Nútíminn er trunta

Nútíminn-er-truntaÉg var alveg við það að gefast upp á Nútíminn er trunta eftir bandaríska rithöfundinn Jennifer Egan  (Pulitzer 2011) en hélt það út og það var þess virði. Þetta er tætingsleg skáldsaga þar sem hver kafli fjallar um eina persónu sem þekkir hinar persónurnar meira eða minna, gegnum vinnuna, af tilviljun eða síðan á djamminu í gamla daga. Djammhópurinn var flottur, átti sér stóra drauma um frægð og frama en þeir sem mestar vonir voru bundnar við brugðust, vegna fíknar eða minnimáttarkenndar, getuleysis eða hreinlega vegna þess að tíminn hljóp frá þeim. Tíminn er miðjuhugtak verksins, sagan hefst í miðjunni og breiðist út þaðan, það er enginn endir eða upphaf. Sjónarhornið er margvíslegt, stíllinn margbreytilegur, frásagnarhátturinn ólíkur milli kafla og ein persónan segir sögu sína með PPshowi. Persónurnar eru miklir töffarar á pönktímanum, það er auðvelt að vera ungur og gagnrýna og vera á móti öllu snobbinu og smáborgarahættinum, tryllast í tónlistinni og stuðinu og vera sama um allt. Svo sogast menn inní meðalmennskuna og sitja miðaldra uppi með fjölskyldu og ábyrgð sem breytir öllu. Persónurnar eiga hver sína sorgarsögu um vanrækslu, missi eða fíkn. Bosco og Scotty Hausmann hafa tónlistarhæfileika en hafa sóað tíma sínum í djamm og dóp en hyggjast nú snúa aftur, snúa á tímann. Það er alltaf eitthvað sorglegt við það, ef það mistekst er það algjör höfnun og glötun. Benny, umboðsmaður þeirra, má muna sinn fífil fegri, hann er bæði skemmdur af rugli og þjáður af minnimáttarkennd vegna uppruna síns. Svo er Sasha hin fagra sem tengist öllum, með skuggalega fortíð og enga framtíð. Þýðingin rennur vel og hefur örugglega verið erfitt viðfangsefni þar sem öllu ægir ssman en titilinn er eitthvað á skjön án þess að ég hafi betri lausn, vísun í Proust í verkinu hefði kannski átt að leiða þýðandann þangað.  Bókin heitir  A Visit from the Goon Squad á ensku sem er enginn hægðarleikur að þýða en tengist gengjum, hópi ofbeldis- og misyndismanna, smákrimmum. Þetta er erfið lesning en mikil upplifun og mustread, góð úttekt á bókinni hér.

3 athugasemdir

  1. „Mustread“ er ofmælt, ég var engu bættari eftir þessa bók. Svo sem ekkert verri heldur. Ég er sumsé að meðaltali alveg eins eftir lesturinn…

  2. Gott að þú ert samur við þig, bara ágætur eins og þú ert. Það er góð bók sem breytir einhverju í hænuhaus lesandans.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s