Ég horfi á allt danskt í sjónvarpinu. Nú er það Anne Mad sem ég sit slefandi yfir. Anne er ástriðufullur sjónvarpskokkur og nautnabelgur sem hefur skrifað 6 matreiðslubækur. Fyrr í kvöld var Nigella í sjónvarinu að sulla einhverju saman úr krukkum og dósum en Anne býr m.a.s. til sitt eigið hnetusmjör og er bara ligeglad. Snilldarlax með sesamloki og andabringusalat með mangó er einfalt, hollt og gott, og nú á íslensku:
Andabringusalat með mangó
Ein sæmilega stór andabringa, olía til steikingar
Bringan er skorin þvert í tæplega fingurbreiðar sneiðar (með fitunni), sneiðarnar fyrst steiktar á pönnu og síðan marineraðar.
Marinering: Smá hoisin-sósa, smá chili-sósa (sæt) og safi úr 1-2 læmi. Blandað saman í skál og kjötið látið kólna í marineringunni. Andabringusneiðunum er síðan raðað ofan á salatið
Salatið: Nokkrar lúkur af salati (t.d. rúkóla, spínat, iceberg o.fl.), nokkur myntu- og kóríanderblöð, læm-blöð (fást frosin), sítrónugras, chilipipar og vorlaukur, allt mjög smátt skorið, 1-2 mangó í bitum
Salatið sett á fat ásamt kryddjurtunum. Mangó skorið í bita og dreift yfir salatið. Síðan eru ylvolgar andabringusneiðarnar lagðar ofan á, safanum af bringunum og marineringunni hellt yfir og að lokum er smátt skornu grænmetinu og kryddjurtunum stráð yfir.
Lax með sesamloki
1 vænt laxaflak, ristuð sesam- og sólblómafræ, sæt chilisósa, sæt soyasósa (ketjap), safi úr 1-2 læmi
Laxaflakið lagt á smjörpappír í ofnskúffu með roðhliðina niður. Fræblandan er ristuð á þurri pönnu þar til fræin verða stökk og gullin. Chili- og soyasósu og læmsafa blandað saman þar til úr verður mauk. Þykku lagi af maukinu er smurt ofan á laxaflakið, bakað í ofni við 200 í ca. 15-20 mín.