Ég var á hóteli og rakst á lítinn kassa. Þá mundi ég allt í einu eftir refunum mínum. Þeir voru tveir, pínulitlir, rauður og blár, og höfðu verið lokaðir lengi ofan í kassanum. Ég opnaði kassann og bjóst alveg eins við því að refirnir væru steindauðir. Þeir voru í einhvers konar dvala og bærðu strax á sér, spruttu svo upp eins og stálfjaðrir og hófu þegar að hlaupa tryllingslega um, soldið stífir í hreyfingum eins og þeir væru upptrekktir. Sá rauði var fjörugri. Ég óttaðist að ég mundi missa þá út úr herberginu og að þeir hlypu um hótelganginn öllum til ama. Ég hugsaði með mér að ég skyldi hvorki opna glugga né dyr herbergisins og hleypa þeim aldrei út fyrir þessa veggi. Hins vegar sá ég enga leið til að koma þeim í kassann aftur.