HÆGLÆTISSUMARIÐ 2025

Sumarið 2025 var um margt óvenjulegt hjá mér. Einkum vegna þess að við kærustuparið vorum einstaklega heimakær þessar sex sumarfrísvikur og fórum aðeins í eina útilegu allt sumarið en það hefur aldrei áður gerst. En það var hjólað og hjólað, amk annan hvern dag hér í nærumhverfinu. Nú er Brynjar orðinn sérlega áhugasamur um hjólreiðar og ég fékk mér nýtt (notað) hjól, svartan racer-fák sem vegur aðeins 6.4 kg og er ansi viljugur! Annað sem verður lengi í minnum haft varðandi þetta sumar er að viðburði sem átti að vera einn af helstu hápunktum sumarsins var aflýst!

Lífinu var tekið með ró, ég hitti vinkonur og systur, naut þess að elda og baka, fór með föt í hreinsun og viðgerð, svamlaði í heita pottinun, þvoði ullarpeysur sem er amk 2ja daga ferli, skrifaði eina grein á Literary Encyclopedia (en er ekki enn byrjuð á greininni fyrir Són sem á að skila í ágúst…), tók til í fataskápum, lagaði ýmislegt sem var í skralli á þessu bloggi, sinnti erindum og tölvupóstum, fór á tónleika með Ásgeiri Trausta (takk Gestur) og náði að sjá Hr Hnetusmjöri bregða fyrir í Tjaldinu #hjartahafnarfjarðar, las haug af bókum, hlustaði á rás eitt og horfði á hverja þvæluna á fætur annarri á Netflix. Oftast var rigning en hlýtt og inn á milli komu dásamlegir sólardagar þar sem við borðuðum úti – á svölunum sem mér finnst alltaf yndislegt.

Hjá mér hófst sumarið með kórferðalagi til Ítalíu í byrjun júní. Við Gunna systir hófum að syngja með Árkórnum sl haust af miklum móð, ég í alt og hún í sópran. Seinna um haustið bættist Ólína skólasystir mín í altinn og syngur eins og engill. Æfingar eru öll miðvikudagskvöld í Áskirkju og Hildigunnur frænka stýrir kórnum af alkunnri fagmennsku sinni, alúð, húmor og hlýju. Við lögðum af stað að morgni 8. júní og flugum til Mílanó. Þaðan fórum við með rútu til Marina di Pietrasanta sem er eiginlega þorp… og þar var frábært hótel: Hotel villa Tiziana, sem er heimilislegt og notalegt. Við Gunna vorum herbergisfélagar og hófum hvern morgun á að opna gluggahlerana út í hótelgarðinn. Skipulagið var þannig að á hverjum morgni hittumst við öll í garðinum og fengum morgunverð í skugga trjánna. Kvöldverður var alltaf í matsal hótelsins og þegar keypt var léttvínsflaska var hún merkt og geymd til næsta dags ef ekki kláraðist úr henni.

Næsta dag var farið með rútu til Pisa og gengið þar um með leiðsögumanni í steikjandi hita og svo til borgarinnar Lucca þar sem eru margar áhugaverðar búðir! Óttar Guðmundsson og Jóhanna Þórhalls fóru á kostum í míkrafóni rútunnar, þau lögðu línurnar um pikköpplínur á ítölsku, sögðu sögur af Sigurði Breiðfjörð og fóru með valda kafla úr Íslenskri fyndni o.fl. Á degi tvö var báts- og lestarferð, til þorpanna La Spezia, Monterosso, Vernassa og Levanto sem öll tilheyra Cinque Terre en við þurftum ekkert að þramma þá leið, heldur skoðuðum þetta bara frá sjó og brugðum okkur örstutt í land. Við héldum tónleika um kvöldið með stúlknakór Reykjavíkur í dómkirkjunni í Marina de Massa sem var algjörlega frábær upplifun. Öndvegis hljómburður, dásamlegt umhverfi og ólgandi kraftur í öllum þessum röddum! Ekkert rosa margir áheyrendur en við í kórnum skemmtum okkur allavega vel og Hildigunnur var ánægð með frammistöðu okkar. Á eftir var partí á hótel Lido. Við áttum síðan frjálsan dag og við Gunna leigðum okkur hjól og þvældumst og villtumst um svæðið, vatnslausar og sólbrenndar í yfir 30 stiga hita. En komumst loks heim fyrir ráðsnilli Gunnu. Skruppum svo á ströndina í Marina di Pietrasanta en þar ræður víst mafían (Hjaltarnir) ríkjum og rukkar grimmt en á móti kemur að ströndin er einstaklega snyrtileg og allt í röð og reglu. Um kvöldið nenntum við ekki að fara í mötuneytið og fórum þrjár saman á flottan veitingastað með geggjuðu útsýni og skrautlegum drykkjum og áttum dásamlegt kvöld. Farðin endaði svo í Genúu á 4ra stjörnu hóteli, Best Western Plus City, og þar fór nú aldeilis vel um okkur systur. Við skelltum okkur í óperuna sem var í næsta húsi og sáum Töfraflautuna í frekar skondinni uppfærslu, við Ólína drógum ýsur undir ljúfri tónlistinni. Síðasta daginn var skoðunarferð um borgina og svo gauf og rölt og spritz-þamb í hitanum. Í borginni fæddust mikilmenni eins og Kólumbus og Paganini en mér til furðu var styttan af fiðlusnillingnum afhjúpuð árið 2021 en nýlendukúgarinn Kólumbus hefur staðið þarna steyptur í eir um árabil. Síðasta kvöldmáltíðin var á kirkjutorginu undir berum himni og var yndisleg! Við höfum nú lært nöfn allra í kórnum og er farið að þykja afar vænt um kórfélagana en elskum auðvitað kórstjórann allra mest.

