Arngrímur Jóhannsson frá Tunguseli, oftast nefndur Grímsi í Hvammi, lést á Þórshöfn 7. mars 2010. Ég ætlaði að skrifa minningargrein um hann á sínum tíma og byrjaði á því sem hér fer á eftir.
Ég kynntist Grímsa vel þegar ég var tengdadóttir í Hvammi á níunda áratug síðustu aldar. Hann var einn af þessum sveitamönnum sem mundi tímana tvenna, torfbæi og vinnumennsku, fátækt og sjálfsþurftarbúskap. Hann var ungur þegar dráttarvélar komu fyrst í plássið og ollu byltingu í öllum vinnubrögðum til sjávar og sveita til blessunar fyrir landslýð. Hann lagði alltaf inn í sitt kaupfélag og sparisjóð og bjó alla tíð í sinni sveit, ógiftur vinnumaður og barnlaus. Ekki eltist hann við efnisleg gæði eða veraldlega hluti. Hann átti gúmmískó og vinnuslopp sem hann brá utan yfir sig þegar mikið stóð til. Honum þótti gott að borða góðan mat og fá sér svo kaffi í glas og svæla pípustert á eftir í hægindastólnum sínum. Oft stóð hann með kaffiglasið eða pípuna við eldhúsgluggann og horfði út yfir sveitina sína. Hann las tölvuvert en best naut hann sín við sveitastörfin, slegin tún, ilmandi hey, drifhvít lömb og kumrandi rollur voru hans líf og yndi. Hann vann með sínu lagi, hægt og af þrjóskulegri seiglu. Alltaf hafði hann áhuga á því hvað Óttar sonur minn var að brasa og fannst pilturinn sá vera óumdeilanlegur snillingur. Þegar ég hitti á hann í síma seinni árin sagði hann alltaf helstu fréttir af fólkinu í Hvammi, síðan af veðrinu og spurði síðan: „hvenær kemurðu svo í heimsókn, Steina mín?“
🙂 vel sagt