SKAM-æðið

Nú geisar SKAM-æði á Íslandi. Allir hafa séð þessa norsku sjónvarpsþætti, allir elska þá, ungir sem aldnir. Yfir sjö þúsund manns eru í íslensku SKAM-aðdáendagrúppunni á facebook. Þrjár seríur eru í sarpinum á Rúv og sú fjórða á leiðinni. Og ef maður byrjar að horfa, er engin leið að hætta.

SKAM segir frá nokkrum unglingum í Hartvig Nissen-menntaskólanum í Ósló. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum eru hressar stelpur að unglingast, hamast í símanum og tölvunni, verða ástfangnar, djamma og sofa hjá. Þær eru líka að reyna að þóknast, fá viðurkenningu, vera mjóar og vinsælar en ekki druslur. Í þriðju seríu er kastljósið meira á strákunum, sem eru nokkurn veginn í sama gírnum . Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi eða frumlega, hvað er það við þetta efni sem verður til þess að það fer eins og eldur í sinu um alla heimsbyggðina?

Það er markaðssetningin og máttur samfélagsmiðlanna sem skapa þessar gríðarlegu vinsældir. Áður en þættirnir fóru í loftið voru þeir kynntir á heimasíðu þáttanna og öllum samfélagsmiðlum og markhópurinn var aðallega ungar stúlkur. Aðalpersónur þáttanna eru með instagram og facebook-prófíl sem þúsundir fylgja þar sem má sjá efni úr skálduðu lífi þeirra á degi hverjum áður en það birtist svo í heild í sjónvarpinu/netinu. Allt gerist hægt í þáttunum sem eru í dogmastíl, það eru langar þagnir, svipbrigði sem fá svigrúm og slómó-senur sem skapa stemninguna og tilfinningu fyrir rauntíma, raunsæi og trúverðugleika. Átta manna harðsnúið lið sér svo um að halda samfélagsmiðlunum á fullu stími allan sólarhringinn. Samt er þetta ódýrasta þáttagerð sem NRK hefur nokkurn tímann ráðist í.

Handritshöfundurinn, Julie Andem, lagði á sig mikla rannsóknarvinnu áður en hún skrifaði þættina. Hún las ótal skýrslur um hag og líðan unglinga og tók viðtöl við fjöldann allan af norskum skólakrökkum til að komast sem næst veruleika þeirra. Handritið er líka ansi gott,  bæði sannfærandi, dramatískt og fyndið en líka sárt. Margar persónanna bera harm í hjarta og þær eru einar á báti, eiginlega munaðarlausar eins og t.d. bæði Noora og William. Þarna er allt þetta vandræðalega frá unglingsárunum sem allir kannast við, eins og bólur, blankheit og standpína. Og Skömmin er alls staðar, í hremmingum Nooru, í sjálfsmynd Vildu, að Eva stakk undan Ingrid og er alltaf blindfull í partýum, í kynhneigð Isaks og fortíð Williams. Múslimastúlkan Sana hins vegar skammast sín ekki fyrir neitt og Chris, sú þybbna, er algjör nagli með sjálfstraustið í lagi. Eskild, meðleigjandi Nooru og seinna Isaks, er afar vel gerð persóna, bæði fyndinn og klár, og svo er hjúkrunarfræðingurinn í skólanum frábær karakter.

Skömmin setur mark sitt á líf allra, líka kynlífið enda vita allir að norskir strákar sleikja ekki píkur þótt þeir vilji hins vegar ólmir fá tott. Í þáttunum er fjallað um mikilvæg mál á mannlegum nótum, svo sem staðalmyndir, fordóma, lystarstol, femínisma og hrelliklám.

Það er mikill kostur að karakterarnir eru venjulegir í útliti. Sumir eru laglegir en ekki eins og í mörgum amerískum sjónvarpsþáttum þar sem áherslan er á hár, förðun og merkjaföt og allir líta eins út. Og það er enginn hamingjusamur hollywood-endir á hlutunum í Skam. Heyrst hefur að í bígerð sé að gera ameríska útgáfu af þáttunum, sem er algjör katastrófa þar sem Skam er einmitt andsvar við sápuóperum Kananna þar sem fólk er matað á glysi.

Þýðing Matthíasar Kristiansen á fyrstu tveimur þáttaröðunum er ansi klaufaleg og gamaldags en Erla E. Völudóttir þýðir þriðju seríuna lipurlega. Ennþá er hægt að sjá þættina á rúv.is en að hika er sama og að tapa því þeir verða þar ekki til eilífðar.

Leyfðu ljúfum markaðsöflum að heilla þig með Skömm, taktu prófið HÉR; hvaða SKAM-persóna ert þú?

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s