Ég er mikill aðdáandi skáldverka Gyrðis Elíassonar. Frá því ég las Bréfbátarigninguna í Kennó á níunda áratug siðustu aldar varð ég algerlega heilluð af sagnaheimi hans og frásagnarhætti. Það er hægt að gleyma sér algerlega í sögum hans og ljóðum, litum og myndum, tónum og táknum, vísunum og tengingum. Söguþráðurinn tekur óvæntar dýfur, persónurnar eru daprar og einmana, misskildar og sérvitrar. Það er alltaf eitthvað undirliggjandi, spenna og ógn, sem heldur manni í helgreipum. Lauk við Milli trjánna á dögunum og er í fyrsta skipti tvístígandi. Sögurnar í bókinni eru fullmargar og mér fannst þær misgóðar. Náði ekki tengingu við þær allar eins og ég er vön en flestar eru reyndar magnaðar. Húmorinn, ljúflegur en lúmskur textinn, bæld sorg, biturð og reiði, dapurlegar persónurnar, þetta er allt á sínum stað en hvað er ég þá að væla? Ég ætla að gefa bókinni meiri tíma, maður les ekki Gyrði á hlaupum. En ég vona að hann fái bókmenntaverðlaunin 2009 sem hann er tilnefndur til, þetta er náttúrulega snillingur.
Hefurðu lesið Bankster?
Hvernig er hún?
Bankster hefur marga góða kosti. Ég hef ekki séð rökstuðninginn með því að verðlauna hana umfram aðrar sem tilnefndar voru.