Pottþéttur sumarsmellur

hvit_fidrildi_72-646x1024Hvít fiðrildi er ástarsaga um Gus og Tess sem rekast hvort á annað á unglingsárum og síðan nokkrum sinnum aftur án þess þó að kynnast. Þau gætu orðið hið fullkomna par en margt kemur í veg fyrir það; ýmsar tilviljanir, undarleg örlög, misráðið val og slæmar ákvarðanir.  Bókin er pottþéttur sumarsmellur, dável þýdd, dramatísk og spennandi.

Aðalpersónur sögunnar eru vel mótaðar, breyskar og reikular í ráði. Sjónarhornið er til skiptis hjá hvoru þeirra, allt frá því þau sáust fyrst í apríl 1997 þar til í júlí 2013. Tess er í upphafi sögu á leið í háskólanám en allar fyrirætlanir breytast við dauða móður hennar. Þá verður það hennar hlutskipti að annast litlu systur sína og föður sem er eigingjarn og forpokaður drykkjusjúklingur. Gelgjan Gus burðast með sektar- og minnimáttarkennd vegna hins frábæra bróður síns sem lést af slysförum en þegar hann hunskast í læknanám til að þóknast plebbalegum foreldrum sínum fær hann tækifæri til að skapa sér bærilega framtíð.

Árin líða og leiðir þeirra Gus og Tess skarast af og til óafvitandi. Þau eiga í ýmsum ástarsamböndum sem fæst ganga upp, hann er bældur og  lyginn og sífellt á flótta frá sjálfum sér en Tess er huglaus, meðvirk og hefur lítið sjálfstraust. Þau skakklappast í gegnum lífið með öllu sem því fylgir á 500 blaðsíðum en dyggur lesandinn bíður alltaf í ofvæni eftir að þau taki af skarið.

Ástin er vissulega helsta þema sögunnar en ekki síður sorg og missir og hvernig ungt fólk tæklar slíkt; soldið eins og hvít fiðrildi sem flögra inn og út um gluggann og vita ekkert í sinn haus svo það er vel til fundið hjá þýðandanum, Höllu Sverrisdóttur, að poppa bókartitilinn upp (Miss you á frummálinu). Aukapersónur gefa sögunni lit og líf þótt þær séu ansi klisjulegar, s.s. hin skrautlega besta vinkona, Doll, einhverfa systirin Hope, kaldrifjaða framakonan Charlotte og litríki karakterinn og hjálparhellan Nash. Í heild eru Hvít fiðrildihugljúfasta afþreying sem óhætt er að mæla með fyrir hina óforbetranlegu rómantíkera heimsins.

Hvít fiðrildi

JPV

532 bls

Þýðandi: Halla Sverrisdóttir

 

Birt í Kvennablaðinu, 26. júlí 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s