Uppskriftir

Mínar eigin, ekki verið prófaðar á dýrum

Mulningsbaka Nadiyu

half_a_pear_crumble_83241_16x9.jpgSá þessa í sjónvarpinu!

Flysja perur (hálf á mann) og skera í tvennt og hita í potti, í eplasafa eða rauðvíni í ca hálftíma með vanillu úr einni stöng

25 g smjör og  25 g hveiti og 25 g hrásykur og 100 grömm af múslí hrært saman

Veiða perur upp og setja í eldfast mót og nota safann í pottinum til að búa til sýróp með 150 g af hrásykri, hita rólega þar til það er orðið að karamellu

Setja marsipankúlu (eða eitthvað gott) í holurnar á perunum og klessa deiginu oná, inn í ofn í 20 mín.

Taka út, einn peruhelmingur á mann með ísskúlu og sýrópi.

 

 

 

 

Letipasta

Ef þetta er ekki rétti kvöldmaturinn á blautu og hvössu sunnudagskvöldi, þá veit ég ekki hvað það ætti að vera. Allt í einum potti, ótrúlega einföld og fljótleg matreiðsla.

2013-07-02-22-11-51

http://grgs.is/2013/07/02/letipasta/

Þetta mallar núna og tekur svo stuttan tíma að ég er varla byrjuð á Montes Reserva, 2014 Merlot frá Chile sem er afskaplega flauelsmjúkt og bragðgott. Er einhver sem vill koma og snarla með mér?

 

 

 

 

Einfaldur grænmetisréttur með karrýi

Einfaldur grænmetisréttur var á borðum í gærkveldi. Karrímauk og olía á pönnu. Hálfþreytt grænmeti úr ísskápnum: hálfur laukur,  hálft epli, hálf sæt kartafla skorin í strimla, 3 skorpnar gulrætur, frekar óþroskað avokadó, 1-2 hvítlauksrif og kjúklingabaunir sem ég á alltaf til soðnar og frystar. Steikt mjúkt, ein dós kókosmjólk yfir og látið malla. Bæta við 3-4 niðursneiddum döðlum og 10 rúsínum. Kryddað með meira karrýi ef vill og kóríander, kókosmjöli stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram.

Rétturinn kraumar á pönnunni

Gunna borðaði með okkur og lét vel af sér

Grilla eitthvað nýtt

Það er hægt að grilla fleira en kjöt og pylsur. Þessa uppskrift rakst ég á um daginn:

Grillaðar sætar kartöflur

  • 3 sætar kartöflur, með hýði
  • Salt
  • 2-4 tsk rifinn börkur af læmi, hvað viltu hafa þetta sterkt?
  • cayennepipar eftir smekk
  • olía, 1 dl ca
  • nýmalaður pipar
  • kóríander, ferskt og fínsaxað

Sjóða kartöflurnar í léttsöltu vatni þar til þær eru soldið mjúkar, kæla. Blanda saman salti, rifnum læmberki og cayenne pipar í skál. Skera hverja kartöflu langsum í sneiðar (með hýðinu á). Leggja þær á heitt grill. Pensla kartöflurnar með olíu. Grilla í ca 1-1/2 mínútu á hvorri hlið.  Færa yfir á disk, krydda strax með saltblöndunni og strá síðan fersku kóríander yfir.

Hollar smákökur

Þessar verða búnar á morgun

Til að gera „hollar“ smákökur er þjóðráð að nota spelt  i staðinn fyrir hveiti, hrásykur í staðinn fyrir sykur, vínsteinslyftiduft, og smjör eða kókosolíu í staðinn fyrir smjörlíki. Nota svo 70% súkkulaði og duglega af hnetum og möndlum, döðlum og rúsínum, hafragrjónum og kókosi. Kökurnar verða mýkri og geymast e.t.v. ekki eins lengi en hver er að geyma smákökur inn í eilífðina? Tvær sortir úr kökubók Jóa Fel lágu kylliflatar í kvöld: döðluspes og konfektsmákökur.

Speltbrauð með tilbrigðum

Hér kemur margumbeðin uppskrift að speltbrauði Sólveigar Eiriks sem hefur verið á borðum í Nuskin-kynningum hjá mér. Uppskriftin er á bls. 58 í Grænn kostur Hagkaupa.

