Grúsk dagsins

SVEFN

eftir Vilhjálm frá Skáholti

Hann kom svo þreyttur, þetta var um kvöld,
er þögull skugginn gamalt húsið vafði,
því það var haust, og mjöllin, mjöllin hvít
sinn mjúka feld á gluggann okkar lagði.

Svo var hans auglit dularfullt og dimmt,
sem dáinn vœri endur fyrir löngu,
án festu og kjarks sem þjáðum hug er hent,
að hafa með á lífsins píslargöngu.


Hann missti eitthvað innst úr hjartarót,
sem öllum stundum lífið hetju geymir,
Og sefur enn svo undur rótt sem fyr,
og allt er hljótt í kringum mann sem dreymir.


Hann, þessi maður, átti yfir fjöll
að arka um nóttu fyrir þjáða lýði,
en hversu bljúgur svefninn seig á brá,
var sorgleg upþgjöf manns i þeirra striði.


Sjá, langt i burtu, bak við myrkvuð fjöll
hans biða hjörtu stöðugt þjáð, og sakna.
Og hvað mun þá um þau sem biða hans,
ef þessi maður skyldi aldrei vakna?

Vinnan, 1948

Ólæs maður

„Hvers vegna er mönnum ekki talið það til gildis i skóla að vera vel að sér um land og þjóð? Tungumálakunnátta i eigu þeirra, sem eru ómenntaðir að öðru leyti, er þeim til harla litils þroska. Nema hvað þeir geta bjargað sér á erlendum gistihúsum. Enda eru þaö helztu rök þeirra, sem vilja kenna stirðlæsum börnum ensku, að sá, sem kann ensku, geti ferðazt um allan hnöttinn — hvaða erindi, sem ólæs maður á um allan hnöttinn.“

Oddný Guðmundsdóttir, 1978

Annáll þjóðhátíðarársins

Hvurgi er komið að tómum kofa hjá Oddnýju minni:

Með sóma er hátíðarárið á enda.

En á það mig langar þó snöggvast að benda,

sem áður var sannað i sextíu ræðum

og samhljóða lofað i rituðum fræðum.

Þær hljóðuðu svona, þær sextiu ræður,

og sægur af greinum og minningaskræðum:

(Ég segi það hérna i örfáum orðum,

i örlitlum brag til að syngja undir borðum).

Háttvirtu landar, nú hefur það sannazt,

að háöldruð þjóð getur endalaust mannazt.

Heilan dag stóðum við hljóðir og prúðir,

með hugann við Þingvalla fornhelgu búðir.

Við stóðum sem hetjur á stöðugum fótum,

í stað þess að skriða i vilpumog gjótum.

Þar voru engir fólar með víndrykkjublaður.

Það var ekki drepinn einn einasti maður.

Menn óku ekki: fullir á stokka og steina,

en stefndu í rétta átt götuna beina,

og vegmóðir fengu ekki vambfylli neina.

Nú veitti ekki Ríkið sinn þjóðlega beina.

Menn fóru ekki um tjöldin með ráni og rupli

og reyndu ekki að auðgast á smávegis hnupli.

Trjágróður var ekki rifinn með rótum,

og remma var engin frá sorphaugum ljótum.

Einhverjir bjuggust við allt öðrum fregnum

af íslenzka ríkisins kynbornu þegnum.

Nú er ekki blessaður Frónbúinn feiminn.

Frægð okkar berst út um gjörvallan heiminn.

 

Oddný Guðmundsdóttir, 1974

Mannlýsing

Ég þekkti Hallgrím vel, og við vorum alltaf kunningjar, og hafði ég alltaf gaman að sjá hann og tala við hann. – Hann var að mörgu leyti merkilegur maður og öðruvísi en fólk er flest. Heldur var hann lítill vexti og grannholda, en svaraði sér heldur vel. Dálítið var hann tileygður og blindur á öðru auga frá æsku, hafði lítinn en fallegan hnakka, allmjög var hann útskeifur, en hnén mjög náin.

Úr Heimdraga II, 1965, bls. 71.

Cavling svalt sig í hel

download (17)„DANSKI ástarsöguhöfundurinn Ib Henrik Cavling svalt sig í hel, að því er dönsk blöð segja, en Cavling er nýlátinn á Ítalíu, sextugur að aldri. Rétt fyrir andlátið kom út sextugasta bók hans.

Maður gekk undir manns hönd til að fá Cavling til að neyta matar, en síðustu tvo mánuði ævi sinnar lét hann ekki matarbita inn fyrir varir sínar. Vinir Cavlings komu til Genúa frá Danmörku til að dekstra hann en allt kom fyrir ekki. Cavling léttist um fimmtán kíló á mjög skömmum tíma, og fór heilsufari hans hrakandi dag frá degi unz hjartað gafst upp.

Margir hafa furðað sig á því hversu afkastamikill Cavling var, því að hann þótti drykkfelldur. Síðustu árin hafði hann þó farið vægar í sakirnar en áður og fékk sér aðeins duglega neðan í því þegar hann hafði skilað af sér handriti að nýrri bók.

Cavling var vellauðugur, enda voru margar bækur hans metsölubækur. Hann vakti athygli hvar sem hann fór fyrir glæsibrag og óaðfinnanlegan klæðaburð. Hann ók í Rolls Royce, sveiflaði í kringum sig silfurslegnum göngustaf, og hélt sig ríkmannlega í hvívetna og var annálaður fyrir örlæti.

Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1952. Það var „Erfinginn“, og sú saga gerðist eins og aðrar sögur höfundar í umhverfi, þar sem allir eru ríkir og fallegir. Þrátt fyrir það eru vegir ástarinnar framan af þyrnum stráðir, en að lokum fellur allt í ljúfa löð.“

Mbl, 7. nóv. 1978

Illa skiljandi

Screen Shot 2019-05-01 at 09.36.13

Slegið á þráðinn til Flosa Ólafssonar í Nýja Tímanum, 20. maí 1984:

„Hitt er annað mál að mönnum gengur misvel að skilja þennan kveðskap. Hún Oddný Guðmundsdóttir sem stundum skrifaði í gamla Tímann hneykslaðist t.d. mikið á því að verið væri að birta eftir mig þetta djöfuls leirhnoð. Þá orti ég þessa vísu:

Oddný þú ert orðin full

illa skiljandi.

Alltaf þegar ég yrki bull

er það viljandi.

Ókei, bæ!

56480279_562870900868973_8695394885433294848_n

„Ég er vön að byrja móðurmálskennslu á því að venja börnin af að japla endalaust ókey og kveðja með by-by. (Hvortveggja stafsett eftir framburði ókei og bæbæ). Ég segi þeim að þetta sé sóðalegur munnsöfnuður. Sýni þeim svo á töflunni, hvernig sú fagra kveðja „Guð blessi þig“ er smám saman orðin að stuttu, hvellu bofsi á slangurmáli stórþjóðar, sem alltaf hefur skort þá alþýðumenningu, sem á Íslandi lifði af öll hallæri. Guð blessi þig varð á ensku God bless you og að lokum by by. „Þróunin“ bendir til, að nýja bókmálið okkar verði mjög blandað hljóðritaðri ensku – sem enginn enskumælandi maður skilur á prenti“ (55).

Oddný Guðmundsdóttir. Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur , 1976