Einstök veðurblíða í dag, hvítasunnudag. Það var kominn tími á viðhald og garðvinnu. Ég reytti arfa og stakk upp hvönn og fífla, Brynjar smúlaði planið og svalirnar, skóf mosa og fíflabeð. Inga og Arwen skottuðust í kring.Undir kvöld vorum við bæði sólbrennd, rifin og rispuð, með brotnar neglur, bakveik og lemstruð en alsæl með árangurinn.
Dugnaður er þetta! Ég held ég hafi nú aldrei verið svo fræg að sjá þennan garð, nú verður maður að koma og taka út verkið…
Þetta er víst ekki hvönn heldur kerfill. En vertu velkomin ævinlega, sólbekkirnir komnir á svalirnar og í gær mældist 34 stiga hiti í sólinni – til hvers er alltaf verið að mæla í skugganum?
Hér er ekki sól – bara skuggi og hitinn í honum mælist 1 gráða, stöku snjókorn slítur úr blýgráum himni, kerfillinn vex ekki einu sinni í þessum kulda. Spurning hvort eldfjallinu hefur tekist að kljúfa landið í tvennt, þið komin suður fyrir Azoreyjar og við norður undir Svalbarða?
Ef „sumarið“ verður eins og í fyrra flyt ég með mann, börn og hund í garðinn hjá þér!
Komdu fagnandi!