Óhugnanlegur tvískinnungur

„Sá sem ræður yfir draumunum ræður yfir heiminum. Sá sem ræður yfir hárinu ræður yfir konunum. Sá sem ræður yfir frjósemi kvenna ræður líka yfir karlmönnunum. Sá sem heldur konum fullnægðum fullnægir líka karlmönnum og sá sem læknar hár- og barnsjúkar manneskjur er konungur þeirra“ (220)

-I-wish-the-Russian-peopl-009

Oksanen. Mynd: Sarah Lee (Guardian)

Sofi Oksanen hreppti bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2010 og er einn þekktasti samtímarithöfundur Finna (f. 1977). Hún segir sjálf að enginn nema Tove Janson, múnínálfahöfundurinn mikli, sé þekktari en hún. Oksanen hefur sent frá sér mergjaðar skáldsögur sem hafa hlotið heimsathygli. Í verkum sínum, sem eru beinskeytt og femínísk inn að beini, fæst Oksanen m.a. við sögu þjóðar sinnar, hlutskipti kvenna, ást og vald.

Skáldsaga hennar, Norma (2016) segir frá konu er reyndar ekki alveg normal að því leyti að hár hennar vex í metravís á degi hverjum. Þetta er hræðilegt leyndarmál sem hún felur vandlega fyrir umheiminum með tilheyrandi fyrirhöfn og angist. Í sívaxandi hárinu búa tilfinningar hennar, það getur sagt til um fortíð og framtíð fólks og virkar eins og lyf eða vímugjafi sé það klippt af og reykt í pípu. Hár er jafnan talið höfuðprýði og tengt kvenlegum þokka og erótík en það er bölvun fyrir Normu því fyrir utan fyrirhöfnina sem fylgir hinum öra vexti, er glæponinn frændi hennar í hárbissness og ef hann vissi af þessari náttúrulegri auðlind slyppi hún aldrei undan honum. Móður Normu tókst að forða henni frá því að lenda í klóm hans og verða sirkusfrík eða internet-meme en þegar hún deyr með voveiflegum hætti þarf Norma að taka til sinna ráða.

Í bókinni dregur Oksanen upp skuggalega mynd af útlitsbransanum sem veltir billjörðum á hverju ári. Það er ágætt að leiða hugann að því hvaðan lokkarnir koma sem fara í hárkollur, hárlengingar og gerviaugnhár í snyrtivöruiðnaðinum í Evrópu og hvernig hárið er meðhöndlað og verkað áður en það fer í neytendaumbúðir. Það er líka hollt að spá í launakjör stúlknanna sem vinna langan vinnudag í ódýrum nagla- og nuddstúdíóum sem hafa skotið upp kolli í götumynd flestra stórborga á síðustu árum. Í bók Oksanen er að auki vakin athygli á því að glæpamenn halda staðgöngumæðrum föngnum á „barnabúgarði“ þar sem konur frá Úkraínu, Búlgaríu eða Rúmeníu eru neyddar til að ganga með hvít börn fyrir ríkt fólk og Hollywoodstjörnur. Það er vissulega óhugnanlegur tvískinnungur að útlitsdýrkun og hégómi vestrænna kvenna verða til þess að kynsystur annars staðar í heiminum eru beittar gegndarlausu ofbeldi:

„Hárið sem límt var á höfuð þessara kvenna var ópersónulegt, andlitslaus hármassi, og þær vildu heldur ekki vita hverjum það hafði tilheyrt á undan þeim. Þær vildu ekki vita að einhver önnur hefði elskað, reiðst, vonað, grátið og látið sig dreyma með þessa sömu lokka, þær höfðu í mesta lagið áhyggjur af lúsum eða sjúkdómum. Marion hafði lagt áherslu á þetta þegar hún upplýsti Normu um leyndardóma hárþjónustunnar og gert hana orðlausa. Ekkert kvikindi lifði af meðhöndlun hársins sem útheimti að iðnverkafólkið sem vann við hana notaði öndunargrímur og samt sem áður höfðu kúnnarnir áhyggjur af lúsum, ekki uppruna hársins. Þessar sömu konur hrærðu þó egg úr frjálsum hænum í ommiletturnar sínar og lásu innihaldslýsingar nákvæmlega“ (122).

Samhliða frásögn af viðamikilli glæpastarfsemi frændans sem gengur út á að afhjúpa fegrunarbransann, er rakin hliðarsaga um fjölskyldu Normu sem burðast mann fram af manni með ættarskömmina sem fylgir töfrahárinu. Á köflum er sagan býsna ruglingsleg enda margir boltar á lofti. Frumleg hugmynd, brýnn boðskapur sögunnar og hörkuspenna halda lesandanum oftast við efnið en Norma er þó langt frá því besta frá Oksanen; atburðarásin er of reikul og brotakennd til að brýnt erindið skili sér almennilega, Norma sjálf er óttalegur vingull og sögulokin furðuleg.


Norma

Mál og menning

317 bls.

Þýðandi (úr finnsku): Sigurður Karlsson

 

Birti í Kvennablaðinu 14. apríl 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s