Dubbeldusch

Stuð i sumarbústaðnum

Stuð í sumarbústaðnum

 

 

 

 

 

 

 

 

Við stormuðum í Hafnarfjarðarleikhúsið á föstudagskvöldið að sjá Dubbeldusch, íslenskt leikrit um týpíska Íslendinga að grilla og njóta lífsins í sumarbústaðnum sem verið er að gera upp. Einfalt plott, skemmtilegt og fyndið, farsi og pælingar í bland, beittara grín og meiri sársauki hefðu þó dýpkað stykkið. Harpa Arnardóttir fór á kostum í skemmtilegu hlutverki (aðeins ofleikur í restina), enda alveg frábær leikari. Ég gleymi ekki hvað hún var góð í Dauðasyndunum sem ég sá Borgarleikhúsinu í fyrra, snilldarleikrit og spuni í bland (gestasýning hjá LA á þessu leikári). Í Dubbeldusch fara ráðsett hjón í taugarnar hvort á öðru í sumarbústaðnum, hann skrifar söluvænar sjálfshjálparbækur þótt hann geti ekki hjálpað neinum, allra síst sjálfum sér, og gengur með skáldsögu í maganum, hún sötrar te og borðar speltbrauð, pælir í slúðri og smámunum. Bæði eiga sér leyndarmál, vonir og þrár sem þau deila ekki hvort með öðru. Þegar einkasonurinn kynnir þau fyrir tilvonandi tengdadóttur fara hjólin að snúast og örlög að ráðast. En hápunkturinn var þó þegar gemsinn hjá Soffíu byrjaði að hringja oní tösku. Ekki sleppa svona góðri kvöldskemmtun, lifi Hafnarfjarðaleikhúsið og Vesturport!

1 athugasemd

  1. Mér fannst þetta frábært leikrit og Harpa Arnardóttir er auðvitað snillingur, hún hélt þessu mikið til uppi ásamt pabbanum í leikritinu, fannst samt sterkt í lokin þegar mamman loksins þagnaði (eitthvað sem pabbinn hafði óskað sér lengi), þau sátu saman og áttu bara hvort annað að….

Skildu eftir svar við Gunna Hætta við svar