Í lok júní brá ég mér til Akureyrar á jarðarför skólabróður úr Barnaskóla Akureyrar frá því fyrir um 50 árum, Þorsteins Magnússonar, Steina Magg. Í skólanum voru krakkar af Brekkunni og víðar og við bundust þar mörg vináttuböndum sem enn halda. Þessi hópur hittist nokkuð reglulega með ca 5 ára millibili og hefur Tumma séð til þess að Steini fengi upplýsingar um það, því hann var ekki á facebook sem hann fyrirleit. Hann var einfari og batt bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir, etv var hann asberger eða einhverfur og fleira sem ekki var greint forðum daga. Alltaf mætti hann á hittingana, fínn og strokinn, og hafði gaman af að spjalla við skólasystkinin og okkur þótti vænt um hann. Hann sat yfirleitt aftast í skólastofunni í Barnaskólanum og þeir voru sessunautar, Þorsteinn Hjaltason og Þorsteinn Magnússon, og nafni hans sá til þess að Steini fengi að vera í friði fyrir hrekkjusvínum en hann var auðvelt fórnarlamb. Eins var Biggi honum einstaklega góður vinur. Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá Steina en hann spilaði eins vel úr sínum spilum og hann mögulega gat, sinnti sinni vinnu og áhugamálum, átti íbúð og var sjálfstæður. Hans verður saknað á næsta bekkjarhittingi. Ekki einn einasti sálmur var sunginn við útför Steina heldur mörg falleg lög sem hann hélt upp á og útgöngumarsinn var You never walk alone. Við Helga og Tumma áttum skemmtilega stund á BackPackers. Ég gisti eina nótt hjá Gyðu minni og Einari, flaug svo heim aftur, sátt við guð og menn.

Svo var stórkostlegt brúðkaup í fjölskyldunni í sumar. Þau Breki Páls og Stefanía giftu sig og umgjörðin öll var einkar glæsileg og allt gert til að gleðja gestina (Arna Páls skipulagði!). Mikið fjör og frábært að hitta skemmtilegt fólk og djamma með systrum mínum og frænkum, frábærar veitingar og flottir tónlistarmenn litu inn, Frikki Dór og PBT. Við Brynjar fengum okkur snúning á dansgólfinu en það var orðið ansi langt síðan síðast… Ungu hjónin eru svo falleg og glöð, bjartsýn og ástfangin; ég óska þeim alls hins besta ávallt. Stefaníu þekki ég lítið ennþá en Breki er draumaprins!

Þann 10. júní varð Inga mín þrítug. Þessi fagra og gáfaða, fyndna, góðhjartaða og vel heppnaða stúlka. Ég hef oft sagt að dagurinn sem hún fæddist hafi verið mesti hamingjudagur lífs míns. Hún var svo velkomin í heiminn, stóri bróðir hennar átta ára yndislegur og skemmtilegur drengur, foreldrarnir voru ástfangnir upp fyrir haus og framtíðin svo björt!