5 dl spelt (fínt eða gróft eða bæði)

1 dl bragð- og þurrefni eins og t.d.  músli, sesamfræ, kókosmjöl, hafragrjón, graskersfræ, birkifræ eða annað sem til er í skápnum, rúsínur, 3-4 döðlur og rifin gulrót gera kraftaverk, líka gott að setja sólþurrkaða tómata, hvítlauk eða  ólífur

3 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk sjávarsalt (ég set líka krydd frá Pottagöldrum, t.d. ítalskt eða pastakrydd, og smá kúmen. Sumir setja örlítið agavesýróp)

1,5-2 dl sjóðandi vatn

1,5-2 dl ab-mjólk eða soyjamjólk eða bæði

Setja þurrefnin í skál (svo döðlur (smátt skornar), rúsínur, rifin  gulrót o.fl.), bæta vökvanum við (vatnið síðast). Hræra lítið og hella svo í aflangt form. Baka í ca hálftíma við 200°C.

Anne mad á íslensku

Ég horfi á allt danskt í sjónvarpinu. Nú er það Anne Mad sem ég sit slefandi yfir. Anne er ástriðufullur sjónvarpskokkur og nautnabelgur sem hefur skrifað 6 matreiðslubækur. Fyrr í kvöld var Nigella í sjónvarinu að sulla einhverju saman úr krukkum og dósum en Anne býr m.a.s. til sitt eigið hnetusmjör og er bara ligeglad.  Snilldarlax með sesamloki og andabringusalat með mangó er einfalt, hollt og gott, og nú á íslensku:

Andabringusalat með mangó

Ein sæmilega stór andabringa, olía til steikingar

Bringan er skorin þvert í tæplega fingurbreiðar sneiðar (með fitunni), sneiðarnar fyrst steiktar á pönnu og síðan marineraðar.

Marinering:  Smá hoisin-sósa, smá chili-sósa (sæt) og safi úr 1-2 læmi. Blandað saman í skál og kjötið látið kólna í marineringunni. Andabringusneiðunum er síðan raðað ofan á salatið

Salatið: Nokkrar lúkur af salati (t.d. rúkóla, spínat, iceberg o.fl.), nokkur myntu- og kóríanderblöð, læm-blöð (fást frosin), sítrónugras, chilipipar og vorlaukur, allt mjög smátt skorið, 1-2 mangó í bitum

Salatið sett á fat ásamt kryddjurtunum. Mangó skorið í bita og dreift yfir salatið. Síðan eru ylvolgar andabringusneiðarnar lagðar ofan á, safanum af bringunum og marineringunni hellt yfir og að lokum er smátt skornu  grænmetinu og kryddjurtunum stráð yfir.

Lax með sesamloki

1 vænt laxaflak, ristuð sesam- og sólblómafræ, sæt chilisósa, sæt soyasósa (ketjap), safi úr 1-2 læmi

Laxaflakið lagt á smjörpappír í ofnskúffu með roðhliðina niður. Fræblandan er ristuð á þurri pönnu þar til fræin verða stökk og gullin. Chili- og soyasósu og læmsafa blandað saman þar til úr verður mauk. Þykku lagi af maukinu er smurt ofan á laxaflakið, bakað í ofni við 200 í ca. 15-20 mín.

Mangóís

Nú er 6 vikna átakið í Hreyfingu búið og antisportistinn búinn að kaupa 6 vikur í viðbót. Enda orðin svo löguleg og liðug og búin að ná af mér tilætluðum 2 cm. Ísskápurinn okkar gaf upp öndina í gær og til að bjarga rjómaslettu og þroskuðu mangói frá eyðileggingu prófaði ég að gera mangóís eftir uppskrift sem ég fann á netinu. Ég átti ekki sítrónusafa sem gert er ráð fyrir í uppskriftinni en notaði smá steyttan rósapipar, mér finnst það mætti vera meiri rjómi og minni mjólk (skítt með alla centimetra), en hér er uppskriftin:

 
1  þroskað mangó, flysjað og steinhreinsað, skorið í bita
90g (hrá)sykur
2 matskeiðar hunang
2 matskeiðar sítrónusafi
50ml rjómi (má vera meiri rjómi)
200ml nýmjólk
1 eggjarauða

Maukið mangóið saman við sítrónusafann, sykurinn, hunangið, mjólkina og eggjarauðuna. Hrærið rjómanum saman við. Passið vel að allt sé vel blandað saman. Fryst (tekur 3-4 klst að frjósa). Það þyrfti að vera einhver góð sósa með þessu, einhver?

Mangóísinn gerði góða lukku