Lífsins tré

Sjónvarpsdagskráin á rúv í gærkvöldi var alveg hörmung. Ekki var hundi út sigandi svo ég kúrði undir teppi og horfði á Tree of Life í leikstjórn Terence Malick, alveg furðulega mynd með Brad Pitt o.fl. Í myndinni eru sýnd brot eða svipmyndir af O´Brien-fjölskyldunni í Bandaríkjunum á 5.-6. áratugnum, þrúgandi ást drottnandi föður á bældum sonum og áhrifum þess á uppvöxt og sálarlíf elsta sonarins aðallega. Móðirin (Jessica Chastain) er ljúf og góð og heimilislífið  þægilegt þegar pabbinn er að heiman.  Elsti sonurinn er þverlyndur, afbrýðisamur og þráir viðurkenningu föður síns. Fjölskyldan verður fyrir miklu áfalli þegar miðsonurinn deyr 19 ára að aldri og það hvílir á þeim eins og mara. Í myndinni eru langdregnar trúartengingar, s.s. um upphaf heimsins með tilheyrandi syndaflóði og um miklahvell og loftsteina, og þar má m.a. sjá mörg glæsileg myndbrot af íslensku landslagi. Fæðing heimsins tengist fæðingu barnanna, alheimurinn og litla fjölskyldan eru samtengd og annað spegla hitt. Margar senur sýna glæsileg mannvirki og manngert umhverfi andspænis fegurð náttúrunnar. Sean Penn leikur elsta soninn á fullorðinsaldri, hann er ráðvilltur, dapur og leitandi og mælir ekki orð af vörum í myndinni. Brad er enginn súkkulaðidrengur í þessari mynd, með skúffukjaft og nasistahár og sýnir stjörnuleik. Persónurnar tala lítið saman en beina orðum sínum að áhorfendum eða út í tómið og spyrja samhengislausra spurninga um lífið og tilveruna, sekt og sátt, dauðann og ástina. Myndin er hlaðin táknum, t.d. tréð í garðinum, sjórinn, þröngar dyr, háaloft, brú, ljós og skuggar o.s.frv. Í lokin er dramatísk sena í flæðarmáli sem líklega táknar sáttauppgjör við fortíðina. Þessi mynd er eingöngu ætluð mjög þolinmóðum áhorfendum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s