Þessa dagana er ég að lesa Married to Genius eftir Jeffrey Meyers (2005). Spennandi titill sem ég rakst á á bókasafninu. Ég er búin að lesa um hjónabönd Tolstoy, Shaw, Conrad, Joyce og Woolf. Kvenrithöfundar eru 20% viðfangsefna bókarinnar og er sýn á eiginkonur karlskálda frekar einhæf. Þær bera ekkert skynbragð á bókmenntir og listir, eru vergjarnar eða kynkaldar, nískar, gráðugar og skilningslausar. Sofia Tolstoy var móðursjúk og snobbuð og gerði manni sínum lífið leitt þegar hún vildi að hann sinnti börnum þeirra 13, Bernard Shaw giftist vellríkri, kynkaldri konu og lifði munklífi í 45 ára hjónabandi, hún var tryllt af afbrýðisemi og athyglissýki en hann sjálfur kvenhræddur furðufugl, Nora Joyce var gróf alþýðustelpa sen bar ekkert skynbragð á snilli manns síns, nennti aldrei að lesa bækurnar hans þótt hún fílaði klámfengin sendibréf hans og Virgina Woolf var misnotuð í æsku, hneigðist til kvenna og hryllti við kynlífi með manni sínum, Leonard, sem annaðist hana þolinmóður í endalausum þunglyndisköstum. Joseph Conrad átti hins vegar ágæta konu (mömmutýpu) sem hugsaði vel um hann og vini hans, ól upp börnin og sá um heimilishaldið þegjandi og hljóðalaust. Ég á eftir að lesa um hjónabönd Mansfield, Lawrence, Hemingway og Fitzgerald. Þetta er eins og Séð og heyrt frá 20. öld, safaríkt og slúðurkennt, stuðst er við ýmsar heimildir og birt brot úr bréfum og dagbókum. Stundum er farið á flug og sjálfsævisöguleg atvik tengd við frægar persónur úr verkum viðkomandi. Höfundurinn segir í inngangi að ýmist hafi hjónabandið verið snillingunum skjól og staðfesta (þegar eiginkonurnar voru hógværar og heimilislegar) eða sífelld ögrun og áskorun (þegar þær voru skapandi og sjálfhverfar). Þetta er heldur einföld niðurstaða og ekki laust við að hún sé lituð af gömlum klisjum.