Elínborg Lárusdóttir

Í Sól í hádegisstað (1960) og Dag skal að kveldi lofa (1961) eftir Elínborgu Lárusdóttur segir frá merkishjónunum Þuríði og Hákoni sem búa rausnarbúi í Dal á sautjándu öld. Óðalið Dalur stendur hæst í sveitinni, bæjarstæðið er gott, tún grösug, kostajörð. Þau hjónin eiga einn son barna sem Stefán heitir, hann er þrjóskur og fylginn sér, einrænn, fámáll og dulur en ekki ómyndarlegur þótt hann sé samanrekinn og ekki mjög hávaxinn. Hann leggur hug á Sólveigu á Máná, undurfagra dóttur fátæks prests en hún ann öðrum manni, Árna sem er flautaþyrill, bráðmyndarlegur en sárafátækur og faðir hennar neitar þeim að eigast. Stefán herðir sig upp í að biðja hennar en er hafnað og hefur Sólveig sjaldan séð annan eins þurs og þennan meðal sinna mörgu biðla. Á hlaðinu segir hann að ef henni snúist einhvern tímann hugur skuli hún skrifa sér. Sex árum og 2 lausaleiksbörnum síðar tekur hún bónorði hans og flyst sem tilvonandi húsfreyja í Dal, telpan hennar verður eftir hjá föðurómyndinni en drengurinn Benjamín fylgir henni. Stefán gerist harla glaður og reisir viðbyggingu, alla þiljaða innan, smíðar rúm og húsgögn, hleður vandaðar hlóðir og setur glugga í allar áttir. M.a.s. setur hann dyr sem þau ein nota og þurfa því ekki að ganga um hinn bæinn. Kvonfang sonarins er í mikilli óþökk Þuríðar sem finnst hann taka verulega niður fyrir sig með þessari viðbót í familíuna. Engu að síður tengist hún Benjamín Sólveigarsyni nánum böndum sem væri hann hennar eigið ömmubarn og kostar hann síðar til náms en aldrei sýnir hún honum blíðuhót svo aðrir sjái. Hákon er drengur góður og amast aldrei við Sólveigu heldur gleðst fyrir hönd sonar síns sem ella væri ókvæntur til æviloka því enga vill hann aðra fyrir konu. Tengdamæðgurnar talast ekki við árum saman en ástin dafnar hjá ungu hjónunum sem eignast 2 syni til viðbótar og Sólveig iðrast stolts síns og hroka forðum, brýtur odd af oflæti sínu og leitar loks sátta hjá Þuríði sem aldrei hefði sjálf stigið það skref að fyrra bragði. Sagan endar því vel, Hákon er orðinn gamall og sér fram á að sonurinn muni búa rausnarbúi áfram á ættaróðalinu, Þuríður er sátt og ungu hjónin alsæl. Þessar  bækur eru að mestu leyti lausar við þann predikunartón sem finna má í nokkrum verka Elínborgar. Aukapersónur eru eftirminnilegar, ss séra Geir og kona hans, madama Jóney sem er illgjörn blaðurskjóða, bláfátæk og sísvöng, og Beta sem er laundóttir bróður Hákonar og elskar Stefán frá barnæsku, Jóna yfirsetukona á Mýri, umburðarlynd og kærleiksrík, gömlu konurnar Þrúður og Ástriður og sýslumaðurinn á Skálá sem á að vísa til Skúla fógeta en nokkrir sannsögulegir atburðir eru í sögunni um samskipti hans við óðalsbóndann. Lýsingar á aðbúnaði, híbýlum, klæðnaði og mat eru afar nákvæmar og langar og lýsa vel aldarfarinu. Hungur, eldgos og vosbúð, flakkarar verða úti og dóu margir úr „ófeiti“. Sagan er í tveimur bindum og nokkuð langdregin á köflum, minnir um margt á bækur Guðrúnar frá Lundi og Jóns Thoroddsens, bæði hvað varðar stíl, efnistök, söguheim, byggingu, þema og persónusköpun. Þær eru mjög gott efni í hefðbundna bókmenntagreiningu auk þess sem hægt er að fjalla um samfélag sögunnar og greina bælingu, höfnun, græðgi og fýsnir. Kjarngóð sveitaíslenska einkennir bækur Elínborgar, snaggaraleg samtöl, dásamlegir búskaparhættir og þjóðlegur bragur er á persónunum og sögumaður sér í huga þeirra allra. En stundum er eins og Elínborg missi þráðinn eða gleymi hvað hún ætlaði sér með persónurnar, örlög Betu og maddömu Jóneyjar verða t.d. endaslepp í sögunni.

„Elínborg fæddist 12. nóvember 1891 að Tunguhálsi, Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. 15 ára gömul  fór hún í Kvennaskólann á Blönduósi og síðan í Kennaraskólann í Reykjavík. Hún bjó meirihluta ævi sinnar í Reykjavík og lagði stund á ritstörf. Hún gaf á rithöfundaferli sínum út yfir 30 bækur og voru verk hennar fjölbreytt. Helst má nefna sögulegar skáldsögur hennar, sem höfðu skagfirskt mannlíf og náttúru sem viðfangsefni. Hún fjallaði einnig mikið um dulræn fyrirbæri og sálarrannsóknir, sérstaklega á síðari hluta rithöfundarferlis síns. Elínborg lést 1976, þá 85 ára gömul. Sama ár kom síðasta bók hennar út. Elínborg var ástsæll og mikið lesinn höfundur á sínum tíma, en ekki áttu verk hennar uppi á pallborðið hjá menningarvitum samtímans þegar þau komu út. Það á hún sammerkt með mörgum kvenrithöfundum sem stigu fram á ritvöllinn á fyrrihluta síðustu aldar og fram yfir hana miðja. Elínborgu og verkum hennar hefur ekki verið gerð mikil skil, hvorki af bókmenntafræðingum né öðrum“ (http://www.feykir.is/archives/10817). Ekki er hún meðal höfunda á bokmenntir.is og ekkert um hana á Wikipedia.

4 athugasemdir

  1. Bækurnar um Dalsfólkið eru fleiri – held þær séu fjórar -segja frá börnum Stefáns og Sólveigar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s