Við Brynjar hjóluðum óvenju mikið í sumar. M.a. fórum við á Þingvöll og víðar. Það er gaman að hjóla með honum, hann ýtir mér áfram til að fara lengra og víðar. Það var hann sem kom auga á notað hjól til sölu á fb og sannfærði mig um að ég þyrfti nauðsynlega að hafa carbon-stell, rafmagnsgíra og diskabremsur. Hann er mikill dellukarl og undanfarið eru hjólreiðar dellan hans. Hann er farinn að æfa með hjóladeild Víkings þar sem mikill keppnisandi ríkir og km eru taldir vandlega – undir 100 telst varla nokkuð afrek. Svo er horft á myndbönd á youtube, þar sem aðrir eru að hjóla eða gera við eða sýna græjur og nýjar hjólaleiðir og svo auðvitað Tour de France… Ég hef ekki fylgst með keppninni fyrr en 2024 og vonaði að Jonas Vingegaard (f. 1996) yrði sigurvegari enda af mikilli hjólaþjóð en hann varð að sætta sig við annað sætið sem er nú býsna gott miðað við að vera að jafna sig á viðbeinsbroti. Pogacar (f. 1998) frá Slóveníu sigraði í fjórða sinn, stórkostlegur hjólari. Hans lið, UEA Emirates, er afar fjársterkur sponsor. Verðlaun fyrir fyrsta sæti eru rúmar 70 milljónir og svo streyma aðrar sporslur inn, t.d. er hver cm á fötum og hjálmi keppenda þakinn auglýsingum. Því það sama gildir í hjólreiðum og öðrum íþróttum nú til dags, allt snýst þetta um peninga.

Í marga mánuði höfðum við Gunna og Halli hlakkað til að fara á ELO-tónleika í Manchester með Heiðrúnu og Sollu. Við keyptum miða í október í fyrra og flug frá miðvikudegi til sunnudags, fjörið átti að vera á fimmtudagskvöldinu. Tónleikadagurinn rann upp bjartur og fagur – hitinn þessa daga sem við vorum í MCH var alltaf um 30 gráður og ekki datt dropi úr lofti sem er sögulegt í borginni – og við vorum mætt tímanlega í CoOp höllina, búin að kaupa okkur ELO-boli og ég var komin með romm og kók í plastglas að bíða eftir að langþráð fjörið hæfist. Mér fannst um stund ég væri í himnaríki. En þá kom reiðarslagið: Jeff var veikur og tónleikunum aflýst! Vá hvað þetta var óvænt og óraunverulegt – þótt hann sé ekkert unglamb, 77 ára… Við urðum að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, reyndum að halda okkar eigin tónleika úti á túni með bjór og flögur úr Tesco en svekkelsið sat í okkur. Við dunduðum síðan í borginni sem er þekkt fyrir iðnað og auðvitað fótbolta, fórum í búðir (keypti mér sumarkápu og skóreimar) og gerðum vel við okkur á pöbbum og veitingahúsum, hoppuðum á sightseeing-bus, skoðuðum fótboltasafnið, heimsóttum styttu af Alan Touring, hommahverfið var ein gata og Kínahverfið hálf gata. En félagsskapurinn með frænkum mínum var frábær og mikið hlegið.

Þegar ég kom heim frá MCH var dóttir Brynjars komin til að vera hjá okkur um hríð með hundinn sinn Ketil. Það breytti plönum fyrir restina af sumrinu en gott var að geta hjálpað eitthvað aðeins til. Við fórum loksins í eina útilegu, til Vestmannaeyja en planið var að hjóla þar hring um Heimaey. Vorum rétt búin að tjalda Hilleberg og troða okkur í níðþröng hjólafötin þegar byrjaði að rigna og það stytti ekki upp fyrr en um hádegi næsta dag! Við skiptum um gír og dress og fórum út að borða um kvöldið á Gott sem var mjög gott. Daginn eftir hjóluðum við svo Eyjahringinn á malbiki í súld og úða, hann mældist nú ekki nema 20 km.

Svona er staðan 28. júlí þegar vika er eftir af sumarfríinu. Spáin ekkert sérlega góð fyrir versló en það verður hjólað eitthvað og dyttað að húsinu. Afmæli Ólínu, Gestrisinn, gönguferð í Kerlingarfjöllum, nýtt upphaf í ræktinni, samvera með fjölskyldu og systrum mínum omfl er enn framundan áður en haustið skellur á. Ég hlakka til að byrja að vinna aftur og koma sem mestu í verk í skólanum mínum áður en rekið verður smiðshögg á þetta hæglætissumar með hjólaferð til Ítalíu.

5 athugasemdir

  1. Dásamlega skrif, svo hnittin og fyndin elsku systir og ég heppin að vera hluti af þessu dásamlega en hæglætis sumri með þér ❤

Færðu inn athugasemd