Pamuk og Málfríður

Ég gafst upp á Nafn mitt er rauður eftir Orhan Pamuk, tyrkneskan rithöfund og nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum 2006. Ekki það að bókin sé leiðinleg eða óskiljanleg, hún er bara hæg og langdregin og ég ekki í stuði fyrir hana þótt hún fjalli um morð og ástir og fornar bókmenntir. Sögumaður er einn í hverjum kafla og sömu atburðum lýst frá mismunandi sjónarhorni, skyldi Einar Kárason hafa fengið hugmyndina þarna að sögumönnum Ofsa? Í staðinn fór ég að lesa Auðnuleysingja og Tötrughypju eftir Málfríði Einarsdóttur sem samtals skrifaði sex bækur um ævina og sú fyrsta kom út þegar hún var komin á áttræðisaldur.  Kannski aldalöng innræting kvenlegrar hógværðar og hlédrægni spili þar inn í? Merkilegur rithöfundur, margir kannast við Samastað í tilverunni eftir hana. Au. og T. fjallar um tvær guðsvolaðar manneskjur, sárafátækar og utangarðs. Skemmtilega hæðnisleg frásögn, fornt mál, frábær stíll og frjálsleg saga.
„Hann vaknaði við það að hún bar honum volgt sull í bolla og glerharða tvíböku frá Laugavegi tuttugu, því hana hafði hún fundið í neðsta horni í einum af sínum tuttugu bréfpokum, aldrei áræddi hún að biðja um plastpoka í búðinni. Þessu kom hún ofan í manninn hálfsofandi með draum í reifum inni í brjóstinu. „Áttu ekki meira?“ sagði maginn, svo feginn sem hann varð. „Það er víst ekki, nema þú viljir hana Tötrughypju,“ svaraði hann af bölvun sinni því honum var orðið illa við maga sinn svo oft sem hann hafði haldið vöku fyrir honum galtómur…“

Sérkennileg saga

Sérkennileg saga

2 athugasemdir

  1. Málfríði gleypti ég í mig á unglingsaldri, ástæðan var sú að ein bókin hennar heitir „Bréf til Steinunnar“. Svona er maður sjálfhverfur en þetta varð að minnsta kosti til þess að ég kynntist þessum sérstæðu skrifum. Smá guðbergskt á köflum meiraðsegja.

  2. Þau Guðbergur voru víst mestu mátar að mér skilst og hafa væntanlega orðið fyrir áhrifum hvort af öðru, tveir merkisrithöfundar. En ertu búin að reyna við Pamuk? Doldið Þúsund og ein nótt dæmi…

Skildu eftir svar við steinunninga Hætta við svar