Það er dýrmætt að geta kynnt sér hæglega texta, ljóð og minningar skrifandi kvenna fyrri alda sem annars liggja í handritaskúffum á bókasafninu. Guðrún Ingólfsdóttir hefur búið endurminningar Helgu Sigurðardóttur á Barkarstöðum (1847–1920) til birtingar á vef Handritasafns LBS. Hér er textinn í heild. Þar segir m.a.:
Ég vildi óska þess að allir væru sem bestir og breyttu sem réttast og sanngjarnast hver við annan, þá væri þessi tilvera mörgum geðfelldari en oft vill verða og brestur einna mest kærleiksvöntunin. Ég finn það svo daglega hjá sjálfri mér og öðrum hvað ég læt sitja í fyrirrúmi að koma mínu fram en skeyti of lítið um aðra og er það af kærleiksleysinu. Þetta kemst þráfaldlega til tals á mínu fámenna heimili og er þá skoðanamunur. Hún vill hugsa meira um að gera náunganum þann greiða sem hún getur en mér hættir alltaf við að hugsa fyrst um hag minn áður en ég hjálpa öðrum. Þetta er áreiðanlega skakkt skoðað af mér og er ég oft hugsandi út af þessu þegar á elliárin er komið og máski heldur seint að iðrast eftir dauðann. Ég set það fyrir mig að ég hafi látið of lítið gott af mér leiða á meðan ég hafði meiri efni en nú orðið. Ég hef oft hugsað um það að ég álít nauðsynlegt að unga fólkið fái að læra það sem það hefur sterka löngun til að nema til þess að verða nýtari menn í mannfélaginu.
Ljósmynd af Helgu: Sarpur
