hagfræðilega mögulegt að rökstyðja að verðtryggðar skuldbindingar í íslenskum krónum verði undanþegnar »kreppuleiðréttingu« þegar eignaverð fellur um allt að 50% að raunverðmæti og gengi krónunnar og innlend verðbólga fella gjaldmiðilinn sem við eigum okkar daglegu viðskipti í um 30-50%. Óskert vísitölumæling frá ársbyrjun 2008-ársloka 2010 mun hækka verðtryggðu lánin um a.m.k. 30%. Fyrir liggur að skuldsetning yngri fjölskyldnanna í landinu var þannig að nærri 70% af þeim höfðu meira en 60% veðsetningu á sínum húseignum í ársbyrjun 2008. Auk þess er hátt hlutfall unga fólksins með verðtryggð námslán – sem eru kannski á bilinu 6-14 milljónir á hverja fjölskyldu. Fyrir árslok 2010 mun höfuðstóll lána hjá öllu þessu fólki verða umtalsvert hærri en mögulegt söluverðmæti eignanna – jafnvel svo munar 10-15 milljónum í mörgum tilvikum. Að óbreyttu liggur fyrir að greiðslubyrði alls þessa fólks verður óbærileg, jafnvel þótt menn haldi vinnu sinni og verði fyrir hóflegri tekjuskerðingu. Hluti hópsins mun geta haldið eignum sínum og staðið undir greiðslum í 20-30 ár – og þannig lifað við rýran kost. Sala eignanna framkallar hins vegar óumflúið tap sem vega mun varanlega að fjárhagslegri afkomu fjölskyldnanna til lengri tíma og setja einhverja endanlega á hliðina. (…) Það er tæplega umdeilt að hér ríkja neyðaraðstæður – sem réttlæta óvenjulegar og tímabundnar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Neyðaraðstæður kalla á róttækar og einfaldar lausnir. Slíkar lausnir eru til en mega ekki dragast mikið lengur. Handstýra verður með löggjöf þeirri »kreppuleiðréttingu« sem verðtryggðar lánaskuldbindingar taka á sig – til jafnræðis við önnur peningaleg verðmæti. Neysluvísitalan og samsetning hennar er verulega umdeilanleg viðmiðun og ótækt að miða við slíkan grunn í gegn um kreppuna og gengishrunið. Sanngjarnar og færar leiðir út yfir skelfingartímabilið geta verið tvær. Frysting vísitölu húsnæðislána mv. 1. mars 2008 leiðir til þess að höfuðstóll lána heldur nafnverði þess tíma. Frystingin mun samt ekki ein og sér koma í veg fyrir að höfuðstóll fasteignaláns hækki umfram verðmæti hinnar veðsettu eignar eins og spár gera ráð fyrir, en frestar því hins vegar og fækkar verulega slíkum tilvikum.“

Benedikt bendir á einfaldar leiðir til að minnka efnahagsvandann (nýjar vísitölur) en enn bólar ekki á neinum vitrænum aðgerðum frá hendi íslenskra stjórnvalda. Það er engin lausn að skera niður rekstur og þjónustu í helstu stofnunum þjóðarinnar, segja upp fólki og senda það á guð og gaddinn og herða svo að launþegum og húseigendum að skuldabyrðin verði óbærileg og lífskjörin óviðunandi. Ekkert þjóðfélag virkar án þess að þegnarnir séu vinnufærir, hafi húsaskjól, eigi kost á læknisþjónustu, menntun o.s.frv. Er leið Benedikts ekki vel fær?

3 athugasemdir

  1. Jú ég hefði haldið það.
    Það er bara alltaf verið að vernda fjármagnseigendur. Nú sem endranær í hægristjórn. Það er komi tími til að snúa þessu við og vernda skuldarana! Fjármagnseigendur fá nóg samt!

  2. Helvítis valdastólar. Það þarf að steypa þeim og þegar það er búið á að setja þá á brennu og því næst dreifa öskunni yfir flokksveldið

Skildu eftir svar við Jónína Ingibjörg Hætta við svar